KIARTAN OTTOSSON Illgresi í akri Noreens: Varðveisla þ-endingar í 3. persónu eintölu 1. Þeir sem eitthvað fást við rannsóknir á íslensku fornmáli komast ekki hjá því að hafa nokkur kynni af þeirri bók, sem kölluð hefur verið Noreensbók. í meira en hálfa öld hefur bók Adolfs Noreen, Altnordi- sche Grammatik I. Altisldndische und altnorwegische Grammatik, eins og hann gekk síðast frá henni, verið aðalhandbók um hljóðfræði og beygingafræði íslensks fornmáls. Þessi bók Noreens kom fyrst út árið 1884, en síðan þrisvar aftur, árið 1892, 1903 og 1923. Enda þótt efnis- þættir bókarinnar væru alltaf þeir sömu, var hver ný útgáfa öll endur- skoðuð af höfundi og aukin til samræmis við það sem skrifað hafði verið frá síðustu útgáfu. Fjórða og síðasta útgáfan, sú sem út kom árið 1923, var 466 bls., en frumútgáfan var aðeins 212 síður. Einmitt vegna þess, hve Noreensbók er ómissandi hjálpargagn við rannsóknir á íslensku fornmáli, er mikilvægt að notendur bókarinnar geri sér grein fyrir göllum hennar. Nútímalesandi hlýtur að hafa í huga, að Adolf Noreen var af kynslóð „ungmálfræðinganna" (Junggramma- tiker). Bókin er því mótuð af allt öðrum viðhorfum til málfræði en nú tíðkast, og alls ósnortin af strúktúralisma (formgerðarstefnu). Gott er einnig að muna, að Noreen var fyrst og fremst sænskufræðingur og hafði hin fornu vesturnorrænu mál meira sem aukagetu. Aðrir gallar bókarinnar koma þá fyrst í ljós, þegar farið er að nota bókina sem heimild. Þá verður t. d. bert, að heldur mikið er um það, að Noreen taki gagnrýnislaust upp það sem aðrir hafa skrifað um einstök atriði. í þessu greinarkorni verður litið á eina kenningu, sem kemur fram hjá Noreen og þar sem dregnar eru víðtækar ályktanir af litlu efni. Þessi kenning, enda þótt byggð sé á sandi, hefur stungið upp kollinum, eða a. m. k. angar hennar, í handbókum fram undir þetta. Vonandi geta þeir, sem nota þurfa Noreensbók, nokkuð lært af þessu dæmi um það, hvernig skynsamlegast er að nota bókina.