Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.11.2007, Blaðsíða 12

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.11.2007, Blaðsíða 12
Fréttabréf Ættfræðifélagsins í nóvember 2007 Menningarlegur stórhugur í Rangárvallasýslu Holtamannabók Holtahreppur - mikið eljuverk Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún fjallar hér um Holtamannabók Holtahrepp sem kom út á síðastliðnu ári. Hann dáist að hinum einstaka menningarlega stórhug sveitastjórna í utanverðri Rangárvallasýslu sem hafa verið með fræðimenn á launum í fjölda ára við að taka ritið saman. Holtamannabók Holtahreppur. 710 bls. Höfundar: Ragnar Böðvarsson, Valgeir Sigurðsson og Þorgils Jónasson. Útg: Rangárþing ytra 2006. Hér er um að ræða mikið héraðs- og fræðirit, þar sem fjallað er um allar jarðir í Holtahreppi í Rangárvallasýslu. Rakin er eigendasaga jarðanna og lýst er landamerkjum. Nefndir eru allir þeir ábúendur, allra jarðanna, sem vitað er um allt frá landnámsöld (um árið 900) og til okkar tíma (2006). í ritinu er hver einstakur bóndi á þann veg meðhöndlaður að nafngreindur er maki hans, foreldrar þeirra beggja og afar og ömmur, þá eru bömin upptalin ásamt þeim tengdabörnum sem ekki er annars staðar getið í bókinni. Fæðingar- og dánardagar eru tilgreindir. Þá er nokkur lýsing gefin á húsbændum og er hún oftast tekin upp úr prentuðum minningargreinum dagblaðanna eða gömlum líkræðum prestanna. Myndir eru af öllum húsbændum sem fengnar urðu, ennfremur tvær myndir af hverju býli; önnur gömul en hin frá síðustu árum. Þá er það athyglisvert við þessa bók, að á sama hátt er fjallað um alla húsbændur allra húsanna í þéttbýliskjörnunum þrem- ur, þ.e. Laugalandi, Lyngási og á Rauðalæk. Þá er ýmiss annar fróðleikur í bókinni, eins og mannfjöldaskrár einstakra bæja, þær elstu frá 1703 og sú yngsta frá 1990, ennfremur er þar hrepps- nefndarmannatal. Nokkrar myndir eru táknandi fyrir mannlíf fyrri tíðar m.a. frá réttum í Réttarnesi. Ennfremur er þar kafli um Kambsrétt. Aftast er skrá yfir öll mannanöfn sem koma fyrir í bókinni, þar sem vísað er til blaðsíðna og auðveldar sú nafnaskrá mönnum að nota bókina til ættrakninga. Tvennt vekur sérstaka athygli varðandi bók þessa: 1) Önnur hliðstæð rit rekja ábúendasöguna oftast ekki lengra aftur en til manntalsins 1703 en sem fyrr segir rekur bókin þetta frá landnámsöld. 2) Sveitarstjórnirnar í utanverðri Rangárvallasýslu hafa sýnt þann einstaka menningarlega stórhug að vera með fræðimenn á launum í fjölda ára við að taka ritið saman. Er þar „sleginn annar taktur“ en hjá fráfarandi borgarstjómarmeirihluta Reykjavíkur sem styrkti Ættfræðifélagið um einungis krónur 50 þúsundir (segi og skrifa krónur fimmtíu þúsundir) vegna hinnar kostnaðarfreku útgáfu á manntali Reykjavíkur fyrir árið 1910. (Þessi orð mín fela ekki í sér neinn dóm um önnur störf pólitískra fylkinga þar í borg). Það dylst varla nokkrum manni að aðalhöfundur ritsins, Ragnar Böðvarsson, hefur hér unnið mik- ið eljuverk. I svo viðamiklu riti sem þessu hljóta að finnast einhverjar villur/glompur. Slíkt er óhjákvæmilegt. Kaflarnir urn þróunarsögu Lauga- landsskóla eru mjög fróðlegir. Hins vegar get ég ekki stillt mig um að leiðrétta þar fáein ártöl úr „kennaratal“ og „íbúaskrá“ yfir Laugaland: Stefán Ásgrímsson var hættur kennslu 1972-73 (en nafni hans Böðvarsson kenndi þennan eina vetur og er hans að engu getið). Sama villa er í íbúaskránni á bls. 499. Sagt er að Helga Geirsdóttir hafi verið matráðskona til 1973; það er ekki rétt því hún hætti ári fyrr. Ennfremur segir að Eyrún Óskarsdóttir hafi verið ráðskona frá 1973 en hún tók við því starfi ári fyrr. Á bls. 494 segir að Helgi Jensson hafi kennt á Laugalandi til vors 1973 en hann hætti ári fyrr. Þá er undirritaðs (G.G.) ekki getið í íbúaskránni, bjó hann þó þar í 8 ár, lengst af í skólastjóraíbúðinni. Hans er hins vegar réttilega getið í skólastjóratalinu. Allt er þetta smávægilegt. Þótt það sé allt annar „hand- leggur,“ þá stend ég í þeirri meiningu að forfaðir minn, sr Sigurður í Guttormshaga, hafi innritast í Bessastaðaskóla 1806 en ekki 1805 eins og bókin tekur upp eftir Islenskum æviskrám. Bók þessi er eigulegur fróðleiksgripur. Hún fæst a.m.k. í Bókabúð Bjama Harðarsonar á Selfossi og á skrifstofunni hjá Rangárþingi ytra, Suðurlandsvegi 1 á Hellu, en síminn þar er 487-5834. Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún. Fréttabréf Ættfræðifélagsins kemur út tvisvar á vormisseri og tvisvar á haustmisseri. Miðað er við textaskil 1. janúar, 1. mars, 1. september og 1. nóvember. Af óviðráðanlegum orsökum kom ekkert Fréttabréf út í október. http://www.ætt.is 12 aett@aett.is

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.