Prentarinn - 01.11.2006, Blaðsíða 17

Prentarinn - 01.11.2006, Blaðsíða 17
Fjörið í prentsmiðjunni Mamma vann í setningunni. Ég skildi það ekki alveg þá, sá fyrir mér að niðri í prentsmiðju væri einhver sérstaklega snúin setning - í merkingunni málsgrein - sem mamma þyrfti látlaust að vinna í, lagfæra og umorða. Því starfið tengdist prentsmiðjunni, svo mikið vissi ég. Það var ekki fyrr en ég heimsótti mömmu í þessa tímabundnu hliðarvinnu hennar að ég áttaði mig. Mamma sat bakvið bólstrað þil við fremur frumstæða tölvu (grænir stafir á svörtum skjá) og sló inn handrit. Og hún hamraði á svo ævintýra- legum hraða að mér þótti dáleið- andi gaman að fylgjast með. Svo fékk ég líka að kíkja í óútgefnar bækur og það var ekki síður spennandi. Ein bókin fjallaði um strák sem hét Starkaður og lenti í furðum sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér uppá eigin spýtur. Þegar bókin kom í verslanir fannst mér eiginlega að mamma hefði skrifað hana. Langamma vann við brotvélina og umgekkst skurðarhnífinn af öryggi og raðaði saman og gerði margt fleira. Hún var rösk og stafl- aði upp heilu og hálfu stæðunum af nótnablokkum og æviskrám og tímaritum og af því hún var svo einbeitt þorði ég eiginlega aldrei að koma nálægt. Ég hitti hana bara inni á kaffistofu. Hún hitaði einmitt líka kaffið. Mér fannst hún satt að segja bera alla prent- smiðjuna uppi, sem hún sjálfsagt gerði, því hún vann þar þangað til hún var 84 ára, og það lék enginn eftir. Afi var framkvæmdastjóri. Hann þurfti þess vegna ekki að vera með eyrnahlífar eins og þeir sem unnu inni í salnum, en mér flaug stundum í hug hvort honum leiddist aldrei inni á skrifstofunni. Þvf þar sem mesti hávaðinn var í vélunum, þar var líka mesta fjörið. Systir mín vann í bókbandinu. Sat á háum stól nokkur sumur og bar lím á kiii, lagði grisjur yfir og fannst ótrúlega fyndið að blöðin fremst og aftast skyldu heita saur- blöð. Ég snuðraði í kring, sem fyrr, en var fyrir aldurs sakir ekki treyst til þátttöku. Innst inni var ég hálffegin, því ég gerði mér grein fyrir því að það væri vanda- samt verk að búa til bækur. Fullorðinsverk. Seinna hóf ég aftur á móti störf í bókabúðinni (á þessum tíma var bara eitt af öllu í bænum mínum: bókabúðin, prentsmiðjan, hring- torgið, íþróttahúsið, sundlaug- in...) og þá tókst mér stundum að selja fólki bækur sem prentaðar höfðu verið í Prentverki Akra- ness. Þannig lagði ég minn skerf til fjölskyldufyrirtækisins sem langafi minn hafði stofnað fyrir áratugum og mér þótti svo merki- legt að tilheyra. Kannski var fjöldaframleiðsla bóka í prentsmiðjunni mér slík opinberun sem raun bar vitni, ein- mitt af þeirri ástæðu að í bænum var bara eitt af öllu. í fjölskyld- unni var líka bara ein mamma, ein langamma, ein systir, einn pabbi o.s.frv. Að horfa upp á háa stafla af sömu bókinni í prent- smiðjunni var þess vegna í besta falli draumkennt, í versta falli óskiljanlegt. Hundruð eintaka, alveg nákvæmlega eins. Ég fékk þessa sömu tilfinningu þegar ég sá í fyrsta sinn nýprent- að upplag af eigin bók. Mér var boðið niður á lager Máls & menn- ingar/Forlagsins í Síðumúla að sækja mér eintök af fyrstu ljóða- bókinni minni og þá blöstu við staflar af hundruðum eintaka, alveg nákvæmlega eins. Með mínu nafni á kápunni. Það var ekki lengur bara eitt eintak til af bókinni í mínu höfði, í minni tölvu. Nú myndu orðin mín ferð- ast á eigin vegum í ókunnar bóka- búðir, um sundlaugar og hringtorg og ömmur allra annarra gætu lesið þau og systur og pabbar og fleira ókunnugt fólk. f besta falli draumur, í öilu falli ofar mínum skilningi. Prentsmiðjur eru sérstakir staðir og bókalagerar líka. Þar er lífið raðdraumur og möguleikarnir margfaldir. Og það hefur líka reynst hárrétt, hugboð mitt um að vandasamt sé að búa til bækur. Að semja þær stappar jafnvel á köflum nærri því að vera jafn vandasamt og að setja þær, prenta og binda inn. Ég skal ekki segja; kannski tók ég til við að skrifa bækur vegna aðdáunar minnar á prentsmiðjum, kannski vildi ég stuðla að því að þær hefðu eitthvað að gera. Og þó, vonandi spilaði fleira inn í og saman við, svo sem innri sköp- unarþörf og erindi. Annars hefði ég - með sömu rökum - gerst fjárglæfrakona af því að pabbi minn vinnur í banka. Sigurbjörg Þrastardóttir, rithöfundur PRENTARINN ■ 17

x

Prentarinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Prentarinn
https://timarit.is/publication/952

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.