Morgunblaðið - 20.11.2012, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 20.11.2012, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 20. NÓVEMBER 2012 ✝ Guðrún AnnaKristinsdóttir fæddist á Akureyri 23. nóvember 1930. Hún lést á Hjúkr- unarheimilinu Lög- mannshlíð 10. nóv- ember 2012. Foreldrar henn- ar voru Kristinn Þorsteinsson, f. 6. október 1904 í Ólafsfirði, d. 10. júní 1987, og Lovísa Pálsdóttir, f. 11. janúar 1907 á Staðarhóli, Akureyri, d. 18. júní 2002. Systkini Guðrúnar eru: Gunn- laugur Páll, f. 7. ágúst 1929, d. 10. mars 2006, og Margrét Halldóra, f. 16. maí 1942. Guðrún hóf píanónám sitt hjá móður sinni fimm eða sex ára gömul en reglulegt nám hóf hún tíu ára gömul hjá Jórunni Norðmann á Akureyri. Síðan fór hún í Tónlistarskólann í Reykjavík og var nemandi Árna Kristjánssonar í tvo vet- í Álaborg. Veturinn 1962 var hún í London þar sem hún var í undirleikaranámi. Á dval- arárum sínum í Reykjavík kenndi Guðrún við Tónlistar- skólana í Reykjavík og Kópa- vogi og loks við Söngskólann í Reykjavík. Hún var píanóleik- ari Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil og sinnti einnig slíku starfi hjá RÚV en þar spilaði hún bæði með öðru tónlist- arfólki og lék undir hjá ein- söngvurum. Guðrún starfaði sem undirleikari með mörgum einsöngvurum, hljóðfæraleik- urum, kammersveitum og kór- um, bæði blönduðum og karla- kórum, lengst af með Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Páls P. Pálssonar. Hún var undir- leikari Sigurðar Björnssonar óperusöngvara til fjölda ára og einnig Guðrúnar Á. Símonar óperusöngkonu. Guðrún flutti til Akureyrar árið 1987 og réðst þá til söngdeildar Tónlist- arskólans á Akureyri. Einnig var hún undirleikari karlakóra þar um tíma. Guðrún elskaði sinn heimabæ, Akureyri, og leið alla tíð vel þar. Útför Guðrúnar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. nóv- ember 2012, kl. 13.30. ur. Eftir það fór hún í Det kgl. Mus- ikkonservatorium í Kaupmannahöfn og var þar í fimm vetur og braut- skráðist þaðan með diplómagráðu. Jafnframt því námi fór hún í einkatíma til Haraldar Sig- urðssonar prófess- ors. Guðrún var ár- in 1955-1957 í Vínarborg í einkatímum hjá prófessor Bruno Seidlhofer. Á Íslandi lék hún tvisvar einleik með Sinfón- íuhljómsveit Íslands. Í mars 1958 lék hún píanókonsert nr. 5 eftir Beethoven (Keisarakons- ertinn) og síðara skiptið píanó- konsert í D-moll eftir Bach. Guðrún hélt tónleika víða um land og einnig víða í Dan- mörku. Árið 1960 lék hún með Tívolíhljómsveitinni í Kaup- mannahöfn og sama ár lék hún einleik með Sinfóníuhljómsveit Elsku Didda mín. Mig langar til að kveðja þig með nokkrum orðum. Þú varst mér alla tíð svo mikill styrkur í blíðu og stríðu og alltaf tilbúin að standa við hlið mér og halda í hönd mína þegar þannig stóð á. Þú fluttir til Ak- ureyrar þegar pabbi dó 1987 til að búa með mömmu, sem þá var orðin 80 ára, af því þér fannst hún ekki geta búið ein, en innst inni hafðir þú ekkert á móti því að flytja norður. Þú varst svo mikill Akureyringur í þér og elskaðir bæinn þinn og fjörðinn af öllu hjarta. Þú lást heldur ekki á liði þínu þegar þú fluttir í Víðilundinn eftir að mamma dó og bjóst þá í sama húsi og Gunnlaugur bróðir okkar sem var með sykursýki. Þú varst ávallt við hlið hans þegar hann þurfti þín við. Þú varst svo ótrúlega sterk, Didda mín, og kvartaðir aldrei þótt þú hefðir sjálf þurft að ganga í gegnum margar mjaðmaaðgerð- ir á ævinni – þá fyrstu átta ára gömul. Þér var alltaf umhugað um að fjölskyldan hefði ekki áhyggjur af þér. Eftir áfall þitt í febrúar 2011 var erfitt að halda uppi samræð- um við þig en undir niðri skildum við hvor aðra. Okkar daglegu símtöl fyrir þann tíma voru liðin undir lok en þú fagnaðir mér allt- af þegar ég kom til Akureyrar í heimsókn til þín og brostir út að eyrum. Elsku Didda mín – ég veit að þú varst orðin þreytt á lífinu og þráðir hvíld og ég efast ekki um að þér líður betur í dag. Vertu ávallt Guði falin og þakka þér fyr- ir allt sem þú varst mér og fjöl- skyldu minni. Þín systir Margrét. Elsku Didda mín. Mikið verð- ur skrítið og tómlegt að fara ekki lengur í heimsókn til þín. Þetta hefur verið ánægjulegur fastur þáttur í lífi mínu undanfarin ár, sérstaklega eftir að pabbi féll frá og enn frekar eftir að þú fékkst áfallið í febrúar 2011. Það rændi þig talmættinum og einangraði þig frá umheiminum en greindin þín var þarna og við reyndum að skilja hvor aðra. Það tókst ekki alltaf en lundin þín var létt og oft hlóstu bara að vandræðum okkar. Í vor las ég línur sem afi skrif- aði þegar þú varst átta ára og þau amma höfðu fengið að vita að þú gætir komið til Kaupmannahafn- ar í aðgerð vegna fæðingargalla í mjöðmum. Hvílík gleði. Þau sigldu með þig þangað og dvöldu þar með þér um tíma en urðu síð- an að skilja þig eftir í nokkra mánuði. Þegar ég las þetta hugs- aði ég, hvernig leið ykkur öllum? Þeim að skilja þig eftir og þér aleinni í útlöndum svona ungri? Öll samskipti með bréfum sem voru lengi á leiðinni, ekkert skype. Og gleðin þegar fréttist að Didda væri að koma heim með Gullfossi. Þú áttir eftir að fara í fleiri aðgerðir á lífsleiðinni og varst oft sárkvalin en alltaf hörkudugleg. Aldrei heyrði mað- ur þig kvarta. Það eru margar minningar sem sækja að þessa dagana, þeg- ar ég sem krakki fékk að koma og vera nokkra daga hjá þér í Reykjavík, spennuþrungið and- rúmsloftið hjá afa og ömmu þeg- ar þú áttir að leika einleik á píanó með hljómsveit í Akureyrar- kirkju, þú að spila „Þú sæla heimsins svalalind“ á píanóið og afi á orgelið í stofunni á Hamars- tígnum og fleiri lög fylgdu í kjöl- farið, heimsóknir í bústaðinn í Ósbrekku, heimsóknir til ykkar ömmu þegar þið bjugguð saman í Akurgerðinu og loks til þín í Víði- lundinn. Og þegar við fórum að hnoða saman vísum um innihald jólapakkanna, þar komstu með mörg gullkornin. Áhugi þinn á leikjum landsliðsins í handbolta, ef manni varð á að hringja til þín þegar verið var að sýna beint frá leik í sjónvarpinu fannst það greinilega að athyglin var ekki við símtalið heldur leikinn og þeim mun meiri spenna sem fylgdi honum því betra. Og þakk- látari matargest fékk maður ekki, allt fannst þér gott. Við fór- um nokkrum sinnum á kaffihús, nú síðast í sumar og fengum okk- ur alltaf bakkelsi með sem mest- um rjóma eða kremi enda báðar miklir sælkerar. Þú reyndist einnig pabba ómetanlega vel. Hann hafði sína sykursýki og þau voru mörg skiptin sem þú komst honum til aðstoðar á hættustundum. Við vorum oft búin að upplifa skipti þar sem æðri máttarvöld hljóta að hafa lagt hönd á plóginn svo honum mætti takast að kalla á að- stoð, eða þú hreinlega finna á þér að nú ættirðu að huga að bróður þínum. Fyrir þetta hef ég þakkað þér áður en geri einnig hér. Elsku Didda mín, ég mun sakna þín sárt en veit að þú varst orðin þreytt á þessu jarðlífi undir lokin. Þú varst svo einangruð í þínum heimi og undir það síðasta fannstu mikið til eftir að hafa dottið. Ég er þess fullviss að þú kvaddir sátt og margir tóku á móti þér hinum megin. Þakka þér allt gott og ómet- anlegt sem þú varst mér og mín- um. Þín Ásdís Annika. Það er erfitt að koma orðum að því hvað hún Didda mín var mér mikils virði, en það sem næst því kemst er að hún var eins og mín önnur móðir. Allt frá fæðingu var hún til staðar og partur af lífi mínu og okkar fjölskyldunnar. Þær mamma voru einstaklega nánar, sem kannski gerði það svo eðlilegt fyrir mér. Mínar fyrstu minningar, af svo ótal mörgum, eru frá Freyjugöt- unni. Úr stóra eldhúsinu þar sem maður gat horft á fætur fólks ganga framhjá eldhúsgluggan- um, af stóra svarta flyglinum sem ekki mátti fikta í af því það var vinnan hennar, af „lifandi“ ávaxtasalatinu hennar, sem fór oft úr Freyjugötunni upp í Safa- mýri, því það þótti ómissandi með ísnum yfir sjónvarpinu. Einnig eru ótal margar minn- ingarnar af Diddu á Akureyri hjá afa og ömmu í Hamarstíg 22 í spilamennsku og söng og tónlist. Aldrei þreyttist ég á því að horfa og hlusta á hana spila á flygilinn og var hún ástæða þess að ég tók píanónám fram yfir ballett aðeins sjö ára. Þolinmæði hennar var ótrúleg er hún kenndi mér að bera hendurnar á lyklaborðinu og bera virðingu fyrir hljóðfærinu og tónlistinni, að lifa mig inn í músíkina. Svo eru aðrar af löngum bíl- ferðum frá Reykjavík til Akur- eyrar og til baka. Þá var oft sung- ið hástöfum og þá sérstaklega man ég eftir ferð með henni, mömmu og Kristínu frænku þar sem við fjórrödduðum fullt af lög- um, alla leiðina norður, til að vera tilbúnar með tónleika fyrir afa og ömmu. Ekki gleymi ég gleði þeirra yfir þessum „tónleikum“ í Hamarstíg 12. Þó held ég að þær minningar sem standa upp úr séu frá sum- arbústaðnum í Ólafsfirði. Þar eyddum við systkinin sumrunum saman með fjölskyldunni og elsk- uðum þennan stað. Alltaf voru Didda og afi og amma á staðnum, þótt aðrir fjölskyldumeðlimir hafi komið og farið yfir sumarið. Það- an koma mínar allra bestu minn- ingar úr barnæsku. Didda kenndi mér að fara út á pall á náttkjóln- um á morgnana um leið og ég fór fram úr og draga að mér ferska loftið til að vakna. Þetta geri ég enn í dag í mínum eigin bústað á Íslandi. Svo ekki sé minnst á að fara í kalda „sturtu“ úr læknum allsber og svo í heita pottinn sem Didda fór í á hverjum einasta degi, ef ekki tvisvar, hvernig sem viðraði og yfirleitt elti ég. Og svo var spilað, púslað og sungið. Ég, mamma og Didda gátum vakað langt fram eftir nóttu að púsla. Já, ég var svo heppin að alast upp í ótrúlega samstæðri og ást- ríkri fjölskyldu og hlakkaði alltaf til að eyða sumrinu með þeim. En svo verður maður fullorð- inn, sjálfstæður og vill skoða heiminn. Þótt ég hafi flutt úr landi upp úr tvítugu fylgdi Didda mér alla tíð eftir, sendi endalaus bréf, hughreystingar og ráð. Sagði mér alltaf að fylgja mínu innsæi og treysta á sjálfa mig. Þótt Didda væri komin norður aftur seinna meir var alltaf það fyrsta sem ég gerði er ég kom til landsins að hringja í Diddu. Það var líka það síðasta sem ég gerði kvöldið áður en ég flaug aftur út. Elsku Didda mín, ég mun ávallt minnast þín með eintómri ást og hlýju og er einstaklega þakklát fyrir að þú skyldir vera partur af mínu lífi. Bryndís Eriksdóttir Philibert, sölustjóri Icelandair í Frakklandi. Guðrún A. Kristinsdóttir leik- ur á píanóið oft rétt fyrir fréttir, síðasta lagið fyrir fréttir á rás 1 í Ríkisútvarpinu með okkar bestu einsöngvurum. Þannig hefur þjóðin í áranna rás heyrt hennar látlausu rödd í tónlistinni á píanó- ið, hrífandi í söng með mörgum bestu einsöngvurum okkar. Þarna lifir rödd hennar á píanóið í hljóðritasafni þjóðarinnar og syngur vonandi áfram aftur og aftur á undan fréttum. Margir vita, sem fylgdust með ferli Guð- rúnar Önnu, hvílík hversdags- hetja hún var. Aðeins átta ára gömul fór hún í mjaðmaaðgerð til Kaupmannahafnar og þrátt fyrir þær skorður sem léleg mjöðm setti henni ætíð vann hún marga stóra sigra í leik á slaghörpuna. Ég sem strákhnokki níu ára gamall varð hrifinn ævilangt af bagatellu Beethovens sem hún lék sem aukalag á fyrstu tónleik- um sínum (debút) hér í Nýja Bíói á Akureyri árið 1955, þar sem hún hreif mig og aðra áheyrend- ur ákaflega mikið. Hún hafði þá lokið einleikarapófi frá Konung- lega tónlistarháskólanum í Kaup- mannahöfn, þar sem sá mikli ne- stor margra okkar bestu píanóleikara, Haraldur Á. Sig- urðsson, var hennar aðalkennari. Sjálfur naut ég ætíð hennar glöðu lundar og þeirrar þrotlausu kröfu í vandvirkni í píanóleik sem hún gerði til sín sjálfrar, og um leið til annarra. Þessari gleði og trúmennsku við tónlistina náði hún í ríkum mæli að miðla nem- endum sínum og öllu samstarfs- fólki, bæði í fæðingarbæ sínum Akureyri og áður í Reykjavík. Með virðingu og þökk fyrir margar glaðar stundir. F.h. samkennara hennar við Tónlistarskólann á Akureyri, Jón Hlöðver Áskelsson, fyrrverandi skólastjóri. Í rúma tvo áratugi voru þau Páll Pampichler Pálsson, stjórn- andi Karlakórs Reykjavíkur, og Guðrún A. Kristinsdóttir píanó- leikari andlit kórsins. Þegar Páll var ráðinn stjórnandi í ársbyrjun 1965 fékk hann Guðrúnu til liðs við sig sem píanóleikara og að- stoðarmann við raddæfingar. Þá hófst samstarf þeirra sem stóð til ársins 1987, þegar Guðrún flutti til síns gamla heimabæjar, Akur- eyrar, til að annast aldraða móð- ur sína. Skömmu síðar lét svo Páll af kórstjórn hjá Karlakór Reykjavíkur og flutti til fæðing- arbæjar síns Graz í Austurríki. Þar með lauk farsælum störfum þeirra fyrir Karlakór Reykjavík- ur. Þau störf verða seint full- þökkuð. Og nú hefur heiðurskonan Guðrún lokið lífsgöngunni. Ævi- kvöldsins naut hún í þeim fagra bæ Akureyri og var tónlistarlíf- inu þar drjúgur liðsmaður síð- ustu árin. Í minnisstæðri tón- leikaferð Karlakórs Reykjavíkur til Kína haustið 1979 steig þáver- andi formaður kórsins, Ástvaldur Magnússon, á pall og lýsti Guð- rúnu heiðursfélaga Karlakórs Reykjavíkur. Sú nafnbót var sannarlega verðskulduð, en undrunarsvipnum á Guðrúnu við það tækifæri gleymum við fé- lagarnir ekki. Hér verður ekki rakinn glæsi- legur ferill Guðrúnar sem píanó- leikara. Að vita hana við flygilinn veitti okkur kórfélögunum það öryggi sem með þurfti á fjöl- mörgum tónleikum kórsins hér heima og erlendis. En hún gerði miklu meira: Hún annaðist einnig raddþjálfun og æfingar kórsins að stórum hluta allan sinn starfs- tíma hjá Karlakór Reykjavíkur og var í reynd bæði listrænn ráð- gjafi og nánasti samstarfsmaður söngstjórans. Við sem nutum þeirra forrétt- inda að starfa með Guðrúnu A. Kristinsdóttur í liðlega tuttugu ár skipum nú flestir kór eldri fé- laga í Karlakór Reykjavíkur. Það er einstaklega bjart yfir minning- unni um samstarfið við Guðrúnu A. Kristinsdóttur. Blessuð sé minning hennar. Fyrir hönd eldri félaga í Karla- kór Reykjavíkur, Reynir Ingibjartsson. Guðrún Anna Kristinsdóttir píanóleikari var ekki aðeins einn besti meðleikari landsins heldur einnig söngvari og söngkennari, þó að hennar rödd hljómaði óbeint. Röddin hennar söng í gegnum slaghörpuna og inn í sál- ir söngvara. Hennar fag kallast ekki undirleikur heldur meðleik- ur. Það vita allir söngvarar að munurinn á að syngja með góðum píanista og slæmum er munurinn á að svífa í lofti eða falla eins og steinn til jarðar. Með Guðrúnu sem meðleikara fékkstu nefni- lega vængi. Ég heyrði mikið talað um Guð- rúnu á fyrstu árum mínum á Ak- ureyri og hitti hana af og til þegar hún kom norður, hvort sem um var að ræða heimsókn til fjöl- skyldunnar eða tónleikaferð. Þegar ég fór svo að kenna söng í Tónlistarskólanum á Akureyri kom hún norður til starfa við söngdeild skólans. Mikið vorum við heppin að njóta krafta henn- ar. Tímar hjá henni voru svo miklu, miklu meira en undirleik- ur. Einhvern veginn tókst henni að veita söngvurum tilsögn í gegnum píanóleikinn svo það jafnaðist á við bestu söngkennslu. En hér var ekki um undirgefni né hlédrægni að ræða, hvorki í leik né í tali. Hún gaf í botn, studdi við, dró áfram og slakaði þannig að söngvurum var nánast fjarstýrt. Svona söng hún, og var ein af okkar albestu söngvurum. Fyrir Guðrúnu var sönglistin heilög og hjálpi þeim sem sýndu henni ekki tilhlýðilega virðingu. Hún gaf ekkert eftir í kröfum um skýran texta og nákvæmni í tóni og takti. Og svo lét hún vita ef henni líkaði ekki túlkunin. Það var geysilegur fjöldi söngvara sem naut tilsagnar hennar og munu búa að því ævi- langt. Guðrún lifir áfram í þessari þekkingu frá kynslóð til kyn- slóða. Megi rödd hennar hljóma um ár og aldir í hugum okkar. Með þakklæti og virðingu. Fyrir hönd Tónlistarskólans á Akureyri, Michael Jón Clarke. Kynni okkar Guðrúnar hófust er ég hóf söngnám í Söngskólan- um í Reykjavík fyrir margt löngu. Guðrún var þar fyrir og spilaði með söngnemum. Það var gæfa mín að fá hana sem kennara en vinátta myndaðist þá með okk- ur sem varði alla tíð. Hinn aðal- kennari minn á þessum vettvangi var Garðar Cortes skólastjóri og þá óperustjóri. Mér var því ekki í kot vísað í Söngskólanum. Ekki síðri vinátta myndaðist með okk- ur Garðari. Þessir kennarar mín- ir voru býsna ólíkir. Garðar var frjáls í forminu og til í að fara í ævintýri með ýmislegt sem laut að söngtækni og túlkun en Guð- rún var afar stíf í forminu og í raun strangur kennari. Á meðan mér leyfðist ýmislegt hjá Garðari gat það síðar í vikunni verið kom- ið á bannlista hjá Guðrúnu sem kenndi mér m.a. ýmsa mannasiði í tónlist sem ég bý að enn þann dag í dag. Garðar kunni þá siði að sjálfsögðu alla en var til í að slaka á svona á stöku stað ef gott tilefni gafst til. Það umburðarlyndi var ekki til staðar hjá Guðrúnu. En þessi blanda var hreint út sagt dásamleg og það sem gerði námið þarna einstaklega skemmtilegt og spennandi. Ég hugsa til baka til þessara ára með eftirsjá. Við Guðrún áttum það til að lengja kennslustundirnar og þá var farið heim til hennar á Freyjugötuna þar sem hún bjó. Þar var hvorki vítt til veggja né hátt til lofts en þegar Guðrún settist við sinn stóra og glæsilega flygil þá breyttist þetta takmarkaða rými í tónleikahöll. Þarna réðumst við ekki á garðinn þar sem hann var lægstur. Við tókum fyrir heilu ljóðabálkana og gáfum ekkert eftir. Síðar þegar ég hafði lokið námi við Söngskólann lágu leiðir okkar oft saman við tónlistar- flutning og þá brá svo við að Guð- rún sagði við mig: „Þorgeir minn, nú syngur þú bara eins og þér sýnist.“ Mér þótti þetta rausnar- lega mælt og ekki laust við að mér þætti sem hún væri að bjóða mér stöðu við hlið sér sem jafn- ingja. Ég var þessu þakklátur en áttaði mig samt á því að jafningi Guðrúnar varð ég aldrei. Hún bar höfuð og herðar yfir mig og svo marga fleiri. Þegar Guðrún fluttist til Ak- ureyrar að kennslu lokinni í Reykjavík hóf hún kennslu á Ak- ureyri. Þegar ég fór norður yfir heiðar til að syngja sem gerðist býsna oft á tímabili var Guðrún oftar en ekki mætt á tónleika til að hlusta m.a. á sinn gamla nem- anda. Þá urðu fagnaðarfundir. Nú þegar leiðir okkar skilur vil ég þakka Guðrúnu vináttu henn- ar og fyrir allt það sem hún gaf mér og laut að söng og tónlist- artúlkun. Það reyndist mér gott veganesti. Ég votta þeim öllum samúð mína sem nú syrgja Guðrúnu A. Kristinsdóttur. Þorgeir J. Andrésson. Guðrún Anna Kristinsdóttir HJARTAVERND Minningarkort 535 1825 www.hjarta.is 5351800 ✝ Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð vegna fráfalls SIGFÚSAR JÓNSSONAR, fyrrverandi forstjóra Innkaupastofnunar Reykjavíkur. Sérstakar þakkir til starfsfólks Heima- hjúkrunar og Heimahlynningar. Bergljót Sigurðardóttir, Sigurður Sigfússon, Hrund Einarsdóttir, Kristján Sigfússon, Ragnhildur Sigurjónsdóttir, Sólveig Jónsdóttir, Kristján Jónsson, Finnur Hrafn Jónsson og fjölskyldur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.