Morgunblaðið - 16.04.2013, Page 38
38 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. APRÍL 2013
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
SAGA nefnist ný sýning brúðuleikhópsins
Wakka Wakka Productions sem frumsýnd var
8. mars sl. í New York. Í henni segir af ís-
lenskri fjölskyldu sem lendir í miklum hremm-
ingum í kjölfar efnahagshrunsins sem varð hér
á landi síðla árs 2008. Verkið var heims-
frumsýnt í Noregi 8. desember í fyrra og hélt
hópurinn síðan til New York og vann sýn-
inguna áfram, fram að frumsýningu þar í borg.
SAGA hefur nú verið sýnt sex sinnum í viku í
sex vikur í Baruch Performing Arts Center á
Manhattan við góðar undirtektir.
Leikkonan Andrea Ösp Karlsdóttir starfar
með brúðuleikhópnum og er eini Íslending-
urinn í honum en aðrir eru frá Bandaríkjunum,
Noregi og Írlandi. Andrea segir sýninguna
bráðfyndna með alvarlegum undirtóni og að
hún hafi vakið þónokkra athygli vestra, m.a.
verið fjallað um hana í New York Times og The
Village Voice. Fleiri Íslendingar hafa þó starf-
að með hópnum, m.a. hljóðmaðurinn Þórður
Gunnar Þorvaldsson og leikkonan Charlotte
Böving sem veitti hópnum aðstoð við gerð
verksins með því að taka viðtöl við Íslendinga
sem höfðu sögu að segja frá hruninu og lentu
illa í því.
SAGA fjallar um Gunnar Oddmundsson,
eiginkonu hans og son þeirra. Fjölskyldan opn-
ar ferðagistingu úti á landi með margs konar
þjónustu við ferðamenn og Gunnar tekur
fjölda lána til að koma rekstrinum í gang. Allt
fer hins vegar á versta veg eftir að Geir
Haarde biður Guð að blessa Ísland, að sögn
Andreu. Eiginkona Gunnars fær starf í Noregi
og flytur þangað með syni þeirra en Gunnar
neitar að gefast upp og heldur kyrru fyrir á Ís-
landi. „Sagan fer fram og aftur í tíma og sýnir
meðal annars kynni Gunnars og Helgu á
sveitaballi og bónorð Gunnars á fæðingardeild-
inni. Þegar Helga fer svo fram á skilnað í sím-
tali frá Noregi selur Gunnar það síðasta sem
hann á eftir, hestana sína og kaupir sér miða út
til að bjarga hjónabandinu, en þann dag gýs
Eyjafjallajökull,“ segir Andrea.
Löng vinna að baki
„Ég er búin að vinna með Wakka Wakka frá
því í júní á síðasta ári. Ég fór í prufu fyrir verk-
ið í New York í júní og svo endurkomuprufu
þegar þau komu til Íslands stuttu síðar,“ svar-
ar Andrea, spurð að því hvenær hún hafi byrj-
að að vinna með hópnum. Hún hafi byrjað á
rannsóknarvinnu fyrir SAGA hér á landi, lagst
yfir blaðagreinar í Þjóðarbókhlöðunni, valið úr
þeim og þýtt fyrir hópinn. „Í október fórum við
svo í átta vikna ferð til Stamsund í Noregi til að
þróa verkið. Þar vorum við sex saman í frá-
bærri aðstöðu í leikhúsi í pínulitlum bæ á eyju í
Norður-Noregi og unnum nánast allan sólar-
hringinn. Við komum svo til New York í byrjun
janúar og héldum áfram að vinna verkið sem
var svo frumsýnt í byrjun mars hérna úti.“
Andrea fer með öll kvenhlutverk verksins og
þá m.a. hlutverk eiginkonu Gunnars, Helgu.
„Það eru sex leikarar í sýningunni og við erum
öll á sviðinu meira og minna. Það eru oft tveir
til þrír leikarar á hverri brúðu þannig að ef ég
er ekki að leika hlutverkin sem ég lána radd-
irnar mínar þá er ég á fótunum á annarri brúðu
eða eitthvað slíkt. Svona leiksýning er mjög
mikil samvinna milli leikara og erum við öll
sveitt og sæl að henni lokinni,“ segir Andrea og
hlær. Leikararnir hafi allir tekið þátt í upp-
setningu sýningarinnar og rannsóknarvinn-
unni en höfundar verksins og leikstjórar séu
Gwendolyn Warnock og Kirjan Waage.
Víkingar og útrásarvíkingar
Andrea segir upphaflega hafa staðið til að
verkið fjallaði um Íslendingasögurnar. Hug-
myndin hafi hins vegar þróast út í að blanda
saman víkingunum úr víkingasögunum og sk.
útrásarvíkingum. „Á endanum varð til þessi
sýning sem gerist að meirihluta í nútímanum
en hefur enn tengingar í víkinga og Íslend-
ingasögurnar, þar er talað um valkyrjur, hefnd
og fleira. Reiði Gunnars kemur fram í víkingi
sem stækkar og stækkar eftir sem lengra líður
á söguna,“ segir Andrea. Áhorfendur þurfi
ekki að vera fróðir um Ísland eða Íslend-
ingasögurnar til að njóta verksins. „Það er far-
ið svakalega vel með efnið og margir Íslend-
ingar sem hafa séð sýninguna hafa komið til
mín með frábæra hluti að segja um hana,
ánægðir með hversu íslensk hún er og
skemmtileg.“
Andrea segir sýningunni hafa verið vel tekið
vestra, hún hafi m.a. hlotið jákvæða dóma í
The New York Times og The Village Voice. Og
það eru ferðalög framundan hjá Wakka
Wakka, m.a. átta vikna ferð um Noreg með
Riksteateret. „Við erum að vonast til að kom-
ast til Íslands og erum eins og er í viðræðum
varðandi það. Það væri mjög gaman að sýna á
Íslandi,“ segir Andrea að lokum.
Íslensk fjölskylda í hremmingum
Efnahagshrunið á Íslandi er efniviður nýjustu sýningar brúðuleikhópsins Wakka Wakka Productions
Íslensk leikkona, Andrea Ösp Karlsdóttir, fer með öll kvenhlutverk í leikverkinu SAGA
Ljósmynd/Wakka Wakka
Fjölmenni Í aftari röð eru frá vinstri: Brendan Yi-Fu Tay, Conan Magee, Elizabeth Hara, Fer-
gus J. Walsh og Þórður Gunnar Þorvaldsson. Í fremri röð eru frá vinstri: Andrew Manjuck,
Andrea Ösp Karlsdóttir, Gwendolyn Warnock og Kirjan Waage.
Ljósmynd/John Stenersen
Lánaólán Sýningin fjallar um fjölskyldu sem
opnar ferðagistingu úti á landi en við-
skiptalánin stökkbreytast í hruninu.
www.wakkawakka.org
Þúsundir gesta söfnuðust saman í
Amsterdam á laugardaginn var,
þegar helsta listasafn hollensku
þjóðarinnar, Rijksmuseum, var
opnað að nýju eftir viðamiklar
endurbætur sem hafa tekið heilan
áratug. Beatrix drottning lýsti
safnið opið að nýju en það var
eitt hennar síðasta embættisverk,
en hún stígur senn af veldisstóli.
Rijksmuseum er eitt kunnasta
listasafn heimsins og hýsir lyk-
ilverk gömlu niðurlensku meist-
aranna. Til að mynda eru hvergi
fleiri verk eftir Rembrandt á ein-
um stað – helsta djásn safnsins er
stærsta og frægasta málverk
hans, „Næturvaktin“, og þá má
einnig finna í safninu „Mjólk-
urstúlku“ Vermeers og „Káta
drykkjumanninn“ eftir Frans
Hals.
Endurbæturnar á safninu kost-
uðu um 60 milljarða króna og
meðan á þeim stóð fór hluti safn-
gripanna á flakk í farandsýn-
ingum. Safnið mun nú verða opið
alla daga ársins og eru öll fræg-
ustu verkin kom þar upp á veggi,
innan um húsgögn og hverskyns
muni frá samtíma listamanna.
Sýningarstjórarnir hafa að auki
innleitt nýjungar, til að mynda
gefur nú einnig að líta merka
fatahönnun í safninu og orrustu-
flugvél frá árinu 1917 er nú með-
al safngripanna.
Listaverkin aftur
í Rijksmuseum
Hið fræga lista-
safn opnað eftir 10
ára endurbætur
AFP
Hátíð Flugeldar lýstu Rijksmuseum
upp þegar safnið var opnað.
Sölustaðir: Apótek Hafnarfjarðar og Garðabæjar, Árbæjarapótek, Austurbæjarapótek,
Femin.is, Garðsapótek, Heimkaup.is, Lyfja, Lyfjaval, Rimaapótek og Urðarapótek
Þú færð
silkimjúka
fætur
eftir aðeins
eitt skipti