Monitor - 23.01.2014, Blaðsíða 8

Monitor - 23.01.2014, Blaðsíða 8
R agna Kjartansdóttir hefur komið víða við. Ásamt því að hafa verið í einni af vinsælustu hip hop- sveitum landsins, lærði hún í NewYork og er núna starfandi hljóðmaður. Monitor hitti Rögnu á Bast og fékk að heyra um gullaldarskeiðið, hljóðbransann og hvernig það er að vera „rapp-mamma.“ Hefur þú alltaf haft áhuga á tónlist? Pabbi spilaði mjög mikið af vínylplötum á heimilinu, þannig að ég ólst upp með tónlist í kringum mig. En fyrsti áhugi minn á tónlist kom ekki fyrr en ég var svona 9-10 ára gömul í gegnum Michael Jackson. Fljótlega eftir það leiddist ég út í hip-hop, hlustaði til dæmis mikið á rapp-dúettinn Kriss-Kross bræður, sem röppuðu í öfugum buxum. Spilar þú á einhver hljóðfæri líka eða notar þú bara röddina? Nei því miður spila ég ekki á nein hljóðfæri. Ég prófaði samt að æfa á klassískan gítar þegar ég var lítil. Mér fannst lögin sem ég var látin spila svo leiðinleg að ég laug að ég væri að flytja svo ég gæti hætt í gítartímum. Þegar kennarinn spurði hvort ég gæti ekki bara tekið strætó í tíma sagði ég að ég væri að flytja svo langt í burtu að það væri bara ekki hægt. Ég sé samt núna eftir því að hafa hætt, það kemur sér svo vel að kunna á eitthvert hljóðfæri. Seint á 10 áratugnum varst þú ein af stofnendum hip-hop-sveitarinnar Subterranean sem var ein af fyrstu íslensku hip-hop-sveitunum. Finnst þér hip- hop-senan hafa breyst síðan þá? Ég myndi segja að hip-hopið sé orðið miklu poppaðra núna.Viðfangsefnin eru líka orðin allt öðruvísi, það sem fólk yrkir um hefur breyst. Tíundi áratugurinn, tíminn þar sem ég var að byrja í hip-hopi, er oft kallað gullaldarskeið hip-hopsins, en þá var stefnan að ryðja sér til rúms og menn voru í því að sýna sig og sanna. Röppurum var svo annt um hip- hop-menninguna og það var meira attitude/viðhorf í tónlistinni heldur en kannski núna. Nú eru flestallir rapparar sólóartistar, en þá var mikið um það, og þótti mikilvægt, að vera hluti af stærra rapp-„crew-i“. Subterranean vakti mikla athygli hér á landi og var meðal annars kosin bjartasta vonin á íslensku tónlistaverðlaununum 1997. Heldur þú að fólk hafi verið farið að þyrsta í almennilegt íslenskt hip-hop á þessum tíma? Við vorum ekkert sérstaklega að spá í hvort það væri til markhópur fyrir tónlistina okkar, heldur vorum að gera þá tónlist sem okkur þótti góð. Fyrsta upplagið af plötunni okkar Central Magnetizm seldist þó upp mjög fljótt svo ég verð víst að svara þessari spurningu játandi. Á þessum tíma kom stundum fram í fjölmiðlum að einhverskonar deilur væru í gangi á milli Subterranean og Quarashi. Var eitthvað til í þeim sögusögnum? Nei, get ekki sagt það. Þetta var, hugsa ég, bara upp- spuni fjölmiðla þar sem tveimur ólíkum hjómsveitum var stillt upp þó svo þær væru báðar í rappinu. Sem unglingur var maður kjáni að taka þátt í þessu, eins langt og það náði, það var samt ekkert langt. Þá voru engir gemsar, Facebook og internet svo eitthvað varð fólk að hafa fyrir stafni. Þegar hin heimsfræga rapphljómsveit Fugees tróð upp í Laugardalshöllinni 1997 voruð þið m.a. valin til þess að hita upp. Hvernig tilfinning var það? Það var auðvitað mjög merkilegt fyrir 17 ára ungling að fá að hita upp fyrir átrúnaðargoð sín. Manni fannst maður vera svo lítill á risastóru sviði í Laugardalshöll- inni. Það var rosa mikil upplifun en við fengum aldrei að hitta þau þar sem þau voru umkringd öryggisvörð- um allan tímann. Oft kemur upp umræða um stöðu kvenna í hip-hopi. Hvernig var þetta 97? Hefur staða kvenna í hip-hopi breyst? Ef ég lít núna til baka þá hefur hip-hop sjálft breyst meira en staða kvenna innan tónlistarinnar. Kven- menn voru í miklum minnihluta þá og eru enn, en þó ekki með jafn afgerandi hætti. Skýringin á því er ef til vill sú að mikið af hip-hop-tónlist í dag er poptónlist og því öllum aðgengilegri. En á tíunda áratugnum var hip-hop jafnvel meiri jaðartónlist. Rappa konur öðruvísi en karlar? Hvort sem það eru rapparar, rithöfundar eða söngvarar eru yrkisefni karla og kvenna frábrugðin að því leyti til að tilfinninga- og hugarheimur kynjanna er ólíkur. Rapparar eru eins ólíkir og þeir eru margir. Ég er oft spurð út í það hver sé uppáhalds kvenrapp- arinn minn, en ég hef ekki enn rekið augun í það að karlrapparar séu spurðir að því sama. Konur og karlar eru ólík punktur. En mat mitt á rappi er gjörsamlega óháð kyni. Þú hélst til NewYork til að stunda nám eftir að Subterranean lagði upp laupana. Hvernig var það að komast þangað? Ég fór þangað þegar ég var tvítug, eftir útskrift í MH og var þar í fjögur ár. Ég var þar í hljóðupptökunámi í Five Towns’ College á Long Island í NewYork og var það ein af bestu lífsreynslu minni. Að fá að lifa í „mekka hip-hopsins“ var alveg magnað, maður fékk að velja sér þá tónleika sem maður vildi fara á í hverri viku, ég þurfti eiginlega bara að sigta út, framboðið var svo mikið. Þú starfaðir í eitt ár sem nemi hjá upptökuverinu „Chung King Studios“ á Manhattan. Hvernig reynsla var það? Það var rosalega mikill skóli lífsreynslulega séð og ég lærði mjög mikið á hvernig bransi þetta er þarna úti. Ég lærði þó eflaust meira um hvernig á að umgangast viðskiptavini stúdíósins frekar en hljóðtæknina sjálfa. Ég var til dæmis alveg með á hreinu hvar hægt var að finna næsta McDonalds sem opinn var allan sólar- hringinn og hvert átti að hringja ef fólk vantaði ýmis vafasöm efni. Svo var ég mikið í því að þrífa ýmsar græjur með eyrnapinna. Hvað tók við hjá þér eftir dvölina í NewYork? Þá var ég í raun og veru mjög upptekin af því að feta mig áfram í bransanum sem hljóðmaður. Ég kom heim árið 2004 og var þá að sækja um fleiri en tuttugu vinnur. Ég var harðákveðin í að vinna við hljóð að námi loknu ég fletti því sennilega upp öllum stúdíóum landsins í símaskránni og mætti svo á staðinn með starfsumsókn og ferilskrá. En margir í þessum bransa eru með sjálfstæðan rekstur og vinnuaðstaðan í heimahúsum, svo það hefur komið fyrir mig að fólk sé að mæta mér í dyrunum með stírur í augum og í náttsloppnum einum fata. En þessi hljóðbransi er svolítið mikið þannig að maður þarf að vera mikið sjálfmótíveraður og eru margir í þessum bransa til dæmis sjálfstætt starfandi. Ég næli mér í fyrstu vinnuna árið 2005 sem hljóð- maður í Latabæ. Með því að feta mig áfram í atvinnu- markaðinum festist ég í vinnu og tók hana umfram tónlistina um árabil. Ég samdi eitt og eitt lag á hverju ári en ekkert markvisst. Hvað kom til að þú fórst aftur út í það að gefa út þína eigin tónlist árið 2013? Ég lenti í því að missa vinnuna mína og þá fór ég svona að endurskoða hvað hefur gert mig hamingju- sama í lífinu í gegnum árin og tónlistin var eitthvað sem ég hef alltaf leitað til. Ég bjó í Hollandi árin 2011-2012 og á meðan ég bjó úti fór ég á alveg helling af tónleikum. Það er fátt sem kemur eins mikið við mann, lyftir manni jafnmikið upp og gleður og góðir tónleikar. Einnig hafði það áhrif að ég fékk styrki til þess að gera plötuna og meðal annars frá menntamálaráðurneytinu. Er þetta reyndar fyrsta skipti sem ég veit um þar sem menntamálaráðuneytið styrkir gerð hip-hop-plötu. En með styrknum fékk ég ákveðinn tímaramma, þar sem platan átti að verða til á árinu 2013 og var hann einmitt það sem ég þurfti til að loksins gera þetta. En á sama tíma fékk ég líka nýja vinnu í Stúdíó Sýrlandi, þannig ég lenti í því að vera bæði í fullu starf, móðir og var að taka upp plötu sem ég gaf síðan út sjálf þannig það var nóg að gera. Nú átt þú fjögurra ára gamlan son. Hvernig er að vera „rapp-mamma?“ Að vera „rapp-mamma“ er klárlega besta hlutverkið og eru það mikil forréttindi. Vonandi næ ég að hafa einhver áhrif á tónlistarsmekkinn hans og hvernig hann þróast tónlistarlega séð. En hvað finnst syni þínum um tónlistina þína? Hann er mjög hrifinn og kann merkilega mikið í sumum lögunum. Uppáhaldslagið hans er iEndorse sem hann kallar þó draugalagið. Honum finnst samt skemmtilegast að hlusta á lögin mín hátt í bílnum. Hann biður mig alltaf um að hækka þar til það heyrist út á götu, ég verð rosalega vandræðaleg. Ég er orðin pínu hrædd um að fólk sjái mig og haldi að ég sé bara keyrandi um með mína eigin tónlist í botni. En hver er sagan bakvið listamannsnafnið Cell7? Sagan er bara sú að ég var unglingur að leita mér að nafni. Á þeim tíma fannst mér afa erfitt að skrifa texta og finnst það reyndar svolítið enn. Þaðan kemur Cell nafnið, maður er fastur í fangelsi hugans. Svo var ég líka smá í talnaspekinni á þeim tíma og talan sjö er fæðingatalan mín. Þannig þetta nafn er svolítið barn síns tíma í raun og veru. Er frekar hugmyndasnauð þar sem ég heiti Ragna og mér hefur ekki enn tekist að finna upp á nýju nafni sem sem mig langar að binda mig við. Þannig að „Ragna rappari“ var aldrei málið? Nei það hefði aldrei virkað og mun aldrei virka. Segðu okkur aðeins frá plötunni þinni CELLF sem kom út í fyrra. Ég og Gnúsi (fyrrum meðlimur Subterranean) tókum hana upp saman.Við erum rosalega gott teymi og höfum reynst hvort öðru vel. Það skemmir heldur ekki að við erum góðir félagar og vinir, í raun og veru var þetta mjög náttúrulegt samband.Við höfðum auðvitað unnið saman, en fyrir mörgum árum. Það voru viss forréttindi að fá að vinna með vini sínum og vorum við nánast sem einn hugur á þessari plötu. Einnig á Addi Intro tvö lög á plötunni ásamt pólska product- ion-teyminu PlanB sem á eitt lag. Hvernig hafa viðbrögðin verið? Þau hafa verið vonum framar og fólk hefur tekið ótrúlega vel í hana. Ég var ein af þeim sem komust á Kraums-listann, sem eru árleg plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs. Er ég gríðarlega stolt af því að vera fyrsti rapparinn sem nær inn á þann lista. Platan er einnig á mörgum listum yfir toppplötur ársins 2013 og það gleður mig mjög mikið að fólk sem hlustar ekki endilega á hip-hop sé hrifið af plötunni minni. Það var alltaf takmark mitt til að byrja með, að höfða til breiðari hóps fólks en akkúrat þeirra sem hlusta eingöngu á hip-hop. Hvaðan færð þú innblástur? Oftast úr hversdagsleikanum bara. Svo reynir maður að vera frjór í hugsun og nota ímyndunaraflið. En svo er náttúrlega innblástur eitt og tækni annað þegar það kemur að hip-hopinu og ég reyni að hlusta mjög mikið á aðra rappara þegar það kemur að stíl og flæði og svo framvegis. En innblásturinn getur verið allt frá myndbandi á Youtube yfir í eitthvað sem gerist í manns daglega lífi. Það eru engin takmörk á því hvaðan hann kemur. Hvað er framundan hjá Cell7? Við erum aðallega að undirbúa okkur fyrir Sónar Reykjavík.Við spilum þar á föstudagskvöldið 14. febrúar klukkan 22 á SónarFlóa-sviðinu. En svo er aldrei að vita hvað gerist í millitíðinni. Ég er samt mjög spennt fyrir því að komast eitthvert út til að spila. Subterranean fór aldrei út fyrir landsteinana þannig mig langar rosalega mikið að komast út til að spila tónlistina mína. Hverju má búast við af ykkur á Sónar? Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að spila á sviði fyrir framan áhorfendur og ég legg mikið upp úr því að ná einhverri tengingu við áhorfendur. Það er ekkert skemmtilegra en þegar maður nær að virkja þá og gera þá hluta af show-inu. Æfingar standa því yfir núna með það að markmiði að vera með þétt og gott prógramm á sviði. Við reyn- um alltaf að endurnýja einhverja hluti prógrammsins á milli tónleika. Ég hvet alla til að koma og sjá okkur. Nú komst þú fram á Iceland Airwaves-hátíðinni síðasta haust. Hvernig upplifun var það? Ég hafði spilað nokkrum sinnum áður á Iceland Airwaves og það er alltaf ótrúlega gaman. Það var samt öðruvísi í haust þar sem ég var núna með heila plötu í farteskinu. Ég þurfti því að velja úr efninu mínu varðandi hvað ég átti að spila en ekki bara spila allt efnið sem átti. Er maður einhverntímann of gamall fyrir rappið? Nei það held ég ekki, til dæmis er Dr. Dre 46 ára og enn að gera góða hluti sem og Nas sem varð fertugur á síðasta ári. Ég á greinilega nóg eftir. 8 Monitor fimmtudagur 23. janúar 2014 Texti: Auður Albertsdóttir audura@monitor.is Myndir: Golli golli@mbl.is Ég er orðin pínu hrædd um að fólk sjái mig og haldi að ég sé bara keyrandi um með mína eigin tónlist í botni. Ragna á 30 sekúndum Fyrstu sex: 100680 Versti ótti: áhorfendur sem ekki er hægt að hreyfa við Æskuátrúnaðargoð: michael Jackson Það sem fékk mig fram úr í morgun: Vinnan Draumahæfileiki: Að geta sungið Ég hef aldrei: Farið á Þjóðhátíð í eyjum Lag á heilanum: Yoncé með Beyonce

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.