Málfríður - 15.03.2013, Blaðsíða 22

Málfríður - 15.03.2013, Blaðsíða 22
Námskeið Hjálmars Sveinssonar í EHÍ um heimsborgina Berlín Það var fullsetin kennslustofan hjá EHÍ á námskeið- inu „Berlín, hin nýja miðja Evrópu“ sem haldið var af Hjálmari Sveinssyni, útgefanda og varaborgarfull- trúa. Hjálmar gjörþekkir Berlín eftir að hafa búið þar í rúman áratug við nám og störf. Hann hefur haldið ýmis námskeið um Þýskaland og margsinnis fjallað um efnið í fjölmiðlum. Námskeiðið, sem var samtals fjórar klukkustundir, var mjög vel heppnað og innihaldsríkt. Farið var um víðan völl í sögunni allt frá Prússlandi og þrjátíu ára stríðinu í Þýskalandi til beggja heimsstyrjaldanna og kalda stríðsins. Það sem var kannski áhrifamest voru lýsingar á því hvernig sagan hefur mótað borgina og hvernig Berlín varð eins og hún er í dag, frjálslynd, umburðarlynd og litrík heimsborg. Það var sérstaklega áhugavert að hlusta á hvernig borgin hefur þróast eftir fall múrsins til dagsins í dag, og lýsti Hjálmar mjög vel því fjölbreytta menningar- og mannlífi sem núna einkennir Berlín hvað helst. Til stuðnings við fyrirlestrana var fjölbreyttum myndum og stuttum myndbrotum varpað upp. Ásamt því að lýsa borginni sérlega vel á hinum ýmsu tímabilum sögunnar sýndi hann einnig landfræðilega legu hennar á mismunandi kortum sem og uppbyggingu þeirra stórkostlegu mannvirkja sem borgin hefur að geyma. Að vissu leyti gaf námskeiðið nýjan vinkil á stór- borgina og augljóst var að það vakti mikla forvitni þeirra sem enn höfðu ekki fengið tækifæri til þess að sækja borgina heim. Einnig var athyglisvert að heyra hvernig Berlín er í raun orðin hin nýja miðja Evrópu, bæði menningar- og stjórnmálalega. Sá efnahagslegi uppgangur sem hefur verið í Þýskalandi á undan- förnum áratugum gefur góða mynd af því hvernig Þjóðverjar hafa með mikilli fyrirhyggju og ögun náð einstökum árangri í fjármálum og er í raun fordæmis- gefandi fyrir aðrar þjóðir. Þessu til rökstuðnings nefndi Hjálmar styrkleika lítilla og millistórra fyrirtækja í verkfræði- og tæknigreinum sem ráða yfir 70–80% af heimsmarkaðnum í sínum geira. En jafnframt tók hann dæmi um risana í fyrirtækjarekstrinum í Þýskalandi, t.d. Volkswagen og Siemens. Þátttakendur námskeiðsins fengu margar góðar til- lögur um hvaða afþreyingu væri ákjósanlegt að sækja í Berlín. Eins komu fram alls kyns uppástungur um áhugaverðar bækur, kvikmyndir og byggingar sem vert væri að skoða, bæði um það sem er helst á döfinni í Berlín og einnig sígildar hugmyndir sem alltaf eiga við. Að lokum má nefna umfjöllun Hjálmars um hvaða framtíðarsýn ræður ríkjum fyrir Berlín í dag, en það er stöðug þróun í arkítektúr borgarinnar. Lýsti hann upp- byggingu á svæðinu við aðaljárnbrautarstöð Berlínar eða Europacity sem og mjög merkilegum og mögnuð- um arkítektúr sem mun taka um 15 ár að byggja upp á 40 hekturum. Eins nefndi hann gamla Tempelhof- flugvöllinn sem verið er að breyta í risastóran almenn- ingsgarð af svipuðum mælikvarða og Central Park í Bandaríkjunum. Það hefur sýnt sig að Berlín á fullt erindi til Íslendinga og framhaldsskólanemendur í þýsku eru þar hvergi undanskildir. Námskeið af þessu tagi eru tilvalin fyrir kennara í faginu til þess að kynna þessa frábæru borg fyrir nemendum sínum, hvort sem um er að ræða sem undirbúning fyrir nemendaferðir, markvisst efni sem hvata til þýskunáms eða einfaldlega sem létta kynn- ingu á borginni til viðbótar við annan fróðleik í grein- inni. 22 MÁLFRÍÐUR Kristjana Björg Sveinsdóttir, þýskukennari við Menntaskólann í Reykjavík  Berlín, hin nýja miðja Evrópu Oderberger Straße .

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.