Málfríður - 15.10.2011, Blaðsíða 10

Málfríður - 15.10.2011, Blaðsíða 10
Þann 12. júní síðastliðinn settist fjölmennur hópur þýskukennara frá Íslandi á skólabekk í Berlin. Um fimm daga sumarnámskeið Félags Þýzkukennara og EHÍ var að ræða í samstarfi við Goethe Institut í Berlin. Alls vorum við 21 talsins og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að kynnast borginni betur, geta rætt saman um ýmislegt tengt þýskukennslu, en ekki síst að kynn- ast hvert öðru betur og njóta lífsins í Berlin. Þessir fimm dagar voru því þéttbókaðir og vel nýttir. Við undirbún- ing námskeiðsins hér heima, var mikil áhersla lögð á að námskeiðið væri hagnýtt og hægt væri að nota verk- efnin í kennslu með lítilli fyrirhöfn, þegar heim væri komið. Því var mikilvægt að við upplifðum okkur eins og nemendur og hefðum getu og þarfir þeirra í huga. Þema námskeiðsins var „Berlin aktuell“. Fjallað var um þessa stórkostlegu borg frá ýmsum sjónarhornum, t.d. út frá sögu, listum, daglegu lífi, fólkinu sem þar býr (við kynntumst t.a.m. hugtakinu „Kiez“) og út frá ýmsum hverfum Berlínarborgar. Aðalkennari námskeiðsins var Ulrike Behrendt. Ulrike var mjög vel upplýst um óskir okkar. Hún reynd- ist fyrirmyndarkennari með allt á hreinu – afar skipu- lögð og vel undirbúin – engir langir fyrirlestrar, heldur stutt innlegg, skýr fyrirmæli og umræður. Hún lagði mikla áherslu á að við værum virk í tímum og fengjum að glíma við margvísleg verkefni. Efnistök voru af ýmsum toga, tónlist, alls kyns myndbönd, auglýsingar, örviðtöl í útvarpi við útlendinga búsetta í Berlin, ljós- myndir o.fl. Þessu fylgdi svo alls kyns ítarefni. Námskeiðið fór að hluta til fram inni í einni af kennslustofum Goethe-stofnunarinnar. Þátttakendur voru virkir, leystu ýmsar þrautir (oft stöðvavinna), léku málfræðiatriði, klipptu og límdu. Oft var farið á stúfana og Berlín könnuð. Rétt eins og aðrar stórborgir er Berlín samsett úr afar ólíkum hverfum sem hvert hefur sinn stíl. Víst er múrinn horfinn að mestu, en þegar betur er að gáð ber borgin enn merki hans. Í ljós kom að víða má sjá, t.d. á mismunandi gerð götuljósa, hvort maður er staddur vestan eða austan megin. Á einni viku er ekki hægt að kynnast nema hluta borgarinnar, en við komumst þó að því hvernig megi fá nasasjón af fleiri hverfum án þess að hafa komið þangað. - Okkur var skipt upp í fimm manna hópa. Með lítinn hverfisbækl- ing í farteskinu, sem innihélt leiðarlýsingu og ýmsar þrautir, lögðu hóparnir af stað í sitt hverfi og urðu margs vísari um leið og þeir leystu alls kyns verkefni - ýmist á eigin spýtur eða með aðstoð íbúanna. Þegar til baka var komið var unnið að kynningarplakötum um hverfin þar sem ferðalaginu var lýst, sérstaklega því sem okkur fannst áhugavert og öðruvísi en við eigum að venjast. Til að allir fengju smá ínnsýn í þessi mjög svo ólíku hverfi, voru myndaðir litlir sérfræðihópar með einum fulltrúa úr hverjum hópi og svo var lagt af stað í ferðalag um Berlin. Farið var á milli plakatanna undir leiðsögn hvers sérfræðings sem leiddi okkur í gegnum sína upplifun af hverfinu og kynnti niður- stöður könnunarleiðangursins. Ákaflega gaman var að upplifa, hvernig ný Berlin opnaðist fyrir augum okkar í gegnum persónulega frásögn sérfræðinganna. Hópurinn fékk leiðsögn um Reichstagsgebäude (Þýska þingið), fræddist um sögu hússins og störf þýska þingsins. Við fórum víða um þessa sögufrægu byggingu. Áhugavert var að fá tækifæri til að spyrja leiðsögumanninn spjörunum úr um þýsk stjórnmál og reyna að útskýra íslenska hlið ýmissa mála. Þinghúsið sjálft hefur tekið ýmsum breytingum í tímans rás. Mest er breytingin þó að innanverðu. Eftir síðustu endur- gerð byggingarinnar birtist sagan þar ljóslifandi, og þar má enn sjá ýmislegt forvitnilegt á veggjunum, eins og grafíti hermanna Rauða hersins úr seinni heims- styrjöldinni. Og það var einnig forvitnilegt að fá að vita að kjallari þinghússins var notaður sem fæðingardeild í stríðinu þar sem hann var sprengjuheldur. Einnig var farið á slóðir Berlínarmúrsins, í Bernauer Strasse og nágrenni, undir öruggri leiðsögn Matthiasar Rau sem ólst upp og bjó í Austur-Berlín. Hann upplifði það að múrinn var reistur, bjó við áralangan aðskilnað frá ættingjum og vinum og síðast en ekki síst upplifði hann að múrinn féll. Frásagnir hans voru áhrifamiklar og persónulegar. Þátttakendur voru allir sammála um að námskeið hafi verið afar gagnlegt; bæði faglega og félagslega, auk þess sem það var bráðskemmtilegt. Við eigum fjársjóð í öllum þeim gögnum og hug- myndum sem við komum með úr ferð- inni og höfum við verið dugleg að nýta okkur fjársjóðinn við kennslu. 10 MÁLFRÍÐUR Berlin, Berlin! Sigurborg Jónsdóttir er þýsku- kennari við Borgarholtsskóla Sigurborg Jónsdóttir. Allur hópurinn ásamt kennara.

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.