Vísbending


Vísbending - 21.10.2013, Blaðsíða 2

Vísbending - 21.10.2013, Blaðsíða 2
2 V Í S B E N D I N G • 4 0 T B L 2 0 1 3 Út er komin hjá bókaútgáfunni Guðrúnu bókin Auður, hagfræði fyrir íslenska þjóð. Höfundurinn, Inga Lára Gylfadóttir, lauk B.S. námi í Hagfræðideild HÍ vorið 2010. Fljótlega eftir að hún hóf hagfræðinámið áttaði hún sig á því hversu litla þekkingu hún hafði í raun til að taka ákvarðanir sem allir standa frammi fyrir einhvern tímann á lífsleiðinni, um íbúðakaup, fjárfestingar, sparnað og fleira. Hjá henni vaknaði spurningin: „Af hverju var þetta ekki útskýrt fyrir mér fyrr?”Þetta varð kveikjan að bókinni sem gefin er út að frumkvæði Stofnunar um fjármálalæsi. Í stærstum hluta bókarinnar eru skýrð út hagfræðihugtök en síðasti kaflinn segir frá sögu hagfræðikenninga. Hér birtist með leyfi útgefanda kafli um hagsögu á 20. öld. Keynes og 20. öldin John Maynard Keynes (1883-1946) er einn þekktasti hagfræðingur 20. aldar en hann hélt því fram í bók sinni, „Almennu kenningunni“, að klassísku hagfræðingarnir gætu ekki útskýrt hagsveiflur á við kreppuna miklu því í þeirra kenningum væru sveiflur aðeins litlar og tímabundnar og þar af leiðandi gætu þeir ekki boðið raunhæfar lausnir við þeim. Klassísku hagfræðingarnir töldu að í niðursveiflu myndi verð á markaði aðlagast. Keynes benti á að það væri stirðleiki í hagkerfinu vegna einokunar sem hindraði verðbreytingar og vegna verkalýðsfélaga sem hindruðu launalækkanir sem kæmi í veg fyrir að hagkerfið aðlagaðist í átt að fullri atvinnu líkt og klassísku hagfræðingarnir höfðu sett fram. Hann taldi verkalýð vinna undir peningaglýju þar sem nafnlaun skiptu máli en ekki raunlaun. Þetta þýddi að þeir myndu ekki sætta sig við nafnlaunalækkun en væru síður viðkvæmir fyrir raunlauna- lækkun. Keynes taldi jafnframt að launa- lækkanir myndu hvort sem er ekki leiða hagkerfi úr kreppu þar sem minni kaupmáttur drægi úr eftirspurn. Það yrði að auka heildareftirspurn í hagkerfinu, ekki draga úr henni, sem ríkið gæti stuðlað að með því að annaðhvort lækka skatta og viðhalda þannig eyðslu (eftirspurn) eða hækka útgjöld án þess að hækka skatta. Á þenslutímum væri hins vegar hægt að hækka skatta eða minnka peningaframboð, en hvort tveggja ætti Er hægt að stýra hagkerfinu? að leiða til fjárlagaafgangs. Kenningar Keynes urðu þáttur í nýrri ríkjandi hagfræði. Þær náðu inn í flestar stofnanir æðri menntunar í Bandaríkjunum eftir heimsstyrjöldina síðari. Þessi hagfræði sem hugar aðallega að heildarstærðum og áhrifum þeirra á hagkerfið er kölluð þjóðhagfræði. Keynes er því oft nefndur faðir þjóðhagfræðinnar. Friedrich Hayek var ósam- mála Keynes Helsti keppinautur Keynes á þessum árum var Friedrich A. Hayek (1899- 1992). Hayek tilheyrði hinum svokallaða austurríska skóla. Hann taldi Keynes ekki skilja hlutverk vaxta og sýndi fræðilega fram á það á fjórða áratugnum að afleiðingar stefnu í anda Keynes gætu orðið aukning verðbólgu samhliða auknu atvinnuleysi. Á þriðja og fjórða áratug 20. aldarinnar deildu hagfræðingar um það hvort miðstýrður áætlunarbúskapur væri framkvæmanlegur. Helstu þátttakendur í þessum deilum, sem voru kallaðar útreikningsdeilurnar, voru Hayek og Ludwig Von Mises (1881- 1973), einnig af austurríska skólanum, annars vegar og svo Oskar Lange og Abba Lerner hins vegar. Mises sagði að þar sem að í sameignarskipulaginu sem hefði aflagt peninga, markaði og verðkerfi væri ekki hægt að vita hver kostnaður í framleiðslu eða í viðskiptum væri myndi það valda því að framleiðslan gæti aldrei orðið hagkvæm. Í nútímaþjóðfélagi, sem byggir á flóknu framleiðslu- og viðskiptakerfi, væri ómögulegt „að skipuleggja framleiðsluna á hagkvæman hátt án þess að þekkja kostnað við hana. Hayek sagði að verð áætlunarráðs yrði aldrei markaðsverð, vegna þess að það skorti upplýsingar. Ef öll þekking og upplýsingar lægju fyrir væri fyrirkomulag framleiðslunnar einfalt reikningsdæmi, en upplýsingarnar lægju ekki á fárra hendi heldur hefði hver einstaklingur yfir að ráða sínu broti af upplýsingum, staðreyndum og þekkingu. Hagfræðilegi vandinn væri sá að ákvarða hvernig nýta mætti alla þá þekkingu sem einstaklingar hafa hver í sínu lagi svo hagkerfið yrði samstillt eða samvirkt þegar enginn einn getur aflað hennar. Frjálst verðlag væri forsenda lausnarinnar þar sem verðið segði til um hlutfallslegan skort. Það flytti upplýsingar um breytingar á aðstæðum, gæfi vísbendingar um hvar hæfileikar nýttust best, hvaða vörur ætti að framleiða og færði fjármagn til þeirra sem væru hagsýnni. Eftirstríðsárin og samdráttur Þjóðir heimsins samþykktu árið 1944 að setja á fót nýtt fastgengiskerfi kallað Bretton Woods. Hvert ríki átti að taka upp fast gengi (mátti breytast innan tiltekinna marka) tengt við bandarískan dollar. Miklar áhyggjur voru ríkjandi af misjafnri stöðu hagkerfa ríkjanna eftir stríð og því að rangar efnahagsstefnur, þar með talið verndarstefnur, yrðu ofan á. Vegna þessa voru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn stofnaðir. Þar var m.a. vettvangur fyrir samstarf um peninga- og efnahagsmál, uppbyggingu í ríkjunum eftir stríð og AGS átti að brúa tímabundinn greiðslujöfnuð milli ríkja. Til að tryggja tiltrú á dollarann var hann festur við gullverð ($35 fyrir 1 únsu af gulli). Markmiðið var hindranalaus viðskipti milli landa á föstu gengi. Árið 1960 voru hins vegar erlendar skuldbindingar Bandaríkjanna í dollurum orðnar mun meiri en gullforði þeirra. Þá var settur á fót sjóður átta ríkja sem átti að grípa inn í gullmarkaði og viðhalda verði gulls. Frakkar og Bretar drógu sig úr sjóðnum 1967 þar sem þeir töldu Víetnamstríðið setja of mikið álag á sjóðinn. Á sama tíma felldu Bretar gengið hjá sér og áhlaup varð á gull. Árið 1969 vantaði mikið upp á að Bandaríkjamenn gætu greitt sem svaraði skuldum með gullforða sínum og gáfust þeir því upp á að reyna að halda gengi dollarans óbreyttu við gull árið 1971. Síðan þá hefur gengi verið fljótandi í flestum ríkjum Vesturlanda. Verðbólga 8. áratugarins Á áttunda áratug kom tímabil í iðnríkjunum þar sem atvinnuleysi óx samhliða vaxandi verðbólgu líkt og Hayek hafði spáð en það gerði mönnum ókleift að nýta kenningar Keynes til að mæta vandamálunum. Bretton Woods gullfótarkerfið var fallið og auk þess voru iðnríkin flest mjög háð olíu en á þessum áratug hækkaði olíuverð mikið, sérstaklega árin 1973 og 1979. Mikil óvissa var í fjármálaheiminum og margir fluttu peninga úr fjárfestingu í framleiðslu yfir í

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.