Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 12

Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 12
12 Litli-Bergþór Skálholt 1963-2013 Á forsíðu Lesbókar Morgunblaðsins hinn 21. júlí 1963 birtist ljóðið Í Skálholtskirkju, eftir Matthías Jóhannessen. Tilefnið var vígsla kirkjunnar, sem sagt er frá í löngu máli í blaðinu sjálfu. Eitt vers ljóðsins hljóðar svo: Hlusta enn á horfnra alda hljóðan nið frá Skálholtsstóli, gnæfir hún á grænum hóli göfug móðir landsins kalda. Móðir græð þú mein og kvíða minnar þjóðar á villudögum, lif í fólksins ljóði og sögum lifandi orð og sólin blíða, Hinn 21. júlí á komandi sumri verður haldið hátíðlegt fimmtíu ára vígsluafmæli Skálholtskirkju. Þá er Skálholtshátíð. Jafnframt verður þess minnst að á vígsludegi kirkjunnar, hinn 21. júlí 1963, afhenti ríkisstjórnin með sérstökum lögum þjóðkirkjunni jörðina Skálholt til ævinlegrar eignar, svo sem gert hafði Gissur biskup Ísleifsson nærri 800 árum fyrr. Konungsvaldið hafði séð til þess undir lok átjándu aldar að göfug áform Gissurar náðu ekki fram að öllu leyti, en ríkisvaldið leiðrétti það frávik með lögunum um afhendingu Skálholts. Jafnframt lagði ríkissjóður Skálholti til fast framlag til uppbyggingar og viðhalds á staðnum og gerir enn í dag. Mörgum lesendum Litla- Bergþórs er kunn sú saga og sú barátta sem með þess- um gjörningi fyrir hálfri öld náði þeim árangri sem raun ber vitni, og verður hún ekki rakin hér, þótt staðnæmst verði við nokkur atriði. Hrun Skálholtsstaðar í jarðskjálftanum seint á 18. öld og flutningur biskupsstólsins til Reykjavíkur, þegar staðurinn var rúinn gersemum sínum sem að hluta glötuðust fyrir hreina handvömm þeirra sem til ábyrgðar höfðu verið kallaðir, varð til þess að þá laut Skálholt lægst. Aldrei hætti þó Skálholt að vera kirkjustaður og helgistaður. Líka þegar hin fallvalta dýrð þessa heims hafði alveg yfirgefið Skálholt var það kirkjan, þótt lítil væri og óásjáleg, sem kallaði fólkið saman, til gleðistunda og sorgar. Dagurinn þegar núverandi kirkja var vígð var stór dagur í sögu Skálholts og eftir- minnilegur þeim sem hann sóttu. Sérstaklega er minnisstæður hinn frábæri söngur Skál- holtskórsins, undir stjórn dr. Róberts A. Ottóssonar, söngmálastjóra. Skálholt stendur í mikilli þakkarskuld við þau öll sem komu að byggingu kirkjunnar og að hátíðinni sjálfri með margvíslegu vinnuframlagi og þátttöku. Hér verður ekki rakin sú saga sem leiddi fram til vígsludags kirkjunnar, eða saga staðarins í hálfa öld, en af þessu tilefni er ástæða til að staldra við og rifja upp það sem einkum vakti fyrir þeim sem endurreistu Skálholt um leið og hugleitt er hvernig til hefur tekist. Sú uppbyggingarsaga Skálholts sem hófst laust fyrir miðja síðustu öld hafði einkum fjögur markmið: Að byggja veglega kirkju, að endurheimta biskupssetrið, að byggja skóla og að tryggja almenna viðreisn á staðnum. Kristján Valur Ingólfsson. Mynd: Jón K. B. Sigfússon. Skálholtskirkja um 1900. Mynd: Frederick W.W. Howell, Cornell University Library.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.