Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2012, Blaðsíða 7

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2012, Blaðsíða 7
7 vestur um haf. Hún mun hafa farið með farþegaskipinu Washington frá Englandi til Boston og þaðan til Winnipeg í Kanada, til Jónínu Oddleifsdóttur, frænku sinnar. Einnig dvaldi hún í Árborg. Kristín lék annað aðalhlutverkið í sýningu Íslendinga í Winnipeg á Hallsteini og Dóru eftir Einar H. Kvaran í desember 1932. „Hún hefur marga þá hæfileika sem hver góð leikkona þarf að hafa,“ sagði Lögberg. „Þar fer saman yndisþokki æsku og útlits, léttir hlátrar lífsglaðrar sálar og varhugaleysi barnslegs hreinleika,“ sagði Heimskringla, sem nefndi leikkonuna Miss K. Sölvason. Kristín gekk í skóla vestra og stundaði margs konar störf, vann meðal annars á veitingahúsinu Wevel Café í Winnipeg. Hluta úr ári vann hún við Niagara-fossana, á landamærum Kanada og Bandaríkjanna, og fór til New York. En Kristínu var farið „að langa heim til vinanna og kunningjanna,“ að sögn Alþýðublaðsins. Hún kom til Reykjavíkur með Gullfossi haustið 1934. Þá auglýsti hún að hún tæki að sér enskukennslu: „Kenni að tala, lesa og skrifa ensku, bæði byrjendum og lengra komnum.“ Hittust í Árborg Maður er nefndur Charles Thorson. Hann var Vestur- Íslendingur, fæddur 29. ágúst 1890 í Winnipeg í Manitoba, sonur Stefáns Þórðarsonar og Sigríðar Þórarinsdóttur sem voru ættuð úr Biskupstungum. Þau fluttu vestur um haf árið 1887. Stefán var meðal annars bæjarstjóri í Gimli í Manitoba. Charles var þekktur teiknari í Íslendingabyggðum í Kanada, teiknaði í blaðið Heimskringlu og myndskreytti vörulista stórverslunarinnar Eaton í tvo áratugi. Um skeið var Charles giftur konu af pólskum ættum. Sonur þeirra var Stephen Thorson. Kristín Sölvadóttir og Charles Thorson hittust í Árborg, þar sem hann hélt námskeið í teikningu. Síðar fór Charles að venja komur sínar á Wevel Café í Winnipeg, þar sem Kristín var afgreiðslustúlka, fékk sér þar kaffisopa og teiknaði myndir. Þau virðast hafa orðið mjög nánir vinir. Hann var rúmlega fertugur, hún tvítug. Það kom ekki í veg fyrir það að hann bað hennar, og gaf henni teikningu af þeim saman þar sem hann var prinsinn en hún prinsessan. Þetta mun hafa verið sumarið 1934. En Kristín hafnaði bónorðinu, fór að vinna í Niagara og flutti svo aftur heim til Íslands um haustið. Þau skrifuðust síðan á en hittust aldrei aftur. Charles flutti til Hollywood og fékk vinnu hjá Walt Disney, meðal annars við gerð teiknimyndarinnar um Mjallhvíti og dvergana sjö. Síðar sagði Charles syni sínum og fleirum að Kristín hefði verið fyrirmyndin að Mjallhvíti. Sú saga hefur einnig verið lífseig í Íslendingabyggðunum. Thorson og Disney Vorið 1936 var sagt frá því í vestur- íslenska blaðinu Lögbergi að Charles Thorson, „sérstæður listamaður í sögu hinnar íslensku þjóðar,“ væri þá starfandi í kvikmyndaveri Walt Disney í Hollywood í Kaliforníu. Þar hafði hann teiknað myndir af öllum persónum í teiknimynd um fílinn Elmer. „Auk þess á hann mikinn þátt í fyrirmyndum persónugervinga í hinni nýju kvikmyndaútgáfu af Mjallhvít,“ sagði í blaðinu. Þá var þess getið að þegar rithöfundurinn H. G. Wells og leikarinn Charles Chaplin heimsóttu kvikmyndaverið hafi eigandinn farið „með þessa frægu gesti í vinnustofu Charles Thorsons til þess að sýna þeim það sem best væri gert innan vébanda sinnar víðfrægu stofnunar“. Charles mun einnig hafa teiknað indíána- strákinn Hiawatha og fleiri persónur fyrir Walt Disney. Alls var Charles sjö ár í Hollywood. Að lokinni dvölinni hjá Disney fór hann að vinna fyrir Warner Brothers, MGM og fleiri og skapaði á þeim tíma meðal annars Kalla kanínu (Bugs Bunny). Charles Thorson lést sumarið 1966. Íslendingar kynnast Mjallhvíti Teiknimyndasagan „Mjallhvít og dvergarnir sjö“ birtist í Þjóðviljanum vorið og sumarið 1939, í tuttugu hlutum. Kvikmynd Walt Disney var frumsýnd í Gamla bíói í Reykjavík 10. maí 1939 og þótti hún mikið afrek. „Kvikmyndin er öll litum skreytt og svo eðlileg að furðu sætir,“ sagði í Morgunblaðinu. „Dýramyndirnar, hreyfingar þeirra og látbragð er svo einstaklega vel gert að hrein unun er á að horfa.“ Í kynningu á myndinni var ekkert minnst á hina íslensku fyrirmynd og heldur ekki á það að einn af teiknurunum væri af íslenskum ættum. Fíngerð og glaðleg Það er af Kristínu Sölvadóttur að segja að haustið 1937 giftist hún Garðari Þórhallssyni bankamanni, kaupfélagsstjórasyni frá Djúpavogi. Þau bjuggu lengst af í Vogahverfi í Reykjavík og eignuðust fimm börn. Sumarið 1975 fóru tólf hundruð Íslendingar með flugi á Íslendingahátíðina í Kanada. Kristín var í þeim hópi og hefur hún þá eflaust rifjað upp kynni við land og þjóð. Kristín lést í nóvember 1981, 69 ára. Í minningargreinum var henni lýst sem fíngerðri konu sem alltaf var glaðleg á svipinn og sá ætíð hið fagra og góða í lífinu. Mjallhvít og dvergarnir sjö í kvikmynd Walt Disney frá 1937. Teikning sem Charles gaf Kristínu og á að sýna hann biðja hennar. Jónas Ragnarsson tók saman.

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.