Lögmannablaðið - 01.03.2005, Blaðsíða 24

Lögmannablaðið - 01.03.2005, Blaðsíða 24
24 1 / 2 0 0 5 Af Merði lögmanni Jæja þá er útséð með það þetta árið eins og öll hin. Mörður var ekki beðinn um að vera veislustjóri á árshátíð Lögmannafélagsins. Mörður ætlar sko ekki að láta það hafa áhrif á gleðina. Á árshátíðina fer hann. Merði hefur alltaf þótt borðhaldið frekar leiðinlegt nema árið sem hún Dúdda blautbolsdrottning kom með honum. Þá átti hann salinn. Langflottastur. Þetta var á 3ju árshátíðinni sem Mörður fór á. Á tveimur fyrstu leiddist honum skelfilega enda konulaus. Allir á árshátíðinni voru með maka með sér nema Mörður. Hann var aleinn. Mörður vissi nú samt að fullt af þessu fólki væri einhleypt en það var samt mætt þarna með maka. Mörður komst að því seinna að þetta voru ekki makar heldur voru nokkrir með svona „rent a date“ með sér. Úrræðagóðir þessir lögmenn alltaf. Áður en Mörður kynntist spúsu sinni reyndi hann ítrekað að fá einhleypa lögmenn til að vera með sér á svona “single” borði en það bar engan árangur. Mörður var nú ekki að skilja það enda sáu karlkynskollegar hans ekki heildarmyndina. Þeir hefðu getað höslað kvenkynslögmann á árshátíðinni og kvænst henni. Með því hefðu þeir getað slegið tvær flugur í einu höggi. Náð sér í eiginkonu og fækkað konum í stéttinni. Því auðvitað hefðu þeir getað talað eiginkonurnar inn á það að vera heima og gæta bús og barna í stað þess að vera í þessu framabrölti sem hvort sem er skilar þeim ekki neinu. Það sem hefur háð Merði mest á árshátíðunum, fyrir utan borðhaldið, er að hann á svo erfitt með að þekkja kvenkynslögmennina. Þær líta bara allt öðruvísi út á árshátíðinni en svona dags daglega. Þær eru jafnvel bara nokkuð sætar og mildar til augnanna. Þannig hefur hann ekki séð þær áður. Svona daglega eru þær alltaf með þetta rauðsokkublik í augunum; berjast stelpur, berjast. Merði finnst hins vegar fyrir partýin alltaf skemmtilegust því þá hefur hann tækifæri til að drekka sig í stuð. Það er verra þegar hann fer að þynnast upp yfir borðhaldinu enda ekki viðeigandi að drekka tvöfaldan vodka í kók með sítrónu á svona virðulegri samkomu. Mörður kann sig nú. Þess vegna setur hann t.d. alltaf sítrónu í drykkinn, svona til að gera hann fágaðan.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.