Lögmannablaðið - 01.06.2005, Blaðsíða 27

Lögmannablaðið - 01.06.2005, Blaðsíða 27
27 Af Merði lögmanni Mörður hefur verið nokkuð sár og reiður síðustu misseri vegna þess að nafn hans er aldrei nefnt þegar fjallað er um stjörnulögfræðinga. Mörður á langan og farsælan feril í lögmennskunni. Hann hefur skrifað margar greinar í Úlfljót og Tímarit lögfræðinga, flutt fyrirlestra á málþingum, sinnt kennslu og er með eina allra hæstu einkunn sem gefin hefur verið í Háskóla Íslands. Þá hefur Mörður flutt merkileg, umfangsmikil og flókin mál í Hæstarétti og náð að kæfa réttinn í ljósritum úr fræðiritum og alls konar tilvitnunum sem þótti lengi vel merki um góðan og merkilegan lögmann. Þrátt fyrir þennan glæsilega feril er Mörður aldrei nefndur stjörnulögfræðingur og raun aldrei nefndur á nafn nema í lokuðum kredsum og þá aðallega vegna sérkennilegs útlits og klæðaburðar. Það er aldrei viðtal við Mörð í sjónvarpsvísum, ekki fjallað um hann í Fréttablaðinu undir teiknaðri mynd og ekki er hann spurður um áhugamál og fleira í þeim dúr í dægurmáladálkum blaðanna. Þá fékk Mörður ekki birta grein í Mogganum án myndar eins og stjörnulögmenn fá. Hætti þá Mörður við birtingu greinarinnar að beiðni eiginkonunnar. Mörður spurði vin sinn um daginn hvernig á því stæði að hann teldist ekki til stjörnulögmanna. Hann var með margar skýringar á reiðum höndum. Merði til mikilla leiðinda nefndi vinur hans fyrst atriði er snertu útlitið. Ef Mörður ætti að teljast til stjörnulögfræðinga yrði hann að breyta útliti og klæðaburði. Klippa löng hár úr nefi og eyrum. Þá væri ekki flott að vera með aumingjatopp sem næði niður á alltof loðnar augabrúnir. Þá sagði vinurinn Merði að hann yrði að taka að sér djúsí sakamál, helst morðingja eða handrukkara. Stór fíkniefnamál gætu dugað. Málið mætti þó vera ómerkilegt ef sakborningur væri frægur. Spjalla svo við blaðamenn og þvæla eitthvað um mannréttindi og ekki væri verra að gagnrýna ákæruvald og lögreglu í leiðinni fyrir valdníðslu. Þá næðist umfjöllun um Mörð í fjölmiðlum auk þess sem hann fengi rammagrein í Mogganum án myndbirtingar. Síðan þyrfti ekki nema eina sýknu þá væri Mörður orðinn stjörnulögmaður ef vel tækist til með útlitsbreytinguna. Það þyrmdi yfir Mörð. Hann hugsaði að vísu væri hægt að laga útlitið án meiriháttar skurðaðgerðar. Merði hefur hins vegar alltaf fundist þessi sakamál nauðaómerkileg og taldi að þau væru aðeins fyrir þá sem ekkert kynnu í lögfræði. Þá þolir Mörður ekki mannréttindi og þá sem sífellt eru gjammandi um mannréttindi. Þeir séu í hópi með náttúruverndarsinnum og friðarsinnum sem eru í huga Marðar ekkert annað en gamlir marxistar sem klæða bullið í nýjan búning. Merði verður alltaf flökurt þegar hann sér gömlu kommana marsera í friðargöngum og stofna mannréttindaskrifstofur. Mörður er svolítið spældur og telur að hann eigi frekar heima í hópi stjörnulögmanna en nýútskrifaðar unglingsstúlkur og gamlir þéttholda Heimdellingar, og það án þess að þurfa að breyta nokkru í störfum sínum. Vinurinn laumaði þá að Merði að unglingstúlkurnar væru þó alltént sætar og gömlu Heimdellingarnir ættu það til að vera skemmtilegir og fyndnir en hvorugt væri nú áberandi í fari Marðar. Blaðamenn hefðu engan áhuga á leiðinlegu og ólögulegu fólki, jafnvel þótt óvart næðist sýkna í stóra, stærsta eða langstærsta fíkiefnamálinu eða hvað þau heita öll þessi mál. Verjandi þarf að hafa „fjölmiðlaþokka“ eins og vinur Marðar orðaði það. Minnti þetta Mörð á þegar hann ætlaði í framboð á yngri árum og var ráðlagt frá því þar sem hann hefði ekki kjörþokka, sem var talið skipta máli þó svo um væri að ræða prófkjör í Framsóknarflokknum. Eftir þetta komment vinarins og nokkra umhugsun ákvað Mörður að gefa upp á bátinn tilraunir til að komast í hóp stjörnulögmanna. Mörður lét þó af því verða að kaupa sér eyrna- og nefháraklippur enda eiginkonan búin að nöldra árum saman yfir nefhárunum sem náðu sum hver niður fyrir efri vör. Mörður neitaði hins vegar að breyta fatastílnum og ætlar áfram að vera í sínum flauelsbuxum, þunnu ullarpeysunni með V hálsmálinu og snjáðum ullarjakka. Skiptir þá engu hvort er sumar eða vetur. Gráu jakkafötin með vínrauða bindinu yrðu svo notuð í Hæstarétti og á árshátíð lögmanna. L Ö G M A N N A B L A Ð I Ð

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.