Lögmannablaðið - 01.03.2010, Blaðsíða 28

Lögmannablaðið - 01.03.2010, Blaðsíða 28
28 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 1 / 2010 Samkvæmt núgildandi lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er gert ráð fyrir að leikmenn, þ.e. aðrir en löglærðir menn, geti komið að úrlausn sakamála með tvennum hætti. Í fyrsta lagi sem sérfróðir meðdómendur ef deilt er um staðreyndir og þörf er á sérkunnáttu í dómi, annarri en lagaþekkingu, til að leysa úr málinu, sbr. 3. og 5. mgr. 3. gr. laganna. Í öðru lagi sem dómkvaddir matsmenn ef leggja þarf sérfræðilegt mat á eitthvert atriði, sem þýðingu kann að hafa fyrir úrslit málsins, sbr. 1. mgr. 128. gr. laganna. Slíkir sérfróðir mats­ menn koma ekki að úrlausn máls með beinum hætti, eins og sérfróðir meðdómendur, vegna þess að dómurum, þ. á m. þeim sem ráða yfir annars konar sérfræðiþekkingu en lögfræðilegri, er ætlað að leggja mat á sönnunargildi matsgerða, sbr. 2. mgr. 133. gr. laganna. Kviðdómar Þetta eru undantekningar frá þeirri meginreglu, sem nú ríkir hér á landi, að löglærðir dómarar skuli einir leysa úr sakamálum, þá jafnt lagaatriðum sem sönnunaratriðum. Þessi skipan er þó alls ekki sjálfsögð vegna þess að víða erlendis, þ. á m. í mörgum af okkar nágrannalöndum, tíðkast það að leikmenn taki virkan þátt í úrlausn sakamála, ýmist sem kviðdómendur eða meðdómendur. Munurinn á þessum tvenns konar dómendum er sá að kviðdómendur leysa einir og sér úr tilteknum álitaefnum, sem oftast nær lúta að sönnunaratriðum, meðan meðdómendur sitja í dómi og leysa úr málinu í heild, ásamt löglærðum dómurum. Síðarnefnda skipanin tíðkast t.d. í ríkum mæli í Noregi, þar sem meðdómendur koma gjarnan úr röðum almennra borgara án sérþekkingar á tilteknum sviðum. Þar í landi þekkist einnig að kviðdómendur komi að úrlausn alvarlegustu sakamála, svo sem manndrápsmála. Þótt kviðdómar séu ekki eins algengir og áður var standa þeir enn traustum fótum víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum, þar sem mælt er svo fyrir í bandarísku stjórnarskránni að kviðdómendur skuli koma að úrlausn sakamála. Hlutverk kviðdóma og reglur um skipun þeirra og starfshætti eru mismunandi frá einu landi til annars, meira að segja frá einu ríki Banda- ríkjanna til annars. Meginreglan er þó sú að kviðdómendur, sem kvaddir eru til eftir að ákæra hefur verið gefin út í sakamáli, eiga að taka afstöðu til þess hvort ákærði sé sekur eða sýkn saka („guilty or not guilty“) á grundvelli þeirra sönnunargagna sem fram hafa verið færð í málinu. Löglærður dómari, sem stýrir þinghaldinu og veitir kviðdómendum lögfræðilegar leið- beiningar, tekur síðan ákvörðun um refsingu ákærða ef hann hefur verið fundinn sekur af kviðdóminum. Kostir og gallar kviðdóma Hér á landi er það útbreidd skoðun, að minnsta kosti meðal lögfræðinga, að ekki sé æskilegt að leikmenn komi að úrlausn sakamála, ef frá eru taldir sérfróðir meðdómendur og matsmenn. Hafa ýmis rök verið færð gegn því að taka upp kviðdóma á ný, en þeir þekktust sem kunnugt er hér á landi á þjóðveldisöld, t.d. búakviður, sem skipaður var nágrönnum sakbornings og var m.a. ætlað að láta í ljós álit á því hvort hann væri líklegur til að hafa framið brotið, sem honum var gefið að sök, vegna þess hvern mann hann hefði að geyma. Það sem helst hefur verið fundið kviðdómum til foráttu er að tiltölulega auðvelt sé að hafa áhrif á kviðdómendurna, ekki síst fyrir reynda málafærslumenn, þannig að hættara væri við því en ella að úrslit máls yrðu efnislega röng. Fleiri rök mætti að sjálfsögðu nefna, sem mæla á móti þessari skipan, svo sem þau að máls- meðferð yrði þyngri í vöfum og kostnaður við hana meiri. Aðsent efni Eiríkur Tómasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands Aðkoma leikmanna að úrlausn sakamála

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.