Lögmannablaðið - 01.03.2015, Blaðsíða 30

Lögmannablaðið - 01.03.2015, Blaðsíða 30
30 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/15 AÐSENT EFNI BOGI NILSSON HRL. Ákæruvaldið og „lekamál“ Í ÁLITI UMBOÐSMANNS Alþingis í máli nr. 8122/2014, sem kallað hefur verið „lekamálið“, er m.a. fjallað um stjórn eða ábyrgð á rannsóknum sakamála. Þá er í fylgiskjali nr. 7 með álitinu vikið að fyrirkomulaginu í þessum efnum í nágrannaríkjum okkar, einkum í Danmörku og Noregi. Ýmislegt í skrifum umboðsmanns um þátt ákæruvaldsins í rannsóknum sakamála þykir mér athugavert og jafnvel villandi. Af þessu tilefni mun ég hér á eftir, í eins knöppu máli og unnt er, víkja að ákæruvaldinu og rannsóknum sakamála í sögulegu samhengi (1), eftirliti ráðherra með framkvæmd ákæruvalds (2), fyrirkomulaginu í nágrannaríkjum (3) og loks hugsanlegu vanhæfi viðkomandi lögreglustjóra í „lekamálinu“ (4) 1. Ákæruvald og rannsókn sakamála Heildstæð lög um meðferð opinberra mála voru fyrst sett á árinu 1951, þ.e. lög nr. 27/1951. Dómsmálaráðherra var þá, eins og verið hafði um árabil, æðsti handhafi ákæruvalds og því hlutverki hans lýst í 20. gr. laganna þannig: „Dómsmálaráðherra fer með ákæruvaldið, sbr. þó 112. - 114. gr. Hann fyrirskipar rannsókn opinbers máls og hefur yfirstjórn hennar með þeim takmörkunum, er í lögum þessum greinir. Hann kveður á um höfðun og áfrýjun opinbers máls samkvæmt lögum þessum.“ Eftir að embætti ríkissaksóknara (saksóknara ríkisins) tók til starfa eða frá 1. júlí 1962 og allt þar til lög nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála tóku gildi var hlutverki ríkissaksóknara lýst með þessum orðum: „Ríkissaksóknari skal hafa gætur á afbrotum, sem framin eru. Hann kveður á um rannsókn opinberra mála og hefur yfirstjórn hennar og eftirlit. (Undirstrikun mín) Getur hann gefið lögreglumönnum fyrirmæli og leiðbeiningar um framkvæmd rannsóknar og verið við hana staddur eða látið fulltrúa sinn vera það. Hann höfðar opinbert mál, sbr. þó 112.-114. gr. tekur ákvörðun um áfrýjun þeirra og gegnir að öðru leyti þeim störfum, sem honum eru falin í lögum.“ Ákvæði þetta var síðast í 21. gr. laga nr. 74/1974. Hlutverki ákæruvaldsins var ekki lýst með sama hætti í nýjum lögum sem sett voru um meðferð opinberra mála, þ.e. lögum nr. 19/1991, en hvergi kemur fram að hlutverki ákæruvaldsins hafi verið breytt með þeim lögum þótt skipan ákæruvaldsins hafi tekið nokkrum breytingum frá því sem verið hafði. Í áliti umboðsmanns Alþingis, Gauks Jörundssonar, frá 14. maí 1998 segir: „Samkvæmt 5. mgr. 27. gr., 2. mgr. 66. gr. og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum, getur ríkissaksóknari kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni. Þá er það ennfremur á hans valdi að taka „fullnaðarákvörðun um hvort rannsókn skuli fara fram eða ekki”, sbr. 2. mgr. 76. gr. laganna. Er ljóst af þessum og öðrum ákvæðum laga nr. 19/1991, að það er ríkissaksóknari, sem fer með æðsta vald hér á landi við rannsókn opinberra mála.“ (Undirstrikun mín) Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 19/1991 var það tilgreint sem eitt af megin markmiðum þeirra að skilja til fulls á milli ákæruvalds og lögreglu annars vegar og dómsvalds hins vegar. Tekið var fram að rannsókn mála yrði að öllu leyti í höndum ákæruvalds og lögreglu og dómari ætti aldrei frumkvæði að né stýrði rannsókn svo sem verið hafði, einkum fyrir 1976. Ákvæði í 66. gr. laganna, sem er undanfari 52. gr. núgildandi laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og sem umboðsmaður Alþingis leggur talsvert mikla áherslu á í áliti sínu, er staðfesting á þeirri fyrirætlan löggjafans að afnema dómsrannsóknir. Rannsókn sakamála, þ.e. framkvæmd rannsóknar svo sem yfirheyrsla sakborninga og vitna, skal vera í höndum lögreglu nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum. Eftir sem áður fer ákæruvaldið með æðsta vald við rannsóknirnar. Ákvæði gildandi laga um meðferð sakamála, sem m.a. var ætlað að styrkja stöðu og efla sjálfstæði ákæruvaldsins, hafa ekki dregið úr þessu hlutverki ákæruvaldsins. Lögreglustjóri er meðal ákærenda og sinni hann rannsókn sakamáls er þetta hlutverk hans, hlutverk ákærandans, í forgrunni eins og staðfest var í dómi Hæstaréttar í máli nr. 248/2006 sem umboðsmaður Alþingis vísar til í áliti sínu. Í því hlutverki heyrir lögreglustjórinn ekki undir ráðherra eða ríkislögreglustjóra heldur ríkissaksóknara sem fer með æðsta vald við rannsókn sakamála. 2. Eftirlit ráðherra Samkvæmt 19. gr. laga um meðferð sakamála hefur innanríkisráðherra eftirlit með framkvæmd ákæruvalds. Vilji hann fá upplýsingar um meðferð einstaks máls getur hann krafist þess að ríkissaksóknari láti í té gögn og greinargerð um það. Ráðherra á því ekki að leita til einstakra ákærenda með slíkt erindi. Hann er alls ekki yfirstjórnandi ákæruvaldsins og hann hefur hvorki vald til afskipta af verkum ákærenda í einstökum málum né til að breyta ákvörðunum þeirra. Áþekkar reglur ættu, að mínum dómi, að gilda í samskiptum ráðherra og ráðuneytis við einstaka lögreglustjóra. Tæpast eru það góðir stjórnsýsluhættir að ráðherra sniðgangi ríkislögreglustjórann, umboðsmann sinn í löggæslumálum,

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.