Skólavarðan - 01.05.2008, Blaðsíða 11

Skólavarðan - 01.05.2008, Blaðsíða 11
þING Kí 11 SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 8. ÁRG. 2008 Einn af fulltrúum á nýafstöðnu þingi Kennara- sambands Íslands var Hörður Zóphanías- son fyrrverandi skólastjóri Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Hörður var tekinn tali og fyrst spurður að því af hverju hann væri fulltrúi á Kennarasambandsþinginu þar sem hann væri löngu hættur kennslu og skólastjórn. „Ég er varaformaður í Félagi kennara á eftir- launum og var einn af fjórum fulltrúum þess félags á þinginu.“ Þetta er áreiðanlega ekki fyrsta kennaraþingið sem þú situr, eða hvað? „Nei, þau eru orðin nokkuð mörg kennara- þingin mín. Ég hef ekki tölu á þeim. Ég byrjaði að kenna norður á Hjalteyri við Eyja- fjörð haustið 1954 og fljótlega upp úr því sat ég mitt fyrsta kennaraþing. Allar götur síðan hef ég öðru hvoru átt sæti á kennaraþingum en ég held að ég hafi aldrei setið þau eins illa og þetta þing nú.“ Hvernig stóð á því, eru það kannski ellimörk? „Það má vel vera, en fleiri ástæður komu til. Ég þurfti að fylgja tveimur vinum til grafar þessa daga. Hækkandi aldri fylgja fleiri jarðarfarir. Svo hefi ég séð um bókmennta- hóp innan Félags kennara á eftirlaunum í nokkur ár og einn þingdaginn var síðasti fundur okkar í vetur og ég varð að sinna mínum skyldum þar. Þá voru saman komnir í Kennarahúsinu tuttugu kennarar á eftir- launum ásamt Nirði P. Njarðvík sem las úr ljóðum sínum og sagði okkur frá SPES- samtökunum, en það eru samtök sem taka að sér munaðarlaus börn í Afríku og veita þeim kennslu í skóla sem þau reka, sjá þeim fyrir menntun allt til18 ára aldurs. Það er mjög áhugaverð og þörf starfsemi. Njörður hafði áhugasama áheyrendur bæði þegar hann las upp ljóð sín og er hann sagði okkur frá tilurð og starfi SPES-samtakanna.“ Með aukinni tækni kemst boðskapur þing- anna betur til skila Þegar þú horfir um öxl, Hörður, til allra þessara kennarþingaa sem þú hefur setið, finnst þér þau hafa breyst mikið? „Ekki hvað kjarnann snertir. Áhuginn á starfinu, viljinn til að gera skólastarfið sem best úr garði og sárindi vegna gildismats samfélagsins á því menntunar- og upp- eldisstarfi sem verið er að vinna í skólunum og birtist glöggt í lélegum launakjörum, þetta allt hefur gengið eins og rauður þráð- ur í gegnum kennaraþingin sem ég hefi tekið þátt í. En með vaxandi tækni og síaukinni reynslu hafa starfshættir þinganna nokkuð breyst. Menn flytja nú mál sitt með aðstoð góðra hjálpartækja og boðskapur þeirra kemst betur til skila með þeim hætti.“ Hvað segir þú um þetta þing nú? „Það var vel skipulagt og til sóma fyrir okkur öll. Þar voru flutt góð og áhugavekjandi ávörp og framsögur, störf í nefndum og mál-stofum tryggðu að flestir þingfulltrúa tóku virkan þátt í því sem var að gerast, því að alls staðar voru mikilvæg og brennandi mál til umræðu. Þetta var lifandi þing þar sem fram fór lýðræðisleg umfjöllun sem var í senn vekjandi og gefandi.“ Framtíðin þarfnast gróskumikils og leit- andi skólastarfs Hvað viltu nefna af því sem þú heyrðir og sást á þinginu? „Strax í upphafi þingsins í ávarpi mennta- málaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnars- dóttur, og í máli Þorvaldar prófessors Gylfa- sonar, kom fjölmargt athyglisvert fram sem kannski skildi eftir fleiri spurningar en svör um framtíð íslenskra skólamála. Þetta var vakandi fólk sem talaði með áhuga og af krafti og kunnáttu um málefni sem því var sýnilega hugleikið. Það var notalegt að heyra menntamálaráðherrann tala máli bættra launakjara kennurum til handa. Og það var spennandi að fá álit hennar á þeim viðfangsefnum sem bíða okkar, þótt ekki væri ég henni sammála um sumt. En áhugi hennar til að gera vel leyndi sér ekki. Þorvaldur Gylfason flutti afburða greinar- gott erindi. Hann var ómyrkur í máli og skoðunum. Hann talaði meðal annars um að það þyrfti að markaðsvæða skólastarfið. Mér fannst margt af því sem hann sagði um það athyglisvert en sumt varasamt í okkar græðgisvædda þjóðfélagi. Frá einu má aldrei hvika. Það er jafnrétti til náms, að menntunin verði aldrei forréttindi hinna ríku. Það vildi Þorvaldur tryggja með löggjöf um almannatryggingar. Að mínu mati verður sú löggjöf að liggja fyrir áður en gefið er grænt ljós á að markaðsvæða skólakerfið. Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í. Lifandi, gróskumikið og leitandi skóla- starf, framsækið og frjálshuga, sem tekur mið af lýðræði og mannhelgi, er það sem fram- tíðin þarfnast,“ sagði Hörður Zóphaníasson, sem líklega hefur setið fleiri kennaraþing en aðrir þingfulltrúar á þessu 4. þingi Kennara- sambands Íslands. Geir Guðsteinsson. Mér fannst margt af því sem hann sagði um það athyglisvert en sumt varasamt í okkar græðgisvædda þjóðfélagi. Frá einu má aldrei hvika. Það er jafnrétti til náms, að menntunin verði aldrei forréttindi hinna ríku. segir Hörður Zóphaníasson, fyrrverandi kennari og skólastjóri „Aldrei má hvika frá jafnrétti til náms“ Hörður Zóphaníasson

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.