Skólavarðan


Skólavarðan - 01.12.2015, Blaðsíða 22

Skólavarðan - 01.12.2015, Blaðsíða 22
22 DESEMBER 2015 KRAKKAR BESTIR Í AÐ TOGA AÐRA KRAKKA AÐ LESTRI Hvetja þarf krakka til að lesa bækur og kveikja þarf áhugann snemma á lífsleiðinni. Þetta er meðal markmiða Barnabókaseturs Íslands þar sem Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur stendur við stýrið. Barnabókasetur efnir til Siljunnar, myndbandakeppni um bækur, í öllum grunnskólum landsins í vetur. „Við getum fengið börn til að lesa og það er hægt að vekja lestraráhugann en það kostar tíma, fé og fyrirhöfn,“ segir Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri. Brynhildur er líka ein þeirra sem leiða starf Barnabókaseturs Íslands sem er staðsett á Akureyri. „Barnabókasetrið var stofnað árið 2012 í kjölfar mikillar umræðu um minnkandi lestur barna og unglinga. Þá tóku Háskólinn á Akureyri, Amtsbókasafnið og Minjasafnið á Akureyri sig saman ásamt Rithöfunda- sambandinu, Síung, Ibby og Félagi fagfólks á skólabókasöfnum og bjuggu til batterí sem ætlað er að vinna að rannsóknum á barna- bókum og lestri barna, en fyrst og fremst að hvatningu til lestrar,“ segir Brynhildur. Forvígismenn Barnabókasetursins hafa að sögn Brynhildar ekki setið auðum höndum; efnt hefur verið til málþinga, haldnar ráðstefnur og upplestrarstundir fyrir fjölskyldur. „Við höfum líka unnið að varanlegum verkefnum og má þar t.d. nefna „járnbækurnar“ sem er að finna hér í miðbæ Akureyrar. Hátt í þrjátíu barnabækur prýða ljósastaura þannig að hægt er að lesa eina opnu úr hverri bók. Bækurnar eru frá ýms- um tímabilum, eftir konur og karla, sumar þekktar og aðrar ekki. Með þessu viljum við hvetja fjölskyldur til að sameina útivist og lestur með nýstárlegum hætti. Þetta hefur virkað alveg þrælvel,“ segir Brynhildur. Barnabókasetur hefur líka staðið fyrir farandsýningu sem ætlað er að kveikja áhuga foreldra á að lesa barnabækur, rifja upp sínar uppáhaldsbækur úr æsku og búa til notalega lestrarstemningu heima fyrir. „Lestraráhuginn byrjar heima og sýningunni er ætlað að styðja við það. Það er gaman að segja frá því að þegar sýningin var fyrst sett upp í Amtsbókasafninu þá fann starfs- fólkið þar áþreifanlega fyrir meiri aðsókn í barnadeildina. Fólk var að koma með barnabörnin og við náðum að brúa kyn- slóðabilið svolítið. Ég held að þetta sé leiðin að börnunum; jákvæð nálgun í gegnum foreldra og vini í stað þess að hvatning til lestrar komi alltaf ofan frá. Lesturinn á ekki að vera „bara“ verkefni skólanna heldur er ákjósanlegt að við vekjum upp lestrargleði með samverustundum fjölskyldunnar. Það má segja að við séum að rífa lesturinn út úr því sem þú gerir einn úti í horni, lestur er ekki endilega einkamál. Við getum setið saman og lesið með börnunum, farið út að lesa eða talað saman um bækur.“ Krakkar vilja umræður um bækur Brynhildur segir þá sem hafa stundað rannsóknir á barnabókum og lestrarvenjum barna hafa komist að því að íslenskir krakkar séu ekki mjög góðir þegar kemur að því að tala um það sem þeir lesa. Brynhildur Þórarinsdóttir leiðir starf Barnabókasetursins á Akureyri auk þess að kenna í kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur getið sér gott orð sem barnabókahöf- undur og hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2007 fyrir bækurnar Njálu, Eglu og Laxdælu. Þá fékk hún Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2004 fyrir Leyndardóm ljónsins.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.