Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 41

Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 41
Litli-Bergþór 41 Um síðustu áramót bárust þær fréttir að bændurnir í Skálholti, þau Guttormur og Signý, hefðu sagt upp ábúð sinni á Skálholtsjörðinni frá og með næstu fardögum, þ.e. frá mánaðamótum maí-júní 2014. Ábúendaskipti á hinum fornfræga stað, Skálholti, hljóta alltaf að skipta máli í okkar litla samfélagi, og því er blaðamaður Litla-Bergþórs mættur í Skálholt á mildu aprílkvöldi til að ræða við þau hjón um þessi tímamót í lífi þeirra, þeirra sýn á búskapinn í Skálholti og hvað sé framundan. Í Litla-Bergþóri hefur áður birst viðtal við Guttorm, þar sem hann segir frá bakgrunni þeirra hjóna og lífinu í Skálholti til ársins 2009. Þökk sé Ungmennafélagi Biskupstungna, að nú sé hægt að nálgast allt efni Litla-Bergþórs, tveggja ára og eldra, á netinu inn á vefslóðinni timarit.is. Ef menn vilja lesa skemmtilegt viðtal Svövu Theodórsdóttur við Guttorm frá árinu 2009 (2. tbl.), er hægt að slá inn t.d. „Guttormur og Signý Skálholti“ í leitarstikuna og þá kemur m.a. upp þessi grein. En fyrir þá lesendur, sem ekki hafa tök á að fletta í blöðum á netinu, eða eiga ekki þetta eintak af Litla- Bergþóri í bókahillunni, er bakgrunnur þeirra í stuttu máli sá, að Guttormur Bjarnason er fæddur 1959 á Stöðulfelli í Gnúpverjahreppi og ólst þar upp, sonur hjónanna þar, Bjarna Gíslasonar og Bryndísar Eiríksdóttur. Kona hans, Signý Berglind Guðmundsdóttir er fædd í Reykjavík 1961 og uppalin þar, dóttir Guðmundar Magnússonar, bifvélavirkja og Evu Maríu Jost Magnússon konu hans. Í Skálholt komu þau á fardögum 1993, tóku við ábúð Skálholtsjarðarinnar af Birni Erlendssyni frá Vatnsleysu og Maríu Eiríksdóttur frá Sandlækjarkoti, og eru þau því búin að búa 21 ár í Skálholti í vor. Dætur þeirra eru þrjár, Droplaug f. 1986, Alexandra f. 1989 og Margrét f. 1996. -- Þegar blaðamann Litla-Berþórs ber að garði í Skálholti eru húsbændur nýkomnir úr fjósi og bjóða gesti í bæinn. Í eldhúsinu er kyrrð og friður, dúkkukarfa stendur á miðju gólfi og í honum malar læða með lítinn kettling, kvöldmaturinn er í ofninum. Blaðamanni verður fyrst fyrir að spyrja hve stórt búið sé og hvernig dagurinn gangi fyrir sig í Skálholti: Guttormur: Við höfum verið með um 120 þúsund lítra framleiðslurétt síðustu 10 árin og oft verið að framleiða 10 til 15 þúsund lítra fram yfir. Þar af er kvóti Skálholts um 71 þúsund lítrar. Kýrnar hafa verið í kringum 24, en það eru 28 básar í fjósinu. Auk þess vorum við með 10-12 kindur til heimilisins þar til skorið var niður vegna riðunnar í miðsveitinni árið 2003. Við höfum líka haft gaman af því að rækta upp reiðhesta til nota fyrir fjölskylduna og gert eitthvað af því að ríða út, allavega eru árlegir reiðtúrar í réttirnar, Skaftholtsréttir og Tungnaréttir. Ef spurt er um fjölda hrossa, dettur mér í hug saga sem ég heyrði hafða eftir manni sem var í heimsókn hjá Sveini Guðmundssyni á Sauðárkróki. Honum þótti mikið til um hrossafjöldann þar og spurði Svein hvort hann ætti öll þessi hross. „Nei blessaður vertu, þetta er mest frá öðrum“, sagði Sveinn þá. Ætli það sé ekki eitthvað svipað hjá okkur. Þegar við fluttum í Skálholt var búið að gera skógræktarsamning milli Björns Erlendssonar og Skógræktar ríkisins og planta í skákina fyrir neðan Sumarbúðirnar. Eftir að við komum var ákveðið að taka til skógræktar rúmlega 100 ha fyrir norðan þjóðveginn, að mörkum Hrosshaga og Spóastaða. Var það land girt og plantað í það á árunum 1993 til 2000, lerki að stærstum hluta ásamt furu og greni, sem hefur lifað betur. Þau kvæmi sem Skógræktin útvegaði á þeim tíma reyndust heldur illa og lifun hefur ekki verið sem skyldi. Reynsla og kunnátta var heldur ekki til staðar á þeim tíma, það var verið að planta út á þurrasta tíma á sumrin, í stað þess að planta fyrr á vorin eða á haustin. Eftir árið 2000 hefur ekki verið plantað, bæði vegna vonbrigða með árangurinn og tímaleysis. Viðtal: Geirþrúður Sighvatsdóttir Ábúendaskipti á Skálholtsbýlinu Viðtal við Signýju og Guttorm í Skálholti Signý og Guttormur á góðri stund.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.