Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 17

Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 17
Litli-Bergþór 17 Geirþrúður Sighvatsdóttir Meðfram Hlíðunum efst í Biskupstungum liggur vegurinn frá Þingvöllum og Laugarvatni að Geysi og Gullfossi, fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins, auk þess sem hann þjónar fjölmennum sumar- bústaðabyggðum og heimafólki. Það eru ekki nema um 50 ár síðan þetta svæði var eitt af afskekktustu stöðum sunnanlands. Gott vegasamband komst ekki á með Hlíðunum fyrr en 1961 og rafmagn var lagt að þessum bæjum 1968. Nú er árið 2015, og enn er þetta svæði á eftir í þjónustu við íbúana. Án öruggs netsambands, sem er forsenda þess að hér sé hægt að búa við nútíma tölvuþjónustu. Hér er enginn ljósleiðari, bara ótryggt loftnetssamband, sem dettur út í tíma og ótíma. Þó eru hér stór ferðaþjónustufyrirtæki: Gullfoss, Geysir, Úthlíð og Efstidalur. Hér eru útgáfufyrirtæki, verktakar, bændur, sumarbústaðabyggðir o.s.frv. Það er ætlast til þess að notuð séu „online“ forrit við flesta atvinnustarfsemi og allir vilja geta notað netbanka, tölvupóst svo ekki sé minnst á facebook, hlaða niður bíómyndum, tónlist o.s.frv. En netöryggi er mjög takmarkað og veldur pirringi og gráum hárum. Stutt rannsókn á nettengingu bæja með Hlíðum og upp að Geysi, gerð í apríl 2015, leiddi í ljós að flestir eru tengdir Gagnaveitu Suðurlands, TRS, með loftnetssambandi frá Torfastaðaheiði. Þeir kvörtuðu allir undan tímabilum með lélegu eða óstöðugu sambandi, þó oftast væri þokkalegt samband. Ekki væri þó hægt að reiða sig á sambandið, sem er sérstaklega bagalegt fyrir útgáfu- og ferðaþjónustufyrirtækin. Úthlíðartorfan er reyndar tengd við gagnaveitu Ábótans, sem líka er með loftnetssamband frá Torfastaðaheiði og hafa þeir verið þokkalega ánægðir með þjónustuna síðan í fyrrahaust. Aðrir bæir eru með „punga“ frá Nova, Vodafone eða Símanum og höfðu þeir sömu sögu að segja. Sambandið mjög misjafnt, datt oft út. Það mun vera 3G sendir í Úthlíð og 4G á Seyðishólum, en þeir detta út til skiptis, og á „facebooktíma“ á kvöldin hefur oft ekkert samband verið í vetur. Það er kominn ljósleiðari í Reykholt og á Laugarvatn og einnig liggur ljósleiðari í stöð í Laugarási. Njóta því íbúar þessara þéttbýliskjarna háhraða ljósnetstengingar. Ljósnetið nýtir koparþræðina frá símstöð og nær háhraðatengingu í ákveðna fjarlægð frá símstöðinni. Þeir sem eru utan þessa radíuss verða að gera sér að góðu hið stopula loftnetssamband sem lýst er hér að ofan. Að sögn Valtýs, sveitarstjóra Bláskógabyggðar, hefur ekki verið hægt að fá einstaka bæi tengda við núverandi ljósleiðaraburðarvirki Mílu. Slík tenging kostar töluvert og viðkomandi notandi þyrfti að borga brúsann. Staðfesting fékkst frá Mílu um að ekki væri á áætlun þeirra að leggja ljósleiðara í efri byggðir Biskupstungna, þar sem sú tækni væri aðeins möguleg í þéttari byggð. Þetta er ástæðan fyrir því að sveitafélög eru nú að skoða aðra möguleika á lagningu dreifikerfis í ljósleiðara. Samkvæmt upplýsingum frá Valtý, er einnig vinnuhópur að störfum á vegum ríkisstjórnarinnar, sem á að gera tillögur um ljósleiðaravæðingu landsbyggðarinnar. Megi gott á vita. Krafa okkar er að allir bæir í sveitinni verði tengdir við ljósleiðara. Og það má ekki koma fyrir að ljósleiðari sé lagður um sveitir landsins án þess að gert sé ráð fyrir tengingu að bæjum á leið hans. Það er mannréttindamál. Íbúar í Bláskógabyggð, stöndum saman um kröf- una um ljósleiðara fyrir öll heimili. Ef engin pressa kemur frá okkur íbúunum gerist ekkert. Gerum Bláskógabyggð að ákjósanlegri stað að búa á! Facebook Ritstjórn vill benda lesendum Litla-Bergþórs á Facebook síðu blaðsins. Gaman væri ef fólk rifjaði upp gamlar sögur úr sveitinni - setti inn gamlar (og nýjar) myndir með skýringum á við hvaða tilefni þær eru teknar og hverjir eru á þeim. Kannski verður til grein í Litla-Bergþóri úr svona innleggi á síðuna. Kveðja, ritstjórn Litla-Bergþórs. Lítill pungur – lítið samband? Úttekt á netsambandi með Hlíðum 2015

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.