Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 28

Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 28
28 Litli-Bergþór Það var haustið 1972 sem ég man að Loftur S. Loftsson kom í Reykholtsskóla og bauð þeim sem áhuga hefðu, að læra á píanó eða blokkflautu. Þetta er einn af þessum eftirminnilegu dögum í skólanum. Loftur mætti í hjólastól og talaði um tónlistarnám. Ég fór heim og sagði mömmu frá þessu og að sjálfsögðu áttum við systur, Ingunn og ég, að læra á hljóðfæri. Næstu árin skruppum við úr kennslustundum í grunnskólanum einu sinni í viku, renndum okkur niður brekkuna á klaka eða blautu grasi, yfir príluna á girðingunni og niður í Aratungu í píanótíma til Lofts. Loftur hóf kennslu við Tónlistarskóla Árnesinga árið 1969 og var lengst af eini tónlistarkennarinn í Reykholti auk mömmu, Margrétar Grünhagen á Miðhúsum, sem kenndi stundakennslu á blokkflautu af og til á árunum 1973 - 1983. Kennslan fór fram í Aratungu eins og lengst af síðan. Þar sem Loftur var bundinn við hjólastól og lítt farið að huga að aðgengismálum fatlaðra, fór kennslan oft fram í fatahengi félagsheimilisins. Þó man ég líka eftir tímum uppi á sviðinu. Hef ég oft í seinni tíð dáðst að þrautseigju Lofts við að kenna við erfiðar aðstæður og vonlaust aðgengi auk þess að keyra um sveitavegina í öllum veðrum (löngu fyrir tíma malbiks og farsímanna). Ég lærði á píanó í tvö ár, en færði mig svo yfir á blokkflautu (flestir taka þetta í annari röð J). Mér fannst óþarfi að fylgja í fótspor Hjálms bróður sem var langt kominn í píanónámi og valdi því hitt hljóðfærið sem bauðst. Loftur spilaði með mér í gegnum heilu sónöturnar eftir barokktónskáldin Händel, Telmann, Corelli, Barsanti og fleiri, og nútímatónlist á milli. Hátindi frægðarinnar á grunnskólaárunum náði ég þegar við Harpa Hreinsdóttir frá Laugarvatni spiluðum saman sónötu eftir Händel fyrir blokkflautu og píanó í Selfossbíói. Leiðin lá í Menntaskólann að Laugarvatni og skrapp ég þá af og til í blokkflaututíma til Sigríðar Pálmadóttur sem kenndi við Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Árið 1980 fluttist svo Camilla Söderberg blokkflautuleikari til landsins og hóf kennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík. Það sama haust flutti ég til Reykjavíkur og hóf blokkflautunám hjá henni sem lauk með blokkflautukennaraprófi vorið 1986. Ég kenndi í Reykjavík (og eitt ár á Húsavík) næstu ár á eftir, en flutti 1995 á Selfoss og var ég þá aftur komin í Tónlistarskóla Árnesinga, nú sem kennari. Fyrsti nemandi minn á Selfossi var Tungnadaman Svanhildur Lilja Ingólfsdóttir úr Laugarási og síðan hafa fleiri fylgt í kjölfarið. Með þessum góðu nemendum hef ég fengið af og til tækifæri til að leika í Tungunum, s.s. fyrir eldri borgara í Reykholti og á tónleikum og skólaslitum tónlistarskólans. Árið 2000 var ég fengin til að taka að mér að vera aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga og er það þriðja aðkoma mín að tónlistarskólanum. Og nú tekur aðstoðarskólastjórinn við frásögninni. Frá þeim tíma sem ég var nemandi við skólann hefur mikið vatn runnið til sjávar og nýir kennarar komið að tónlistarkennslu í Reykholti. Tónlistarskólinn og Tungurnar Helga Sighvatsdóttir segir frá tengslum sínum við Tónlistarskóla Árnesinga. Sunneva Kristin Nilsdóttir, Kjartan Helgason, Ragnar Dagur Hjaltason og Loftur Erlingsson kennari. Systurnar Freyja Hrönn og Freydís Halla.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.