Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 31

Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 31
Litli-Bergþór 31 Ketilbjörn ehf. Vinnuvélaverktaki Syðri-Reykjum Grímur Þór - Sími 892 3444 Þann 13. desember 1962 fóru til rjúpnaveiða í Haukadal þeir Marteinn Björnsson byggingafulltrúi og Hinrik Guðmundsson Dipl. Ing. (Gaf út bókina Áfengir drykkir 1953). Fóru þeir um morguninn í Haukadalsskóg. Fallegt veður var en fór að élja eftir hádegið og snjóaði töluvert síðdegis og um nóttina. Marteinn kom til baka um kvöldið en Hinrik skilaði sér ekki til byggða. Bar eftirgrennslan ekki árangur um kvöldið og um nóttina og því var ákveðin leit um morguninn 14. desember. Þá var kominn snjór 30-40 sm og talsvert frost með hrímþoku, sem lá yfir leitarsvæðinu fram yfir hádegi. Um morguninn komu tvær þyrlur frá Varnarliðinu í Keflavík til leitar, en þær komu ekki að notum vegna hrímþokunnar og máttu ekki vera nema takmarkaðan tíma í burtu. Um morguninn var einnig smalað saman leitarmönnum úr sveitinni og fór ég með séra Guðmundi Óla presti á Torfastöðum. Komum við í Haukadal rétt fyrir hádegi og var strax skipað til leitar ásamt fleirum. Lenti ég með Kristni í Austurhlíð og Hárlaugi í Hlíðartúni og áttum við að fara inn fyrir skóginn. Við vorum allir ungir þá, ég tuttugu og sex ára og þeir dálítið eldri og við óþreyttir. Göngufæri var frekar þungt og snór jafnfallinn allt að hné dýpt. Kristinn var þaulkunnugur, gamall vinnumaður Sigurðar í Haukadal. Um miðjan dag vorum við komnir inná há heiðina og höfðum nokkuð gott útsýni til norðurs og austurs, enda orðið bjart og þokulaust. Settum við okkur niður smá stund og horfðum vel í kring um okkur. Sáum við þá allt í einu allir smá dökkan blett hreyfast lengst í austurátt, eða inná „Skerslum“ að sögn Kristins. Fórum við allir innar svo við værum vissir að þetta væri maðurinn. Þá komum við okkur upp merkjakerfi og fór ég ekki innar heldur beið eftir upplýsingum um ástand mannsins og hvað þyrfti af búnaði til bjargar honum. Samkvæmt þessum merkjum þeirra töldu þeir að þyrfti börur. Sneri ég því við og flýtti mér sem ég gat niður undir kirkju, þar sem leitarbækistöðin var. Þar var hópur manna ásamt tveim lögreglumönnum með börur. Tókum við traustataki rússajeppa frá Galtalæk, sem Jónatan kom á í leitina og settum Greip Sigurðsson undir stýri, enda rataði hann best brautina. Fórum við á bílnum eins langt og við komumst, geng- um síðan á móti Kristni og félögum með körfuna drjúgan spöl. Komið var myrkur og Hinrik orðinn kaldur og rammvilltur þegar hann fannst, en þó göngufær með aðstoð bræðranna. Var hann borinn góðan spöl að bílnum. Allir voru komnir að hótelinu um sjöleytið um kvöldið, ánægðir með árangur dagsins. Þegar þeir hittust félagarnir, Marteinn og Hinrik, var það fyrsta sem Marteinn sagði: „Hvað veiddirðu svo margar rjúpur“? - Strigapokinn sem Hinrik var með var tómur. Þessi atburður varð til þess að umræða fór af stað um að stofnun björgunarsveitar væri æskileg, en það varð bið á þeim framkvæmdum. Leit að manni 1962 Tekið saman í janúar 2015 af Sigurjóni Kristinssyni, Kistuholti 21.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.