Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 16

Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 16
16 Litli-Bergþór Konungssöngvararnir í Skálholtskirkju Margrét Bóasdóttir: Það hefur verið í kringum árið 1975 að ég heyrði fyrst plötu með söng The King’s Singers. Þessi breski karlasextett var stofnaður 1968, og varð fljótt geysilega vinsæll fyrir þá eiginleika sem prýða hópinn enn í dag. Einstakur samhljómur og raddfágun ásamt því að syngja raddsetningar sem eru sérstaklega gerðar fyrir þá, þar sem raddsvið allra nýtur sín. Alls hafa 25 söngvarar skipað hóp hinna bresku Konungssöngvara og sá sem sungið hefur lengst í núverandi hóp, kom til liðs við hann árið 1990. Þeir hafa alla tónlistarstíla á valdi sínu; oft hefur verið sagt „frá Bach til the Beatles“, en fjölhæfni þeirra spannar mun víðara svið en þetta. Sviðsframkoma þeirra, kynningar og léttur húmor er séreinkenni og síðast en ekki síst þá syngja þeir án allrar uppmögnunar. Þess vegna er samhljómur þeirra svo seiðmagnaður og oft göldrum líkastur. Haustið 1979 var ég búsett í Þýskalandi og það fréttist af tónleikum The King’s Singers í nærliggjandi borg. Við fórum nokkur saman í hálfgerða pílagrímsferð og nutum ógleymanlegra tónleika þeirra. Síðar hef ég tvisvar getað hlustað á tónleika með þeim, en þó ekki í það eina skipti sem þeir sungu á Íslandi, á Listahátíð 1985. En flestar plötur The King´s Singers voru keyptar og mikið spilaðar og þeim svo skipt út fyrir geisladiskana þegar þeir komu á markað. Vorið 2014 fékk ég fyrirspurn frá tónlistarstjóra Hörpu þess efnis hvort ég vildi taka að mér skipulagningu á tónleikum fyrir The King’s Singers. Harpa hafði bókað þá til tónleikahalds í september 2015 og þeir óskuðu eftir því að geta sungið tvenna tónleika á Íslandi. Horft var til Hofs, menningarhúss Akureyringa, en ég sagðist ekki hafa nein ítök þar. Hins vegar ef þeir vildu syngja í Skálholtskirkju, þá skyldi ég skoða það. Tónlistarstjóri Hörpu kom á tengslum við Karin Taidal, umboðsmann King’s Singers á Norðurlöndum og þó hún hefði aldrei í Skálholt komið, varð hún strax áhugasöm og eftir að hafa borið þetta undir meðlimi hópsins, kom svarið, að þeir vildu gjarnan halda tónleika í Skálholtskirkju. Það var ekki laust við að ég fengi talsverðan hjartslátt. Hvað var ég búin að koma mér í? Þó ég hafi skipulagt margt um dagana, þá var þetta nokkrum númerum stærra; skriflegir samningar um föst laun, ferðir, aðbúnað og aðstöðu og allt skrifað og skráð, svo sem að nótnastatífin skyldu öll vera samstæð og hve margar vatnsflöskur þyrfti fyrir hvern þeirra á æfingum og á tónleikum. Einnig átti hótelið að vera með 4 stjörnum og kvöldmatur eftir tónleika í sama flokki. Nú vandaðist málið. Ég skrifaði og sagði að þetta gæti ég ekki uppfyllt. En vissulega gætu þeir gist í góðum herbergjum í Skálholtsskóla og hvað varðaði mat, þá dytti mér helst í hug að bjóða fram íslenskt lambalæri eldað af mínum ektamanni, þó ekki hefði hann undirgengist opinbera stjörnugjöf. Umboðsmaðurinn tók þessu öllu vel og sérstaklega lambalærinu. Talsverður hluti tölvusam- skiptanna fór að snúast um hvort og hvenær þeir gætu nú örugglega borðað lambið. Ákveðið var að hafa tónleikana kl. 18.00 þar sem þeir ætluðu að fljúga út í bítið morguninn eftir, og þá gæfist tími til að borða, þó nætursvefn yrði lítill. Nú var gengið frá samningum og miðasalan hófst. Flestir viðmælendur mínir spáðu því að uppselt yrði með það sama, en það varð þó ekki raunin. Langt var síðan King’s Singers komu hingað og margir þekktu ekkert til þeirra. Það er dýrt að auglýsa og þegar september nálgaðist var að vísu ágætlega selt, en þó varla Kvöldverður í stofunni í Skálholti. Frá vinstri, Bob Chilcott, tónskáld og kórstjóri og fyrrum tenór í King’s Singers, David Hurley, counter-tenór, Karin Taidal umboðsmaður, Christopher Gabbitas, bariton, Jonathan Howard, bassi, Kaj Taidal, Christopher Bruerton, bariton, Timothy Wayne-Wright countertenór, Julian Gregory, tenór. Ljósmyndari: Kristján Valur Ingólfsson.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.