Tíminn - 24.12.1947, Blaðsíða 15

Tíminn - 24.12.1947, Blaðsíða 15
JÓLABLAÐ TÍMANS 1947 15 með, þótt enginn ráðleystsmaður væri. Nei, það gat hún ekki sagt. Elztu drengirnir voru víst farnir til sjós — voru nú á síld, en svo var víst síldarlítið fyrir Norðurlandi. En það lifðu ekki allir á því að gogga fyrir þessum skepnum, og hún hafði hvatt þá til þess að fara á síld — urðu eitthvað að hafa upp úr sér. — Það voru Siggi, Gummi og Dóri — nóg var samt eftir .... Eða voru þeir allir heima kannske? Hún handlangaði sig út á ganginn og studdi sig svo við þilið út í dyrnar, opnaði innri hurðina og komst út á tröppurnar. Hún fann ekki til þess, að neitt óvenjulegt væri um för sína, þótt hún yrði við hvert fótmál að leita eftir handfesti og mj aka sér svo áfram. Hugur hennar beindist aðeins að einu takmarki — að komast út í þurrk- inn. Á tröppunum nam hún staðar, reyndi að rétta úr sér og lyfti höfðinu móti austan andvaranum, sem móti henni kom. Andlit- ið var hrukkótt og kinnfiskasogið, augun sljó og starandi, þrátt fyrir tilraun hennar til að skerpa athygli sína. — O, blessuð sólin — allt var vafið í sól- skini — já, nú var veður til þess að taka í hrífu. Hún fann angan af heyi og heyrði enn skýrar en áður köllin og hrópin í börn- unum. Og nú staulaðist hún niður tröpp- urnar, hélt sér fast í handriðið, nam staðar í hverri tröppu og náði jafnvægi, áður en hún lagði í að komast niður í þá næstu. Þannig var hún lengi að þoka sér niður og loks stóð hún á hlaðinu, sem hún kall- aði. Lítil telpa kom hlaupandi fyrir húshorn- ið og var nær lent í fangi Kristbjargar. — Svona — svona Rósa, hvaða óhemju- gangur er í þér, geyið mitt? — Amma! — hvað ertu að fará amma? — Þú ert veik. — Ég er ekkert veik — láttu ekki svona stelpa. Geturðu ekki snúið flekk? Hvar er hann babbi þinn? — Hann pabbi. — Hann er ekki heima — veiztu það ekki? — Láttu ekki svona Rósa — eins og bjáni. Ég má ekkert vera að leika mér núna í svona þurrki. Hvar er Jón? —■ Hann afi. — Hann er hérna fyrir utan húsið. En af hverju kallarðu mig Rósu, amma. Þú veizt að ég heiti Lóa. — Æ, þú mátt kalla þig hvað þú villt, geyið mitt, sagði hún uppgefin á töktum stelpunnar. — En ég þarf að finna hann pabbi þinn. — Er hann ekki farinn að breiða? Andlit litlu stúlkunnar varð alvarlegt. Hún horfði á ömmu sína, brá fingrinum í munn sér og vissi auðsjáanlega ekki í svip- inn, hvað hún átti að gera. En skyndilega sneri hún við og hljóp inn. Kristbjörg þokaðist meðfram húsgafl- inum og studdi hnýttum höndum að hruf- óttum veggnum. II. Jón Ásmundsson, fyrrum bóndi í Höfða- dal, hafði að venju vaknað snemma, en þó fyrr en aðra morgna á undan. Næmi hins gamla bónda fyrir þurrkinum hafði ekki látið hann í friði í rúminu. Hann varð að fara á fætur og út í sólskinið. — Ojá, sagði hann við sjálfan sig, meðan hann var að klæða sig. — einhvern tíma hefði maður nú notað þennan þurrk og hún kannske verið komin á fætur. Honum varð enn litið til rúmsins, þar sem Kristbjörg konan hans lá. Hún svaf nú vært — værar en hún hafði gert síðan hún veiktist, og nú var ekkert rugl á henni. Fyrir nokkrum dögum hafði hún dottið niður • í herbergi þeirra, þar sem þau bjuggu í kjallara einum úti í bæ. Það var ætlunin að vera ekki upp á aðra komin fyrr en á þurfti að halda — eða kannske réttara sagt, ekki fyrr en í fulla hnefana. Kristbjörg kunni bezt við að elda matinn fyrir þau sjálf og ráða hverju eytt var. Og þau fengu nú ellistyrk og áttu enn eftir nokkrar krónur af því, sem þau fengu fyrir skepnurnar — já, seinustu skepnurn- ar úr þeirra búskap, þegar þau urðu að hætta fyrir fullt og allt. Og þá fór Gráni og Huppa og kindurnar, en þau fengu þessar krónur í staðinn — o,já. Jón fór strax út, þegar hann hafði klætt sig, en gekk þó fyrst yfir að rúmi konu sinnar og hugði að henni. — Jú, hún svaf rólegar en fyrr. — Hann tók ekki eftir því, að hún umlaði eitthvað í svefninum. — I?að var víst óhætt að fara stundarkorn frá henni — það gat tæplega orðið nokkuð að henni hér í herberginu. Fríða dóttir þeirra, sem þau voru hjá, mundi líka bráðlega koma á fætur. Hún hafði tekið þau heim í sitt hús, þegar Bagga veiktist — átti nýtt hús og gat lát- ið þau fá þetta herbergi. Það vissi Bagga ekkert um ennþá og mundi líklega þykja skrítið, ef hún kæmist almennilega til ráðs — og væri upp á aðra komin —- þó dóttir væri. Læknirinn sagði, að hún hefði fengið slag — eða snert af slagi — jafnaði sig kannske aftur að einhverju leyti, sagði hann. — Það var svo. Já, Kristbjörg var orðin slitin — hafði skilað honum þeim átján og aldrei haft fyrir því að liggja lengi á sæng — mést þrjá til fjóra daga. Þá var hún komin út á tún eða farin að sýsla við inniverk. Bömin dóu mörg hvítvoðungar, en það var stutt með þau í kirkjugarðinn — og Bagga fór oft sjálf með stokkinn og vildi ekki tefja hann frá slætti að sumri. 0,já, það veitti ekki af handtökunum þá. Nú var hann áttræður í sumar og börn- in hér og þar — Fríða hér — Dísa fyrir norðan — Siggi, Gummi og Dóri fyrir sunnan — og kannske fleiri. Hann mundi ekki einu sinni eftir þeim öllum í svipinn. Það var líka orðið svo óralangt frá því, að þau voru öll heima og hann þekkti þau. — Já, þetta voru orðnar honum ókunnugar manneskjur. — Það var nú það — svo var nú það. — Ef Bagga færi nú á undan honum? — hvað var þá — já, hvað var þá? Fríða var svo sem góð við þau, en hún var öll í nútímanum, og hann kunni ekki við allt það vesen — allt það tærilæti og umstang. Onei, Bagga og hann voru fyrir löngu orðin eitt í öllu amstrinu og þófinu við þetta líf. Hvað var svo sem eftir, ef hún færi? Hún var heldur ekki nema á því áttunda um sjötugt. Nú var blessað sólskinið og þurrkurinn kominn.... Hann var kominn út, signdi sig og kast- aði svo af sér vatni. Svo lagði hann af stað, bolmikill og boginn í baki, ráfaði upp í bæinn og inn fyrir hann, þangað, sem hann vissi að túnin voru. — Jú, Magnús var farinn að breiða — það var líka annað hvort. — Jæja, ekki meira en þurrt á og hafði þó verið blástur í nótt. Hann stóð um stund við girðinguna og horfði á fólkið breiða. Þessi sumur, sem þau Kristbjörg voru búin að vera í bæn- um, höfðu þau stundum rétt til hendi við þurrt hey hjá Magnúsi og fengið þóknun fyrir. — Nú var ekki að tala um það. Magnús kom auga á hann, þar sem hann stóð og hann gaf sér tíma til þess að segja nokkur orð við hann, meðan hann henti úr lön rétt hjá girðingunni. Magnús var rauður í andliti og alltaf svitastorkinn. Hann átti allmargt fé, sem á vetrum var beitt í öskutunnur á bak- lóðum húsa í bænum. — Góðan dag, Jón minn, kallaði Magnús um leið og hann tók fullt fangið af heyi. — Guð gefi þér góðan dag, svaraði Jón og hresstist við. Nú er hann loksins kom- inn, blessaður þurrkurinn. — Hvernig líður? kallaði Magnús. Jón vissi, að hann spurði eftir Krist- björgu. — Og, ég veit ekki, sagði hann, en hún hefir verið heldur rólegri í nótt. — Hún kemur sig sú gamla, máttu trúa — hún getur ekki dáið í þurrki. Verst er að geta ekki fengið ykkur í heyið í kvöld, því að nú þarf ég sannarlega fólk, sem kann að halda á hrífu. — O, því er nú öllu lokið hjá okkur. — Þú kemur kannske, ef Kristbjörgu verður eitthvað hægra. Þetta var eins og að freista drottins. Hvernig átti hann að fara frá henni? Nei, án henn\r tók hann ekki á hrífu hér. Hann stundi við og staulaðist aftur niður- eftir enn bognari í baki en fyrr. Hann mætti mörgum mönnum á leið sinni. Sumir þeirra voru á hraðri ferð, en hann bauð þeim öllum góðan dag. Hann heyrði ekki, hvort sumir þeirra svöruðu. Þá stanzaði hann, leit við og horfði á eftir þeim. Nokkrir námu hins vegar staðar og töluðu við hann. — Já, nú var kominn þurrkur og kann- ske færi síldin að veiðast. Það höfðu ein- hverjir bátar fengið síld í gærkvöldi, svo að útlitið var heldur skárra, sögðu þeir. Mundi og Siggi voru báðir á síld — hélt hann. Hann vissi ekki, hvort einhverjir hinna voru líka. Hann var lengi að komast heim, og hann gat ekki farið undir eins inn, þegar hann loks komst heim að húsinu, en settist á kassa undir húsgaflinum að sunnanverðu og horfði á börnin. — Þar var ekki fótafú- inn og mæðin. Jú, þetta var ungt og lék sér. Lóa litla dótturdóttir hans kom hvað eftir annað hlaupandi til hans, en skokkaði jafnskjótt frá honum aftur. Hann horfði svo út í sólskinið og hlustaði á raddirnar. Allt í einu heyrði hann kallað fyrir aftan sig og hann hrökk við. — Jón. — Hvar hefurðu látið hrífuna mína? Þetta var rödd Böggu frá því að þau voru í Höfðadal. Hún kom þarna fyrir húshorn- ið, alklædd, og studdi sig við vegginn. Hann rykkti sér á fætur og þrútnaði í andliti. — Hvar er hrífan mín, maður? spurði hún aftur ergileg. — Hvað ertu að segja, Bagga mín, sagði hann um leið og hann hljóp til hennar og tók undir handlegg hennar. — Ég er að spyrja þig eftir hrífunni minni. — Ertu orðinn heyrnarsljór eða hvað? — Þú ert veik, Bagga mín, sagði hann. — Komdu inn. — Hvað ertu að móka hér, spurði hún og heyrði ekki veikindatal hans. Ertu ekki far- inn að breiða ennþá og sól komin langt úr dagmálastað. — Við breiðum ekki núna, Bagga mín. Við erum hætt því. — Hætt .... hætt? Á hverju eiga skepn-

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.