Morgunblaðið - 19.09.1970, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 19.09.1970, Blaðsíða 17
MORGUN’BLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 19. SEPT. 1970 17 Bergur Eysteinn Pétursson — Minning F. 8. des. 1926. D. 13. scpt 1970. Hver er tilgangur lífsins. Hvaðan komum við og hvert för- um við. Hvaðan er lífshlaupi hvers og eins stjórnað. Hvernig má það verða að mætur maður á bezta aldri sem á mikil verkefni óunnin er skyndilega burtu kallaður. Meðan aðrir saddir líf- daga og gamlir að árum fá ekki hvíldina sem þeir þó þrá. Þess- ar og þvílíkar spurningar komu ósjálfrátt í hugann þegar svip- legt fráfall Bergs Eysteins Pét- urssonar flugvirkja spurðist. Okkur er ljóst, sem að þessum fátæklegu linum stöndum, að ekkert hefði verið fjær Eysteini en svo var hann kallaður í okk- ar hópi, en grein fyllt oflofi að honum látnum. Samt er það svo að fyrir þeim sem ekki þekktu hann eða störfuðu við hlið hans, oft við erfiðar aðstæður, getur sannleikurinn um þennan mann virzt oflof í eyrum ókunnugra. Ekki þannig að hann hefði ekki mannlega galla eins og hver annar. Heldur hitt að hans sér- stöku eðliskostir — dugnaður, trygglyndi og ósérhliíni og þessi sérstaki vilji til að gera öðrum greiða og koma til hjálp ar var slíkur að aldrei mun úr minni líða. Eysteinn var fastur fyrir í skoðunum. Væri um skoð- un eða sannfæringu að ræða varð henni vart haggað. En hann var einnig manna fyrstur til að viðurkenna ef á daginn kom að fenginni reynslu að hans skoðun hefði ekki verið að öllu leyti rétt. Glaðlyndi við dagleg störf, reglusemi og dugnaður ásamt því að hann var mjög fær I starfi gerði hverjum manni geð þekkt að starfa með honum hvort sem um var að ræða dag- leg venjubundin störf eða þau sem allrar árvekni og kunnáttu kröfðust. Bergur Eysteinn Pétursson var fæddur 8. desember árið 1926 að Hjaltastað í Hjaltastaða- þinghá. Foreldrar hans voru Pétur Sigurðsson bóndi þar og Guðlaug Sigmundsdóttir frá Gunnhildargerði i Hróastungu. Þeim Guðlaugu og Pétri varð 8 barna auðið. Eysteinn er annar sinna systkina sem hverfur yfir móðuna miklu. Eysteinn réðst fyrst til starfa hjá Flugfélagi Islands í Reykjavík árið 1945 og þá sem hlaðmaður. Hann hóf sið- an flugvirkjanám og fór til Bandaríkjanna þar sem hann lauk námi við Spartan flugskól- ann í Tulsa eins og fleiri starfs- félagar hans á því tímabili. Hann kom siðan til íslands og tók upp störf hjá Flugfélaginu að nýju, bæði sem flugvélstjóri á flugvélum félagsins og sem flugvirki á verkstæði þess. 1 árs byrjun 1956 hóf hann störf við flugdeild Landhelgisgæzlu ís- lands en kom í ársbyrjun 1958 aftur til starfa hjá Flugfélagi Islands. Hann réðst síðan fyrir nokkrum árum sem flugvélstjóri til Loftleiða þar sem hann starf- aði til dauðadags. Eysteinn var að eðlisfarl félagslyndur maður og það kom því ekki á óvart að félagar hans í Flugvirkjafélagi Islands fólu honum ýmis trúnaðarstörf. Þar eins og í starfi sinu var hann ávallt reiðubúinn til starfa fyrir félag sitt og stétt til heilla fyrir alla aðila. Eysteinn kvæntist fyr ir 17 árum síðan Margréti Þor- valdsdóttur ættaðri frá Hnífsdal. Þau eignuðust 5 börn. Guðlaug Vagn 16 ára, Pétur 15 ára, Hjálmar 13 ára, Björgu 9 ára og Guðrúnu Lilju 3 ára. Ekki fer á milli mála að þarna var um sérstaklega samrýnda fjöl- skyldu að ræða þar sem góð- semd og eindrægni ríkti i hví- vetna. Hjónin sérstaklega sam- rýnd, og miklir vinir og félagar barna sinna. Og það var einmitt undir slíkum kringumstæðum sem kallið mikla kom. Húsmóð- irin sem er hjúkrunarkona var farin til starfa sinna en Ey- steinn fór ásamt börnunum og einum vini þeirra í stutta veiði- ferð. Þetta átti að verða stutt ferð sem tæki aðeins dagsstund. Fyrir Eystein varð þetta upp- haf þeirrar ferðar sem við öll munum ganga fyrr eða síðar. Og um leið og við í dag kveðjum þennan ágætismann munum við minnast hans með miklum sökn- uði. Minnast mannkosta hans allra, vinfestis, trygglyndis og ósérhlífni sem orsakaði það að í okkar hópi verður hans alltaf minnzt sem manns heiðrikj- unnar. Megi góður Guð leggja konu hans, börnum og öðrum aðstand- endum líkn með raun. Nokkrir vinir og sainstarfsmenn lijá Flugfélagi Islands. Við skammsýnar mannverur eigum oft erfitt með að átta okk ur á rökum tilverunnar, eða sætta okkur við þá atburði, sem okkur eru ógeðþekkir. Og þótt við séum þess ekki megnug að koma i veg fyrir þá atburði, sem hafa gerzt, finnst okkur samt erfitt að viðurkenna þá sem aug Ijósa staðreynd. Kannski er þetta vegna þess að vonir okk- ar, óskir og þrár hafa mótazt i ósamræmi við hina raunveru- legu tilveru okkar. Það er kannski vegna þessa sem við að öllum jafnaði erum ekki undir það búin, að óham- ingjan og sorgin sæki okkur heim. En þó er það svo, að hinir óraunsönnu draumar okkar, vonir og þrár eftir betra og feg- urra lífi, gefa tilveru okkar m.a. það gildi að lífinu sé lifað. Þegar „maðurinn með ljáinn" heggur skarð i hóp ástvina okk- ar, kemur það okkur oft að óvör um og er i ósamræmi við okkar eigin vilja. Svo miklu ósamræmi að við eigum bágt með að trúa eigin augum, og sætta okkur við orðinn hlut. Þess vegna setur mann hljóð- an og finnst næstum óviðeigandi að hafa orð um slika atburði, þvi í fylgsnum hugans verða tii þær tilfinningar, sem engin orð megna að lýsa. Þannig held ég að fréttin um hið sviplega fráfall Eysteins Péturssonar hafi orkað á okkur öll sem þekktum hann. Allt sem honum var ósjálfrátt, vit, karlmennska og óvenjuleg glæsimennska var honum vel gef ið. En við sem þekktum hann vissum líka að hann var ríku- lega búinn þeim kostum, sem náttúran ein úthlutar ekki. Við vissum að hann bjó yfir fleiri og stærri áunnum eiginleikum og hæfileikum en flestir aðrir menn. Honum hafði tekizt að temja svo vel stóra skapgerð, að hann var hjálpfúsari, ljúfari í um gengni, lítillátari, sanngjarnari og hjartahlýrri en aðrir menn. Að móta svo hræsnislaust geð sitt og framkomu er aðeins á þeirra færi sem gnæfa yfir fjöid ann í mannkostalegu tilliti. Það þarf líka mikla persónu- lega hæfileika til að heyja harða lífsbaráttu með góðum árangri, en vera þó jafnan ávallt hinn heiðarlegi drengskapar maður, sem öllum vill gott gera, og neytir aldrei yfirburða sinna á kostnað annarra i, á stundum tvísýnum leik. En slíkur var Ey steinn. Við lifum í dag í heimi þar sem fyrsta „boðorðið" er að „hver sé sjálfum sér næstur“ í eiginlegri og óeiginlegri merk- ingu. Ég þekki fáa menn sem rækilegar og oftar hafa brotið þetta ómannúðlega „boð- orð“ með lífi sínu og umgengni við meðbræðurna. Hjartanleg gleði hans yfir að geta rétt þeim hjálparhönd, sem hann vissi að þurftu á því að halda, var fölskvalaus og hrein og sá aldrei til launa. Hún var sprott- in af þeirri frjóu lífsnautn að láta gott af sér leiða, og sjá aðra gleðjast. Nærgætni hans við aldraða móður, eiginkonu og börnin var einstæð og sannar- lega eftirbreytniverð. Alúðleg framkoma hans við alla sem hann umgekkst vakti virðingu og traust. Um leið og við minnumst þessa látna vinar, leitar hugur- inn til litlu barnanna hans 5, sem nú liggja öll stórslösuð á Borg- arsjúkrahúsinu. Við hugsum til aldraðrar móður hans, sem með einstæðum hetjuskap hefur stað- ið af sér marga og sára harma og mótlæti. Við hugsum til kon- unnar hans ljúfu og góðu, sem ávallt var hinn ástriki förunaut- ur og félagi, en verður nú að axla ofurmannlega byrði. Og hugurinn leitar i samúð til systk inanna 6, sem sjá á bak sinum góða bróður. Þegar ástvinir og aðrir sem þekktu Eystéin heitinn minnast hans, er eðlilegt að sorgin og söknuðurinn fylli hugi þeirra. En ofar allri sorg og harmi er bjarmi hamingjunnar og gleðinn ar yfir þvi að hafa notið sam- vista við góðan dreng. Þess vegna eru þessar fátæk- legu línur ekki kveðjuorð til hins látna vinar. Minningin um hann gerir hann að kærum föru- nauti á leiðarenda. Á meðan haustið svæfði sérhvert blóm, og sumargestir þöglir hurfu á braut. Þú ljúfi vinur lokað hefur brá, og leitað hvíldar fjærri dagsins þraut. Og þú, sem hefur átt þér ósk og þrá, unir vært í firð hins mikla glaums. Sofðu vinur sælt í djúpri ró, sofðu og njóttu hins fagra, ljúfa draums. Magnús J. Jóhannsson. 1 dag fer fram frá Háteigs- kirkju í Reykjavik, útför eins allra bezta vinar míns og vinnu- félaga, um langt árabil. Mér fannst eins og yfir mig hvolfdist myrkur sorgar og söknuðar, er einn af vinum okk ar Eysteins, og nábúi okkar i Kópavoginum, kom til mín að áliðnum degi, síðastliðinn sunnu dag, og sagði mér að Eysteinn væri dáinn. Það var slys, bíl- slys, sagði hann. Mig setti hljóð- an við þessa harmafregn um þennan góða mann. Þessi dug- mikli, ötuli, og einn hinn bezti og öruggasti starfsmaður í hópi okkar flugvirkja, var horfinn. Fyrir aðeins örfáum kiukku- stundum þennan haustfagra sunnudag hafði hann ekið niður stíginn, þar sem við stóðum tveir félagar hans úti í veðurblíðunni og ræddumst við. Hann veifaði og kallaði til okkar kveðjuorð- um og við kölluðum á móti. „Góða ferð Eysteinn minn.“ Hann ók brosandi framhjá með allan káta barnahópinn sinn — og einn dreng að auki. Gleðin ljómaði og æskan söng. Pabbi þeirra var einnig kátur og ánægður, því nú var hann að framkvæma eitt af uppáhalds- verkefnum sínum — gleðja og vera með börnunum sínum. Hann var að byrja í sumarleyfi sínu, ætíaði aðallega að nota tím ann til að ditta að húsi sínu og vera með konu sinni og börnum, skreppa kannski með þau í stuttar ökuferðir eða veiðitúra. Nú var hann sem sé að leggja upp í fyrsta silungatúrinn með allan barnahópinn, en konan hans, sem er lærð hjúkrunar- kona gat ekki komið með þeim í þetta sinn, þvi hún þurfti að vinna á sjúkrahúsinu. En hún mundi verða komin heim og taka á móti ferðafólkinu þegar það kæmi um kvöldið. En örlögin höfðu þá —- þenn- an bjarta septemberdag — höggv ið í líf hennar stórt og mikið skarð, sem þó hefði hæglega get- að orðið stærra og ægilegra. — Það kom sem sé enginn af ást- vinum hennar heim þetta kvöld. Þéss í stað stendur hún, með styrk hins almáttuga Guðs — og hjúkrar og annast öll börn- in sín, fimm að tölu, sem liggja slösuð á sjúkrahúsinu. Við hjónin heimsóttum þau á sjúkrahúsið einn daginn í vik- unni, —- og hve undursamlegt þrek og kraf t, móðirin, sem misst hafði sinn góða og elsku- lega eiginmann svo sviplega, — sýndi sjúkum börnum sinum, — já, þann kraft og stillingu henn- ar fengum við vart skilið. Bergur Eysteinn Pétursson er fæddur á Hjaltastað í Hjalta- staðaþinghá, Norður-Múlasýslu, þann 8.*des. 1926. Kynni okkar Eysteins hófust er við vorum báðir við nám í Bandaríkjunum í flugvirkjun ár ið 1947. Ég man ætíð hve mér fannst gott að kynnast honum og eiga hann fyrir vin, svona traustan, tryggan og sterkan, á þeim árum, sem þá voru ekki neinn dans á rósum hjá okkur strákunum, sem vorum með þeim fyrstu, sem fóru til Bandaríkj- anna til að hefja flugvirkjanám. — En það er önnur saga. — Það, sem máli skipti fyrir mig og fleiri, var það að eiga góðan hauk i horni, og það fundum við fljótlega, að þar sem Eysteinn var, þar var gott að vera — öryggi og styrkur. Að námi loknu komum við hingað heim og vorum vinnufé- lagar um langt árabil. Og enn styrktist vinátta okkar og fjöl skyldna, er við festum kaup á ibúðum í sama húsinu að Hrísa- teigi 10, og bjuggum þar I 4 ár, og knýttust fjölskyldur okkar þar þeim föstu vinaböndum sem aldrei síðan brostið hafa. Frá Hrísateigi fiutti Eysteinn með fólki sinu að Hraunbraut 40 S Kópavogi. Ekki veit ég hvern- ig þræðir okkar hafa tvinn- azt saman — en svo mikið ér víst, að eftir nokkur ár flutt- um við í næsta hágrenni við þau í Kópavogi, og öll árin hef- ur vináttan og tryggðin haldist, Það er einlæg ósk okkar hjón- anna, að þrátt fyrir hið mikla skarð, sem nú hefur verið hogg- ið í þessa elskulegu fjölskyldu, megi vináttuböndin ennþá efl- ast og treystast — um ókomin ár. Það er skoðun mín og álit að Eysteinn hafi verið í hópi okk- ar beztu, duglegustu og sam- vizkusömustu flugvirkja, enda vel metinn og dáður af öllum fé- lögum sínum. Hann var mjög fé- lagslyndur maður i eðli sínu, og vænti ávallt mikils og góðs ár- angurs af starfsemi Fiugvirkja- félags Islands, enda vann hann að hag og gengi félaga sinna, af festu og einurð, sanngjarn en ákveðinn í skoðunum. Okkur fé- lögum hans duldist þvi ekki hvern mann hann hafði að geyma, og fólum honum mörg og flókin mál okkar, til lausnar. Eysteinn átti að visu mörg og mikilvæg málefni lífsins óleyst, er kallið kom, enda maður í blóma lífsins og á bezta aldri. En hið skyndilega fráfall hans hlýtur að vekja okkur til um- hugsunar á hinni stóru gátu lífs ins: Hver er tilgangurinn? Hvers vegna sortnar hinn mildi himinblámi svona óvænt og skilur eftir sig myrkur og sorg í hjörtum ættingja og vina? — Ó, Herra. Kveiktu aftur á ljós- inu þínu bjarta og lýstu aftur upp hjörtu ekkjunnar og barn- anna hans Eysteins. Ó, Herra. Hver er við stýrið, og hvert er ferðinni heitið? Stendur þú á ströndinni fyrir handan og faðm ar okkur að þér, þegar við kom- um yfir? Gunnar Loftsson. Sunnudaginn 13. þ.m. var gott veður. Þann dag laust eftir há- degi fór sambýlismaður minn, Eysteinn Pétursson í veiðiför að Meðalfellsvatni með fimm börn sín og einn heimilisvin 15 ára dreng. Förin var aðallega far in til að veita börnunum glað- an útivistardag. Enda ætlaði vinafólk í tveim bílum að vera með í förinni. För þessi varð ekki farin til hins ákveðna staðar því fingur kaldra atvika varð vaidur að stóru bílslysi — slysi sem mann skaði hlauzt af —- þvi Eysteinn lét þar líf sitt samstundis að áliti læknis, en börnin hans fimm og heimilisvinurinn voru öll meira eða minna slösuð og voru flutt á sjúkrahús. Heimilis vinurinn fékk þó að fara heim þó slasaður væri, að aflokinni aðgerð. Börnin eru enn á sjúkra- húsi, en þau eru Guðlaugur 16 ára, Pétur, 15 ára, Hjálmar, 13 ára, Björg, 9 ára og Guðrún Lilja 3 ára. Þannig eru viðhorfin í dag þeg- ar jarðarför hins umhyggjusama heimilisföður fer fram. Eysteinn var kvæntur sóma- og dugnaðarkonu, Margréti Þor- valdsdóttur. Margrét er hjúkr- unarkona að menntun. Börn þeirra eru fimm, sem fyrr segir. Harmur og hugans kvíði hef- ur verið sár og sporin þung þeg ar Margrét gekk í sjúkrahúsið til að sjá elskaðan eiginmann andaðan og börnin slösuð, en öllu þessu hefur hún tekið með yfirburða rósemi, því henni er gefin aðdáunarverður sálar- styrkur, svo hún hefur borið þenna þunga harm af hetjudáð í Guðs trú. Sár harmur er einn- ig kveðinn að aldurhniginni móður Eysteins Guðlaugu Sig- mundsdóttur, sem hefur þó bor- ið sonarmissinn ósegjanlega vel. Hefur hún þó góðs sonar að sakna, því Eysteinn var ástsam- lega hugull um hag sinnar góðu og tignu móður sem búið hefur i ekkjudómi í 15 ár. Eysteinn var sérstaklega hjálplegur við alla og vildi hverjum manni gott. Hann var duglegur og vandaði störf sín og miðaði þau við velferð ann- arra. Mér er því hulin ráðning þeirra rúna að láta hann henda þetta átakanlega slys, enda eru orsakir slyssins ófundnar. Það er þungskilin staðreynd, að forsjónin skuli láta hinn góða tilgang fara á einu augnabliki öðru vísi en til var stofnað. Ég var viðstaddur þegar Eysteinn var að búa sig af stað, um allt var hugsað og hver átti sinn hlut og stað. Velferð og öryggi var efst í huga hans. Eysteinn og Guð- laugur, sem sat fram í, höfðu báðir öryggisbelti: þannig var hann fyrirmynd í öllu til örygg is. Eysteinn var glaðlyndur og vel gefinn. Hann var fríður, ít- urvaxinn og karlmannlegur á velli. Ungur stundaði hann glímu í Glímufélaginu Ármanni, en varð að hætta þjálfun vegna náms á leið að ævistarfi sínu. Sambýli mitt við Eystein var með ágætum og umgengni hans til fyrirmyndar. Persónuleg al- úð og lipurð í daglegu viðmóti er ógleymanleg og einnig hjálp- semi hans. Og er hjarta mitt þakksamlegt til hans. Vinna hans við húsgarð okk- ar verður aldrei ofþökkuð, því segja má, að það sé allt hans verk, sem ber þar fagra prýði. Þess mun þvi lengi minnzt, að: Vinnuglaða höndin hans hætt er nú að starfa. Verkin þessa mæta manns minninganna flétt- ar krans, gefur fagran auð til sinna arfa. Ég gieymi aldrel þeirri stund þegar ég horfði á eftir Eysteini aka brott með Framhald á bls. 1S J

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.