Morgunblaðið - 25.08.1978, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 25.08.1978, Blaðsíða 10
] 0 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 25. ÁGÚST 1978, Meö lygum náði Indíra óskoruðum völdum Fögnuðurinn, sem greip um sig þegar Indiru Gandhi var steypt af stóli í kosningunum 1977 og vonirnar sem fylgdu Desai sem forsætisráðherra og leiðtoga Janata samsteypustjórnarinnar, voru alltof miklar til að leiða ekki til vonbrigða, bæði á Indlandi og meðal velunnara annars staðar, þegar nakinn raunveruleikinn kom í ljós í fullri dagsbirtu eftir þoku vímunnar. Merki sjást um — þó ekki séu þau að vísu afgerandi — að margir Indverjar séu þegar búnir að gleyma þeim góðu ástæðum, sem þeir höfðu til að varpa Indiru Gandhi og fylgifiskum hennar á dyr, þegar síðasta tækifærið til þess bauðst — að því er virðist, í síðustu kosningunum sem hún hefði leyft. Henni hefur nú gengið allvel í fylkiskosningun- um. Um skeið leit út fyrir að henni hefði tekizt að snúa gangi mála innan Kongressflokksins sér í hag. Alger skortur á merkjum um að hún sæi hið minnsta eftir því sem hún hafði gert, varð stundum til þess að andstæðingar hennar, ekki hún sjálf, virtust vera í varnarstöðu, eins og hún hefði átt að vera. I Bretlandi hafa áköfustu fylgifiskar hennar sýnt þá skynsemi að hafa hægt um sig síðan henni var velt af stóli, svo að ekki hefur verið sérstök ástæða til að minna brezka lesendur á gerðir hennar. En þegar ég var í Indlandi fyrr á þessu ári, sat að störfum Shah-nefndin, sem nýja stjórnin skipaði undir forustu J.C. Shahs, fyrrverandi hæstaréttardómara. Skýrslurnar um atburði, sem gerðust meðan neyðarlög Indiru Gandhi voru í gildi og fram komu í vitnaleiðslum, voru skelfilegar. Ég hafði að vísu fylgzt með þessum atburðum á sínum tíma, en hafði þó litla hugmynd um hvað var raunveru- lega að gerast. Þrátt fyrir það virtist engin ástæða til þess að ég færi að fjalla um þetta, fyrir utan það að óskynsamlegt væri að ræða um það sem óhjákvæmilega hlaut að vera lítill og valinn hluti af sönnunargögnun- um, sem Shah-nefndin var að afla. Auk þess átti nefndin eftir að meta sönnunar- gögnin, leggja á þau dóm og komast að niðurstöðu. Nú er hún búin að því. Frammi fyrir mér liggur útgefin skýrsla í tveimur bindum, sem ég er búinn að fara vandlega í gegn um. Og mér virðist kominn tími til að ég eyði blaðarými mínu þessa vikuna í að skýra frá því hvað Indira Gandhi, og þeir sem næstir henni stóðu (einkum sonur hennar), voru í rauninni að bauka þegar hún hrifsaði alfarið völdin. Ég geri þetta að nokkru leyti af því að varla getur liðið á löngu áður en fylgifiskar hennar í Bretlandi byrja, uppveðraðir af stjórnmálalegri endur- reisn hennar og vaxandi velgengni, að halda því enn einu sinni að okkur hve trú hún hafi verið og sé enn lýðræðislegum hugmyndum, hve mildar og í raun óhjákvæmilegar aðgerðirnar gegn erfið- ustu andstæðingum hennar voru, hversu ósanngjarnar séu sögurnar um óréttlæti, ritskoðun og hörku, og vitanlega, að hún hafi ekki haft neina hugmynd um hversu langt embættismenn og aðrir gengu, því annars hefði hún stöðvað þá — meira að segja á sömu stundu sem hún fékk vitneskju um það. En mér gengur annað til þess að skoða gerðir hennar hér og nú. Metnaðargirnin og aðrir eiginleikar, sem leiddu Indiru Gandhi og félaga hennar á þá braut sem hún fór, eru engan veginn óþekktir hér í Bretlandi. Satt að segja koma sum viðhorfin, hræðilega kunnug- lega fyrir sjónir. Ég skrifa þetta því í þeirri von, að þeir lesendur mínir sem enn þarf að minna á að slíkt geti allt eins gerzt hér, eða hvar sem er, hafi brezku augun sín opin fyrir fordæmunum indversku. Hér ætla ég að byrja á bréfinu, sem Indira Gandhi sendi forseta Indlands til að biðja hann um að lýsa yfir neyðar- ástandi, sem hann hafði vald til sam- kvæmt indversku stjórnar3kránni að beiðni forsætisráðherrans. I stjórnar- skránni eru sett fram viss undirstöðuskil- yrði um ástandið í landinu, sem verða að vera fyrir hendi, til að slíkri beiðni sé sinnt. Þessum skilyrðum eru gerð skil í bréfi Indiru. Tvö þau mikilvægustu eru þannig: „Eins og yður hefur verið skýrt frá fyrir skammri stundu, hefur okkur borizt vitneskja, sem bendir til þess að yfir öryggi Indlands vofi bráð hætta af innanlandsóeirðum. Málið ber mjög brátt að. Ég hefði viljað leggja það fyrir stjórnina, en því miður er.það ógerlegt þegar í kvöld. Því vík ég frá, eða leyfi frávik frá, lögum um stjórn Indlands frá 1961, með áorðnum breytingum, svo sem mér er heimilt samkvæmt 12. lið þar um.“ I þessurn kafla í bréfi sínu leggur Indira Gandhi fram tvenn rök. I fyrsta lagi heldur hún því fram, að hún hafi upplýsingar um að öryggi Indlands sé í bráðri hættu vegna innanlandsóeirða, og að málið sé því mjög aðkallandi. Og í öðru lagi, að óframkvæmanlegt hafi verið að bera það undir stjórnina (eða jafnvel gera henni aðvart). Undir þeim kringumstæðum átti forset- inn ekki um annað að velja en að lýsa yfir neyðarástandi, eins og hann gerði. Því miður voru báðar þessar fullyrðingar Indiru rangar. Shah-nefndin rannsakaði í smáatriðum ástæðurnar, sem leiddu til neyðarástandsins. Um innanlandsóeirð- irnar, sem áttu að vera svo alvarlegar að þær ógnuðu öryggi Indlands, segir svo í slwrslunni: „I efnahagsmálum var ekkert sem valdið gat ótta. Þvert á móti, heildsöluverð hafði lækkað um 7,4% frá 3. desember 1974 fram til seinustu vikunnar í mars 1975. Hvað snertir lög og reglu bentu hálfs- mánaðarlegar skýrslur fylkisstjóranna til forseta Indlands og skýrslur helztu ráðherra til innanríkisráðherrans til þess, að fullkomlega væri haldið uppi lögum og reglu um allt land.“ Innanríkisráðuneytið hafði ekki fengið neinar skýrslur frá fylkisstjórnum, sem bentu til minnkandi valds yfir lögum og reglum á aðfarartíma yfirlýsingarinnar um neyðarástand Öryggisþjónustan hafði ekki skilað neinni skýrslu til innanríkisráðuneytisins frá 12. júní til 25. júní 1975, sem varaði við því að innanlandsástandið krefðist yfirlýsingar um neyðarástand. Innanríkisráðuneytið hafði ekki lagt fyrir forsætisráðherra neina skýrslu, þar sem lýst væri áhyggjum vegna ástandsins í innanríkis- málum. Þetta læt ég nægja um rökin fyrir því að innanlandsóeirðir væru svo alvarlegar, að nauðsyn bæri til þess að víkja frá lýðræðislegum aðferðum. Snúum okkur þá að rökunum fyrir því að hættuna bæri svo brátt að, að enginn tími væri til þess að ráðgast við ríkisstjórnina, eins og ætlazt er til. Bréf Indíru Gandhi var afhent forsetanum að kvöldi 25. júní 1975, og yfsingin birt sama kvöld. En Shah-nefndin komst að eftirfarandi: „Akvörðunin um einhverjar bráðar aðgerðir og þá jafnvel yfirlýsingu um neyðarástand, var sýnilega í athugun þegar 22. júní. Samkvæmt upplýsingum frá fylkis- stjóranum í Delhi, var búið að ákveða þegar að kvöldi 23. júní að fangelsa forustumenn stjórnarandstöðunnar fljót- lega eftir áformaðan útifund 24. júní. Listar með nöfnum forustumanna stjórn- arandstöðunnar voru þegar í undirbún- ingi. Samkvæmt upplýsingum Shri.Krist- hnan Chand var öll tilhögun í sambandi við yfirvofandi handtökur rædd á fundi síðdegis 25. júní í skrifstofu Shri R.K. Dhawan, að viðstöddum Shri Om Mehta, þáverandi innanríkisráðherra. Ráðstafanir voru einnig gerðar til að tryggja það að sum stærstu blöðin yrðu hindruð í að koma út að morgni 26. júní 1975. Shri B.N. Mehrotra, fyrrverandi aðalframkvæmdastjóri Rafmagnsveitn- anna í Delhi, hefur skýrt frá því að fylkisstjórinn hafi kallað hann til Raj Niwas klukkan 10 um kvöldið og sagt honum að loka ætti fyrir rafmagn frá kl. 2 um nóttina. Sagði Shri Krishnan Chand að þetta væri skipun frá forsætisráðherr- anum, sem yrði að hlýða. Það liggur því ljóst fyrir að helztu ráðherrum í ýmsum fylkjum var í mismunandi mæli trúað fyrir þessu þegar að morgni 25. júní. Og þeim hafði verið falið að framkvæma vissar aðgerðir um leið og orð bærist frá skrifstofu forsætisráðherra þá um kvöld- ið. Þeir sem voru í vitorði, voru forsætisráðherrar Andhra Pradesh, Karnataka, Madhya, Pradesh, Rajasthan, Haryana, Punjab, Bihar og Vestur Bengal. Landstjórinn í Delhi var með í myndinni, jafnvel fyrir 25. júní.“ Nefndin dregur þetta saman í eftirfar- andi kafla, sem tekur af öll tvímæli: Nefndin dregur þetta saman í eftirfar- andi kafla, sem tek’ur af öll tvímæli: „Indira Gandhi ráðfærði sig ekki við ríkisstjórnina, þótt hún hefði nægan tíma til þess. Þau rök sem hún lagði fram við forsetann um að hún hefði viljað taka málið upp á ríkisstjórnarfundi en því miður ekki getað það þetta sama kvöld, virðast mjög ósannfærandi. Úr því að hægt var að kveða saman ríkisstjórnar- fund með 90 mínútna fyrirvara að morgni 26. júní eins og í rauninni var gert, eru engin rök fyrir því að ekki hefði verið' hægt að halda hann hvenær sem var frá fyrstu heimsókninni til forsetans um kl. 5 síðdegis 25. júní og þar til yfirlýsingin var undirrituð kl. 11—11.30 það sama kvöld. Nefndin hefur hvort eð er nægar sannanir fyrir því, að Indira Gandhi var að ráðgera yfirlýsinguna um neyðar- ástand allt frá 22. júní. Hún hafði líka rætt þá hugmynd við nokkra pólitíska trúnaðarmenn sína strax að morgni 25. júní. Hér virðist því liggja til grundvallar eina ástæðan fyrir því að bera fram þessa furðulegu beiðni til forseta landsins um að lýsa yfir „neyðarástandi í landinu" og hún er úrskurður hæstaréttar Allahabad, þar sem því er lýst yfir að kosningar forsætisráðherrans væru ólöglegar vegna ólögmætra kosningaaðferða. Hindrunum var beitt við þúsundir manna og þessu fylgdu ótal gjörsamlega ólöglegar og áður óþekktar aðgerðir, sem höfðu í för með sér mannlega eymd og vesöld, sem engar, sögur fara af. Meðan engin skýring liggur fyrir, hlýtur óhjákvæmilega að verða1 dregin sú ályktun að forsætisráðherra hafi hagsmuna sinna vegna tekið póli- tíska ákvörðun, í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga sér undan löglegum úrskurði dómstóls gegn sjálfri sér.“ I þetta sinn verð ég að bæta við áður en ég lýk þessum skrifum, að Indira Gandhi og flokksmenn hennar höfðu hvað eftir annað brotið lög áður en neyðar- ástandinu var lýst yfir á fölskum forsendum, með því að efna til herferðar gegn úrskurði hæstaréttar um að hún hefði ekki hlotið sæti á þingi og ætti ekki rétt á því. Strætisvagnar og flutningabíl- ar voru teknir ólöglega til að flytja stuðningsmenn hennar á „óvænta“ mót- mælafundi í Delhi. Opinberir starfsmenn voru á sama hátt dregnir inn í flokksað- gerðir, andstætt því sem lög gera ráð fyrir. Jafnvel voru notaðar flugvélar indverska flugflotans. Og bann við fundum og mótmælagöngum var látið afskiptalaust, þegar flokkur Indíru Gandhi skipulagði þess háttar aðgerðir. Myndin er alveg skýr. Eftir að dómstólar höfðu lýst því yfir að Indíra Gandhi væri ekki lögum samkvæmt rétt kjörinn forsætisráðherra, þar sem hún hefði beitt ólöglegum aðferðum, þá gerði hún sig fyrst seka um lagabrot með því að skipuleggja sýndaraðgerðir til að sýna víðtæka og almenna andstöðu við dóms- úrskurðinn. Og þegar hún hafði gert sér ljóst að lýðræðið yrði að afnema ef hún ætti að halda áfram að gegna embættinu, þótt ólöglegt væri, þá lagði hún á ráðin um að framkvæma það. Þar næst laug hún að forsetanum um ástandið í landinu og laug því einnig að nauðsynlegar aðstæður til neyðaraðgerða, sem hún sjálf hafði ráðgert, hefði borið að svo brátt að ekki væri svigrúm til að leggja málið fyrir ríkisstjórnina. Höfundur greinarinnar, Bernard Levin, sem skrifar reglulega í The Times, boðar í lokin frekari umfjöllun um það sem gerðist eftir að Indira Gandhi náði algerum völdum, eftir að hann hefur hér að ofan gert grein fyrir því hvernig hún fór að því. Indíra Gandhi á orðaskipti við nokkra ritstjóra um það leyti sem hún tók sér alræðis vald á árinu 1975.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.