Morgunblaðið - 17.12.1978, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 17.12.1978, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 17. DESEMBER 1978 95 , ,Ég erfdi ekki fé ég erfði dyggðir” ÁsKoir Jakobsson Einars sajja Guðfinnssonar. SkuKKsjá 1978. Þetta er mikil bók, 23 arkir, það er 368 blaðsíður, og í henni er fjöldi mynda af Bolungarvík og fleiri stöðum. Þá eru þar margar myndir af sögumanninum og nánustu ættingjum hans, sam- starfsmönnum, skjólstæðingum og vinum. Fyrsti kaflinn heitir Sagan og sögumaðurinn. Þar segir meðal annars svo: „Einari var það metnaðarmál, að söguritarinn væri Bolvíkingur, enda væri heimamanni hægara um vik að segja söguna en öðrum, sem væri söguefnið framandi og sögusviðið. Sagan er sögð af söguritara og Einari sjálfum til skiptis." Það er vissulega rétt athugað, að þessa bók hefði ekki neinn getað skrifað, sem hefði aðeins dvalið í Bolungarvík tiltölulega skamman tíma og fáa eða enga þekkt þar, þá er hann hefði komið þangað. Og erfitt hefði það einnig reynzt ungum Bolvíkingi. En Ásgeir Jakobsson er fæddur og uppalinn í Bolungarvík, hefur stundað þar sjó og man þá daga, sem Einar Guðfinnsson var þar landnemi, þekkir þar hvern mann af hinum eldri kynslóðum og kann skil á svo að segja hverju mannsbarni. Hann man Víkina, þegar hún var enn fyrst og fremst verstöð á gamla vísu, og hann hefur verið áhorf- andi að þeirri baráttu, sem því hefur fylgt að gera Víkina að einum glæsilegasta kaupstað landsins og athafnabæ, þar sem engan skortir vinnu. Hann rtian og Víkurjarlinn Pétur Oddsson, sem var um skeið talinn einn af ríkustu mönnum landsins og var, að því er virtist, hamingjunnar óskabarn, gáfaður maður og lesinn, kvæntur góðri konu og með efnilegan hóp barna í kringum sig, en varð síðan slíkur harmkvælamaður af völdum „hvíta dauðans," að verða að sjá á eftir konu og börnum niður í moldina í kirkjugarðinum á hinu söguríka og eftirsótta höfðingja- setri, Hóli, og lézt aldraður sem snauður einstæðingur, en með þá hamingju í vitund sinni, sem marka má af því, að hann kaupmaður og útgerðarmaður vestur í Bolungarvík, kostaði útgáfuna á Árin og eilífðin, predikanasafni hins frábæra mælskumanns, eldhuga og trúar- leiðtoga, Haralds Níelssonar. Það liggur við, að mér þyki miður að þurfa að skýra frá, að Halldóra, móðir Einars Guðfinns- sonar, var ekki Vestfirðingur. Hún var fædd og uppalin í Skagafirði, skagfirzk í aðra ættina, en Hún- vetningur í hina. En bót er í máli að geta sagt frá því undri, að þá er hún hafði lengi beðið á Sauðár- króki eftir Ameríkufari, ásamt stórum hópi af fólki, dreif hún sig, 17 ára stúlkukorn, út í skip, sem kom á Krókinn og átti að fara til ísafjarðar. Þar fór hún í land, og þar með var það af örlögunum ráðið, að hún yrði ættmóðir mikillar og merkrar ættar á Vestfjörðum. Guðfinnur, faðir Einars, var sonur merkisbóndans Eipars Hálfdánarsonar, prófasts á Eyri í Skutulsfirði Einarssonar, bróður Helga Hálfdánarsonar sálmaskálds og forstöðumanns prestaskólans. Einar bjó lengst á Hvítanesi við Skötufjörð. Hann var kvæntur Kristínu, dóttur séra Ólafs Hjaltasonar Thorbergs. Þau eignuðust 14 börn. Af þeim dóu fimm í bernsku og tvö fullvaxta, en auk þessa barnahóps átti Einar son utan hjónabands. Hann ól Kristín upp sem sitt eigið barn, og varð hann vel að manni. Um Kristínu húsfreyju segir svo í Einars sögui „Kristín Thorberg var öndvegis- manneskja að dómi samtíðar- mannanna, og sýnir það ágæti henar, hvernig hún snerist við hjúskaparbroti bónda síns ... Hún fékk slæmt handarmein, þegar þau hjón bjuggu í Fremri-Hnífsdal, og það hljóp drep í sárið. Það er líkast til sönn saga, að Einar hafi sjálfur sagað hendina af konu sinni, þegar í óefni var komið, en það hefur vafalítið verið undir tilsjón Þor- valdar læknis Jónssonar, sem þá var kominn á Isafjörð. Einar var harður af sér eins og sést af minningu sonarsonar hans, Einars Guðfinnssonar, en hann man afa sinn háaldraðan og hefur minnzt hans með svofelldum orðum á ættarmóti: „Einar, afi minn, var hættur búskap, en átti nokkrar kindur, þegar ég man eftir honum. Hann var farinn að sjá illa, en til þess að geta slegið sjálfur,, batt hann skinnbætur á hnén og sló á hnjánum. Hann vafði oddinn á ljánum, hélt um báða enda og sló þannig eða öllu heldur skar grasið. Afköstin voru ekki mikil, en svona var athafnaþráin rík.“ Það kemur greinilega fram í Einars sögu Guðfinnssonar, að hann hefur trúað því að örlög réðu jafnt lífi sem dauða, og verður varla annað sagt en að örlögin hafi verið að verki, þegar hin skag- firzka Halldóra Jóhannsdóttir brá Ásgeir Jakobsson. á það ráð að flytjast til ísafjarðar, þar öllum ókunn, en ekki Ameríku, en svipað má segja um það, hversu það vildi til, að hún réðst kaupa- kona að Hvítanesi og síðan tókust ástir með þeim Guðfinni Einars- syni. Þrír Hvítanessbræðra fóru til Isafjarðar, og eitt af erindum þeirra var að ráða kaupakonu. Þeim varð þá það fyrir að fara þangað sem fjöldi kvenna var að verki á fiskreitum, og þar var í hópnum stúlkan skagfirzka. Hún mun hafa unnið rösklega, en þó gefið sér tíma til að líta á Hvítanessbræður, og að henni viku þeir sér með erindi sitt. Og jú, jú, hún brá við, fór heim til húsbónda síns og fékk sig lausa úr vistinni. Og þar með var framtíð hennar ráðin. Hún giftist Guðfinni Einarssyni. Þau voru fjögur ár í Hvítanesi, en bjuggu síðan á smábýli, sem þau kölluðu Litlabæ. Þetta býli var á nesinu milli Hestfjarðar og Skötufjarðar og fylgdi því dálítill landskiki. Þar höfðu hjónin eina kú og tuttugu kindur, en annars var björgin ‘ fyrst og fremst sótt í sjóinn. Guðfinnur bóndi reri úr Bolunga- vík á vetrarvertíðum, en heiman að í Skötufjörðinn og Djúpið á öðrum tímum árs. Þau Halldóra eignuðust 15 börn, og þar af komust 9 til fullorðinsára. Auðvit- að fóru synirnir snemma að stunda sjóinn, og segir Einar, að aldrei hafi heimilið verið bjargar- laust, og samt voru hjónin gjöful og gestrisin og svo hjálpsöm, að þau bættu jafnvel við á heimilið sér óviðkomandi vesalingum, ef þörfin var brýn. t Einar dáir mjög skörungsskap, dugnað og aðra mannkosti móður sinnar, sem vitanlega var forsjón heimilisins, þegar bóndi hennar var í verinu. Má nærri geta, að ekki hafi henni alltaf verið rótt, þegar mestur var veðrahamurinn, og þá mun hún ekki hafa verið alls kostar áhyggjulaus, þegar Sigfús, sonur hennar, gerðist 11 ára formaður og fiskaði á lóðir á grunnmiðum með Einar, bróður sinn, 8 ára gamalan sem háseta. Einar mat líka og virti föður sinn mikils, engu síður en móðurina. Guðfinnur var bókamaður, en þó sívinnandi á sjó eða landi, og svo var hann vandaður, að af bar. Einar lætur þess getið, að þegar þar kom, að hann þurfti á fyrirgreiðslum að halda til fram- kvæmda, þá aðeins unglingur, sögðu menn, þegar hann hafði sagt, hverra manna hann væri: „Nú, þú ert sonur hans Guðfinns í Litlabæ. Þá er óhætt að lána þér.“ En þó að Guðfinnur væri valin- kunnur dugnaðar- og skilamaður, segir Einar frá því sem sárri minningu, að eitt haustið var föður hans, sem hafði þá lagt inn allan sinn haustafla, neitað um úttekt til jólanna! Þau hjónin í Litlabæ höfðu sem sé í sig og á, en engan munað, meðal annars ekki þann að geta veitt börnum sínum þá fræðslu, sem ljóst var, að þau þráðu og höfðu brýna þörf fyrir, og kemur það víða fram í Einars sögu. að það hefur hann alltaf harmað. En snemma kom fram, hve framtaks- samur hann var og í rauninni stórhuga. Seytján ára gerðist hann formaður á eigir. fari, og ekki leið á löngu, unz hinn eini arfur hans bar athyglisverðan ávöxt. Fyrir- sögn þessa_ greinarkorns er hans eigin orð, Eg erfði ekki fé, en ég erfði dyggðir, og þær voru: áhugi, , framtak, ósieitileg iðjusemi, sparsemi og nýtni, skilvísi sem af bar og sú tilfinning, að hann hefði skyldur gagnvart samborgurum snum. Þetta allt gengur sem rauður þráður gegnum hina löngu sögu hins þjóðkunna athafna- manns. Hann eignaðist konu, sem var af dugandi fólki komin, vandist í bernsku vinnusemi og myndarskap heima fyrir og í góðum vistum, og hefur svo verið bónda sínum samtaka um að ala þannig upp hin mörgu börn þeirra, að hvað sem ástandi og aðstöðu liði teldu þau sér skylt og hollast að vinna, strax og þau voru nokkurs megnug, að þeim störfum, sem voru undirstaða alls þess, sem gerzt hefur til bóta í Bolungavík á þeirri rúmlegu hálfu öld, sem Einar Guðfinnsson hefur, fyrst sem eini forystumaður sinna fyrirtæja, síðan með tilstyrk velgefinna vinnusamra og vel menntaðra sona, breytt óhrjálegri verstöð í einhvern allra glæsileg- asta kaupstað þessa lands. Einari farast þannig orð í upphafi kaflans í skóla lífsbarátt- unnar. „Ég átti ekki harðan uppvöxt borið saman við ýmsa jafnaldra mína, sem ólust upp við örbirgð eða á hrakhólum, því að ég ólst upp við hjartahlýju og umönnun góðra foreldra og hafði nóg viðurværi til að ná fullum þroska. En tímarnir eru svo breyttir, að það var eitt sinn, þegar fjölskylda mín hittist öll, að ég fór að rifja upp eitt og annað frá æskuárun- um. Þá gall við í einu barnabarna minna í miðjum klíðum í frásögn minni: „Heldurðu, að þig misminni þetta ekki, afi?“ Ég var þó ekki að gera annað en lýsa kjörunum og lífinu á bjargálna heimili um aldamótin, fábreyttu lífi án munaðar og skemmtana, gernýtingu klæða og matar og sparnaðar í hverju einu og löngum vinnudegi foreldra minna allan ársins hring — og hvernig við börnin fórum að hjálpa til við verkin á þeim aldri. þegar börnum nú er ekið í skólann í fyrsta skipti.“ (Leturbreyting mín. G.G.H.) I því, sem ég hef þegar sagt um þessa bók hef ég lagt ærna áherzlu á að lýsa þeim arfi, sem Einar Guðfinnsson hlaut í föðurgarði — og börn hans síðar nutu. Og þetta hef ég gert af þeim sökum, að ég hef um áratuga skeið fylgzt af eðlislægum áhuga með því, sem fram hefur farið í Bolungavík, þar eð það er sannfæring mín, byggð á langri reynslu og athugun, að vinnusemi, starfsgleði og ábyrgðartilfinning gagnvart jafnt nágrönnum sem þjóðinni allri sé óhjákvæmileg undirstaða góðs gengis einstaklings og samfélags — líka íslcnzku krónunnar. ef krónu skyldi kalla. Og það var einmitt þetta, sem ég vildi sagt hafa með síðustu skáldsögu minni: „Hamingjan er ekki alltaf ótukt." Svo sem áður getur hefur söguritarinn haft þann hátt á gerð sögunnar, að ýmist hann sjálfur eða sögumaðurinn segja frá. Þetta er frekar óvenjulegt form á ævisögu, og í fyrstu mun lesandan- um í stundum þykja umskiptin frá söguritara til sögumanns nokkuð skyndileg, en svo venst hann þessu og finnst það ekki slíta söguþráð- inn til óþæginda. Sannleikurinn er sá, að Ásgeir hefur viljað koma að sem flestum og flestu, sem að meira eða minna leyti hefur haft áhrif á aðstæður og umsvif Einars og þar með framvindu breytinga og bóta, og vissulega er margt athyglis- og eftirminnilegt í sög- unni, hvort sem Ásgeir eða Einar segir frá. Ég nefni þá fyrst þá háttsemi Einars, að vera alltaf fram á elliár verkstjóri og sjálfur þátttakandi í svo til öllu, sem unnið var, en velja sér mjög vel færan og gagnvand- aðan mann til þess að sjá um bókhald og skriffinnslu. Þetta varð til þess, að betur var unnið en ella hefði orðið og á hagkvæmari hátt, og auk þess kom það á náinni samstöðu verkafólks og vinnuveit- enda, enda veit ég frá þeim árum, sem ég var á ísafirði, að Einar vildi sem allra minnst afskipti hafa af verkföllum, sem fyrst og fremst voru runnin undan rifjum bankavalds og státinna nýgræð- inga i atvinnustétt, er lögðu í það metnað sinn að halda við lægra kaupgjaldi í Bolungavík en öðrum sjóþorpum á Vestfjörðum og hlutu svo „skell fyrir skildinga“. Þá er það bátaeign Einars. Hann vissi Bókmenntir eftir GUÐMUND G. HAGALÍN sannarlega, að það var yfirleitt hans hagur og fólksins í þorpinu, að sem mestur fiskur bærist á land. Svo varð þá að fjölga bátunum, svo að segja hvernig sem áraði. Og það gerði Einar lengi vel á mjög svo hagkvæman hátt, ekki aðeins sér heldur og öðrum. Hann valdi ávallt sem sameignarmann annaðhvort reyndan og fiskinn formann — eða þá ungan og ötulan sjómann, sem líklegur var til að sækja vel sjó og reynast fiskisæll. Það var svo hagur hans og sameignarmannsins og raunar líka þorpsbúa allra, að hinn nýi bátur reyndist happafleyta. Loks var það, hvernig þessi mikli skilamaður brást við, ef auðsætt var vegna verðfalls á fiski, afla- leysis eða annarra áfalla, að honum mundi ekki reynast fært að standa við gefin loforð eða samn- inga. Þá beið hann ekki, unz allt var komið í eindaga, en leitaði Einar Guðfinnsson. alllöngu fyrir fram frestunar á greiðslum. Loks er svo það vandamál, sem olli slíkum erfiðleikúm við útgerð í Bolungavík áratugum saman, að heita má undur, að bolvískir hörkusjómenn skyldu ekki gefast upp á því og útgerðarmenn sömu- leiðis. Þó að Bolungavík væri hafnlaus, lá hún vel við fiskimiðum, þaðan var jafnvel stuttróið, þó að fáfiski væri í Djúpinu. En þegar vélbát- arnir komu til sögunnar, varð hún á vissan hátt hálfgildings vand- ræða verstöð. Hún lá svo til fyrir opnu hafi, og þangað lagði sjói úr Jökulfjörðunum, þegar styrmdi af norðaustri. Svo varð þá að setja vélbátana ofan og upp í hvert skipti, sem róið var. Var því illgerlegt að róa úr Víkinni bátum, sem voru stærri en 7 smálestir. Stærri báta og þyngri varð vart eða ekki ráðið við, svo sem aðstæður voru í fjöru og fyrir landi. Lýsa þeir Einar og Ásgeir þessum erfiðleikum mjög greini- lega, og frábær að skýrleik og nákvæmni er lýsing Ásgeirs á því fyrirkomulagi, sem þarna var við haft. En það var ekki sopið kálið, þó að það væri í ausuna komið. Brátt kom í ljós, eftir að vélbátum fjölgaði geysilega á fáum árum og bæði erlendir og innlendir togarar sóttu á grunnmið Bolvíkinga, að heimamann urðu oft og tíðum að sækja á djúpmið á sínum litlu fleytum, og það víluðu þeir ekki fyrir sér. Það sýnir bezt, hverjir afbrigða formenn og stjórnarar voru á þessum fleytum, að ekki fórust fleiri bátar úr flota Bolvík- inga heldur en úr röðum hinna í þennan tíma svokölluðu „stóru báta“ í nálægum verstöðvum. Ég sagði áðan, að frábærlega skýr væri lýsing Ásgeirs Jakobs- sonar á því, hvernig bolvískir sjómenn hefðu sett báta sína upp og ofan. Og flest er vel um þessa bók frá hendi Ásgeirs. Hann segir oft fjörlega frá, en hefði mátt leggja meiri rækt við að sýna meðfædda kímni sögumannsins. En þótt ég hafi rekið augun í sitthvað smálegt, sem hefði mátt betur fara, ef nostrað hefði verið við það, eyði ég ekki rúmi í neinn sparðatíning. Ymsum mun þykja minnst stuttlega á of marga báta og menn, en þess ber að gæta, að hver nýr bátur var þrep á leið Einars upp og fram — og að hver dugandi formaður er merkur fulltrúi þeirrar stéttar, sem alls staðar er, beint eða óbeint, grund- völlur íslenzkrar afkomu og reisn- ar. Hér læt ég staðar numið, fer ekkert út í lýsingar á því þjóð- kunna blómaskeiði, sem nú ríkir i Bolungavík. Aftast í bókinni er niðjatal •þeirra Einars Guðfinnssonar og konu hans, Elísabetar Hjaltadótt- ur, og loks tvídálka nafnaskrá á 8 blaðsíðum. Ég þakka svo að lokum Ásgeiri Jakobssyni, Einari Guðfinnssyni og bókaútgáfunni Skuggsjá þessa bók og óska þess, að hvar sem einstaklingsrekstur ber svipaðan ávöxt og undanfarið í Bolungavik megi þjóðin bera gæfu til að meta það, því að án þeirra d.vggða, sem EinarN Guðfinnsson tók í arf og háfði í heiðri, blómgast enginn rekstur þjóðinni til farsældar, undir hvaða merki, sem hann er stofnaður og starfræktur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.