Morgunblaðið - 13.02.1979, Page 34

Morgunblaðið - 13.02.1979, Page 34
MORGUNBLAÐIÐ. ÞRIÐJUDAGUR 13. FEBRUAR 1979 34 Minning: Áslaug M. Ólafsdóttir hárgreiðslumeistari Fædd 24. mars 1926. Dáin 3. febrúar 1979 Tímamót í starfsævi fólks eru oft metin með þrennum hætti, — ungt fólk, miðaldra og gamalt. Þrátt fyrir þessi þrjú aldursskeið er yfirleitt forðast að ákveða þau hvert fyrir sig í árum talið. Oft heyrist þó nefnt eitt ævi- skeiðið enn, sem nefnt er um konur jafnt sem karla, en er þó sennilega enn ónákvæmara talið í árum. Þetta er æviskeiðið þegar sagt er, að hún eða hann sé „á besta aldri". Hugsunin að baki þessum orðum mun þó óefað vera sú, að þá muni viðkomandi á besta starfsaldri, — þ.e. kominn yfir draumsýnaraldur ungdómsins, en ekki farinn að slitna að orku.sálar eða líkama. — Töluverð og mark- tæk lífsreynsla og yfirsýn er fengin, en kjarkur og þor óskert til að takast á við erfiðleika samtíðarinnar. . Ekki er mér fullkomlega ljóst, hvort það var vitundin um hinn jafna aldur okkar Aslaugar Margrétar Ólafsdóttur, eða hin nánu kynni fjölskyldna okkar sem ollu því, að einmitt þessi orð „hún, sem var á besta aldri", komu fyrst upp í huga minn, þegar ég frétti lát Áslaugar. — Sjálfsagt var orsök þessarar hugsunar samofin þessu öllu. Andlát Áslaugar kom ekki, sem óvænt reiðarslag, að minnsta kosti ekki þeim sem gerst til þekktu, en eigi að síður þungbært. Nánast allt sl. ár gekk hún ekki heil til skógar og lokastríð hennar var strangt og erfitt, þar til hún lést á Land- spítalanum 3. febrúar s.l., tæplega 54 ára að aldri. Utför hennar fer fram í dag kl. 3 e.h. í Fossvogskapellunni. Áslaug Margrét var ein af átta börnum hjónanna Ólafar J. Ólafs- dóttur (látin 1968) og Ólafs Árna- sonar sjómanns og síðar yfirfisk- matsmanns, sem nú horfir á bak öðru barna sinna, en áður (árið 1953) misstu þau hjón son sinn Axel. Eiginkonu sína missti Ólafur, svo sem fyrr er greint, árið 1968. — Frá andláti móður sinnar og til æviloka annaðist Áslaug húsmóðurstörf á heimili föður síns, enda þá orðin ein eftir í foreldrahúsum af systkinahópn- um, auk skyldustarfa á hár- greiðslustofu sinni að Miklubraut 1, hér í borg. Þótt Áslaug Margrét giftist aldrei, reyndi vissulega á hús- móðurskyldur hennar, ekki síst eftir að hún tók við hinu umfangs- mikla hlutverki móður sinnar að hafa fjölskyldumiðstöðina áfram í foreldrahúsum. — Systkinin öll, sem búsett eru hér í Reykjavík, hafa hins vegar átt miklu barna- láni að fagna og urðu að vissu leyti hennar eigin börn. Á unga aldri gætti Áslaug þeirra gjarnan í fjarveru foreldra, og þegar árin færðust yfir, fóru þau ekki „bón- leið til Búðar" í heimsókn til afa og Ásu frænku á Bústaðaveginn. — Ef eitthvað bjátaði á í þeirra lífsbaráttu, var „Ása frænka" a.m.k. betri en enginn við að hjálpa til með úrlausn og sparaði ekki fyrirhöfn í því sambandi. Tryggð Áslaugar við föður sinn, systkini sín og þeirra börn, lýsa gleggst mannkostum hennar. í hinni öru atburðarás nútímans, sem nefnt hefur verið „lífsgæða- kapphlaup“, þar sem hver þykist hafa nóg með að bjarga sér og sínum eigin vandamálum, — þá lifði Áslaug nánast alla ævi, fyrir aðra. Af slíku fólki er samtíð okkar allt of fátæk. Þess vegna er skaðinn að missi slíks fólks langt fyrir aldur fram meiri en í fljótu bragði kann að virðast. Þar er ekki aðeins um að ræða mannslát, heldur lítt bætanlegan mann- skaða. Leiðir okkar Áslaugar lágu fyrst saman á námsárum okkar beggja í Iðnskólanum hér í Reykjaík á árunum 1943—1946, en þá útskrif- uðumst við bæði á sama tíma. Kynni okkar urðu lítil á þessum árum og markið ekki sett hærra en það, sem á þeirra tíðar máli var kallað að „að verða eitthvað". Þetta illskýranlega hugtak „eitt- hvað“ var í okkar hópi það að standast lokapróf í okkar annars óskyldu iðngreinum. Eftir að Iðnskólanámi lauk, vann Áslaug um þriggja eða fjög- urra ára skeið hjá öðrum meistur- um í hárgreiðsluiðn sinni. Á árinu 1952 réðst Áslaug í að stofna sína eigin hárgreiðslustofu í eigin nafni, sem hún rak síðan allt þar til krafta þraut á síðari hluta sl. árs, og ávallt á sama stað, að Miklubraut 1 hér í borg. Um svipað leyti og Áslaug hóf sjálfstæðan atvinnurekstur knýtt- ust fjölskyldur okkar nánari bönd- um með sambýli á Bústaðavegin- um. Allt frá þeim tíma var vinátta milli fjölskyldna okkar svo sem best varð á kosið og allur sam- gangur þar á milli með þeim hætti, að aldrei bar nokkurn skugga á. — Það er skoðun mín, byggð á góðri reynslu, að glöggskyggni eða næm- leiki barna á manngæði einstakl- inga sé mun meiri en vísindi og vélvæðing nútímans vill viður- kenna. — Með barnahóp í nábýli við fjölskylduna á Bústaðavegi 69 voru engin vandamál eða óþarfa árekstrar. Umburðarlyndið og skilningur á athafnaþörf heil- brigðra barna sat þar í öndvegi hjá Ólöfu og Ólafi, foreldrum Áslaug- ar og þessa góðu eiginleika for- eldra sinna erfði Áslaug í ríkum mæli. Það var því engin tilviljun, að Ása laðaði börn að sér, enda fór hún ekki varhluta af áganginum, sem þessu fylgdi. I stað þess að mörgum finnst ami að barna- skvarldri, þá brosti hún aðeins sínu blíðasta brosi, þegar ærslin urðu mest. Þótt Áslaugu auðnaðist ekki sjálfri eð eignast börn, þá hvarfl- aði sú hugsun oft að mér, hvort hún í rauninni ætti ekki allan hópinn sem í kringum hana var, bæði skyld sem óskyld. — Þann veg var lundarfar hennar. Dagfarslega var Áslaug hlédræg og allt að því feimin og hljóðlát. Gæfist henni tækifæri á stundum frá skyldum sínum í góðra vina hópi, gladdist hún af sömu ein- lægninni. Alúð og umbúðalaus einlægni í störfum og leik eru eiginleikar sem auðvelt er að rangtúlka og með miður góðum hugsunarhætti, er einnig hægt að misnota. Ekki er mér þó kunnugt um að Ása hafi orðið fyrir áföllum af þeim sökum, en í huga þeirra, sem henni kynntust, festi hún þá mynd af sér svo greinilega, sem ávallt fylgir hlýja að minnast. — Þessir eiginleikar, sem svo mjög einkenndu líf og starf Áslaugar Margrétar Ólafsdóttur eru þó áreiðanlega föslkvalausust og ein- lægastir í huga barnahópsins, sem, þótt nú séu orðin eldri, sakna nú vinar í stað. Bestu launin Áslaugar til handa væru áreiðanlega þau að sem flestum úr þeirra hópi mætti auðnast að tileinka sér þessar lyndiseinkunnir hennar — af því yrði þau öll betra fólk. Um leið og ég og fjölskylda mín vottum eftirlifandi föður Áslaug- ar, Ólafi Árnasyni, okkar dýpstu samúð við fráfall ástkærrar dótt- ur, þá sendum við einnig systkin- um hennar, börnum þeirra, ætt- fólki og vinur hennar öllum, ein- lægar samúðarkveðjur. Við kveðjum Ásu, þökkum góða og ógleymanlega samfylgd, sem ekki gleymist þótt leiðir skilji um sinn. — Góðraog sannra vina, er ávallt gott að minnast. Far þú í friði. Eggert G. Þorsteinsson. Kveðja frá frænku „Að gefa af eigum sínum er lítil gjöf. Hin sanna gjöf er að gefa af sjálfum sér.“ (Spám.). Þegar ég hugsa um Ásu frænku mína, nú þegar hún er flutt frá okkur og horfin okkar mannlega auga, þá eru mér þessi spakmæli efst í huga. Sannarlega gaf hún af gnægtum sálar sinnar alla ævi, bæði í starfi og allri umgengni. Og það veit ég að þær konur sem hafa komið til hennar í hárgreiðslu um áraraðir, notið hennar högu og listrænu handa, þær munu allar samþykkja og skilja hvað ég á við. Að vera hárgreiðslumeistari og þjóna öðrum er mikið og göfugt starf. Meira en flesta grunar snöggt á litið. Það felst meir í því en bara greiða hár, það er göfg- andi að gleðja og fegra aðra og kveikja þannig nýja gleði og bjart- ari vonir hjá öðrum hvern dag í starfi. Oft kom ég þreytt og óánægð með sjálfa mig til Ásu frænku í hárgreiðslustofuna að Miklubraut 1. Þar var ætíð tekið á móti mér með innilegri gleði og vináttu, eins og mín hefði sérstak- lega verið vænst með eftirvænt- ingu. Kaffiketillinn drifinn í sam- band og kaffið hitað meðan hárið var listilega greitt og strokið. Á meðan fóru fram léttar og skemmtilegar umræður og aldrei kastað hnjóðsyrði á nokkurn mann. Gleðin ríkti ætíð yfir stof- unni hennar Ásu. Ég fór ætíð frískari og glaðari en ég kom. Þó ferðir mínar til hennar hafi ekki verið eins margar nú á seinni árum, þá leit ég alltaf inn hjá henni öðru hvoru, mér til skemmtunar og ánægju. Ég á margar ágætar frænkur, en ég sagði stundum að Ása væri mín eina frænka, við áttum svo margt sameiginlegt. Það er mikill söknuður sem hvílir yfir kveðjustund sem þess- ari fyrir ættingja og vini, en sárast er fyrir aldinn föður að sjá á bak yndislegri og umhyggju- samri dóttur á besta aldri. En örlög okkar eru í hendi þess sem ræður og okkar er ekki að gagn- rýna þær ákvarðanir, þó við fávís- ar mannverur skiljum ekki þann skapadóm. Áslaug var ætíð vak- andi yfir velferð heimilisins. Hún tók við húsmóðurhlutverki eftir móður sína sem andaðist fyrir allmörgum árum. Hún rækti það starf af sannri hjartahlýju og umhyggju. Hún var sannkallað akkeri fyrir alla fjölskylduna á Bústaðavegi 69. Þangað komu öll hennar elskulegu systkini og þeirra fjölskyldur alltaf heim, það felst mikið í þessu eina orði „heirn". Áslaug var sérstaklega barngóð manneskja, hún naut návistar barna af næmum skilningi og gleði. Ég fann það best, að þegar hún minntist á systkinabörn sín, var eins og hún sjálf ætti þau hvert og eitt. Það er lögmál lífsins að sólin sest að kveldi og blómin loka krónum sínum, þannig er því einnig farið með okkur, við lútum sama lögmáli á ýmsum aldri. Misjafnlega skilum við hlutverki því sem okkur er úthlutað, flestir reyna að gera sitt besta. Ég vil þakka fyrir þá gjöf sem mér hefur hlotnast að eiga Áslaugu Ólafs- dóttur fyrir frændkonu. Minningin um hana verður eins og bjartur sólargeisli í huga mínum. Ég er sannfærð um að þess er skammt að bíða að viðhorf til dauðans og viðskilnaðarins við ástvini okkar eigi eftir að breytast. Vísindin munu ná öruggu sambandi við það tilverusvið er við hverfum til að jarðvist lokinni. Dauðinn verður þá sem flutningur í annað land með betri skilyrðum og fegurra lífi. Þá verður sorgin hverfandi. Ég kveð kæra frændkonu um stund, vitandi það að fundum okkar á eftir að bera saman á ný í bjartari heimi. Og útréttir armar ástríkrar móður og elskulegs bróð- ur taka nú með fögnuði á móti henni. „Því þar bíða vinir í varpa sem von er á gesti." Stefanía R. Pálsdóttir. Guðni Tyrfingsson —Minningarorð Fæddur 4. aprfl 1897. Dáinn 18. janúar 1979. Þegar ég heyri góðs manns getið, fer það ekki á milli mála að mér detti Guðni Tyrfingsson, fóstri minn, í hug. Ekki fyrst og fremst af því að hann er nýlátinn, heldur af því að hann kenndi mér þá speki að vinna, hvort sem hún er unnin fyrir mann sjálfan eða annan, á að vera vel af hendi leyst. —'Það hlýtur að vera aðall hvers manns. Fóstri minn var eðli sínu trúr: Aðeins tveim dögum áður en hann lagðist banaleguna var hann önnum kafinn inni í Pípugerð Reykjavíkur svo ekki verður hægt að segja um hann að hann hafi látið deigan síga, þó hann væri kominn á níræðisaldur. Guðni Tyrfingsson var fæddur að Ártúnum á Rangárvöllum 4. apríl 1897, sonur hjónanna Þórdís- ar Þorsteinsdóttur og Tyrfings Tyrfingssonar. Bæði voru þau af góðum og grónum Rangæingaætt- um og Tyrfi gamli „afi minn“ eins og ég kallaði hann, hélt sig alltaf að höfðingjasið, átti silfurbúna svipu og úrvalshesta. Tyrfingur er sá maður sem mér hefur þótt einna vænst um, alltaf tilbúinn að ræða. Meðal annars kenndi hann mér gotneskt letur þegar ég var níu ára og í Islend- ingasögum var hann ekki ófróðari en margur prófessor. Það var ekki ónýtt að eiga slíkan fræðaþul að, þó að háskólamenntaðir nýgræð- ingar hafi gert það að' keppikefli að níðast á ísl. bændamenningu. Ég man ekki hvort það var 1924 eða ’25 sem mamma réðst með litla strákinn sinn að Kastalabrekku (áður Vetleifsparti) til Tyrfings og voru það henni og mér örlagarík spor. Þar kynntist hún Guðna syni hans og gengu þau í hjónaband 1928 og reistu bú að Herríðarhóli rétt við bakka Þjórsár. Þar fædd- ist systir mín og þó ég væri ekki stór, varð ég svo hamingjusamur yfir nýfæddri systur minni að mér fannst sólin fegurri í marga daga á eftir. Ekki var búseta þeirra hjóna löng á Herríðarhóli, því að eftir 3 ára búsetu þar fluttust þau niður að Vetleifsparti (nú Kastala- brekka) þar sem þeir bjuggu faðir hans og Guðmundur bróðir hans í vesturbænum. Voru það mikil við- brigði að koma úr einangrun frá Herríðarhóli og í hverfi þar sem bjó um 80 manns. Þá var ég kominn til afa míns aftur og var eðlilega eins og heima hjá mér þó að ég saknaði Herríðarhóls á vissan hátt. Ég var búsettur í Reykjavík, þegar fóstri minn keypti Heiði í sömu sveit og þar bjuggu þau hjónin til ársins 1948 þegar fóstra mínum var ráðlagt af lækni að flytjast til Reykjavíkur vegna þess sjúkdóms, áem hrjáir marga bændur, svokölluð heymæði sem kemur af því að anda að sér ryki því sem kemur alltof oft af óþurrkasvæði sem kallast Suður- land. Öðrum eins eljumanni eins og Guðni var hefur varla líkað það að vera iðjulaus til lengdar þegar hann fluttist hingað á mölina. Það var víst ekki síst fyrir tilmæli Gísla Gíslasonar á Flóka- götu 23 að hann fékk starf hjá Pípugerð Reykjavíkur þar sem hann vann til dauðadags eða um 30 ár. Þó að seint sé langar mig að þakka Gísla það höfðingsbragð. Nú eru komin leiðarlok: Margir munu minnast Guðna Tyrfings- sonar fyrir þá ósérplægni, sem hann sýndi í lífinu. Og ég veit að dótturbörn hans, Skúli, Guðrún, Lena og Erna, gleyma ekki afa sínum þó hann sé dáinn. Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem sýndu okkur samúð og vináttu bæði við andlát Guðna og við jarðarförina — þegar maður sér vináttu fólksins fær lífið nýjan tilgang. Hvíl í friði fóstri minn. Ólafur Þ. Ingvarsson. Afmœlis- og minningargreinar ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minningargreinar verða að berast blaðinu með góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í miðvikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. Greinar mega ekki vera í sendibréfsformi eða bundnu máli. Þær þurfa að vera vélritaðar og með góðu línubili.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.