Morgunblaðið - 21.02.1979, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 21.02.1979, Blaðsíða 13
MORGUNBLADID, MIÐVIKUDAGUR 21. FEBRÚAR 1979 13 mjölsframleiðenda í stjórn Verð- jöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins var hann frá stofnun sjóðsins 1969 til 1977. Þá átti Sveinn sæti í fjöl- mörgum samninganefndum um verzlunarviðskipti íslands út á við og sölunefndum sjávarafurða er- lendis. Ekki er þessi upptalning fullkomin, en þeir sem þekkja nokkuð til sögunnar, sem á bak við býr, skilja hvað í henni felst. En Sveinn var ekki einungis beint tengdur atvinnulífinu og þó manni kunni að finnast sem hann hafi haft ærinn starfa á því syiði, þá var það nú samt svo, að hann átti ýmis önnur áhugamál. Stjórn- mál voru honum alla tíð hjartans mál og þarf ekki að undra það þegar litið er á uppruna hans og umhverfi á uppvaxtarárunum svo sem síðar verður getið. Hann tók stjórnmálabaráttuna mjög alvar- lega og var þá ekki gefinn fyrir neinn afslátt en þrátt fyrir það gat hann mætavel unnið með mönnum hinna ólíkustu stjórnmálaskoðana ef nauðsyn bauð og í okkar þjóð- félagi er það oft eina leiðin til að koma fram málum sínum. Því var það, að þó hann væri oft óvæginn í hita baráttunnar þá ávann hann sér traust andstæðinga sinna ekk- ert síður en samherja. Þannig naut hann trausts stjórnvalda og þegar á það er litið hversu mikil eru samskipti stjórnvalda hér á landi og fulltrúa atvinnuveganna þá er ekki þýðingarlítið að gagn- kvæmt traust ríki þar á milli. Er ég þess raunar fullviss, að um áratuga skeið voru fá ráð ráðin á sviði sjávarútvegsmála og þýðingu höfðu, að Sveinn hafi ekki verið beint tilkvaddur eða komið þar við sögu. Slíkt hefði ekki getað gerst nema menn hafi borið traust til hans og þótt gott að leita hans ráða. Það er ekki nema von, þegar litið er yfir æviferil Sveins, að manni verði spurn að því hvers konar maður hér hafi farið, sem svo víða kom við í sínu lífsstarfi og svo miklu fékk afkastað. Þeirri spurningu er raunar ekki auðsvar- að því þar eru margir þættir samslungnir. Sveinn var ekki maður, sem baðst afsökunar á því að vera til, þvert á móti, hann var fyrirferðarmikill, ekki aðeins mikill á velli, og segja mátti, að maður fyndi fyrir nærveru hans, þar sem hann kom við sögu. Var ekki laust við, að stundum mætti heyra, að sumum fyndist nóg um en slíkar raddir þögnuðu vanalega skjótt þegar menn fundu hvað maðurinn hafði til brunns að bera. Hann var fróður með afbrigðum um hin ólíkustu mál og gerði sér mikið far um að kynna sér alla málavexti í hverju máli. Skapfastur var hann og fylginn sér og ávallt sann- færður um málstað sinn og það var honum fyrir öllu. Þessir eigin- leikar, sem hér hafa verið nefndir eru ekki ávallt til þess fallnir að afla mönnum vinsælda. Það var og svo, að Sveinn lenti stundum í hörðum deilum á fundum og á ritvelli og ekki lét hann neinn eiga hjá sér, þegar svo bar við. Sveinn Benediktsson var fæddur í Reykjavík 12. maí 1905 og stóðu að honum norðlenzkar og sunn- lenzkar ættir. Faðir hans, Bene- dikt Sveinsson, alþingisforseti, var þingeyskrar ættar, sonur Sveins Víkings Magnússonar, frá Víkingavatni, gestgjafa á Húsavík, og Kristjönu Guðnýjar Sigurðar- dóttur frá Hálsi í Köldukinn. Móðirin, Guðrún Pétursdóttir, var dóttir Péturs Kristinssonar, bónda og skipasmiðs í Engey og Ragnhildar Ólafsdóttur frá Lund- um í Stafholtstungum. Benedikt faðir Sveins tók mik- inn þátt í stjórnmálum og á fyrstu áratugum aldarinnar á meðan baráttan við Dani var efst á baugi skipaði hann sér í fylkingu þeirra, sem harðast börðust fyrir fullum aðskilnaði íslands og Danmerkur. Hann var kjörinn á þing fyrir N-Þingeyjarsýslu árið 1909 og átti þar sæti óslitið til 1931 og forseti Neðri deildar var hann áratuginn 1920—1930. Hann var orðlagður mælskumaður. Guðrún, móðir Sveins, tók einnig mikinn þátt í opinberum málum, einkum á sviði kvenréttindabaráttunnar. Heimili Sveins var því á uppvaxtarárum Kveðja frá formanni Sjálfstœðisflokksins Sveinn Benediktsson starfaði í Sjálfstæðisflokknum frá stofnun hans fyrir 50 árum, og áratugum saman var hann meðal helztu áhrifamanna innan flokksins. Réð þar ekki sízt, að Sveinn. Benediktsson var gæddur eldheitum áhuga, takmarkalausum dugnaði, mikilli reynslu og ósveigjanlegri sannfæringu. Mér er Sveinn Benediktsson minnisstæður fyrst þegar ég fór að sækja fundi Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, svipmikill var hann á velli og eftirtektarverður í málflutningi. Fyrr og síðar komu og við sögu Sjálfstæðisflokksins og funda hans eins og kunnugt er, foreldrar Sveins og systkini, og þarf ekki að fjölyrða hvílíkan styrk Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft af forystustarfi slíks atgervisfólks. Eg átti þess kost að starfa með Sveini Benediktssyni í ýmsum stjórnum og nefndum, m.a. gegndi Sveinn Benediktsson lengi formennsku í Útgerðarráði Reykjavíkurborgar af afburða ósér- hlífni eins og hann raunar gekk að öllum sínum störfum. Þótt við værum ekki ávallt sammála þá á ég eingöngu góðar minningar um samstarfið við Svein Benediktsson og er þakklátur fyrir þann lærdóm og reynslu, sem hann miðlaði mér eins og öðrum, sem áttu þess kost að starfa með honum. Spor Sveins Benediktssonar sjást víða í athafna- og stjórnmála- lífi, en ekki sízt í síldarútvegi íslendinga, þar sem hann var frumkvöðull, sem kunni jafnframt vel fótum sínum og annarra forráð. Sjálfstæðismenn þakka Sveini Benediktssyni mikilvægt starf að velgengni fiokksins og sameiginlegra hugsjóna, og senda eiginkonu hans, frú Helgu Ingimundardóttur, og fjölskyldu samúðarkveðjur. Geir Hallgrímsson. hans í sterkum tengslum við þjóð- málabaráttuna og gat vart farið hjá því, að það hefði varanleg áhrif á hann. Með Sveini er horfinn af sviðinu hinn síðasti af þremur bræðrum, sem fæddir voru hver á sínu árinu og áttu eftir að verða landi sínu til gagns og sóma, hver á sínu sviði. Sveinn var elztur þeirra bræðra, þá Pétur, sendiherra og síðar bankastjóri og yngstur var Bjarni, forsætisráðherra. Veit ég, að mér mun jafnan fara svo, að heyri ég eða sjái eins þeirra getið munu mér koma hinir í hug sakir óvenju- legra mannkosta þeirra og hæfi- leika. Ég gat áðan um nokkra þá eiginleika, sem einkenndu Svein Benediktsson, en einn var ótalinn, sem mér þótti mest til koma, en það var tryggð hans við vini sína. Sjálfur átti ég því að fagna að njóta vináttu hans um nær fjöru- tíu ára skeið. Okkar kunnings- skapur hófst á úrslitastundu í minni starfsævi, þegar um það stóð nokkur styrr á Fiskiþingi, hvort ég skyldi kjörinn í starf fyrir Fiskifélagið. Sveinn, ásamt ýmsum öðrum góðum mönnum, gekk ótrauður til þeirrar baráttu og átti það mikinn þátt í úrslitun- um, sem urðu mér til heilla. Síðar áttum við margt saman á vett- vangi Fiskifélagsins og víðar og taldi ég mér það ávallt mikils virði að njóta hollráða Sveins þegar vandamál komu upp. í einkalífi sínu var Sveinn gæfu- maður. Hann kvæntist 1937 Helgu Ingimundardóttur frá Kaldárholti í Holtum. Sveinn dró aldrei dul á það, að hann mat konu sína mikils. Fjögur börn eignuðust þau, og er Benedikt hrl. elztur, kvæntur Guðríði Jónsdóttur, þá Ingi- mundur, arkitekt, kvæntur Sigríði Arnbjörnsdóttur, Guðrún, gift Jóni B. Stefánssyni, verkfræðingi og yngstur er Einar, deildarstjóri, kvæntur Birnu Hrólfsdóttur. Nú að leiðarlokum er margs að minnast, sem látið er ógetið í þessum orðum sem ég hefi hér skrifað til minningar um Svein Benediktsson til að gjalda honum þakkarskuld fyrir samferðina. Þær minningar munu lengi lifa og orðstír hans lifir af verkum hans á óvenju athafnasamri starfsævi. Frú Helgu og börnum þeirra flyt ég innilegar samúðarkveðjur. Davíð ólafsson. I dag verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík Sveinn Benediktsson framkvæmdastjóri, en hann lézt á Landakotsspítala mánudaginn 12. þ.m. eftir skamma sjúkralegu. Sveinn var fæddur í Reykjavík 12. maí 1905, sonur hinna þjóð- kunnu sæmdarhjóna, Guðrúnar Pétursdóttur og Benedikts Sveins- sonar alþingismanns. Snemma beindist hugur Sveins að sjávarútvegi, og er ekki ofmælt, að hann hafi á langri starfsævi verið einn atkvæða- og áhrifa- mesti maður í þeirri atvinnugrein hér á landi. Voru honum falin fjölmörg trúnaðar- og ábyrgðar- störf fyrir ríki, Reykjavíkurborg og hin ýmsu hagsmunasamtök í sjávarútvegi. Verða aðeins þau helztu rakin hér. Hann átti sæti í Sjávarútvegsnefnd Reykjavíkur, Útgerðarráði Reykjavíkur og for- maður þess um margra ára skeið, stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og lengst af formaður verksmiðju- stjórnar, í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna og í stjórn Síldar og fiskimjölsverksmiðjunnar h.f. Hann var formaður Sjóvátrygg- ingafélags íslands h.f. og for- maður Hvals h.f. Sveinn Benediktsson var um árabii einn umsvifamesti síldar- saltandi hér á landi. Reisti hann síldarsöltunarstöðina Hafsilfur h.f. á Raufarhöfn og Hafölduna hf. á Seyðisfirði. Sveinn tók einnig virkan þátt í fiskiskipaútgerð. Fundum okkar Sveins Bene- diktssonar bar fyrst saman austur í Ásahreppi í Holtum sumarið 1909, er hanii, þá 4 ára að aldri kom til sumardvalar til ömmu- bróður síns, Ólafs Ólafssonar, hreppstjóra í Lindarbæ, og konu hans, Margrétar Þórðardóttur. Var ég þá 9 ára gamall í foreldra- húsum í Vetleifsholti. Mér er enn í fersku minni, hversu sviphreinn og fríður hann var þessi drengur. Mikill samgangur var milli þess- ara tveggja heimila, enda um stuttan veg að fara. Tókust góð kynni með okkur næstu sumur, er hann dvaldi hjá frændfólki sínu. Síðar á lífsleiðinni lágu leiðir okkar Sveins oft saman, m.a. áttum við margra ára samstarf á sviði félags- og hagsmunamála sjávarútvegs. Kynntist ég þá hin- um mikilhæfa mannkostamanni náið og naut órofa vináttu hans. Sveinn Benediktsson var ráð- hollur maður, glöggskyggn á kjarna hvers máls og lét ætíð óhikað skoðanir sínar í ljós. Ham- hleypa var hann til verka, ósér- hlífinn og mikill málafylgjumaður. Að Sveini Benediktssyni stóðu styrkir stofnar, enda var hann búinn andlegu og líkamlegu at- gervi meira en almennt gerist. Um sögu lands og þjóðar var hann fróður svo af bar. Árið 1937 giftist Sveinn eftirlif- andi konu sinni, Helgu Ingi- mundardóttur frá Kaldárholti í Holtum, hinni ágætustu konu. Bjó hún manni sínum fagurt og gott heimili og reyndist honum stoð og stytta á annasömum starfsferli. Þau eignuðust fjögur mannvænleg börn, en þau eru: Benedikt, hæsta- réttarlögmaður, kvæntur Guðríði Jónsdóttur, Ingimundur, arkitekt, kvæntur Sigríði Arnbjörnsdóttur, Guðrún, húsmóðir, gift Jóni B. Stefánssyni verkfræðingi og Einar, kvæntur Birnu Hrólfs- dóttur. Eiginkonu hans, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ættingjum, votta ég mína innilegustu samúð. Ingvar Vilhjálmsson. Stúdentahópurinn frá 1926 hélst lengi lítt skertur. Nú minnkar hann óðum. í dag er kvaddur frændi minn Sveinn Benediktsson. Við vorum ekki gamlir við Sveinn, þegar við hittumst fyrst. Fjögurra ára fór hann með póst- vagninum frá Reykjavík austur að Ægissíðu, á leið sinni til sumar- dvalar á heimili móðurömmu- bróður síns, en föður míns, að Lindarbæ. í átta sumur var hann þar. Þar lékum við saman, smöluðum saman, fórum í sendi- ferðir saman, rifumst, flugumst á og grættum hvor annan. Gerðum allt, sem strákar á þeim aldri gera. En fyrst og fremst vorum við samherjar gegn nágranna- krökkunum, bæði þegar allt lék í lyndi, og þegar á þurfti að halda. Sveinn var minnugur þess sem gerðist á þessum sumrum. Hann kunni vel að segja frá ferð sinni með póstvagninum. Sú saga er framlag til þjóðlífslýsinga þeirra ára. Einnig þá kom strax fram áhugi hins verðandi athafna- manns á nýjungum í atvinnuhátt- um. Hann sagði oft frá þeirri tæknibyltingu í landbúnaði, þegar bændurnir í Lindarbæ, Parti og Vetleifsholti keyptu saman hest- sláttuvél, eina þá fyrstu sem kom til landsins, og notuðu hana á hinar sléttu og góðu engjar í Safamýri. Þó að Sveinn hætti að dvelja á sumrum í Lindarbæ, var sam- skiptum okkar síður en svo lokið. Þegar ég hóf menntaskólanám bjó ég á Laugavegi 66 undir verndar- væng föðursystur minnar, Ragn- hildar frá Engey. En var í fæði hjá foreldrum Sveins, Guðrúnu og Benedikt, að Skólavörðustíg 11. Það var ekki litill fengur fyrir mig að eiga lífsreyndan Reykvíking að vini, þegar von var á hverri stundu að kallað væri yfir götuna „sveitó". Systkinahópurinn að Skóla- vörðustig 11 var óvenju myndar- legur. Bræðurnir þrír Sveinn, Pétur og Bjarni; Pétur var að vísu hjá ömmu sinni á Laugavegi 66, og systurnar fjórar Kristjana, Ragn- hildur og svo tvíburarnir Guðrún og Ólöf, sem ekki var hægt að þekkja í sundur, nema þegar þær hnykluðu brýrnar. Við Sveinn og Bjarni tókum stúdentspróf saman 1926. Pétur tók það ári fyrr. Athafnaþrá Sveins kom snemma í ljós. Hann hélt ekki námi áfram að loknu stúdents- prófi, heldur hóf þegar störf við útgerð. Hann átti þar góðan að, einn hyggnasta og farsælasta frumkvöðul stórútgerðar, Halldór Þorsteinsson skipstjóra í Háteigi. En Halldór var giftur móðursystur Sveins, Ragnhildi. Sveinn vann hjá Halldóri og með honum og lærði þannig hvernig átti að standa að útgerð. Gegnum kunningsskap við aðra góða útgerðarmenn viðaði hann að sér þarflegum fróðleik. Fljótlega gerðist Sveinn sjálfur umsvifamikill útgerðarmaður og tók að sér forustustörf á mörgum sviðum útgerðar. Sem forustu- mann á sviði útgerðar mun þjóðin muna Svein. En ég minnist hans fyrst og fremst sem bernsku- félaga, bekkjarbróður, frænda og vinar. Sveinn var minnugur og fróður. Hann þekkti sögu Reykjavíkur vel. Sérstaklega mundi hann vel at- burði fyrstu ára þessarar aldar og hafði gaman af að rifja þá upp. Hann var mjög fróður í ættfræði. Sérstaklega þekkti hann vel til sinna ætta. Hann vissi að sterkir stofnar stóðu að honum, þó að hann þyrfti þess ekki, því hann var sterkur sjálfur. Ættfólk hans kann líka vel að meta hans prýði- iega framlag til ættarsögunnar. Sveinn var gæfumaður. Hann giftist sérstakri ágætiskonu, Helgu Ingimundardóttur frá Kaldárholti í Holtum. Hún bjó honum yndislegt heimili. Þar var gott að hvílast og gleðjast eftir stormasaman eril. Hann eignaðist og mannvænleg börn. Ættbogi hans er þegar orðinn stór. Vinátta okkar Sveins hélst alla æfi. Það er að vísu ekki frásagnar- vert. Vinátta og ættartengsl eru svo sterk í okkar ætt, að þau bregðast aldrei. En eftir að aldur- inn færðist yfir og æskufélagarnir týndust burt einn af öðrum, þar á meðal bræður Sveins, var þörfin meiri fyrir okkur að hittast og rabba saman og minnast gamalla atburða óg æskubreka. Nú eru þessar stundir liðnar. Við hjónin þökkum Sveini og Helgu fyrir kvöldin, sem við nutum ýmist hjá þeim eða hjá okkur. Sveini þakka ég fyrir öll árin, allt frá því að við vöppuðum, strákar, í hlaðvarpan- um í Lindarbæ. Við hjónin og fjölskylda okkar sendum Helgu og hennar fólki innilegustu samúðarkveðiur. Ragnar Ólafsson. í dag er jarðsunginn höfðingi og heiðursmaður, Sveinn Benedikts- son. Sveinn var þjóðkunnur maður og verða aðrir til að rekja ættir hans og lífsskeið. Ég kynntist Sveini fyrir 27 árum norður á Raufarhöfn, er hann var þar um- svifamikill síldarsaltandi. Sú vin- átta, sem þar var stofnað til átti sér rætur í eldri vináttu okkar fjölskyldna. Örlögin réðu því, að ég átti síðar mikil samskipti og sam- vinnu við ' Svein og bar aldrei skugga á það samstarf, þótt við- horfin hafi á stundum ekki verið þau sömu hjá báðum, enda var aldursmunur mikill og lífsstaða ólík. Yfir Sveini var mikil reisn og viss heiðríkja. Hann var fríður maður í sínum stórleik. Framtaks- semi, dugnaður og myndarskapur voru honum í blóð borin. Sveinn var forsjáll maður, framsýnn og umfram allt raunsær. Otímabær óskhyggja eða draumórar voru honum fjarri skapi. Hann var mikill vinur vina sinna. Mat hann réttsýni mikils, heiðarieik og drengskap og voru undirlægju- háttur, hræsni og uppgerðargóð- mennska eiginleikar andstæðir eðli hans. Sveinn náði tökum og valdi á sínu lífsumhverfi og varð af eigin rammleik það stórveldi, sem al- kunna er. Hartn var sérlega heil- steyptur og horfði jafnan erfið- leikalítið framan í sárar stað- reyndir og viðurkenndi þær um- búðalaust. Slíkir menn eru alltaf til forustu fallnir og aflmenn hvers þjóðfélags, hvað sem stjórn- málum og þjóðfélagsháttum líður. Sveinn safnaði bókum og var víða heima í sögu og bókmenntum. Uppáhaldsskáld hans voru Matthías og Einar Benediktsson. Hann hafði ríkan skilning á sögu- legum staðreyndum og endurtekn- ingu sögunnar. Sveinn var manna ólíklegastur í lífstarfi að viður- kenna annarleg lögmál, en hann hafði tilfinningu fyrir jafnvægi í tilverunni og oft var hann fórspár. Mestu áhrif Sveins voru í sjávarútvegi. Varð hann aflgjafi með sinni stefnumótun, því að aðrir neyddust þá til að taka afstöðu. Var það sjaldan, að Sveinn væri hlutlaus og bar hann litla virðingu fyrir slíkri afstöðu annarra. Flestir kunna sig best, þegar vel gengur. Sumir eru sérstaklega hæfir til uppgöngu. Sumir eru þeir sjálfir, þegar þeir klífa brattann, en tapa sér þegar þeir hrapa. Kannske var það mesti styrkleiki Sveins, að geta horft með raunsæi og jafnvægi á ógæfulegar stað- reyndir og taka þá skjótar ákvarð- anir til úrbóta. Láta sem skemmst við svo búið standa. Eg votta Helgu Ingimundardótt- ur og afkomendum þeirra samúð mína. Jón L. Arnalds. Sjá nánar bls. 18

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.