Morgunblaðið - 21.04.1979, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 21.04.1979, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 21. APRIL 1979 21 Háskólans, og loks nágrannaprest- ar hér um áratugi, hann í Hafnar- firði og ég hér í Reykjavík. „Verið karlmannlegir, verið styrkir, — allt hjá yður sé í kærleika gjört," segir Ritningin. Þannig minnist ég þessa elskulega vinar míns og nafna, strax frá æskunnar árum, og síðan óslitið æfi hans alla. Foreldrar hans voru bæði tvö, glæsileg og vel menntuð á þeirra tíma mælikvarða: Þorsteinn Sig- urgeirsson verzlm. frá Álftagerði í Neðribyggð og Aðalbjörg Alberts- dóttir frá Stóru-völlum í Bárðar- dal. Eftir lát manns síns rak hún um skeið, myndarlega og vel metna matsölu, og lét margt gagn- legt til sín taka. Þau voru öll vel gefin og gjörð, systkini hans fjög- ur, sem þá voru að vaxa úr grasi, — einn bróðir og þrjár systur. Við urðum fljótt heimagangar hvor hjá öðrum, nafnarnir og sungum oft saman við undirleik mæðra okkar. Og brátt varð hans mjúka, dökka og hreimfagra bari- ton-rödd kunn, og ekki sízt fyrir það, með hve mikilli smekkvísi hann beitti henni. Og svo lá leið hans inn í karla- kór K.F.U.M. undir sprota hins mikilhæfa söngstjóra Jóns Hall- dórssonar. Hlaut sá flokkur síðar nafnið: „Fóstbræður" og ber það nafn enn, svo sem kunnugt er. Þá kom Garðar og fram ungur ásamt Stefáni íslandi o.fl. á nemenda- hljómleikum Sigurðar Birkis, sem haldnir voru hér í Reykjavík ein- hverntíma nálægt 1930. Eftir guðfræðipróf við Háskóla Islands stundaði hann um skeið nokkurt framhaldsnám í helgi- siðafræði, kirkjutónlist og trúar- bragðasögu, bæði í Austurríki, Þýzkalandi og Svíþjóð. Eftir lát séra Árna Björnssonar, prófasts í Görðum á Álftanesi, sem sat síðustu ár sín í Hafnar- firði, sótti Garðar um það þéttbýla og mannmarga kall. Hann hlaut kosningu, og var vígður til Garða- prestakalls á Álftanesi, hinn 23. júlí 1932. Kaus hann sér heimilis- festu í Hafnarfirði, og sat þar síðan æfilangt. Hann var kjörinn prófastur í Kjalarnessprófasts- dæmi árið 1954, eftir lát síra Hálfdánar Helgasonar að Mosfelli, er áður hafði gegnt því embætti. Séra Garðar kenndi um ára- fjölda við Flensborgarskólann, við góðan orðstír. Ut um gluggann hans á Brekku- götunni blasti hafið við. Og sjói var stundaður frá allri strand- lengju prestakallsins. Stundum urðu slys á sænum í ofviðrum. Og á stríðsárunum var íslenzkum skipum stundum sökkt, — eða þau fórust í hafi, án þess að nokkur yrði eftir til frásagnar um afdrif þeirra. Þegar að örlög slíkra skipa urðu kunn, féll það í hlut prests- ins, að tilkynna ástvinunum, hversu komið væri. Mér er kunnugt um margar slíkar ferðir í hafnfirzk heimili, sem séra Garðar vinur minn mátti fara. Og hann kastaði þar ekki höndum til. — Fór jafnvel aftur og aftur þangað, sem sorgin sló harð- ast. Og ég hef orðið þess var, hversu vænt sumum hafnfirzkum fjölskyldum þótti um hann, eftir slíka reynslu og raun. Séra Garðar Þorsteinsson varð aldrei hópsál, eða eftirherma, né handbendi flokka, eða manna, — heldur tók ákvörðun í hverju máli, eftir eigin innstu samvizku. Svik fann ég aldrei með honum, né undirferli. Hann var hiklaus í einlægni sinni og vináttu, — en gat líka verið hiklaus í reiði sinni, ef hann skipti skapi. Einhverntíma á skólaárunum töluðum við ekki saman í nokkra daga. Okkur hafði sinnast. En svo kom hann broshýr og innilegur og einlægur — og við vorum orðnir sömu vinirnir og við áður höfðum verð. Þegar að Bessastaðir voru gjörð- ir að þjóðhöfðingjasetri, fylgdi eflaust nokkur aukinn vandi prestsþjónustunni þar, — en allt féll þar vel saman — og kröftunum beitt af einlægni og smekkvísi, eftir því sem aðstæður kröfðu. Ég dáist að því, hversu frú Sveinbjörg Helgadóttir, konan hans, bar með honum byrðarnar og létti honum síðasta stríðið. — Ég bið henni og börnum þeirra Garðars öllum, og fólki þeirra. Ritningin segir: „Ræða yðar sé já, já, eða nei, nei. Það sem umfram er, er af hinu vonda." Séra Garðar Þorsteinsson, próf- astur, var hinn hiklausi, undan- bragðalausi maður, hugdjarfur og áræðinn. — Honum þótti gott, meðan heilsa hans entist, að finna svala goluna leika sér um kinn, hreina loftið. — Því var gott með honum að vera, — og því er uppörvandi nú, að líta til baka og minnast hans. Garðar Svavarsson. Það er margs góðs að minnast af viðkynningu og samstarfi, þegar minnst er hins mæta og merka manns séra Garðars Þorsteinsson- ar, prests og prófasts, með honum er horfinn af sjónarsviði okkar mjög eftirminnilegur persónumað- ur, er var langtímum höfuð síns safnaðar, presta og safnaðarfull- trúa á héraðsfundum Kjalarnes- prófastsdæmis. Það var fyrir tæpum tveimur áratugum að ég kynntist séra Garðari sem slíkum á héraðsfundi í Hafnarfirði, hann var þar sem ætíð síðan hinn skörulegi og skel- eggi forystumaður sinna fundar- fulltrúa, hugmyndaríkur og kröft- ugur talsmaur alls þess er til heilla horfði fyrir kirkjuna og starfsemi hennar jafnt útá við sem inná við. Frá þessum fyrsta hér- aðsfundi hef ég á hverju ári, fram til síðasta héraðsfundar Garðars prófasts, notið þess að heyra hann og sjá við þau tækifæri og oft á þeim stundum heyra hans vingjarnlegu orð til kirkjunnar okkar í Innri Njarðvík og þess starfs sem þar hefur farið fram, og til þess fólks bæði lífs og liðins sem þar hefur að unnið. Þá eru ekki síður minnisstæðar stundirn- ar þegar þau hjónin séra Garðar og frú Sveinbjörg buðu öllum héraðsfundarmönnum heim í sitt fallega hús, til að þiggja þar rausnarlegar veitingar. Það voru ánægjulegar stundir og eftirminnilegir félagafundir. Eins eru mér minnisstæðar marg- ar stundir er ég kom einn heim til þeirra hjóna í erindum kirkjunnar, þar var mér einatt tekið af góðvild og gestrisni. Og enn vil ég minnast séra Garðasr sem góðs vinar okkar Innri-Njarðvíkinga og kærkomins félaga ásamt konu sinni Svein- björgu, við margar hátíðlegar athafnir á vegum kirkjunnar okk- ar. Við þær heimsóknir lét séra Garðar einatt í ljósi þakklæti til þeirra sem farnir voru og vel höfðu gert til kirkjunnar. Séra Garðar hafði brennandi áhuga á málefnum kirkjunnar og starfsemi hennar og fylgdist mjög vel með öllu sem gert var, það allt er okkur mikið þakkarefni. Hef ég verið beðin af fyrrverandi og núverandi starfsfólki kirkjunnar að færa hinum látna prófasti og eftirlif- andi konu hans innilegar þakkir fyrir vinsamleg samskipti, orð og hlý handtök á þeim stundum, þar vil ég sjálfur mæla allt hið sama. Síðasta samtal okkar séra Garð- ars Þorsteinssonar prófasts, var í símtali við hann tveimur dögum áður en hann fór sína síðustu för á Landspítalann þar sem hann lést þremur vikum síðar. Samtal okkar var ekki langt í þetta sinn, því lífsþróttur séra Garðars var þá mikið að þrotum kominn. En anda sinn og málfar mátti hann samt mér færa af sinni góðvild sem áður. Með innilegri virðingu og þakk- læti vil ég nú kveðja minn kæra prófast, og velunnara, þakka af alhug alla hans vináttu í minn garð og þeirra málefna er við unnum báðir að. Fyrir hönd safnaðar Innri-Njarðvíkurkirkju færi ég hinum látna heiðursmanni og hér- aðshöfðingja, innilegar þakkir og hinstu kveðjur. Heill sé honum í heimi Guðs. Innilegar samúðarkveðjur til minnar kæru frú Sveinbjargar og barna ykkar og annarra ættingja. Guðmundur A. Finnbogason. Þegar gamall Fóstbróðir tekur sér penna í hönd, til þess að setja á blað nokkur minningarorð um séra Garðar Þorsteinsson, streymir fram í hugann meiri gnótt góðra minninga en hér verður á nokkurn hátt tíundað. Reyndar er Garðar undirrituðum harla minnisstæður frá mennta skólaárunum en þar var hann fjórum bekkjum á undan mér og ég strákur í mútum, þegar söng- rödd hans var að springa út í fullri dýrð. — Leiðir okkar lágu einnig saman á fjölunum í Iðnó í „Þrem skálkum" eftir Gandrup man ég hann ganga hægt yfir sviðið í rómantísku kvöldskini og syngja ljúfsáran tatarasöng, sem dó út í fjarska. — Ég held mér hafi aldrei þótt mannsrödd hljóma fegurr en rödd hans þá. — Mér til undrunar man ég enn bæði ljóð og lag, orð fyrir orð og tón fyrir tón. Á þeim árum heyrði ég oft rödd hans hljóma — til skiptis við glæsiradd- ir þeirra Stefáns íslandi og Einars Kristjánssonar, annars gamals Fóstbróður — út um opinn glugga á suðurgafli hússins nr. 16 við Suðurgötu, þar sem ljúfmennið Sigurður Birkis bjó þá og kenndi söng. Þar átti ég daglega leið fram hjá. Á fyrsta háskólaári mínu en kandidatsári síra Garðars, er hann var búinn að framast einn náms- vetur í Vínarborg, samtíða Einari, kynntist ég honum sem félaga í karlakór K.F.U.M., eins og félagið hét þá. Þar var hann ómetanlegur félagi vegna sinnar stórfögru söngraddar, sem lagði sönghreim kórsins ótrúlega mikið til, — auðvitað ekki með því að skera sig úr, jafn fágaður smekkmaður og hann var, heldur með því að ljá heildarhljómnum lit og varma. — Sem betur fer var síra Garðar ekkert síður góður félagi, fyrir annarra kosta sakir, því að milli raddar og persónulegs viðmóts hans við alla félaga var ágæt samsvörun. Hann var glaður á góðum stundum, en þær voru margar í hópnum, og að syngja með honum í fárra manna hópi, sem stundum gafst kostur á, var hrein unun. Að leiðarlokum sendum við, gamlir félagar hans, hlýjar kveðjur og þakkir og biðjum hon- um blessunar. Sveinbjörgu konu hans og börnum sendum við samúðarkveðjur og þökkum einnig kynnin við hana. Við síra Garðar og nokkrir söngbræður okkar vorum þátttak- endur í öðrum bræðrahópi, þar sem hann einnig var vinsæll og vel metinn. Þar af er önnur saga. Gunnar J. Möller. Þegar mér var sögð sú fregn að lokinni guðþjónustu í Garðakirkju á páskadagsmorgun að séra Garðar Þorsteinsson velunnari minn og vinur hefði látist kvöldið áður, setti mig hljóðan, þó að vel væri vitað að hverju stefndi síðustu daga. Það var öðru fremur á vettvangi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sem kynni okkar Garðars hófust og vil ég nú skýra hér frá þeim stóra og merka hlut sem hann lagði fram í þágu félags- ins en við félagar hans og raunar Hafnfirðingar allir stöndum í mikilli þakkarskuld fyrir. Það mun hafa verið á aðalfundi félagsins vorið 1960 að Garðar var kosninn í stjórn þess, og er stjórnin kom saman á sinn fyrsta fund til þess að skipta með sér verkum, man ég að menn veltu ekki lengi vöngum yfir þvi hver skyldi nú taka að sér forystuna, Garðar var að allra dómi sjálf- kjörinn. Það duldist engum sem kynntist séra Garðari hversu mjög hann unni öllu laufskrúði og naut þess í ríkum mæli að hlúa að grænum gróðri. Það sýnir líka hinn fagri og vel hirti skrúðgarður hans og eiginkonu hans Sveinbjargar Helgadóttur að Brekkugötu 18 og friðland þeirra í Jófrðastaðalandi sem nú gleður auga þeirra sem leið eiga um Reykjanesbraut. Vart mun nokkur efast sem lítur uppland Hafnarfjarðar augum að þar hefur átt sér stað mikil jarð- vegs- og gróðureyðing, það segja okkur hinir beru melar og blásnu börð og þarf raunar ekki að fara lengra en að kirkjugarði Hafnar- fjarðar til að sjá það, en þangað átti séra Garðar margar ferðir, að sjálfsögðu embættisins vegna. Ég minnist þess nú hve oft hann minntist á gróðurvin eina sem vel blasir við frá þessum stað, hve ört hún minnkaði frá ári til árs, uns nú er aðeins eftir lítið blásið barð. Strax og hann tók við for- mennsku félagsins ræddi hann um nauðsyn þess að bjarga sem mestu af því landi sem enn var að eyðast gróðri, því var það að félagið hófst handa undir hans forystu um miklar girðingarframkvæmdir í Undirhlíðum. Til þess að ráðast í þessa framkvæmd af litlu og fjár- vana félagi þurfti mikið áræði og stórhug en hvorugt þessa skorti formanninn, að þessu býr félagið vel og ríkulega enn. Þarna í Undir- hlíðum sem og í öðrum girðingum félagsins hefur tekist með plöntun barr- og laufviða að gjörbreyta sviðmóti landsins að ógleymdum þeim fegurðarauka sem hinn villti blómgróður skapar er kemur upp eingöngu við friðun landsins. Ekki verður það sagt að skógræktarfélagið nyti lengi forystu Garðars því á aðalfundinum 1965 baðst hann eindregið undan endurkosningu og við það varð að sitja. En stundum hefur komið fyrir að leitað hefur verið til hans um liðveislu þegar meiriháttar vandamál komu upp og altaf var jafn gott til hans að leita. Sá er gróðursetur tré, hann er að hjálpa Guði til að skapa. Nú með hækkandi sól taka brumhnappar „barna" hans að þrútna og síðar að breiða út lim sitt og teygja sprota sína móti himni og heiðríkju. Ég kveð góðan vin og bið hann hafa þökk fyrir vináttu og tryggð við mig og fjölskyldu mína. Konu hans og börnum vottum við inni- lega samúð. Ólafur Vilhjálmsson. Nágranni okkar hjóna, séra Garðar Þorsteinsson, er látinn. Það verður sjónarsviptur í götunni þegar hann er horfinn. I hartnær þrjátíu og þrjú ár höfum við hist svo að segja daglega, talast við lengur eða skemur eða séð hvert til annars. Séra Garðar Þorsteinsson var slíkur persónuleiki að hann hverfur ekki af sjónarsviðinu án þess að eftir hann verði autt skarð. Eitt hús er á milli heimila okkar og samskiptin voru að meira eða minna leyti náin í þá áratugi sem leiðir lágu saman. Atvikin höguðu því svo að fyrir hálfu öðru ári gerðist sonur okkar hjóna og fjölskylda hans næstu nábúar séra Garðars og konu hans á hina höndina. Hér er því saknað vinar í stað. Að vísu báru síðustu spor hans um götuna því vitni að lífskrafturinn væri þverrandi en samt komu umskiptin fyrr en varði. Það er erfitt að sætta sig við það eftir öll þessi ár að hann kasti ekki framar á mann kveðju þegar hann gengur eða ekur hjá, aldrei hringir hann oftar á dyrabjölluna kunningjalegra erinda, aldrei heyrist fágæt rödd hans framar í síma. En þetta er lífsins gangur og honum ber að taka, aðeins hefði ég óskað þess að mega njóta nágrenn- is hans og návistar lengur eftir að hann hafði varpað af sér þunga síns langa embættisstarfs. Hann átti nóg áhugamál og næg verk- efni. Ég er ekki mikill kirkjunnar maður og trúmaður get ég ekki talist. En í þann hálfa fimmta áratug sem séra Garðar þjónaði Hafnarfjarðarprestakalli taldist ég til safnaðar hans og þjóðfélags- legar hefðir og skyldur, siðir og venjur og borgaralegir lífshættir gerðu það að verkum að ég kom harla oft í kirkju til hans og kynntist prestsstörfum hans. Mér féllu þau vel í geð og mér leið aldrei illa í kirkju hjá honum. Mér er engin launung á því að mér er lítið gefið um þá kirkjupredikara sem reyna að finna fornum kredd- um og kennisetningum stað í nútímasamfélagi með reikulum útleggingum, stílbrögðum, orð- skrúði og táknmáli sem tekið er að láni úr trúarbrögðum og þenking- um þjóða og ættbálka sem lifðu við allt önnur áhrif, skoðanir og skil- yrði en nútímafólk. Prédikanir slíkra kennimanna þreyta mig. Séra Garðar Þorsteinsson var látlaus prédikari og reyndi aldrei að sýnast í orðum, stíl eða fram- sögn. Hann flutti sína kenningu í stuttu, umbúðalausu máli og talaði vel. Hann vissi hvað hann ætlaði að segja, sagði það sem hann meinti og meinti það sem hann sagði. Hann kvaddi marga sam- borgara í kirkju sinni, unga og aldna, umkomuleysingja og nefnd- armenn. Hann fór aldrei i mann- greinarálit í kveðjuræðum sínum. Oft heyrði ég honum mælast best þegar í hlut áttu þeir sem minna máttu sín á heimsins vísu eða lífið eða þeir sjálfir höfðu leikið fremur hart. Þá va tónninn ynnilegastur, orðræðan einlægust og ríkust. Séra Garðar Þorsteinsson var í eðli sínu listrænn og því fórust honum öll prestsverk vel úr hendi. Hann var jafnan fumlaus, öruggur ög gekk hreint til verks. Hann var ágætur embættismaður. Ekki ber að neita því að rödd hans setti sérstakan svip á messugerðir hans allar. Hann hafði einstaka rödd, fagra og hljómmikla. Hún gleymd- ist engum sem hana heyrðu. Framan af aldri var hann frábær söngmaður sem alþjóð er kunnugt enda söng hann sig ungur kandi- dat inn í söfnuðinn sem hann þjónaði ævilangt þótt þá væru í kjöri til brauðsins ýsmir kunnir höfuðklerkar sem seinna urðu enn frægari með þjóðinni. En hann var ekki aðeins söngmaður heldur einnig ágæta vel músikalskur og þetta var honum mikill styrkur í starfi eins og messuformi er háttað. Hann var listamaður fyrir altari. Það var ekki ætlun mín með þessum fáu línum að gera lífs- starfi eða æviferli séra Garðars Þorsteinssonar nein skil. Þetta átti aðeins að vera nágranakveðja úr Brekkugötunni. Séra Garðar var stórgeðja maður og átti til að segja meiningu sína umbúðalaust. Sumir kölluðu hann stórbokka. Þessa varð ekki vart í okkar löngu kynnum. Þau voru snurðulaus, hlý og vinsamleg. Við sögðum hvor öðrum eins og okkur fannst, og samskiptin urðu betri og alúðlegri með árum. Sama máli gegnir um fjölskyldu hans. Einhvern veginn finnst mér ég þekkja allt þetta fólk eins og mitt eigið fólk, frú Sveinbjörgu og börnin þeirra fjög- ur. Um skeið var gatan sameigin- legur leikvöllur barna okkar og annar sonur þeirra hjóna og sonur okkar hjónanna eru jafnaldrar. Samskiptin urðu því eðlilega mik- il. Börn þeirra hjóna voru nemend- ur mínir á kennaraárum mínum að meira eða minna leyti. Svona náin kynni valda oft vandamálum og nábúakryt. Til þess kom aldrei. Undir niðri var séra Garðar næmur maður og tilfinningaríkur. Hann gat verið snöggur upp á lagið og allt að því viðskotaillur. En einnig gat hann verið ljúfur og hlýr, háttvís og tillitssamur. Þannig þekkti ég hann og þannig munum við hjónin minnast hans. Eitt sinn dvaldist ég erlendis um nokkurra mánaða skeið en konan var heima. Skömmu eftir brottför mína kvaddi séra Garðar dyra heima og kom konan fram. Fyrstu orð hans við hana voru þessi: „Láttu þér ekki bragða að sjá mig, góða, ég er ekki með nein slæm tíðindi." Þetta lýsir nágrannanum séra Garðari en um leið prestinum sem stundum hefur erfiðu hlut- verki að gegna. Hann vildi hafa allan vara á. Það hvarflaði ekki að konunni að nágranninn væri að flytja henni válegar fréttir en samt hefur henni þótt væntum þessa hugsunarsemi hans æ síðan. Og þannig hafa margir þræðir spunnist í þessi nábýli á þrjátíu og þremur árum. Vorið fer nú í hönd. Þá mun glæsilegi garðurinn þeirra prests- hjónanna á Brekkugötu 18 brátt rísa af dvala vetrarins og blómg- ast í allri sinni fegurð. Þá mun vanta notinvirka og trúa hönd séra Garðars. Þar verður skarð fyrir skildi. Og allt líf okkar nágranna hans og vina verður svipminna og snauðara þegar hann er nú horf- inn úr leik. Við hjónin og fjölskylda okkar flytjum Sveinbjörgu, börnum hennar og fjölskyldum þeirra hug- heilar samúðarkveðjur. Og séra Garðar kveðjum við með þökk fyrir allt og allt. Stefán Júlíusson. SJÁ EINNIG BLS. 39

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.