Morgunblaðið - 21.04.1979, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 21.04.1979, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 21. APRÍL 1979 3 7 Baldur Jóns- son -Minnina Fæddur 18. júlí 1916. Dáinn 12. apríl 1979. Hátíðarstund í Grenivíkur- kirkju. Við skírnarmessuna skyldi dóttursonur organistans borinn til skírnar og hópur ungmenna ferm- ast. Prúðbúið fólk er saman komið, gleði og eftirvænting fylla kirkj- una. Tónar orgelsins og söngur kirkjukórsins lyfta hugum manna eins og svo oft áður. Það er komið langt fram í guðsþjónustuna, fyrri skírnarsálmurinn hefir verið sunginn, orgelið er þagnað, presturinn er að ausa barnið vatni og gefa því nafn. Þá verður svipul umbreyting. Organistinn hnígur niður við hljóðfærið og er örendur. Söngur hans er hljóðnaður, hend- ur hans stýra ekki framar þessum kirkjukór, fingur hans laða ekki framar fram hljómana frá orgeli þessarar kirkju, sem hann hefir þjónað í full þrjátíu ár. Kirkju- gestum er að vonum brugðið við skyndilega og óvænta burtköllun vinar þeirra mitt á meðal þeirra á viðkvæmri stund. I skugga dauð- ans er athöfnin á enda kljáð án söngs, án hljóms. Sorgin hefur kvatt dyra á Grýtubakka, Baldur Jónsson bóndi er allur. Baldur Jónsson fæddist á Mýri í Bárðardal 18. júlí 1916, sonur merkishjónanna Aðalbjargar Jónsdóttur ( f. 7. ágúst 1882, d. 13. október 1943) og Jóns Karlssonar ( f. 7. 25. júní 1877, d. 13. apríl 1937 ), sem þar bjuggu. Foreldrar Aðal- bjargar voru Kristjana Nanna Jónsdóttir frá Leifsstöðum í Kaupangssveit og Jón Jónsson frá Mýri Ingjaldssonar, sem eftir lát Kristjönu konu sinnar fór til Ameríku með allan barnahópinn sinn nema Aðalbjörgu, sem þá (1903) var gift Jóni Karlssyni. Foreldrar hans voru Pálína Jónsdóttir frá Stóruvöllum Benediktssonar og Karl Emil Friðriksson, smiður. Baldur var næstyngstur systkina sinna, en hin eru: Karl f. 1901, lengi bóndi á Mýri, nú á Akureyri, kvæntur Björgu Haraldsdóttur frá Austurgörðum. Hulda f. 1902, ekkja Hermanns Pálssonar frá Stóruvöllum, bónda á Hlíðskógum. Pálína Guðrún f. 1904, gift Höskuldi Tryggvasyni frá Viði- keri, bónda á Bólstað. Þórólfur f. 1905, bóndi í Stóru- tungu, kvæntur Guðrúnu Sveins- dóttur frá Stórutungu. Jón f. 1908, bóndi í Fremstafelli, kvæntur Friðriku Kristjánsdóttur frá Fremstafelli. Páll Helgi, tvíburabróðir Jóns, lengi kennari við Laugaskóla í Reykjadal, rithöfundur og tón- skáld, átti fyrst Rannveigu Kristjánsdóttur frá Fremstafelli, systur Friðriku, konu Jóns, en síðari kona Páls er Fanney Sigtryggsdóttir frá Stórureykjum í Reykjahverfi. Askell f. 1911, kennari og söng- stjóri á Akureyri, kvæntur Sigur- björgu Hlöðversdóttur frá Djúpa- vogi. Kristjana Nanna f. 1924, gift Erlendi Konráðssyni frá Laugum, lækni á Akureyri. Æskuheimili Baidurs var mikið menningarheimili, og sérstaklega var tónlistin í heiðri höfð og um hönd höfð. Jón Karlsson var mikill tónlistarmaður og organisti í Lundarbrekkukirkju um áratugi, og Aðalbjörg kona hans einnig gædd miklum tónlistargáfum og ágætri söngrödd. Börnin lærðu á hljóðfæri og vöndust við að iðka og virða góða tónlist og unna henni. Ótrúlega mikill og góður nótna- bókakostur var til á Mýri, og hljóðfæri voru ekki talin ónauð- synlegri heimilistæki Qg búsgögn en strokkur og saumavél. Einnig var mikið sungið og yfirleitt marg- raddað. Þá var annríki mikið og óvenjulega á Mýri, ef ekki var tekið lag eða gripið í orgel, áður en gengið var til náða. Mýrarsystkin hafa líka mörg óspart látið til sín taka í tónlistarmálum, þar sem þau hafa verið, og hneigðin til tónlistar hefur verið afar rík hjá mörgum afkomendum þeirra. Hafa þar greinileg a farið saman uppeldisáhrif og eðlishneigð. Uppvaxtar- og æskuár Baldurs voru um margt erfiðleikatími fyrir alþýðu manna í þessu landi, bæði til lands og sjávar. Fátækt var mikil og almenn og áföll mörg. Samt braust Mýrarheimilið í því að koma upp íbúðarhúsi úr stein- steypu um 1930, og var það mikið þrekvirki, ekki síst þegar þess er gætt í fyrsta lagi, hve aðdrættir voru langir og erfiðir í samgöngu- og vegaleysinu, og í öðru lagi að heimilisfaðirinn hafði misst annan fótinn í veikindum árið 1918 og gekk síðan við hækjur. Þar við bættist, að um miðjan fjórða áratuginn missti hann heilsuna og lést 1937. þá kom í hlut bræðra- nna, sem enn voru heima, Jóns og Baldurs, að sjá heimilinu farborða, og þeim tókst það með prýði. Jón var þá kvæntur og fór að búa sér 1939, en þaðan í frá var Baldur fyrirvinna móður sinnar og yngstu systur til hausts 1943, þegar Aðal- björg á Mýri andaðist. Þegar hún var sjúk orðin, önnuðust þau systkinin móður sína af hinni mestu umhyggju og ástúð með fögrum hætti. Baldur og Kristjana hættu búskap eftir lát móður sinnar, og þá fór Baldur að Laugarskóla til Páls bróður síns. Hann var bryti skólans tvo vetur, og þar kynntist hann konuefni sínu, sem þá vár í Húsmæðraskólanum á Laugum, Arnbjörgu Aradóttur frá Grýtu- bakka, dóttur Ara bónda Bjarna- sonar og Sigríðar Arnadóttur, konu hans. Arnbjörg og Baldur gengu í hjónaband 6. júní 1947, og þá fluttist Baldur að Grýtubakka, þar sem þau Arnbjörg hófu bú- skap. Þau bjuggu fyrstu árin í gamla bæjarhúsinu, en reistu sér steinhús nokkrum árum síðar. Þau höfðu lengi blandað bú, en fyrir nokkrum árum förguðu þau kún- um og bjuggu eingöngu við sauðfé eftir það. Það átti miklu betur við Baldur, enda var hann frá barn- æsku fjármaður ágætur, hafði yndi af fé og var natinn við það. Þau Arnbjörg bjuggu myndarbúi á Grýtubakka og juku jörðina að húsum og ræktun. Var Baldur þó aldrei sterkur til heilsu, frá því hann veiktist hastarlega af brjóst- himnubólgu á unglingsárum, en hann lét það sjaldnast á sig fá og sinnti verkum sínum þrátt fyrir veila heilsu. Hann var líka í eðli sínu þrekmenni mikið og vask- leikamaður, hár og vörpulegur á velli. Hann var fríður sýnum, hrifnæmur og tilfinningarríkur í lund. Arnbjörg og Baldur eignuðust níu börn, og eru þau þessi: Aðalbjörg og Sigrún, ekki heilar heilsu, Sigríur, gift Páli' Kjartans- sjni bónda í Víðikeri, Margrét, gift Olafi Einarssyni, bifvélavirkja á Grenivík, Sigurður Jónas, húsa- smiður á Akureyri, Bryndís, starfsstúlka í Fjórðungssjúkra- húsinu á Akureyri, Ari, Jón Karl og Guðmundur , allir í heimahús- um. Skömmu eftir að Baldur fluttist í Höfðahverfi, gerðist hann organ- isti við Grenivíkurkirkju og stjórnandi kirkjukórsins þar. Einnig var hann í mörg ár í stjórn Búnaðarfélags Grýtubakkahrepps, og í skólanefnd hreppsins hafi hann einnig átt sæti árum saman þegar hann féll frá. Þegar ég um fermingaraldur kom í fyrsta sinn í Bárðardal á sólbjörtum vordegi og hafði verið ferjaður yfir Skjálfandafljót hjá Halldórsstöðum, var það Baldur frændi minn, sem tók á móti mér á vesturbakkanum. Þar beið hann með tvo hesta og flutti mig heim á Mýri. Þar átti ég eftir að vera næstu sumur nokkur í röð hjá þeim Aðalbjörgu, Baldri og Kristjönu, og sumrin 1940 og 1941 átti ég að heita í kaupmennsku. Á þessu heimili átti ég góða daga, eins og vænta mátti, við önn og eril, hlýju og gott atlæti húsbænda og heimilisfólks alls. Þar fékk ég kaupstaðarbarnið, þá innsýn í lífsbaráttu sveitafólks og þar með íslenskrar þjóðar í þúsund ár, sem áratuga skolanám hefði aldrei dugað á hálfu til að veita. Þetta fæ ég aldrei metið eða þakkað til fulls. Húsmóðirin, Aðalbjörg á Mýri, eins og hún var alltaf kölluð til aðgreiningar frá öðrum þingeyskum Aðalbjörgum, verður mér ógleymanleg fyrir manngæði, göfgi og víðsýni, og systkinin urðu . mér glaðværir og góðir vinir. Baldur var í senn góður og skemmtilegur húsbóndi. Hann sagði glöggt og skýrt fyrir verkum, og með honum var gott að vinna. Hann gekk rösklega hiklaust og festulega að verkum sínum, og lagvirknin og snyrtimennskan brást aldrei. Honum beit vel við slátt, og það var engu líkara en hann skæri grasið fyrirhafnar- laust og átakalaust við rótina. Þar stóð það óhaggað í ljáfarinu, þangað til næsta sveifla orfsins reið yfir, þá kastaðist það í múgann. Hann kunni að slá, — kunni að ganga við orfið og að nota bolvinduna í stað krafta til átaks. Oft var vinnudagurinn langur og verkin erfið, sem hann fékkst við og leysti af hendi, enda var þá ekki komin sú vélvæðing, sem sveitirn- ar eru nú fullar af. Sláttuvél og rakstrarvél, dregnar af hestum, voru einu heyskaparvélarnar, og útheyið var allt bundið og flutt heim á kerrum eða klökkum. Það var stundum seinlegt. Daglegur vinnutími um sláttinn var þó yfirleitt reglulegur, en þegar mikið lá við, var unnið fram í rauða- myrkur og ekki dregið af sér. Sumir miklir verkmenn verða verkkaldir, gerast viðskotaillir og hranalegir við vinnu, en þannig var Baldri ekki fárið. Gamanyrði flugu þá einatt af vörum, og hann var aldrei kátari en þegar hann tók duglega til hendi. Þegar hann sat á sláttuvélinni, sem hestarnir hans drógu, eða „blessaðir karl- arnir mínir“ eins og hann ávarpaði þá gjarnan, söng hann oft við raust einhver þau lög, sem voru ofarlega í huga hans. Þegar grasið féll af sláttuvelarljánum og flekkjaði sig í slægjunni, var honum skemmt, og seinna, þegar heyið var hirt grænt og ilmandi og hirðingin gekk vel, var honum líka glatt í geði. Baldur var mikill dýravinur. Það sá ég af umgengni hans við hesta, kýr og geitfé, en því miður var ég ekki vottur að fjármennsku hans nema af umtali hans um féð, meðan það var á fjalli. Það var mér raunar nóg. Hann fór ár eftir ár í „framgöngur" eða lengstu göngur inn til jökla, allt til Jökuldals, og var þaulkunnugur afréttinni. Þegar komið var heim á kvöldin að koknu dagsverki og menn voru þvegnir og mettir, settist annað- hvort systkinanna venjulega við orgelið og spilaði eitthvað fallegt, oft mjög erfið verk. Einkum var Franz Schubert hafður í hávegum, og kærar eru minningarnar frá rökkurkvöldunum, þegar Rondo hans eða Impromtus, Lándler eða vögguvísa hljómuðu um bæinn frá orgelinu í stofunni, orgelinu, sem fylgdi Baldri að Grýtubakka. Þeg- ar við komum upp í piltastofu til að leggjast til svefns, ritaði Baldur venjulega um viðburði dagsins í dagbók sína, sem hann hélt reglu- lega. Síðan svifum við á vit draumsins við tvíraddaðan söng Skjálfandafljóts og Mjóadalsár, sem niðuðu fram undan bænum lognkyrra sumarnóttina. En svo var líka brugðið á leik, þégar tími gafst. Stundum var farið í útreiðartúr eða skroppið með spón fram á Ishólsvatn til að sækja silung í soðið eða til að reykja hann og hafa ofan á brauð. Eg tala nú ekki um, þegar sam- koma var í Halldórsstaðaskógi og allir, sem vettlingi gátu valdið í dalnum, komu þar saman á sunnu- dagssíðdegi til að hlýða á talað orð, syngja og fá sér snúning og kitilkaffi, hitað á hlóðum. Þá var Baldur á Mýri hrókur alls fagnað- ar. Hann munaði ekki um að stýra söngnum og þenja nikkuna með fjörugum ræl eða mjúkum valsi. Hann munaði heldur ekki um að vippa orgelinu upp á kerru á Mýrarhlaði, beita Mósa gamla, — þeim snilldargóða en sérvitra dráttarhesti, sem engan þoldi á baki sér, — fyrir kerruna og flytja það norður í skóg til að auka ánægjuna. Nú er þessi tími liðinn og horf- inn og lifir aðeins í dýrmætri minningu, sveipaður ljóma hins heiða æskudags. En nú, þegar Baldur frændi minn er allur, kallaður af leikvangi lífsins svo snöggt og sviplega, kemur þessi tími fram í hugann, skír og bjart- ur, og er enn meira þakkarefni en nokkru sinni fyrr. Ég þakka hon- um alla vináttu hans og viðkynn- ingu, leiðsögn og ljúfmennsku, ekki síst sumurin okkar á Mýri. Við hjónin sendum Arnbjörgu húsfreyju, börnum þeirra og öðru skylduliði, svo og Mýrarsystkinum öllum, einlægar samúðarkveðjur, en Baldri sjálfum ósk um farar- heill til nýrra stranda. Sverrir Pálsson. Undanfarin ár hefur stýrimannsefnum verið gefinn kostur á að fara í stuttar ferðir með varðskipum. Nýlega fóru nemendur úr stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum í slfka ferð með varðskipinu Ægi og var myndin tekin við það tækifæri. Leikfélag Sandgerðis: Á YZTU NÖF Það þótti nokkur dirfska af Leikfélagi Keflavíkur að færa upp Herbergi 213 í fyrra. Gunnar Eyjólfsson gerir betur. Hann kemur með lærisvein James Joyce. Thorton Wilder, og kallar út 40 manna lið til að sýna annað þekktasta verk Wilders, Á yztu nöf, í Sandgerði. Vitaskuld er hér mikið í ráðist og vafalaust munu sumir frekar vilja sjá Ævintýri á gönguför. En á Suðurnesjum blómgast nú leik- list. Hvergi á landinu eru sýnd fleiri leikverk. ef höfuðborgin ein er undanskilin. Og hvað var þá eðlilegra fyrir leikhúsmann á borð við Gunnar en að láta áhugafólkið glíma við heimsbókmenntir. Á yztu nöf greinist í þrjá kafla, þar sem þrír aðalleikararnir koma við sögu í þeim öllum: Antrobus, frú Antrobus og Sabína. Antrobus líkist að ýmsu leyti nútíma bisness-manni, sem gleðst yfir uppfinningum sínum á hjóli og stafrófi, frúin aftur á móti er dæmigerð húsmóðir, er hugsar mest um misheppnaðan son og á Sabínu, þjónustustúlkuna, má líta á sem fúlltrúa tilfinninga og ástleitni. Antrobus-fjölskyldan er svo færð aftur og fram í tíma og rúmi. Hér gildir eins og raunar í öllum leikverkum skýr framsögn svo texti höfundar komist skilmerki- lega til skila. Á því var nokkur misbrestur hjá Sandgerðingum. Mér fannst Sæunn Guðmundsdótt- ir, Heimir Mortens, Ólafur Gunn- laugsson og Hómfríður Björns- dóttir skera sig úr að þessu leyti: framsögn þeirra allra var skýr og góð. Það sama má segja um Unni Guðjónsdóttur, bæði framsögn og leikur í bezta lagi. Sviðsmyndin var mjög skemmtileg. Sandgerðingar sýndu Skírn eftir Guðmund Steinsson við góðan orðstír í fyrra. Enn hafa þeir sótt í sig veðrið. Hafi þeir og Gunnar Eyjólfsson leikstjóri þökk fyrir ágæta skemmtun. Ililmar Jónsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.