Morgunblaðið - 25.04.1979, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 25.04.1979, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 25. APRÍL 1979 31 frá eylöndum drekkur öðruvísi en meginlandsbúar." Hvernig er hægt að komast hjá því að bera virðingu fyrir slíkum mönnum? » Því miður láðist mér að halda sambandi við Magnús eftir að ég yfirgaf Kunglv hér um árið. Ég frétti þó af honum við og við, meðal annars þegar hann varði doktorsritgerð sína um islenska þjóðhætti. Það efni var honum svo hjartfólgið, að maður komst naumast í tíma ef hann byrjaði að ræða það í matarhléum. Á annan dag páska bárust svo til landsins þau ótíðindi, að Magnús hefði látist þá um morg- uninn. Þó að það sé Birgittu ekkju hans og börnum þeirra lítil huggun harmi gegn, þá getum við nemend- ur hans huggað okkur við það, að minning þessa samnorræna íslendings mun lifa svo lengi sem lýðháskólinn í Kungálv dafnar af verkum hans. Það er sannfæring mín, að svo muni lengi verða. Pjetur Lárusson. Ekki eru tök á því að gera ævistarfi Magnúsar Gislasonar skil i stuttri minningargrein, enda ætla ég mér ekki þá dul. Til þess munu aðrir betur fallnir. En við hið sviplega fráfall vinar míns streyma minningar fram í hugann, ein af annarri, og reynt skal að draga upp nokkrar augnabliks- myndir og setja á blað með fátæklegum orðum. Áhugamál Magnúsar voru mörg, en meðal þeirra sem hæst bar voru: Norrænt samstarf, norræni lýðháskólinn í Kungálv, uppeldis- og skólamál og Island, ættjörðin, land og saga. Þegar frá er talinn fjölskyldan stóra og heimilið sner- ist allt hans líf um þessi hugsjóna- mál hans. Skömmu eftir stríðslokin síð- ustu stofnuðu þrír kennarar og vinir samnorræna lýðháskólann í Kungálv, í gömlu timburhúsi í eldra bæjarhlutanum í Kungálv. Það voru þau Sture Altvall, Caren Cederblad og Carl Gulddagger Hansen. Ekki voru efnin mikil og skilningur heldur lítill á þessari skólastofnun. En þetta var ungt fólk með hlutverk, bjartsýnt og stórhuga. Þetta átti að vera skóli fyrir æskufólk frá öllum Norður- löndunum. Hér skyldi það fá tæki- færi til þess að hittast, talast við og vinna saman við nám og starf, menntast og þroskast undir hand- leiðslu valinkunnra kennara, helst frá öllum Norðurlöndunum. Þarna var mikið færst í fang og fyrstu sporin voru þung og erfið. En hópurinn var samstilltur og ákveð- inn og smám saman óx skólinn í áliti, naut almenns trausts og varð viðurkennd stofnun. Þegar Magnús Gíslason fluttist til Svíþjóðar, með sína sænsku konu og barnahópinn, settist hann að í Kungálv. Hann gerðist starfs- maður norræna félagsins á vestur- strönd Svíþjóðar, en áður hafði hann verið framkvæmdastjóri Norræna félagsins á íslandi sem öllum er kunnugt. Hann var því ekki ókunnur þeim störfum sem hann tókst á hendur og hafði aflað sér víðtækrar þekkingar á mönn- um og málefnum er snertu norrænt samstarf. Hann var nú öðru sinni kominn til Svíþjóðar. Hann hafði fyrr á árum stundað nám í Stokkhólmi og kynnst sinni mikilhæfu konu þar. Hann hafði sótt fundi, þing og ráðstefnur á öllum Norðurlöndunum, kynnst fjölda fólks og áunnið sér álts og virðingar. Atvikin höguðu því að Magnús gerðist brátt kennari við lýð- háskólann, sem hafði vaxið fiskur um hrygg og yfirgefið gamla timb- urhúsið í kvosinni við kirkjuna niðri í bænum og flust í ný og glæsileg húsakynni upp á Fontin- berget þar sem einna fegurst útsýni er yfir dalinn og góðs hluta Bobusléns. Hugsjón þremenning- anna var nú greypt í stein. Þarna hóf Magnús sitt giftusama starf og vann þessari stofnun allt það hann mátti uns yfir lauk. Þremenningarnir voru fljótir að koma auga á mannkosti Magnúsar og sáu í honum marga menn. Og hann varð brátt vel hlutgengur kennari, laginn og úrræðagóður, hollráður og fræðari góður, reynd- ur skólamaður. Hugmyndir brautryðjendanna um hlutverk og tilgang skólans féllu vel að lífsskoðun og hugsjón Magnúsar. Hann vann sér trausts og virðingar samstarfsmannanna í skólastjórn, rektors, samkennara og nemenda. Þetta var samstilltur hópur, staðráðinn í því að efla og byggja upp þessa merku skóla- stofnun. Magnús undi hag sínum allvel í Kungálv. Afkoman hafði verið heldur bágborin hér heima. Nú varð lífsbaráttan ögn léttari fyrir hina stóru fjölskyldu og börnin áttu kost á góðri menntun. Norræni lýðháskólinn var jafn- an yfirsetinn og að því kom að hann færði út kvíarnar. Stofnað var útibú í Gautaborg. Þangað þurfti að senda góðan og traustan og umfram allt iaginn kennara og stjórnanda. Og rektor valdi Magnús til þessarar farar. Þetta var vandasamt starf. Hópur ungs fólks þyrptist í skólann. Þetta var hressilegt fólk með ólgandi blóð í æðum. Það var í tísku að vera ungur og reiður, hafa hátt og tala mikið, tileinka sér alls konar isma og margir þjáðust af hvers konar kreppum. Magnús fékk fangið fullt af verkefnum en með seiglu, rósemi, lipurð og víðtækri þekk- ingu á ungu fólki, sem hann hafði aflað sér ' farsælu skólastarfi, sigldi hann gegnum þetta allt saman, varð vinur og félagi nemenda sinna eins og jafnan áður. „Við skulum þegja. Höfðing- inn frá Islandi er að koma og ætlar að fara að tala og kenna." Og það sló þögn á stúdentahópinn og Magnus hóf sína kennslu og fræðslustörf við góðan orðstír. Skólastjórn er lýjandi starf og kennslu- og skólamálin yfirgefa ekki skólastjóra í vöku og svefni. Þeir gerast ekki gamlir nú á dögum og þar kom að því að brautryðjandinn sjálfur og fyrir- liðinn, Sture Altvall rektor, féll frá um aldur fram. Það þurfti að velja eftirmann og Magnús var kjörinn eftir maður hans, að hans eigin ósk og annarra við skólann. Þetta starf ieysti Magnús vel af hendi, eins og öllum er kunnugt og verður ekki fjölyrt frekar um þann þátt í lífi Magnúsar. En kona hans studdi hann dyggilega í öllum hans störfum og Magnús mat hana mikils og voru fá mál til lykta leidd án þess að hún væri með í ráðum. Það þarf mikið til að ávinna sér þegnrétt og komast til mannvirðinga í öðru landi. Þetta fannst öllum sjálfsagt um Magnús, en oft minntist Magnús á frú Brittu í þessu sambandi það sjald- an sem hann fékkst yfirleitt til að tala um sjálfan sig og störf sín. Frú Britta er óvenjuleg kona, búin bestu eiginleikum góðrar móður. Það er reisn og myndar- skapur yfir öllum hennar störfum og fagurt heimili skapaði hún manni sínum og börnunum níu. Það vakti furðu margra hve miklu hún kom í verk. Allt gengur hljóðlega og eðlilega fyrir sig og enginn var var við stjórn hinnar stilltu og hógværu konu, sem var þó ærin á svona stóru heimili. Og þótt störfin væru yfirþyrmandi virtist hún altaf hafa tíma til alls. Hún ber sterkar taugar til Islands, á fjölda vina hér og óafvitandi talar hún um að fara „heim“ til íslands. Magnús fór ekki dult með að hann ætti konu sinni mikið að þakka. I síðasta samtali okkar, fyrir nokkrum vikum, kom þetta einkar vel í ljós. „Þeir eru að stefna mér til Stokkhólms 30. mars“ „Já, þótt fyrr hefði verið," svaraði ég. „Þeir hefðu heldur átt að láta Brittu fá þessa orðu,“ sagði Magnús að bragði. Þetta voru lokaorð í okkar samtali. En Magnús fór aldrei til Stokk- hólms til þess að sækja viðurkenn- inguna fyrir umfangsmikil og giftudrjúg störf í þágu lands og þjóðar. Eins og svo oft áður kom hún of seint. Þótt ég eigi einhvern veginn svolítið erfitt með að hugsa mér Magnús Gíslason með orðu framan á sér, þegar hugsað er til einstakrar hógværðar hans og lítillætis, átti hann fyllilega skilið þá viðurkenningu og þakklæti, sem bak við slíka veitingu býr. Magnús kemur víða við sögu hópa sem sóttu hann heim. Skóla- stjórafélag íslands flytur honum innilegar þakkir. Saga félagsins hefði orðið dálítið öðru vísi ef hans hefði ekki notið við. Þau hjónin sóttu fyrsta mót félagsins og voru heiðursgestir hins síðasta. Magnús fylgdist með öllu sem var að gerast í skólamálum á Norðurlöndum og hafði alltaf eitthvað nýtt að segja og fræðandi. Hann var gætinn og öfgalaus í málflutningi, sagði frá stefnum og straumum í skólamál- um. Hann hampaði ekki nýjungum en gat þes að best væri fyrir íslenska þjóð og skólamenn að láta hina ríkari þjóðir brjóta ísinn, bíða átekta. „Það er verið að reyna þetta. Við sjáum hvað úr þessu verður. Umbrotin ganga yfir og við sjáum hvað eftir verður í leysing- unum.“ Hann vildi að íslenskir skólamenn færu sér að engu óðslenga og bindu bagga sina íslenskum hnútum. Þau hjónin voru miklir aufúsu- gestir á mótum og þingum S.í. Þau voru gleðinnar fólk. Magnús var söngmaður góður og frú Britta heillaði gesti á kvöldvökum með fögrum söng og skemmtilegri framkomu. Allir vissu þó að hún hafði eigi nema stolnar stundir frá umfangsmiklum skyldustörfum til þess að halda við góðri kunnáttu sinni í músik og þjóna sönggyðj- unni. Magnús varði doktorsritgerð sína við Uppsalaháskóla um íslensku kvöldvökuna. Fáir munu hafa orðið doktorar við erfiðari skilyrði en Magnús Gíslason. Það gerðu áhugamál hans, hið erils- sama skólastarf og stórt heimili. En þetta var heillandi verkefni, sem alltaf fylgdi honum. Það hefur verið hljótt um þetta verk Magnúsar, en gott innlegg verður hún fyrir áhugasama fræðimenn, sem vilja gefa þessum merkilega þætti í lífi þjóðarinnar frekari skil. Magnús átti mikinn þátt í því, að fjölmargir einstaklingar og minni og stærri hópar frá íslandi komu til Kungálv, ýmist til að nenta við Lýðháskólann, sækja fundi, þing og námskeið á skólan- um eða akademíunni, sem er undir sama þaki. Margir komu til þess að kynna sér havð væri að gerast með Svíum á þeirra eigin starfs- vettvangi. Magnús var oftast milligöngumaður eða að sjálfsagt þurfti að hitta hann, ræða við hann og sækja til hans ráð og fyrirgreiðslu. Æskufólkið héðan að heiman skipti orðið hundruð- um, enda gætti Magnús þess að hlutur Islands væri jafnan stór og góður þegar nemendur voru valdir til skólans á hausti hverju — og þótti sumum nóg um. Aðsókn var jafnan geysimikil og langt fram yfir það sem hægt var að hýsa. Skólinn var með virtustu og viður- kenndustu lýðháskólum á Norður- löndum. En það voru fleiri sem komu til Kungálv. Skólastjórar, kennarar, flokkar ungmenna, nefndir æskulýðsleiðtoga og embættismanna. Og það var oft gestkvæmt og erilssamt hjá þeim Magnúsi og Brittu. En þau kunnu þessu vel og fögnuðu ávallt gestum að heiman, og þá komu bestu eiginleikar þeirra hjóna vel í ljós: Einstök gestrisni, höfðingslund, hógværð, hlýleiki og hjálpsemi. Gestir skyldu njóta sín vel og allra vanda, smáan og stóran, var sjálf- sagt að leysa. Menn skyldu hafa erindi sem erfiði og fara heim fróðari og víðsýnni og betri en þeir komu. Magnús var alls staðar vel kynntur og naut trausts og virð- ingar. Fyrir hann var sjálfsagt að gera það sem hægt var. Magnús vildi að menn hefðu full not af ferðum sínum úr því að þeir voru konnir út á annað borð. Væri ekki rétt að skoða og athuga þetta og hitt, finna menn og kynna sér málin. Svo var sjálfsagt að koma við á hinum Norðurlöndunum líka, og þegar maldað var í móinn og því borið við, að viðkomandi þekkti nú engan og ekki hefði nú verið gert ráð fyrir þessu í áætlun, þá gekk Magnús settum skrefum til bókaherbergisins, tók upp símtólið og greiddi úr vandanum á skammri stundu. Alls staðar þekkti hann lykilmenn, og það var sama hvort hann talaði innan Svíþjóðar eða til Tromsö eða Try, Færeyja eða Finnlands. Þannig var Magnús. Og margir munu minnast gleðistunda á hinu stór- myndalega íslensk-sænska heimili þeirra hjóna við Östra gatan. Sennilega er Skólakór Garða- bæjar síðasti gestahópur Magnús- ar að heiman. Það var í desember s.l, að boð barst frá Magnúsi. Þessari myndaregu jólagjöf var ákaft fagnað af hinum ungu kórfé- lögum. Það var tekið til að æfa af meira kappi en áður með þessa ferð í huga. Það sló því þögn á barnahópinn þegar harmafregnin barst. Gestgjafinn var allur. Magnús var dáinn. Fararstjórinn hikaði, en við nánari athugun varð okkur ljóst, að það hefði orðið Magnúsi síst að skapi að þessi ferð, sem hann hafði svo vel og skipulega undirbúið, yrði höfð af börnunum. Þrek hans tók óðum að þverra. Framkvæmd málsins hafði hann komið í góðra manna hendur en fylgdist með og hafði alla þræði í hendi sér til hinstu stundar. Magnús var heill og vakandi í störfum og orð skyldu standa. Hann mun fagna vinum í varpa, og honum mun þykja vænt um að íslensk börn gangi um garð og virði fyrir sér ríki hans. Fögnuður og gleðisöngur þeirra mun berg- mála í skógi og björgum, og Magnús fylgir þessum hóp, sem öllum hinum er gistu skóla hans, fram á bjargbrúnina og horfa með honum yfir hinn undurfagra dal, þar sem örlögin leiddu hann til sætis og hann skipaði með svo miklum sóma. Sönggleði þeirra hjóna, Magnús- ar og Brittu, og ást allrar fjöl- skyldunnar á hvers konar músik, var víðkunn. Því skal söngur barn- anna úr Garðabæ, í Kungálv og nágrenni, um næstu helgi verða lofsöngur og þakkaróður til Magnúsar Gíslasonar, fyrir öll -gvíslegu störf í þágu íslenskraar æsku, hins stóra hóps ungmenna, sem nutu leiðsagnar hans sem kennara og fræðara hér heima þegar hann var kennari, skólastjóri og námstjóri og þá ekki síst þeirra, sem dvöldu með honum á Lýðháskólanum. Þeir munu hugsa hlýlega til hans og láta hugann reika til baka er þeir hleyptu heimdraganum og fóru sína fyrstu ferð til Norðurlanda, hikandi, mállitlir og ekki alltaf upplitsdjarfir og áttu þá því mikla láni að fagna að hitta fyrir skóla- stjórahjónin, svo skilningsrík og full góðvildar, svo skyggn á vanda hvers einstaklings fyrir sig en þó staðráðin í því að nemendurnir að heiman skyldu hafa gagn af veru sinni á skólanum. Fyrir allt þetta skal sérstaklega þakkað — og öll hans störf í þágu lands og þjóðar. Við hjónin flytjum Magnúsi, að leiðarlokum, okkar persónulegu þakkir fyrir fölskvalausa vináttu og áratuga tryggð, fyrir hjálpsemi hans og greiðvikni í sambandi við ferðir okkar, dvöl og margar ógleymanlegar ánægjustundir á heimili þeirra hjóna. Og vel mega eftirfarandi ljóðlínur Davíðs Stefánssonar, sem Magnús skrif- aði á síðasta jólakortið til okkar, verða okkar kveðjuorð: „Hverju sem ár og ókomnir dagar að mér víkja er ekkert betra en eiga vini sem aldrei svíkja.„ Við fráfall hins mæta manns og góða heimilisföður situr nú „hnípin þjóð“ í vanda að Östra gatan 19. Við vottum frú Brittu, hinni miklu móður og mannkosta- konu, okkar innilegustu samúðar- kveðjur og stóra, mannvænlega barnahópnum, sem er nú að mestu vaxinn úr grasi. Sá, sem öllu ræður mun greiða úr vandamálum fjölskyldunnar, og börnin munu geyma minninguna um góðan föð- ur og fagurt ævistarf hans. Það er mikill arfur og gott veganestið út í lífið. Vilbergur Júlíusson. Járnbrautarvagn í Bandarfkjunum sem starfræktur er sem matstaður. Ásgeir Hannes Eiríksson hefur áhuga á að flytja slíkan vagn inn frá Bandaríkjunum og setja upp grill á mótum Skeiðarvogs og Miklubrautar. Vill koma upp mat- stað í jámbrautarvagni ÁSGEIR Hannes Eiríksson hef- ur sótt um leyfi borgaryfir- valda til að reka matsölustað í járnbrautarvagni á mótum Skeiðarvogs og Miklubrautar í Reykjavík. Er ætlunin að selja þar allan venjulegan „grill- mat“, svo sem kjúklinga, ham- borgara, samlokur og fleira. Á bæði að gefa fólki kost á að snæða réttina inni í veitinga- stofu, og að taka þá í bfla sína í gegnum söluop. I samtali við Morgunblaðið sagði Ásgeir að hann væri von- góður um að leyfi til þessa rekstrar fengist, en starfræksla staðar af þessu tagi byði upp á mikla möguleika, bæði innan dyra og utan. Ásgeir Hannes rekur sem kunnugt er pylsuvagninn á Lækjartorgi, og sagði hann að sú starfsemi gengi nokkuð vel. Nú væri búið að skipta um vagn, að beiðni borgaryfirvalda; kom- inn væri stærri vagn sem stæð- ist ítarlegri kröfur um hreinlæt- isaðstöðu en sá fyrri. Sagði Ásgeir þennan nýja pylsuvagn verða kyrran á göngugötunni, hann yrði ekki keyrður á brott á kvöldin. Það væri hins vegar vilji borgaryfirvalda að hann væri á hreyfingu um göngu- svæðið, en leyfi væri fyrir því að hafa hann hvar sem væri innan þess, hvort heldur það væri á Lækjartorgi eða í Austurstræti. Þá kvaðst Ásgeir vera búinn að fá Ingva Hrafn Hauksson mynd- listarmann til að skreyta vagn- inn, þannig að hann félli sem best að umhverfinu, og yrði væntanlega drifið í því á næstunni.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.