Morgunblaðið - 25.01.1980, Page 23

Morgunblaðið - 25.01.1980, Page 23
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 25. JANÚAR 1980 23 Dr. Jón Gíslason Doktor Jón Gíslason var ekki árennileg persóna í augum ungra nemenda. Fas hans, æði hátignar- legt og strangleiki, sköpuðu í fyrstu nokkra fjarlægð milli hans og nemenda. Hann skar sig mjög frá hinum kennurum skólans, sem ýmist voru fisléttir í lund eða luntaværir. Um aga hans gengu arfsagnir — en jafnframt var frabær kennsla hans rómuð. Þetta haust, ár 1952, var dr. Jón skipaður skólastjóri Verzlunar- skólans. Og hann — hámenntaður í klassiskum fræðum Grikkja og Rómverja — og sannarlega ekki kaupmannlega vaxinn — hófst strax handa að reka slyðruorðið af skólanum, sem hafði allmörg ár verið í stjórnunarlegri níðslu. Hann réði unga, velmenntaða kennara að skólanum, bjó þeim góð starfsskilyrði og margir þeirra hafa síðan átt vænan þátt í að gera skóla Verzlunarráðsins að þokkalegasta viðskiptaskóla. Skýrslur skólans höfðu ekki komið út á annan áratug. Eigin gögn hans voru á tvístringi, tækjakostur enginn og húsnæðið enn í svipuðu horfi og meðan þrír Thórsarabræður bjuggu í skóla- húsinu. Öll stjórnunar- og skipu- lagsmál skólans gerbreyttust firna fljótt. Og það kostaði starf margra. En samstarf skólastjór- ans við skólanefnd og aðra aðilja var jafnan prýðisgott. í ágústmánuði s.l. hittumst við í Grikklandi, tuttuguogsjö haustum seinna, gamli skólastjórinn og nemandinn og dvöldum á sama hóteli nokkra daga. Og það var sannarlega gaman að mæta dr. Jóni á heimavelli. Flest árin höfð- um við að vísu haft ýmis skipti á sameiginlegu áhugasviði: gamlar íslenzkar bækur. Og á svölum kvöldum var setið undir krónum tjránna og spjallað um gamalt prent, fásénar útgáfur íslenzkra rita frá fyrri tíð. Og íslenzka samtíð. Þar var fjarska margt lítt að skapi dr. Jóni. Og lífsreynsla var það líka að ganga með honum á Akrópólis hæð og skynja hina gömlu Grikki undir máli dr. Jóns. Og nú er þetta íturmenni, klassíkerinn meðal kaupahéðna, gengið til feðra sinna. Sjálfur sagði hann stundum að dauðinn væri alls ekkert skelfilegur, ella hefði hann þá komið Sókratesi þannig fyrir sjónir. Skelfileg væri aðeins sú skoðun, að dauðinn væri skelfilegur. En hvað er minnisstæðast í veru dr. Jóns Gíslasonar? Eru það vísindastörf á klassisku sviði og bókmenntaiðja hans? Fágaður æskuskáldskapur hans? Markvís og vel heppnuð skólastjórn? Eða er það kannski íhaldssamt um- burðarlyndi hans við ungar salir, jákvæð leiðsagnarnautn í þágu æskufólks þessa lands og tærleiki hugsunar hans að greina kjarna frá hismi? Bragi Kristjónsson Kennara og nemendur Verslun- arskóla Islands setti hljóða af harmi við fregnir um skyndilegt fráfall dr. Jóns Gíslasonar, sem hafði svo lengi helgað líf sitt skólanum og sett óafmáanlegan svip á yfirbragð hans og tilvist alla. Ég held að okkur veitist öllum erfitt að gera okkur grein fyrir því að hann sé ekki lengur á meðal okkar því að einhvern veginn hefur okkur fundist hann vera óaðskiljanlegur hluti skólans, jafnvel eftir að hann lét af skólastjórn, enda hélt hann áfram allmikilli kennslu allt til dauða- dags. Það er mikið happ hverjum og einum að verða samferða miklum mannkostamönnum á lífsleiðinni. Því happi getum við hrósað sem störfuðum undir stjórn hans. Ekki var dr. Jón einungis gæddur af- burðagáfum, heldur var hann og heiðarlegur og réttsýnn í hvívetna. Umfram allt vildi hann vel stofnun þeirri, sem hann veitti forstöðu svo lengi, og sérhverjum þeim sem starfaði innan veggja hennar, hvort sem um nemendur, kennara eða annað starfslið var að ræða. Þetta batt hann ekki ein- ungis vináttuböndum starfsliði skólans og nemendum, heldur gaf það skólanum kjölfestu sem styrkt hefur það traust og álit sem hann hefur notið á meðal landsmanna. Rólegur, menningarlegur og þó hlýr persónuleiki hans setti svip á skólann allan, á kennarana og nemendurna, og gerði okkur öll, vona ég, að betra fólki. Aðrir verða sjálfsagt til að rekja æviferil dr. Jóns á síðum Morgunblaðsins í dag. Þessar línur verða einungis fátæklegar kveðjur samferðamanns sem mat hann mikils vegna gáfna og mannkosta. Með ritstörfum sínum reisti dr. Jón sér varanlegan minnisvarða. Margar ógleyman- legar ræður við skólasetningu og skólaslit geymast í skýrslum skól- ans. Þar koma víða fram hugrenn- ingar hans um vanda og vegsemd þess unga fólks sem valið hefur sér það hlutskipti að eyða fjöl- mörgum árum ævi sinnar í langt nám til undirbúnings undir þjón- ustu við land og lýð. Hann vakti oft athygli okkar á því að stærsti auður þjóðarinnar væri fólginn í þessu ágæta og þróttmikla fólki. Fátt væri happasælla fyrir þjóð- ina alla og landið okkar en að vel tækist til með þennan undirbún- ing. Eins veit ég að hann tók það mjög sárt ef vonir brugðust um gengi einhvers nemanda á náms- brautinni. Dr. Jón var í eðli sínu á móti miðstýringu og ofstjórn. Hann bar traust til góðra eiginleika í fari bæði kennara og nemenda og hafði gott lag á að fá þá til þess að njóta sín best án boða og banna. Á þann hátt örvaði hann ábyrgðar- tilfinningu hvers og eins. Ég tel að þetta hafi verið meginástæðan fyrir því hversu árekstralaus öll starfsemi skólans hefur verið og hversu öll agavandamál voru lítil í sniðum þau 26 ár sem hann veitti Verslunarskóla íslands forstöðu. Á þessum dapra degi verður okkur hugsað til eftirlifandi eig- inkonu dr. Jóns, frú Leu Eggerts- dóttur, sem verður fyrir þungbær- um missi lífsförunautar síns ein- mitt þegar hún sjálf er að reyna að ná sér eftir sjúkrahúsvist. Sendum við henni hugheilar sam- úðarkveðjur í sorg hennar. Sölvi Eysteinsson Hjálpi drottinn lýð að læra líf sem hæfir frjálsri sveit. Framtak, hófsemd heill og æra hefji og göfgi hvern þinn reit. Með tilvitnun í þetta ljóðabrot Hannesar Hafsteins kvaddi dr. Jón Gíslason eitt sinn nemendur sína við brautskráningu úr Verzl- unarskólanum. Ef til vill lýsir val þessara ljóðlína betur en margt annað viðhorfum hans til starfs síns og þeirrar ábyrgðar sem í því felst að skóla og móta uppvaxandi kynslóð sem ólgar af lífskrafti. Þá orku þarf að beizla til góðra verka og nytsamra, til heilla fyrir ein- staklinginn sjálfan, land hans og þjóð. Þar vildi dr. Jón leggja hönd á plóginn og hann lá sannarlega ekki á liði sínu, enda góðum kostum búinn fyrir sakir mann- kosta, vitsmuna og þekkingar. Sem einn af fjölmörgum nem- endum dr. Jóns naut ég þeirrar fræðslu sem hann veitti nemend- um sínum af alkunnri festu og röggsemi. Þetta var á fyrstu árum lærdómsdeildar V.í. en þá kenndi dr. Jón öll erlend tungumál í deildinni. Dr. Jón leit á það sem skyldu sína og metnað að nemend- ur hans yrðu a.m.k. jafnokar stúdenta úr öðrum skólum og gerði kröfur til þeirra í samræmi við það. Krafðist hann þess að nemendur legðu fyllstu rækt við námið og voru kennslustundir hans vissulega lærdómsríkar. Ár- angurjnn kom ekki aðeins fram í aukinni kunnáttu í námsgreinum dr. Jóns heldur engu að síður í ögun, aðhaldi og skipuiögðum vinnubrögðum sem voru nauðsyn- leg til að ná tökum á efninu — skólun sem kemur að gagni í öllu námi og starfi. Þegar dr. Jón tók síðar við skólastjórn Verzlunarskólans sýndi hann á sér nýja hlið sem hæfur og farsæll stjórnandi vax- andi menntastofnunar þar sem lífsviðhorf hans mótuðu skóla- anda og starf skólans. Hann leitaðist við að halda jafnvægi milli þeirra meginþátta sem móta skólastarf og skólalíf og vinna á markvissan hátt að því að þroska og mennta alla nemendur skólans. í fyrsta lagi lagði dr. Jón áherzlu á siðferðilega þáttinn þar sem hann gerði skilyrðislausar kröfur til heiðarleika — ráðdeild- ar og ábyrgðartilfinningar í öllum verkum. í öðru lagi lagði hann ríka áherzlu á félagslega þáttinn til að stuðla að farsælu lífi einstaklinga innan samfélagsins og í viðskiptum við aðra menn. Þess vegna studdi hann alla heil- brigða félagsstarfsemi innan skól- ans af heilum hug. Sem reyndur skólamaður var honum vel ljóst að góður bekkjar- og félagsandi er eitt undirstöðuskilyrði góðra sam- skipta milli nemenda og kennara og líklegasta leiðin til góðs náms- árangurs. En mesta áherzlu lagði dr. Jón á meginþátt skólastarfs- ins, sjálfan námsþáttinn, bæði hið almenna nám til að efla alhliða þekkingu og þroska og hið hag- nýta nám til undirbúnings starfa í viðskiptum og verzlun. Þótt dr. Jón væri fyrst og fremst „klassíker og húmanisti" — og hafi unnið merkt starf á því sviði hafði hann fullan skilning á gildi hagnýtrar þekkingar fyrir viðskiptjilífið og hvatti unga menn. og konur til dáða á þeim vett- vangi. Hann fylgdist vel með verzlunarfræðslu erlendis, fór í kynnisferðir til erlendra verzlun- arskóla og fylgdist þannig með nýjungum og breytingum á þessu sviði. Að frumkvæði hans gerðist Verzlunarskólinn þátttakandi í samstarfi norrænna verzlunar- skóla. Sótti dr. Jón reglulega fundi og ráðstefnur á þeirra vegum og hvatti og styrkti kennara skólans til þátttöku á þeim vettvangi. Kollegar dr. Jóns frá norrænum verzlunarskólum sóttu hann einn- ig heim. Þótt hagnýt verzlunar- menntun væri sérsvið flestra þeirra létu þeir oft í ljós þá skoðun sína að æskilegt væri að þeir gætu boðið nemendum sínum jafnal- hliða menntun og Verzlunarskól- inn veitir nemendum sínum. Stað- góð almenn undirstöðumenntun verður ætíð sá grundvöllur sem haldgóð sérmenntun hlýtur að byggjast á. I öllu umróti breytinga og tækniframfara getur verið erfitt að meta hvaða nýjungar horfi til bóta og hverjar til upplausnar, sérstaklega á sviði uppeldis og skólamála. Telja má að einmitt í þessu efni hafi dr. Jóni tekist einkar vel í skólastjórn sinni, þar sem hann hefur aðlagað skólann og námið að nýjum aðstæðum og breyttum tímum án þess að sleppa því sem ve! hefur reynst og heldur enn fullu gildi. Þá er ótalinn enn einn þáttur og að margra dómi sá veigamesti í allri skólastjórn: mannleg sam- skipti við kennara, nemendur og aðstandendur þeirra. í jafnfjöl- mennum skóla og Verzlunarskól- anum koma óhjákvæmilega upp vandasöm og viðkvæm persónuleg mál sem leysa þarf. Hér naut stjórnviska dr. Jóns sín einkar vel. Má segja að árekstrar og sundur- lyndi væri útlæg gerð án þess að nokkur veitti því sérstaka athygli. Festa, hógværð og stilling ein- kenndi öll stjórnarstörf dr. Jóns Gíslasonar. Skilningsríkt mat á mismunandi högum manna og úrlausn vanda af þeim sökum sat í fyrirrúmi fyrir einstrengingsleg- um reglum, boðum og bönnum án þess að slakað væri á kröfum um aðhald og ástundun. í slíkum efnum er skólastjóra oft mikill vandi á höndum, en dr. Jóni tókst yfirleitt að finna farsæla lausn sem reist var á velvilja og langri starfsreynslu. Standa margir í þakkarskuld við hann fyrir holl ráð og drengileg viðbrögð. Dr. Jón bar ætíð með sér reisn menntamannsins og kom alltaf fram sem glæsilegur fulltrúi sinnar stofnunar í embættisverk- um og á öðrum sviðum. Vöktu ræður hans og ávörp athygli og aðdáun tilheyrenda. Þar kom glöggt fram hversu gagnmennt- aður dr. Jón var. í skólaræðum sínum hvatti hann unga fólkið til dáða á menntabrautinni og fylgdi því síðan eftir með árvöku skóla- stjórastarfi. í skólann kom hann fyrstur að morgni hvers dags og fór oft síðastur heim að kveldi. Hann var sístarfandi og unni sér engrar hvíldar. I þeim efnum kunni hann sér ekki hóf, jafnvel þótt hann ætti við veikindi að stríða síðustu árin og þyrfti að ganga undir erfiðar læknisaðgerð- ir. Þeir samverkamenn dr. Jóns, sem lengst störfuðu með honum og kynntust honum bæði sem skólamanni og vinnufélaga, reyndu margoft velvilja hans og umburðarlyndi í öllum samskipt- um. Þar ríkti gagnkvæm virðing og traust sem leiddi af sér góðan starfsanda og vináttu sem aldrei brást. Því er okkur kennurum skólans þungur harmur í huga er við fylgjum nú skólastjóra okkar, dr. Jóni Gíslasyni, til hinstu hvíldar. — Að slíkum manni er mikill missir en verkin lifa þótt maður- inn deyi. Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti til dr. Jóns fyrir áralangt samstarf sem aldrei bar skugga á. Ég votta eiginkonu hans, frú Leu Eggertsdóttur, son- um þeirra og vandamönnum inni- legustu samúð. Valdimar Hergeirsson. En ad hetjurnar skuli vera fallnar. ok hervopnin glötuð. (Davíðssálmur) Með dr. Jóni Gíslasyni er geng- inn einn fremsti skólamaður landsins. Slíkur maður sem hann var er mörgum harmdauði og mest þeim, sem bezt þekktu hann. — Nemendur hans, eldri og yngri, sakna nú vinar í stað, og í íslenzkri kennarastétt er skarð fyrir skildi. En þyngstur harmur er kveðinn að fjölskyldu hans og ástvinum. — Dr. Jón var maður fjölmennt- aður. Ungur lagði hann stund á klassísk fræði og lauk doktors- prófi á þeim vettvangi. Forntung- urnar, gríska og latína, voru honum jafnan hugleiknar, og listatök hans á íslenzku máli njóta sín ef til vill bezt í stórmerkum þýðingum hans á harmleikjunum grísku. Tigið málfar hans ber um margt svipmót þeirra Bessastaða- manna. En dr. Jón var gagnkunn- ugur afrekum þeirra á sviði klassískra bókmennta. Hann ann- aðist ásamt Kristni heitnum Ár- mannssyni vandaða útgáfu á Kviðum Hómers í frægri þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar. Én svo ágætur sem Jón Gíslason var af menntun sinni og verkum, var hann samt ágætastur af sjálfum sér. Fyrirmannleg háttvísi ein- kenndi allt dagfar hans, og hann leysti hvers manns vanda af drengskap, sem aldrei brást. — Og vissulega bar hann það með sér að hafa setið við nægtarbrunna evr- ópskrar menningar. Skóla sínum stjórnaði dr. Jón af röggsemi og skörungsskap og var aðsópsmikill í sinni stétt. Sem kennari var hann rómaður fyrir ágæta hæfileika, réttsýni og góð- vild. I skólamálum var hann umfram allt merkisberi þeirra sjónarmiða, að menntun skuli efla ágæti manna og þroska og skerpa sýn þeirra á þau verðmæti, sem mölur og ryð fá ekki grandað, — en ekki einungis opna leið til vel launaðra embætta. I inngangi að þýðingu sinni á Þebuleikjum Sófóklesar farast dr. Jóni þannig orð um þær kröfur, sem skáldið og samtíðarmenn þess, Aþeningar hinir fornu, gerðu til sjálfra sín: „Til áð geta talizt fágaður og menntaður drengskap- armaður var óhjákvæmilegt að setja sér ákveðnar reglur um málfar, hegðun, framkomu og breytni. Allt varð að vera í réttum skorðum og fullkomnu jafnvægi. Sjálfstjórn og mannúð voru ómissandi eiginleikar. En þó menn yrðu í þessum efnum að lúta ófrávíkjanlegum kröfum, voru þeir um leið að ávinna sér andlegt frelsi". — Þessa lýsingu á menn- ingarkröfum forn-Grikkja má raunar heimfæra upp á dr. Jón Gíslason sjálfan og það fordæmi, sem hann gaf æskulýðnum í þau mörgu ár, sem hann stundaði kennslu. En þótt honum væru fornu minnin kær, fylgdist hann jafnan vökulum augum með öllum nýjungum í skólamálum og gætti þess einatt, að skóli hans væri í fararbroddi í öllu því, sem til framfara horfði. Verzlunarskóli íslands mun lengi búa að handleiðslu dr. Jóns, og nemendur hans að því vegar- nesti, sem hann gaf þeim. Við samkennarar hans um áratuga skeið þökkum honum samfylgdina og minnumst hans með virðingu og þakklæti. Langar mig að lokum til að senda fjölskyldu hans inni- legar samúðarkveðjur. Hann er nú horfinn okkur til nýrra heim- kynna, en það er huggun harmi gegn, að öll vitum við, að þar sem góðir menn ganga, þar eru Guðs vegir. Þorbjörg Bjarnar Friðriksdóttir Islenzkt athafnalíf mun búa að því um langan aldur að velmetinn fagurkeri mótaði hlut Verzlun- arskóla íslands um árabil. Eftir gæfuríkt æfistarf er doktor Jón Gíslason skólastjóri borinn til moldar frá Dómkirkjunni í dag. Við fyrstu kynni af doktor Jóni Gíslasyni fékk orðið virðing fastan sess í hugum okkar nem- enda. Síðan lærðum við að meta ákveðna góðvild hans og ríka þolinmæði. Að námi loknu fund- um við svo mikla kímnigáfu sem doktor Jón kaus yfirleitt að halda fyrir utan daglegt skólalíf. Þegar við nú lítum um öxl er okkur félögunum efst í huga þakklæti til skólastjórans sem stóð með nemendum sínum í mótlæti og meðbyr. Meira verður góður skólamaður aldrei krafinn um. Þess vegna leitar einlægur hugur okkar t.il ástvina doktors Jóns Gíslasonar í dag. Megi end- urminningar þúsundanna verða þeim styrkur við erfið tímamót- Ásgeir Hannes Eiríksson. Afmœlis- og minningargreinar ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minningargreinar verða að berast blaðinu með góðum fyrir vara. Þannig verður grein, sem birtast á í miðvikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. Greinar mega ekki vera í sendibréfsformi. Þess skal einnig getið af marggefnu tilefni að frumort ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasíðum Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera velrituð og með góðu línubili.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.