Morgunblaðið - 13.03.1980, Qupperneq 36
36
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 13. MARZ 1980
Oddur A. Sigurjónsson:
Aðfaraorð
Tæplega verður hjá því komizt,
að rifja stuttlega upp framvind-
una í rösklega 30 ára sögu
íslenzkra skólamála, ef við ætlum
að meta, hvernig til hefur tekizt.
En ástæðulaust er, að dvelja lengi
við hvern þátt, þar eð nokkuð
rækilegar umræður fóru fram
nokkuð frameftir líðandi áratug.
Því verður aðeins stiklað hér á
hinu stærsta.
Fræðslulögin frá 1946 verða þá
fyrst fyrir. Þvínæst reynt áð meta
hverju þau skiluðu okkur og loks
fjallaði um ríkjandi ástand.
Þá verður trauðla komizt hjá
því, að minnast á breyttar aðstæð-
ur um menntun kennara, svo mjög
sem fræðslan er háð þeim þætti.
Enn má bæta við nokkrum um-
ræðum um handfjöllun æðstu yf-
irvalda skólanna.
Brotið blað
Veigamestu breytingar á stefnu
og starfi framhaldsskólanna á
lægri stigum voru þrjár, þó fleira
og smærra kæmi einnig til.
1. Gerð var ákveðin stefnumörkun
í bóknámi um tengingu við nám
í æðri skólum, s.s. með upptöku
landsprófs þar sem gagnfræða-
skólarnir fengu samræmd rétt-
indi, til að koma nemendum
sínum, t.d. í menntaskóla og
kennaraskóla, stæðust þeir
landspróf með tilskildum ár-
angri.
2. Skipta mátti nemendum í verk-
náms- og bóknámsdeildir með
talsvert frábrugðnum náms-
skrám.
3. Skólaskylda var lengd um eitt
ár.
Verður nú vikið að hverju þess-
ara atriða fyrir sig. Um hið fyrsta
má segja, að það náði víðast hvar
þeim árangri, sem til var ætlazt
þar sem skortur hæfra kennara
stóð ekki í vegi. Var hér um að
ræða þýðingarmikla réttarbót
fyrir skólana — einkum í dreifbýl-
inu — ekki sízt fyrir möguleikana
til að geta numið í heimahögum
ári lengur en áður.
I reynd var 2. liður fremur
viljayfirlýsing, að vísu tímabær og
merkileg. Hún kom, eða gat kom-
ið, að fullu gagni þar, sem aðstæð-
ur voru fyrir hendi til að fram-
fylgja henni, svo og vilji skólayf-
irvalda í héraði. Því miður var
þetta hvorugt víða fyrir hendi og
loks hlaut það að krefja rækilegs
undirbúnings og þar með hafa
langan aðdraganda.
Þá voru lok þessarar brautar í
nokkurri óvissu, einkum um rétt-
indi, sem nemendur hlytu að loknu
námi.
Um lengingu skólaskyldunnar
er það helzt að segja, að hún átti
að vera til að grunnfesta rétt
ungmenna til frekara náms en
áður. Hér var einkum stefnt að
því, að unglingar í dreifbýlinu
færu ekki á mis við skólagöngu,
svo sem nokkuð hafði borið á og
misgengjust þannig miðað við
þéttbýli.
Raunasagan af þessari viðleitni
varð hins vegar sú, að dreifbýlis-
menn hömuðust gegn þessum rétt-
indum, unz þeir fengu því fram-
gengt, að undanþágur voru gefnar.
Framkvæmd
laganna
Þar sem þessi lög voru rúm
rammalög, sem var í alla staði
skynsamlegt, skipti auðvitað
mestu máli hvernig úr þeim ynn-
ist.
Því varð það sammæli á fundi,
sem Fræðslumálastjóri kallaði
saman með skólastjórum að óska
eftir því, að reglugerðum yrði ekki
hraðað, en skólastjórar ættu þess
kost að hittast árlega og bera
saman bækur sínar um fram-
kvæmd laganna. Voru slíkir fund-
ir haldnir á hverju vori og má
óhætt fullyrða, að þeir voru hinir
gagnlegustu fyrir bæði skólayfir-
völd og nemendur.
Upphaflega mun hafa verið ætl-
azt til að skólaskyldunni lyki með
landsprófi, sem allir nemendur
-gengju undir, enda voru tvenn
mörk, sem nemendur gátu keppt
að og þó staðizt prófið en með
misjöfnum réttindum.
Fljótlega kom í ljós, sem engum
skólamanni mun hafa komið á
óvart, að nemendur voru æði
misjafnlega í stakk búnir bæði að
þroska og námsgetu, til þess að
keppa að hinu svokallaða efra
marki.
Því reyndist fljótlega nauðsyn-
legt að lina nokkuð á kröfum fyrir
þá, sem lakar stóðu. Þýddi það
raunar, að vildu menn keppa að
efra marki, gat það seinkað för-
inni um eitt til tvö ár. Hins vegar
va það sammæli, að lækka ekki
kröfur til þeirra, sem hugðu á
framhaldsnám, enda myndi það
hafa þann árangur einan að kunn-
áttustaðall hrapaði.
Reynslan af þessum háttum
varð svo, að um það bil fjórðungur
nemenda var þess umkominn að
geta haldið hik- og tafarlaust sitt
strik í námi. En hinum seinfærari
var á engan hátt bægt frá, þó þeim
gengi nokkru hægar.
Síðan þróuðust málin þannig, að
fjórði bekkur var stofnaður og
varð skólalok fyrir þá, sem ekki
hugðu á framhaldsnám, en gagn-
fræðapróf en við það voru frá fyrri
tímum bundin nokkur starfsrétt-
indi. ,
Þá gerðu ýmsir skólar nokkurt
átak, til að koma frekar á móts við
þarfir hinna seinfærustu eftir því
sem ástæður leyfðu.
Sjöundi áratugurinn varð nokk-
uð róstusamur í skólamálum álf-
unnar og víðar. Bar þar mest á
allskonar kröfugerðum nemenda
og gjarnan um gerbreytta skóla-
hætti bæði um kennslu, námsefni
o.fl. Sumt af þessu átti rétt á sér,
enda væri þá skynsamlega á
málum haldið af hálfu skólanna
og varast kollsteypur, sem sjaldan
kunna góðri lukku að stýra, sízt í
skóiamálum, sem þarfnast fremur
hægfara þróunar en einhvers
gusugangs. öldur af þessum hrær-
ingum bárust vitanlega hingað.
Sálfræðingaþáttur
Fremur skammt er síðan svo-
kallaðir sálfræðingar tóku að
skjóta hér rótum, þó nú vaxi með
álíka hraða hér í mannfélagsakr-
inum og ýmsar óþurftaplöntur
áður.
Þegar alls er gætt, er starfsheit-
ið sjálft ærið vafasamt, að
minnsta kosti ef það ætti að benda
til váindanáms og vinnubragða.
Flestum kemur saman um, að
mannssálin muni -eitt af því fáa,
sem ekki verður sett í tölvu, til
þess að fá marktækar niðurstöður.
Eigi að síður virðist þessu fólki
mikið í mun að hafa á sér
vísindalegt yfirbragð og fetar þar
í slóð hinna fornu alkemista, sem
nefndir hafa verið „gullgerðar-
menn“ á íslenzku og fyrirfundust
við hirðir fákænna en gírugra
kónga á miðöldum. Þóttust þeir
geta breytt öðrum málmum í gull
með ýmsum fáránlegum og herfi-
legum skrípalátum, og voru ýmsir
sem trúðu.
Samkvæmt eðli málsins og
vegna hins geysi-fjölbreytilega
geðslags og gáfnafars manna, get-
ur hér ekki verið um að ræða nein
vísind. En vitanlega er hægt að
hauga saman tilgátum — teoríum
— sem geta passað við einn og
einn, enda deilast skoðanir allvíða
í hópi „fræðinganna".
í heild virðist mér afraksturinn
Oddur A. Sigurjónsson.
ekki óáþekkur því, sem þjóðsögur
herma, þegar seiðskrattar galdra-
aldar voru að losa sig við tilbera
og sendu þá upp á öræfi, til þess
að tína saman lambaspörð á nógu
víðu svæði að það yrði þeim að
aldurtila.
Neytt er ýmissa bragða til þess
að gera allskonar framslátt trú-
legri um kunnáttu þeirra í „sálar-
fræðum". Þar á meðal, að taka
líkingadæmi af t.d. hrútum eða
öðrum ferfætlingum. Það mun
vera nokkuð öruggt, að blessaðar
skepnurnar séu ólíklegar til að
geta andæft á prenti ýmsum
firrum, sem þær eru þannig gædd-
ar í „lærðum orðræðum" fræð-
inganna.
Hitt er og líklegt, að þeim lægi í
léttu rúmi þvílíkt flapur, þó skilið
gætu.
Telja verður það eitt af „undr-
um íslands“, hve margir af fyrir-
mönnum í menntamálum hér hafa
látið glepjast, þó jafnvel vits-
muna- og kunnáttuskorti væri
ekki til að dreifa, að ekki sé talað
um hina.
Eru dæmi um það bæði nærtæk
og furðuleg, s.s. að sálfræðingum
er ætlað, skv. núverandi fræðslu-
lögum, að vera einskonar ríki í
ríkinu innan skóla og standa utan
við valdsvið skólastjóra að mestu.
Verður nú um sinn vikið að
öðrum.
Fræðslulögin 1974
Um og undir áratugamótin
(’60—’70) var komin töluverð
hreyfing einkum meðal hinna ný-
vígðu menningarfrömuða (?) um
að nauðsyn bæri til að setja ný
fræðslulög. Var óspart vitnað í
Svía, sem hefðu nú með höndum
gerbreytingu á fræðslukerfi sínu.
Var sú staðreynd þyngstu rökin
fyrir bráðri þörf okkar til breyt-
inga.
Þá var komið á allgott skipu-
lagslegt samræmi í undirbúningi
og og framkvæmd framhaldsskól-
anna og með batnandi hag myndi
geta tekizt að koma í framkvæmd
verknámi, enda nokkuð verið að
því unnið, þó of seint gengi.
Dreifbýlismenn höfðu nú söðlað
um í viðhorfi til skólaskyldu og
höfðu uppi háværa kveinstafi um
það misrétti (!) sem þeir væru
beittir.
Svokallaðir sálfræðingar, upp-
eldisfræðingar og félagsráðgjafar,
en tvær síðartöldu stéttir voru í
örum vexti að tölu til, ruddust um
fast og tókst ótrúlega vel að ná
eyrum ráðamanna, fengu þess
vegna óeðlilega mikil ítök í fyrir-
ætlunum.
Var nú hafizt handa um, að
umskapa íslenzkt fræðslukerfi „á
svenskra móð“, þótt engin raun
væri á hann komin.
Óhætt er að segja, að meirihluti
skólastjóra og yfirleitt reyndari
menn í þeim hópi, lét sér fátt um
finnast og þæfðust við. Alþingis-
menn voru og margir dauftrúaðir
á hið sænska Evangelium.
A almanna vitorði er, að þegar
þetta laga-óbermi var loks kreist í
gegnum Alþingi, var það raun-
verulega gegn vilja meirihluta
þings, en talin notuð handbrögð,
sem enskir kalla „Black mail“.
En undanfari þessa var furðu-
legt ævintýri. Menntamálaráð-
herra í vinstri stjórn Ólafs Jó-
hannessonar skipaði 5 manna
nefnd til að leggja síðustu hönd á
frumvarp. Til þess voru valdir
menn, sem með einni undantekn-
ingu höfðu ekki komið nálægt
rekstri skóla og fyrir afrekum
þessa eina var yfirleitt ekki hróp-
að húrra.
Arangurinn varð að vonum.
Frumvarpið og þar með lögin
líktust engu meir en illa gerðum
graut, þar sem saman var sullað
ákvæðum, sem ýmist áttu heima í
lagasetningu eða reglugerðum og
margt afgreitt með hálfyrðum.
Þessi „flauelsgrautur" er svo und-
irstaða fræðslukerfisins nú.
En það var meira blóð í kúnni.
Starfsskilyrði skólastjóra voru
stórlega skert með setningu alls-
konar „ráða“, s.s. kennararáða og
nemendaráða, að ógleymdu hinu
„æðsta ráði“ í ráðuneyti mennta-
mála í höfuðstaðnum, sem sí og æ
var káfandi ofan í skólastarfið
með ótímabærum og óraunhæfum
fyrirmælum. Þar voru mest að
verki sömu „flauelsgrautargreif-
arnir", sem höfðu ráðið síðustu
gerð laganna.
Samræmingin, sem náðzt hafði í
framkvæmd námsins, var tætt
sundur, lögð áherzla á, að flokka
ekki nemendur með svipaða náms-
getu saman í bekksagnir, en þess í
stað sulla saman fólki af öllum
getustigum og til þess að fela
umkomuleysið var svo stórdregið
úr námskröfum og linað á eðli-
legum aga.
Minna má á feluleikinn um
einkunnagjafir, að ekki sé nú talað
um „kúrfuteikningar" þar sem
nemendur voru fyrirfram flokkað-
ir með námsárangur allt frá
0-10.
Kennaramenntunin
Ég hygg, og það mun vera
almennt viðurkennt af málsmet-
andi mönnum, að allt frá því að
Kennaraskólinn var stofnaður,
hafi hann staðið vel fyrir sínu.
Hann naut löngum forystu ágætra
manna, sem skildu að fræðsla
verður að þróast eftir ákveðnum
stefnumörkunum og þar verður
yfirleitt ekki gengið á sjö mílna
skóm.
Hitt var svo annað mál, að vel
fór á að auka við nám þar meðan
reist var á fornum grunni. Því
mátti teljast fullkomlega tíma-
bært að auka við skólann með
stúdentsprófsréttindum, sem og
gert var. Var þá hægt að huga að
því að koma í framtíðinni upp
háskóladeild við Háskóla íslands
fyrir kennara, sem æsktu frekara
náms. Eðlilegt var í alla staði, að í
þá deild ættu aðeins að hafa rétt
stúdentar úr kennaraskólanum,
sem hefðu notið undirstöðumennt-
unar úr þeim skóla.
En ofsi hinna skammsýnu út-
lendingadindla var slíkur, að það
þótti ekki annað hæfa en að gera
Kennaraskólann nær því beint að
Kennaraháskóla!
Sýnt var, að þar með mundi
fljótlega slitna.þráðurinn við und-
irstöðumenntun kennara, að því
svo viðbættu, að íslenzka ríkinu
hefur ekki orðið allt of auðvelt að
halda uppi háskólanámi í einum
háskóla hvað þá tveim, ef nafn
ætti að vera gefandi þeirri starf-
semi. Arangurinn af þessu flani
lét ekki lengi á sér standa. Nú
sitjum við upp án almenns kenn-
araskóla, en með þessa háskóla-
písl, sem auðvitað er hvorki fugl
né fiskur sem háskóli.
En nú kynni einhver að spyrja.
Hvað þekkir þú þarna til? Er
þetta ekki hreinn sleggjudómur?
Vissulega getur það hent mig, að
fella sleggjudóm og málefnisins
vegna vildi ég gjarnan að svo væri
hér.
En því miður er ekki þannig
málum háttað.
Ég leyfi mér að benda á hinn
fræga námsvísi í Breiðholti, sem
höfundar telja sig þurfa að láta
fylgja orðskýringar vegna lítt eða
ekki skiljanlegs orðfæris. Enn-
fremur allar kennsluleiðbein-
ingarnar með nýjum kennslubók-
um, sem þurfa þykir að láta fylgja
og nema tugum blaðsíðna ef ekki
hundruðum. Ætla má, að skólinn
þekki nokkuð sitt heimafólk.
Hvílík er sú reisn, sem íslenzk-
um kennurum er ætluð? Og hvað
hefur þetta blessað fólk verið að
gera á námstímanum? Spyr sá,
sem ekki veit, en vildi gjarnan fá
upplýst.
Eru þetta nokkuð annað en
tilburðir blinds, til að leiða blind-
an?
Stjórn
menntamálanna
Algengt er að heyra því fram
haldið, að dýrsta eign hverrar
þjóðar sé góð menntun landsins
barna. Hefur vissulega oft verið
meira logið.
En þá skyldum við halda, að
þurfa þætti að vanda sérlega vel
til þegar ráða á æðstu yfirmenn
menntamálanna. Velja til þess
menn, sem hafa í senn kunnáttu,
yfirsýn og vilja til að handleika
þetta fjöregg. En hefur þetta verið
raunin? Svipist menn nú um
bekki.
Er ekki leyfilegt að efast um
vandað val, þegar við vitum, að
starfi ráðherra hefur verið fleygt í
mann með rífa barnaskólakunn-
áttu? Eða þegar við heyrum ráð-
herra úthella þeirri vizku(?) yfir
landslýð, að menn, sem hafi setið
9 ár í grunnskóla, séu færir í hvað
sem er. Eða fréttum það —
sannfréttum — að ráðherra eyði
tíma sínum í að undirrita 1600
setningarbréf til kennara, sem
liðleg skrifstofudama hefði auð-
vitað getað gert í hans umboði,
sennilega betur og á skemmri
tíma. Væri nokkur furða þótt
óspilltum almenningi, sem kynn-
ist svona vinnubrögðum og fram-
slætti, dytti öðru fremur í hug
naut í álögum?
Naumast er unnt að hugsa sér
virðulegra eða þjóðnýtara verk-
efni en yfirstjórn menntamálanna
ef menn hafa getu og umfram allt
vilja til að setja metnað í að rækja
starfið sómasamlega.
Það getur kostað átök og íhygli.
En slíkt má aldrei leiða til þess að
óvöldu fólki sé fengið í hendur að
gæta festarendans. Þess verður að
krefjast af ráðamönnum, að þeir
séu ekki sífellt að „sóa kröftum
sínum á veiku tökin". Getum við
ekki verið sammála Einari Ben
um að það, „Að skiljist við æfinn-
ar æðsta verk í annars hönd, er
dauðasökin"?
Krafan, sem sett hefur verið
fram hér að ofan um skilyrðis-
lausa hæfni menntamálaráðherra,
ætti ekki að vera áhorfs- eða
deilumál.
Ótrúlegt er, að slíkur maður
fyndist ekki, ef leitað er í alvöru
og einlægni.
Þeir eru vissulega margir, sem
hafa horft með vaxandi ugg á
framvindu síðustu ára í skólamál-
um okkar, þótt lítið hafi farið
fyrir umræðum. Að mínu mati
dugir ekkert minna en að skera
upp herör gegn þeim ófarnaði,
sem hlýtur að leiða af því að halda
Yerðum við hyggn-
ari af þegar
skeðum skaða?