Morgunblaðið - 24.09.1980, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 24.09.1980, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 24. SEPTEMBER 1980 19 Guðmundur Amason listsali — sjötugur Án efa er Ævisaga séra Árna Þórarinssonar ein merkilegasta og sérstæðasta minningabók, sem færð hefir verið í letur hérlendis. Um leið er hún ein af perlum og furðuverk- um heimsbókmenntanna. Hún er bókmenntalegt afrek. Það var snill- ingurinn Þórbergur, sem færði hana í stílinn eftir frásögn fræðaþularins mikla og húmoristans einstæða, séra Arna, og gætir víst furðu, hve meistari Þórbergur fer víða nærri tungutaki klerks. Þó að séra Árni hafi legið kyrr í gröf sinni í rúma þrjá áratugi er stundum einna líkast því, að karl sprikli og sprelli eins og púki í skinnskjóðu í unglegum belg og lifandi sálu sonarins, Guðmundar Snæbjarnar, sem er sjötugur í dag. Frásagnargleði Guðmundar á sér engin takmörk. ímyndunaraflið, þessi frumkraftur andlegra gáfna, og hugarflugið er hásveiflað. Vængjasláttur er mikill og súgur vænghafsins sterkur, því að flogið er hátt í frásögn um stjörnuþokur ótrúlegra gerninga og mikilla at- burða eins og hjá föðurnum, og við sem hlustum með galopinn munn í forundrun höfum vart undan að trúa. Fyrst ber að þakka klerki fyrir að hafa ekki algerlega drepið þenn- an skemmtilega son sinn af sér með háföðuriegu guðsóttauppeldi og yf- irþyrmandi sterkum persónuleika sínum, eins og títt er um mörg börn stórbrotinna feðra, sem hverfa oft að fullu í djúpan skugga föðurins. Greinarhöfundur er þakklátur forsjóninni fyrir að hafa þekkt þennan sérkennilega son séra Árna og verið í nánum vináttutengslum við hann í um 40 ára skeið af þeim 70 árum, sem hann fagnar í dag, þakklátur fyrir að hafa kynnzt skemmtilegum manni með allt ann- að en viðurkennt gildismat á lífinu, brauðstriti, lamandi skrifræði, mat- eríali og mannfólki. Það sætir furðu, að þessi þung- lamalega, þrætugjarna, liðamóta- lausa og alvörufrosna þjóð skuli hafa getið af sér jafn öra og fyndna húmorista og þá feðga. Því ber að fagna, að jafn fágætir fuglar skuli geta náð jafn háum aldri hér norður á þursaslóð, þar sem þessi blessuð þjóð hefir aldrei verið þjökuð af offramleiðslu húmorista. Hrútleiðinlegir og sjálfumglaðir ráðamenn, rázkarar, kerfiskarlar og konferenzkónar telja slíka furðu- fogla til algerra fæðingarhálfvita og úthverfaidjóta þegar hugsað er til misskildrar þróunarkenningar Dar- wins. Það eru sprellistar og húmor- istar eins og Guðmundur Árnason, skemmtimaður frá Stóra-Hrauni, sem éru pipar og salt tilverunnar, já, dýrlingar, sem veita öðrum óspart af sjálfum sér í allar áttir og lyfta þungu og þjáðu geði sálþrúg- aðra og geðkúgaðra þjökunarsjúkl- inga þjóðfélagsins með léttleika sínum, geðfjöri og gáska. Kannski er húmor brynja eða varnarkerfi hárviðkvæmra tilfinninga. Af hverju, hvers vegna eða hvaðan húmor kemur er mér hulin ráðgáta. Aftur á móti er húmor mesta og bezta guðsgjöfin, sem léttir mönn- um sporin á oft á tíðum miskunnar- lausri vegferð um lífsins táradal. Vart getur notalegri mann að hlæja með en Guðmund. í kringum þennan gæðamann er alltaf gleði og gáski. Gestir á innrömmunarverk- stæðinu í listhúsinu við Bergstaða- stræti 15 eru sannkallaður þver- skurður þjóðfélagsins, fulltrúar allra stétta. Ef melankótía er í aðsigi og svarti hundurinn er í heimsókn, eins og Churchill gamli nefndi andlegu íægðina sína, er hollt að heimsækja Guðmund. Enda leita kraftsugur á karl og aðrar afætur eins og flugur á hrossskrokk, sem finna fyrir andlegri bót í græskulausum húmor hans, með því að hlæja og gleyma sjálfum sér á meðan. Græðarahæfileikann hefir Guðmundur eflaust sótt í langa- langafa sinn, smáskammtalækninn, Þorleif í Bjarnarhöfn, sem fór af mikið frægðarorð, auk þess var faðir hans ekkert að tvínóna við hlutina þegar hann sneri sér að medikamenntinu. Listhús Guð- mundar og verkstæði er eina heilsu- bótarstöð landsins, þar sem kostar ekki fimmeyring í aðgang og hvað þá viðtalsbilið við sjálfan staðar- haldarann, sem er alltaf jafn ráð- hollur, fjölfróður, viðræðugóður og hlýr. Þá borga menn ekki túskilding inn fyrir þröskuld á sýningar, nema þegar sjálfur hertoginn af St. Kildu, Karl Einarsson Dunganon, krafði listelskan ráðherra um 100 kall í útgöngugjald. Sýning sú var við inngöngu en þröng útgöngu eins og sýningar með standard eiga að vera, þegar verðug listkaup bregð- ast. Þó að allt hafi breytzt, beyglazt og brenglazt, sölnað og fölnað í henni versu nema Mundi frá Stóra-Hrauni síðan ég reit um hann fimmtugan, fremur strákslega gamangrein, sem stendur þó enn fyrir sínu, skrifa ég nú frá allt öðrum sjónarhóli um sjötugt afmælisbarnið, í virðulegri tón, svo menn taki frekar boðskap minn trúanlegan. Mér hefir einmitt lærzt á þessum tuttugu árum að meta húmorista eins og Guðmund flestum samferða- mönnum fremur. Þó að ég vilji sízt endurtaka mig frá fyrri grein get ég ekki, ættfræð- innar vegna, látið hjá líða að þylja upp nokkur gáfnaljós og skrautblóm í nánasta frændgarði Guðmundar. Ættfræði er mjög í tízku nú, samanber sunnudagspistlar Þjóð- viljans undanfarið. Ogjarnan vil ég gamaldags vera. Faðir hans var Árnesingur en móðir hans snæ- fellsk. Hann er bæði Bolhyltingur og Langhyltingur. Svo er hann kominn af Presta-Högna, eins og Vigdís forseti. Séra Árni var tvímenningur við Birtingana frá Birtingaholti, þá Ágúst, séra Magn- ús Helgason, séra Kjartan í Hruna og séra Guðmund í Reykholti, föður Asmundar biskups, sem og tvímenn- ingur við séra Magnús á Gilsbakka. Þannig er Guðmundur þremenning- ur við vitmennina og bræðurna Andrés í Síðumúla og Þórð hæsta- réttardómara Eyjólfssyni, Pétur Magnússon, ráðherra og Guðmund í., utanríkisráðherra og ambassa- dor. Hann er systkinabarn við þá bræður Þórarinn tónskáld Guð- mundsson og Eggert Gilfer, skák- meistara. Þá er göfugmennið og gáfumaðurinn, séra Tómas Sæ- mundsson, Fjölnismaður, lang- ömmubróðir Guðmundar. I móður- ætt er sá víðfrægi Þorleifur í Bjarnarhöfn langa-langafi hans, sem sagður var forvitri og sjá fyrir óorðna atburði, auk þess að vera græðari góður. Þá er hann kominn beint af Úu eða Úrsúlu hinni engilsaxnesku í Kristnihaldi Lax- ness undir Jökli. Þá var Guðmundur af öðrum og þriðja í móðurætt við hið unga og efnilega skáld, Jóhann Jónsson, sem lézt langt um aldur fram í Þýzkalandi og Laxness segir um, að hafi verið „sjálfur skáld- skapurinn holdi klæddur". Mér láð- ist að geta eins frægs afabróður Guðmundar í upptalningu frægra föðurfrænda hans hér að framan, þar sem er alnafni hans, töfratrúð- urinn og geðbótamaðurinn, Guð- mundur dúllari. I gegnum skáld- dótturina, konu sína, Áslaugu, þá glæsilegu konu, er hann mágur Margrétar Danadrottningar og Friðriks heitins níunda Danakon- ungs á forna vísu. Tengdafaðir hans, glæsimennið, skáldið og lyfsalinn, Sigurður slembir, var fæddur í Kaupmannahöfn og sagður laun- sonur þess kvenholla Friðriks átt- unda. Menn hafa verið aðlaðir og slegnir til riddara af minna og ómerkara ættbogatilefni meðal sumra vestrænna menningarþjóða. Þá má með sanni segja, að sama lífsólgan svelli ennþá og brenni í sterkum og sveigjanlegum langlífis- æðum Guðmundar. Hann er senni- Iega sá eini uppistandandi dansör, sem getur ennþá brugðið sér í villtan og trylltan charleston á parkettinu á Borginni, án þess að blása úr nös, eða sveiflað pilsföldum í ástríðuþrungnum, djúpum tangó, eins og hann lék sér að sjálft Alþingishátíðarsumarið 1930. Þá var Hótel Borg draumahöllin úr þúsund og einni nótt. í dag svífur sjötugur ævintýra- prinsinn á töfrateppi Alladíns eitt- hvað út í buskann, langt fyrir austan tungl og sunnan sól, með æskuástinni sinni, frú Áslaugu, og dvelur einhversstaðar í skauti fjöl- skyldunnar. En börnin eru: Ágústa, fyrrv. fegurðardrottning íslands, verðandi ættmóðir í Ameríku og synirnir, Kristján og Sigurður, frægir myndlistarmenn um Niður- lönd og víðar. Heillaskeytum mun rigna yfir heimili hans á Bergstaða- stræti 50A, eins og heit gróðrarskúr vinsælda hans. Hann hefir verið mér sannkallaður lífselixír, geðbæt- ir og skapkætir í um fjörutíu ára skeið, sem ég get aldrei þakkað sem skyldi. örlygur SigurAsson •f KOMATSU Að nýta betur lagerhúsnæði er að spara peninga. Komatsu FBR raflyftarinn getur athafnað sig á mjórri göngum en venjulegir lyftarar. Þetta þýðir í reynd allt að 30% betri nýtingu á lagerrými vegna mjórri ganga. Hagstætt verð og greiðsluskilmálar. Við veitum sérfræðiaðstoð við val á lyfturum. Aukin hagræöing og minni KOMATSU á íslandi tilkostnaður með KOMATSU Véladeild Smiöshöföa 23. Sími: 81299

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.