Morgunblaðið - 16.11.1980, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 16.11.1980, Blaðsíða 4
52 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 16. NÓVEMBER 1980 HAUST SONATA Mörg ár liðu þar til Stromboli-stormurinn hætti að næða um Ihgrid Bergman. Hún fékk skilnað frá Petter Lindstron, sem bjó áfram í Bandaríkjunum með Piu dóttur þeirra, og er tímar liðu fram létu þau Rosselini gefa sig saman í hjónaband. Börnin urðu þrjú — auk Robins, sem var fæddur utan hjónabands — eignuðust þau tvíburadætur, Ingrid og Isabellu. Þau lifðu venjulegu fjölskyldulífi og voru bæði önnum kafin í leikhúsum og við kvikmyndagerð, en dagar hjónasæl- unnar voru taldir árið 1956, sjö árum eftir að Ingrid Bergman kom til Ítalíu. Skilnaðurinn hafði í för með sér ný sárindi, ný átök og nýja uppgjöf Ingrid Bergman. Hún krafðist þess að fá forræði barnanna þriggja og sótti mál sitt fyrir dómstólum. Eftir margra ára þóf urðu málalyktir þær að Rosselini fékk forræði barnanna. Til að missa þau ekki varð ég að láta þau frá mér, segir hún nú. Árið 1958 gekk hún í hjónaband að nýju. Þriðji maður hennar var Lars Schmidt, saenskur kvikmyndaleik- stjóri, en þau skildu fýrir fimm árum. „Eg hef verið lánsöm um ævina," segir hún oft. „Ég hef aldrei þurft að hafa fyrir neinu, tækifærin hafa komið upp í hendurnar á mér.“ En hún lítur ekki aðeins svo á að hún hafi verið lánsöm í starfi, heldur einnig í einkalífinu. „Ég kynntist þremur mönnum, sem hrifu mig, og gat gifzt þeim öllum. Svo hef ég verið hraust og starfsorkan er óþrjótandi. Ég hef alltaf unnið baki brotnu." „Nú orðið sé ég að sumu leyti eftir því hvernig ég hef komið fram um dagana. Ég hefði til dæmis staðið að þessum skilnaðarháttum með virðulegri hætti, hefði ég haft betri hæfileika til að gera mér grein fyrir hverju þeirra í heild. En í rauninni sé ég ekki eftir neinu, af því að ég veit að ég hef hagað mér samkvæmt sannfæringu minni." Hún viðurkennir að hún hafi iðulega látið einkalífið lönd og leið til að þjóna listinni, og það finnst henni hafa komið hvað skýrast í ljós í hjónabandi hennar og Lars Schmidt. „Mjög fáum leikkonum hefur hlotnazt hvort tveggja — jafnvægi í einkalífi og velgengni í starfi. Flestar taka hjónabandið fram yfir leiklistina, en ég veit ekki til þess að karlmennirnir í stéttinni geri það. En enginn eiginmanna minna hefur sagt: „Vertu heima hjá mér til að setja fyrir mig inniskóna þegar ég kem heim á kvöldin". Það hlýtur að þurfa hugrekki til að segja: „Nei, sæktu þá sjálfur". Ingrid Bergman er um margt opinskárri í þessari bók en hún hefur verið hingað til, en hún segir ekki allt, og hún lýsir því yfir að hún vilji ekki afhjúpa sig gjörsam- lega. „Haustsónatan" er síðasta kvikmynd hennar, og þar fékk hún ósk sína um samstarf við Ingmar Bergman loks uppfyllta. Iæikur hennar í „Haustsónöt- unni“ vakti að vonum mikla at- hygli, en þar fer hún með hlutverk Karlottu, píanóleikarans, sem sinnti fjölskyldu sinni ekki í sjö ár til þess að geta gefið sig óskipta að list sinni. Þrátt fyrir þá staðreynd að Ingrid Bergman hafi gegn vilja sínum orðið viðskila við dóttur sína og ekki litið hana augum í sex ár, segir hún að margt sé líkt með henni sjálfri og Karlottu. „Þessi eigingjarna móðir ... við áttum margt sameiginlegt. Að sumu leyti líkist hún mér, að öðru leyti líkist hún konu Ingmar Berg- mans, sem líka er píanóleikari, en að sumu leyti líkist hún Ingmar sjálfum", segir hún um leið og hún viðurkennir að Karlotta hafi að mörgu leyti gengið fram af henni sjálfri. Með hlutverk dóttur Karlottu fór Liv Ullman, og í bókinni eru ummæli leikkvennanna beggja og leikstjórans um myndina. Ingrid: „Ég hitti Ingmar Berg- man fyrst fyrir fimmtán árum. Hann og Lars höfðu þá þekkzt í mörg ár, en báðir hófu feril sinn í leikhúsinu í Malmö. Kaupmanna- höfn er á næsta leiti, og einu sinni fóru Ingmar og Lars yfir sundið til þess að sjá danskt leikrit. Að lokinni sýningu lýsti Ingmar því yfir að hann yrði að komast aftur yfir til Svíþjóðar til að sofa. Lars var ekki á því og sagði: „Er ekki nóg fyrir þig að geta séð yfir til Svíþjóðar?" En Ingmar tók það ekki í mál — hann hafði ekki hugsað sér að sofa í útlöndum. Nokkrum árum síðar snæddi ég hádegisverð með Lars og Ingmar í Stokkhólmi og þá tókust strax með okkur sérstakir dáleikar. Hann sagði, að við yrðum að búa til kvikmynd í sameiningu, og ég varð alsæl með að hann skyldi nefna þann möguleika. Sjálf hefði ég aldrei þorað að ámálga þetta, því að ég vissi hvernig hann hagaði störfum sínum og vann nánast aldrei með öðrum en þeim sem árum saman höfðu verið í útvöld- um hópi leikara, tæknimanna og myndasmiða. Við skiptumst á nokkrum bréfum um málið, en svo komst hann að þeirri niðurstöðu að hann ætlaði sjálfur að skrifa sögu, sem kvikmyndin yrði grundvölluð á. Það næsta sem gerðist var það að hann tók við stjórn Dramaten, þannig að ráðagerðir okkar um myndina urðu að engu. Ég skrifaði honum og óskaði honum til hamingju og lýsti um leið vonbrigðum mínum með það að ekkert gæti orðið af kvikmyndatök- unni, en hann svaraði um hæl. „Á enni mitt stendur letrað eldi: Myndin með Ingrid Bergman verð- ur búin til“. Svo heyrði ég ekki meira frá honum. Nokkrum árum síðar var ég forseti dómnefndar kvikmyndahá- tíðarinnar í Cannes. í þann mund er ég var að leggja af stað til Cannes var ég að taka til í skúffum heima hjá mér og rakst þá á gömul bréf, sem tími var til kominn að fleygja. Þar á meðal var þetta tíu ára gamla bréf frá Ingmar. Ég vissi að hann yrði í Cannes, því að þar átti að sýna nýjustu mynd hans, „Hvísl og hróp“. Ég tók afrit af bréfinu og skrifaði neðanmáls: „Það er ekki af beizkju eða reið' sem ég læt þig fá þetta bréf, heldu til þess að vekja athygli þína á því hvað tíminn líður fljótt". Svo sá ég hann í miðri þvögu blaðamanna og ljósmyndara í Cannes, en mér tókst að komast að honum og segja við hann: „Ég ætla að láta bréf í vasa þinn“. Hann fór að hlæja og spurði hvort hann mætti ekki lesa það á stundinni. „Nei, lestu það þegar þú kemur heim“. Svo var hann horfinn. Tveir mánuðir liðu áður en hann hringdi. „Nú er ég kominn með sögu handa þér. Hún er um móður og dóttur." „Gott, Ingmar. Þú hefur þá ekki orðið sár þegar ég lét bréfið í vasann?" „Nei, það var ágætt hjá þér. Það ýtti við mér, og síðan hef ég hugsað um þetta stanzlaust. Það er aðeins eitt, sem gæti orðið til hindrunar. Viltu leika móður Liv Ullman?" „Auðvitað vil ég það.“ „Vinir mínir segja mér að þú verðir ófáanleg til þess af því að Liv Ullman sé of gömul til að vera dóttir þín“. „Það er hún ekki. Ég á dóttur sem er jafngömul henni.“ „Svo er annað, ég vil að kvik- myndin verði á sænsku". „Það hentar mér prýðilega". „Það þykir vinum mínum ótrúleg saga. Þeir halda að þú viljir endilega hafa hana á ensku, þannig að hún seljist betur á alþjóðlegum markaði". Þessir vinir Ingmars voru farnir að fara í taugarnar á mér. „Þeir hafa rangt fyrir sér. Al- rangt. Ég vil hafa hana á sænsku." Eftir að hafa árum saman baslað við að leika á ensku, frönsku og ítölsku yrði það kærkomin tilbreyt- ing að leika á móðurmálinu. Það lá við að ég fengi taugaáfall þegar ég sá handritið. Fyrirferðin var slík, að mér fannst óhugsandi annað en að sýning myndarinnar tæki sex klukkustundir. Mér leizt vel á söguþráðinn, það var ekkert áhorfsmál, en þetta var of mikið af því góða. Ég hringdi til að ræða þetta við hann og hann sagði: „Ég skrifa allt sem mér dettur í hug. Auðvitað eigum við eftir að strika út úr handritinu. Af hverju kem- urðu ekki með mér út í eyju í sumar svo við getum litið á þetta saman?“ Eyjan hans Ingmars, F&rö, er langtum stærri en eyjan hans Lars, Danholmen. Hún er flatlend, skógi vaxin, og þar eru litlar og sveita- legar búðir, kirkja og sauðfé, og maður notar bíl til að komast á milli staða. Herstöð er rétt hjá heimili Ingmars og hann kom út á flugvöll til að taka á móti mér. Ingmar Bergman: Ég fór út á flugvöll til að sækja Ingrid. Hún sté upp í bílinn og ég var varla farinn af stað og búinn að skipta um gír þegar hún sagði: „Ingmar, þetta líkar mér ekki í handritinu, og heldur ekki hitt. Af hverju þarf þessi móðir endilega að orða hugs- un sína eins og hún gerir. Hún tjáir sig svo harðneskjulega“. „Það á sér sínar ástæður. Þetta er hennar aðferð við að tjá sig,“ svaraði ég. Við ókum og þögðum smástund og ég verð að viðurkenna að mér leizt ekki á blikuna. Svo sagði Ingrid. „Ingmar, það er bezt að ég segi eitt áður en við förum að vinna saman. Ég tala alltaf áður en ég hugsa." Þetta þóttu mér merkilegar og aðdáunarverðar upplýsingar. Þær urðu reyndar lykillinn að sambandi okkar, enda er hispursleysið lykill- inn að persónuleika hennar og allri hegðun. Það er hlustað á Ingrid þegar hún segir eitthvað. Stundum virðist það kjánalegt í fyrstu, en síðan kemur annað í ljós. Maður

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.