Morgunblaðið - 01.10.1981, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 01.10.1981, Blaðsíða 20
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 4. OKTÓBER 1981 68 Himnaríki fauk ekki um koll Væntanleg er á næstunni ný barna- og unglingabók eftir Ár- mann Kr. Einarsson, „Himnaríki fauk ekki um koll“. Pétur Hall- dórsson hefur myndskreytt bók- ina, en útgefandi er bókaútgáfan lóunn. Fer hér á eftir kafli úr bókinni, birtur með leyfi höfundar og út- gefanda: Meðan pabbi er í burtu er ég að dunda inni í herberginu mínu. Ég á talsvert af ýmiss konar dóti og nokkuð af bókum.Ég festi ekki hugann við að leika mér eða lesa. Nú hefði Oddur átt að koma í heimsókn, en ég þori ekki að fara til hans, hver veit nema pabbi komi á meðan. Loks undir hádegi birtist pabbi. Hann vingsar hvítum plastpoka með rauðri mynd á hliðinni. Ha, hæ! kallar hann brosandi. Hér kemur nestið okkar. Má ég sjá? Leyndarmál, svarar pabbi íbygginn. Ég sé að pabbi er glaður og það er ég líka. Hvernig á annað að vera, þar sem við erum að leggja af stað til Himnaríkis. Ég fæ mér brauðbita og mjólk og pabbi drekkur kaffi. Það er óþarfi að borða heima áður en við förum, við höfum svo mikið nesti með okkur. Við erum fljótir að búa okkur af stað, smokrum okkur í stígvél og förum í úlpur. Það getur kólnað með kvöldinu. Að síðustu tekur pabbi til nauðsynleg smíðaáhöld. Strax upp úr hádeginu leggjum við af stað, pabbi ber bæði nestið og smíðaáhöldin. Reyndar býðst ég til að bera nestispokann, en pabbi segir að það sé brothætt í honum. Fyrst þræðum við krákustíga milli húsanna. Síðan liggur leiðin upp í holtið hérna fyrir ofan. Það er ekki gott yfirferðar, stórgrýttir melar með mýrardrögum. Á einum stað hefur verið grafinn djúpur skurður. Pabbi þorir ekki að stökkva yfir skurðinn, hann segist geta brotið kókflöskurnar. Skurðurinn er að mestu vatnslaus svo að við klöngrumst yfir hann. Oh, maður verður bara að skríða eins og skorkvikindi. Pabbi brosir. ■\l væri nú betra að hafa -ígi og geta flogið eins og fugl- arnir. Satt segir þú, ljúfur, á ég ekki að leiða þig? segir pabbi þegar við erum komnir yfir. Nei, nei, ég er alveg lausbeisl- aður. Pabbi má ekki halda að ég sé neitt smábarn. Okkur sækist ferðin vel. Innan litillar stundar erum við komnir upp á háhæðina. Þaðan sjáum við yfir að Elliðavatni. Það er sólglitr- andi í logninu. Nú erum við komnir næstum hálfa leið til Himnaríkis, segir pabbi. Ættum við ekki að tylla okkur sem snöggvast og kíkja í nestispokann. Jú, svara ég himinlifandi. Ég er forvitinn hvort pabbi hefur keypt eitthvað fleira en við vorum búnir að ráðgera. Hann er alltaf svo hugulsamur. Við veljum okkur hæfilega stór- ar mosaþúfur fyrir sæti. Þær eru eins og bestu hægindastólar. Pabbi opnar nestispokann. Fyrsta sem hann dregur upp er flaska með söngvatni. Hún er ekki alveg full. Maður er alltaf svo þyrstur í skemmtiferðum, segir hann bros- andi og sýpur á flöskunni. Ég bjóst ekki við þessu og fæ sting í brjóstið, en ég segi ekki neitt. Ég veit að mamma yrði reið, ef hún vissi þetta. Þú skalt ekki halda að ég hafi gleymt þér, ljúflingur, heldur pabbi áfram og dregur upp kók- flösku. Hann sviptir tappanum af og réttir mér flöskuna. Eigum við ekki að borða nestið þegar við komum til Himnaríkis, segi ég hikandi og tek við flösk- unni. Auðvitað, þetta er bara forskot á sæluna, hrópar pabbi glaður. Líttu í pokann og sjáðu hvort við erum ekki vel birgir. Ahá! Ég rek upp lágt undrunar- óp. I pokanum eru fjórar kókflösk- ur, tveir pylsupakkar, ávaxtadós og konfektpoki. Pabbi, gastu keypt svona mikið? Þú lánaðir mér svo mikla pen- inga, Simmi minn, svarar pabbi og horfir á flöskuna með söngvatn- inu. Snöggvast verður hann alvar- legur. Ég borga þér þá strax þegar ég fer að vinna, bætir hann við. Þú mátt eiga peningana, pabbi minn, ég get safnað aftur í spari- baukinn. Nei, nei, ég ætla meira að segja að borga þér þetta aftur með vöxt- um og vaxtavöstum. Ég veit lítið um vexti, en ég hef hugboð um að það sé eitthvað sem gerir mann ríkan. Þessa stundina kemst ekkert að annað en kókið. Ég renni úr flöskunni í nokkrum teygum. Svalandi og hressandi bragðið situr eftir á tungunni. Var þetta gott? Ljómandi! Á eftir býður pabbi mér kon- fekt. Ég vel einn girnilegasta mol- ann með silfurlituðum pappír. Ég tek eftir því að pabbi sýpur ekki aftur á söngvatninu, hann stingur flöskunni niður í pokann. Ég læt líka tómu kókflöskuna niður, ég veit að það er hægt að selja hana á krónu. Við rísum á fætur og höldum áfram ferðinni. Nú fæ ég að bera pokan með smíðaverkfærunum. Þau eru ekki brothætt. Það sem eftir er leiðarinnar eru engar torfærur og það hallar und- an fæti. Fyrr en varir erum við komnir á leiðarenda. Við stöldrum við á brekkubrún- inni fyrir ofan Himnaríki. Trén í garðinum standa ekki lengur í sumarskrúða. Þau hafa fellt nokkuð af laufi og það stirnir á gulbrún blöðin í haustsólinni eins og þau væru úr skínandi gulli. Elliðavatn er spegilslétt og blá- klukka á vatnsbakkanum brosir mót sólu og neitar að fölna og visna. Það er óhætt um það, fyrir- heitna landi skartar sínu fegursta, segir pabbi. Hvað er fyrirheitna landið? Alvöru himnaríki. Verðum við þá í dag eins og í alvöru himnaríki? Já, það er sagt að þar líði öllum vel, svarar pabbi og kinkar kolli. Ég get ekki lengur staðið kyrr. Komdu, hrópa ég glaður. Við tökum sprettinn niður brekkuna og ér er á undan að girð- ingunni. Eg opna hliðið fyrir pabba og við göngum mjóa stíginn heim að Himnaríki. Laufið þyrlast um fætur okkar eins og skínandi gullpeningar og sólglitið á vatninu minnir á hvítar perlur. Ekki hefur Himnaríki fokið um koll, segir pabbi og tekur um dyra- stafinn. Hann hristir húsið, það titrar ofurlítið, en það brakar ekki í því eins og í sumar. Þá var líka komið að því að það legðist á hlið- ina vegna þess hve staurarnir í undirstöðunum voru fúnir. Það hefur ekki verið reynt að brjótast inn upp á síðkastið, segir pabbi. Það virðist hafa dugað að ég málaði húsið í fyrra. Já, nú er það svo fallegt að eng- inn tímir að skemma það. í rauninni líkist Himnaríki mest sykurhúsinu í ævintýrinu, kaffibrúnt með hvítum vindskeið- um, gluggakörmum og dyrastöf- um, byggt úr súkkulaðikökum, konfekti og rjómaís. Pabbi dregur upp lykil og opnar hengilásinn fyrir hurðinni. Á móti okkur leggur dálitinn mygluþef. Húsið er óupphitað og stendur allt árið mannlaust. Pabbi byrjar á því að kveikja á gastækinu og þá er lyktin fljót að hverfa. Ég klifra upp mjóa stigann sem liggur upp á svefnloftið. Dýnur liggja á gólfinu og allt er með sömu ummerkjum og þegar við skildum við það. Loftið er ekki manngengt fyrir fullorðna, en ég get staðið þar uppréttur. Ef ég rétti út handlegginga get ég snert súðina beggja vegna. Himnaríki er byggt eins og spilaborg. Niðri er eitt herbergi og á hillu í einu horninu stendur gastækið. Mér finnst skemmtilegast uppi, þá er hægt að kíkja út um agnarlítinn glugga á gaflinum sem snýr út að vatninu. Brátt berst ilmur af heitum pylsum upp um loftsgatið. Pabbi er byrjaður að sjóða. Uhm, ég fæ vatn í munninn og flýti mér niður. Við einn vegginn stendur borðkríli. Undir því er kassi með diskum og hnífapörum. Ég hjálpa pabba að þurrka rykið af matar- ílátunum og leggja á borðið. Innan lítillar stundar setjumst við að veisluborði. Með pylsunum drekk ég kók, en pabbi dreypir á söngvatninu, í eftirmat höfum við ávexti. Að síðustu hvolfir pabbi úr koknfektpokanum á undirskál. Rauðar, silfurlitaðar og gylltar umbúðirnar lýsa eins og glitrandi stjörnur. Þvílík veisla! Það er eins og jólin komin. Pabbi borðar lítið af pylsunum og hann gefur mér kókflöskuna sína. Hann vil heldur fá sér kaffi. Hérna er kaffikanna og allar græjur. Þó það nú væri að hægt sé að hella upp á könnuna í Himna- ríki! Þegar pylsuveislunni er lokið hjálpumst við pabbi að þvo upp ílátin og setja þau á sinn stað. Allt verður að vera tandurhreint og í röð og reglu. í norðurhorni garðsins í Himna- ríki hefur verið hlaðin sporöskju- löguð hvilft með grasstalli. Þar er skemmtilegt að sitja á sumrin, anda að sér blómailmi og láta sól- ina baka hörundið. Við pabbi göngum um garðinn, virðum fyrir okkkur litadýrð haustsins og hlustum á kyrrðina sem aldrei er eins algjör og á lognkyrrum haustdegi. Snöggvast tyllum við okkur á grasbekkinn. Það leggur kulda upp úr jörðinni svo að við rísum fljótlega á fætur. Ætlarðu ekki að byrja að smíða? Æ, ég var nærri búinn að gleyma því. Pabbi tekur lífinu með ró, um síðir byrjar hann þó á viðgerðinni. Til þess að skipta um gamla hornstólpann þarf að grafa niður með honum. Ég er feginn að ég get hjálpað pabba til að grafa. Það þarf líka að tjarga nýja staurinn áður en mokað er að honum mold- inni. Pabbi lofar mér að bera á staurinn, það er gert með stórum pensli. Mér finnst gaman að tjarga, að vísu útata ég mig, bæði um hendur og andlit, en það verð- ur að hafa það. Viðgerðin tekur alllangan tíma, þegar henni er lokið er farið að bregða birtu. Að þessu sinni neglir pabbi ekki hiera fyrir gluggana. Við förum hingað seinna, Simmi minn, og göngum frá Himnaríki fyrir veturinn. Þá verður ef til vill komið skautasvell á Elliðavatn. Eru skautarnir þínir ekki orðnir ónýtir? Ne-hei, þeir eru eitthvað smá- vegis bilaðir, það er hægt að gera við þá. Nú, svo færðu kannski eitthvað fallegt í jólagjöf, segir pabbi íbygginn og brosir. Ég hugsa að hann eigi við skauta, en ég vil ekki spyrja. Við tygjum okkur að stað til heimferðar. Að síðustu læsir pabbi útidyrahurðinni með hengi- lásnum. Uppi á brekkubrúninni svipast ég um. Að vestanverðu við Elliða- vatn eru allmargir sumarbústaðir á víð og dreif. Flestir eru litlir og hrörlegir, einstaka eru þó reisu- legir og auðsjáanlega vel við hald- ið. Enginn er þó eins fallegur og Himnaríki. Pabbi, er aldrei búið í sumar- bústöðum á veturna? Jú, einstaka. Þá eru það ekki sumarbústaðir, heldur vetrarbústaðir. Hárrétt. Augu mín staðnæmast við Hinmaríki. Úr fjarlægð svipar því til topptjalds eða rauðbrúnnar prjónahúfu með hvítum röndum. Við höfum ekki gengið nema stuttan spöl þegar pabbi snar- beygir allt í einu úr leið. Hvert ert þú að fara? spyr ég undrandi. Ég ætla að heilsa upp á hann Óla bílaviðgerðarmann. Ég sé að jeppinn hans er heima. Það er orðið svo framorðið. Oho, við rötum heim, segir pabbi brosandi. Ég þarf nauðsyn- lega að borga kallinum fyrir bíl- lánið í sumar, bætir hann við. Nú man ég að pabbi keyrði timbrið í viðgerðina á Himnaríki í gamalli jeppadruslu sem var alveg komin að því að hrynja. En hvar hann fékk jeppann lánaðan vissi ég ekki. Pabbi, segir ég loks, þú hefur enga peninga til að borga? Ne-hei, en ég ætla að semja um skuldina. Ég blíðka hann kannski með þessari, bætir hann við og klappar á vasann þar sem hann geymir söngvatnið. Ég veit að ekki þýðir að telja pabba hughvarf þegar þessi gáll- inn er á honum. Óli bílaviðgerðarmaður tekur pabba tveim höndum. Ég sé að hann er ofurlítið reikull í spori. Ha, ha, ha! Hver á þetta flekk- ótta lamb? hrópar hann og hlær, þegar hann kemur auga á mig. Þetta er nú lambið mitt lirtf® svarar pabbi og strýkur mér utn vangann. Kona kallsins býður mér vatn til að þvo af mér tjöruna, en ég segist ætla að láta það bíða þang- að til að ég komi heim. Mér verður starsýnt á kallinn, mér finnst hann hræðilega ljótur. Hann er með stóra vörtu á kinn- inni og nefið er skakkt. Þegar hann hlær sést í gul tannbrot. Pabbi og kallinn tala mikið og hlæja dátt. Ég nenni ekki að hlusta á þá og horfi út um glugg- ann. Fyrir utan eru stórir haugar af alls konar skrani, mest ber á ónýtum bílum og ryðguðum vélum og verkfærum. Ég get vel trúað, ef þessu heldur áfram, að einn góðan veðurdag hverfi húsið í ruslahaug- inn. Kona kallsins er grönn og fölleit með silfurgrátt hár. Hún talar næstum ekkert og svífur einhvern veginn um hljóðlaust. Mér dettur í hug engill, að vísu vantar hana vængina. Konan kemur með mjólk og kökur handa mér. Pabbi og kallinn vilja ekki annað en svart kaffi. Það kemur í Ijós að kallinn á líka söngvatn og þeir hella út í kaffið til skiptis. Ég er orðinn hundleiður að hanga þarna. Ég hnippi í pabba öðru hverju og hvísla að honum að við skulum fara að koma. Pabbi brosir og kinkar kolli, samt sýnir hann ekki á sér neitt fararsnið. Loks þegar hver dropi er tæmd- ur úr flöskunni rís pabbi á fætur og kveður. Ég flýti mér líka að kveðja ljóta kallinn og þöglu kon- una. Þessi heimsókn í húsið við ruslahauginn hafði tafið okkur. Þegar við höldum af stað er orðið skuggsýnt. Ég er ekkert smeykur við myrkrið þegar pabbi er með mér. Ég sting hendinni í lófa hans og þá er allt gott aftur. Ein af teikningum Péturs Hall dórssonar Kafli úr nýrri barna- og unglingabók eftir Ármann Kr. Einarsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.