Morgunblaðið - 24.12.1981, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 24.12.1981, Blaðsíða 14
46 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 24. DESEMBER 1981 Jólasagan En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústusi keisara um að skrásetja skyldi alla heims- byggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin, er gjörð var, þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Og fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Fór þá einnig Jósef úr Galíleu frá borginni Nazaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, til þess að láta skrá- setja sig, ásamt Maríu heitkonu sinni, sem þá var þunguð. En á meðan þau dvöldust þar kom að því að hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frum- getinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að það var eigi rúm fyrir þau í gistihúsinu. Og í þeirri byggð voru fjárhirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði í kring um þá, og urðu þeir mjög hræddir. Og engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum, því að yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Dav- íðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu. Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með þeim mönnum, sem hann hefir velþóknun á. Rúna Gísladóttir JÓLIN HANS ANDRÉSAR Andrés sat við gluggann í herberginu sínu og horfði út. Alls staðar var fólk á götunni. Það var á ferð fram og aftur. Þarna voru konur og karlar, ungir og gamlir. Ýmsir voru með stóra pinkla í fanginu og aðrir með poka, plastpoka, marga poka fulla af pökkum. Þeir roguðust áfram með birgðir sínar og áttu fullt í fangi með þyngslin. Það var enginn vafi á því, að menn voru að keppast við að komast heim með jólagjafirnar. Allir í óða önn að undirbúa jólin. Keppast við og keppast við. Frammi í eldhúsi var mamma að baka. Hún var víst búin að baka á hverjum degi í heila viku. Cg hún var líka búin að þvo og þrífa í marga daga. Mamma vann úti hálfan daginn, svo að hún varð að nota vel tímann heima. Og alltaf var hún að tala um, hvað hún ætti eftir að gera mikið. Allt átti að vera hreint og strokið. Nóg þurfti að vera til af kökum og öðru góðgæti. Og allt varð að vera tilbúið þegar hátíðin gengi í garð. Svo að mamma kepptist við og kepptist við. Pabbi var enn í vinnunni, þó að komið væri fram undir kvöldmat. Hann hafði aldrei meira að gera en einmitt á þessum árstíma. Pabbi var bílstjóri og önnum kafinn við að flytja fólk. Á öllum tímum þurfti hanh að sinna útköllum. Hann kepptist við og kepptist við. En Andrés bara sat við gluggann sinn. Hann kepptist ekki við. Hann gerði ekki neitt. Hann var nýkominn í jólaleyfLog nú þurfti hann ekki að fara í skólann aftur fyrr en eftir 3 vikur. Eiginlega hafði hann haldið að það yrði gott að komast í frí. En svo fannst honum það ekki þrátt fyrir allt. Það var svo skrýtið þetta með jólin. Andrési hafði alltaf þótt skemmtilegt að undir- búa þau áður. Hann mundi eftir því, að mamma hrósaði honum oft fyrir hvað hann var laginn við að skreyta smákökurnar. Oft sótti hann vörur út í búð bæði fyrir mömmu og nágrannakonuna. Hann var líka vanur að taka vel til í herberginu sínu og skreyta það fyrir jólin með skrauti, sem hann útbjó sjálfur. En fyrir þessi jól hafði hann ekki gert neitt af þessu. Andrés fann kökk í hálsinum. Gat verið að eitthvað væri að honum? Hvers vegna var ekkert gaman að eiga jólafrí? Hvers vegna langaði hann ekki til að taka þátt í undirbúningi jólanna? Hvers vegna hlakkaði hann ekkert til jólanna? Það voru ekki margir dagar síðan Sólveig frænka spurði Andrés að því, hvers hann óskaði sér í jólagjöf. Hún klappaði honum á öxlina og kallaði hann stóra strákinn sinn. En Andrés gat ekki svarað spurningu hennar. Og það var einfaldlega af því að hann vissi ekki, hverju svara skyldi. Eiginlega var ekkert sérstakt, sem hann langaði að fá. Andrés fann, að kökkurinn í hálsinum stækk- aði. Það var ekki lengra síðan en í fyrra að hann gerði langan óskalista, svo langan, að ekki tókst að uppfylla allar óskirnar hans. En nú var allt svo breytt. Hann var orðinn annar Andrés. Var það þá svona að verða fullorðinn? Að vísu var hann ekki fullorðinn ennþá, en hann var víst orðinn unglingur. Og oft hafði hann heyrt, að erfiðleikar unglinga væru margvíslegir. En hann vissi ekki, að manni gæti liðið svona. Dagarnir liðu. Og Andrés var jafn dapur og niðurlútur. Mamma reyndi að stinga upp á því, sem hún hélt að hann gæti haft gaman af. „Skrepptu með Óla vini þínum í bæinn og lítið á jólaskreytingarnar og erilinn í bænum," sagði hún. En Andrés fór hvergi. Hann langaði ekkert að skoða skreytingar. Og hann var búinn að sjá nóg af erli og jólaundirbúningi. Á aðfangadagsmorgun leið Andrési jafnvel enn verr en áður. En nú gat hann ekki beðið lengur eftir jólaskapinu. Hann varð að fara í bæinn og kaupa jólagjafir. Jólin kæmu, hvort sem hann langaði til eða ekki. Og pabbi og mamma urðu að fá jólagjöf frá honum. Þegar Andrés kom heim aftur var mamma að spila jólaplötu á fóninum. Jólabjöllur klingdu og sungið var fallega: „í Betlehem er barn oss fætt". Það var víst þess vegna, sem allt þetta tilstand var. Bam fæddist í Betlehem fyrir nítján hundr- uð áttatíu og einu ári. Þetta barn var Jesús Kristur, sonur Guðs. Andrés vissi þetta allt. En honum fannst það lítið koma sér við. Andrés skreytti jólatréð inni í stofu á meðan mamma var að fást við jólamatinn í eldhúsinu. Hann velti því fyrir sér, hvað það væri við jólin, sem gerði menn svo ötula og ákafa. Hvers vegna þeir kepptust við fram á rauðar nætur fyrir jól- in. Pabbi kom heim og hjálpaði þeim að ljúka því síðasta af jólaundirbúningnum. Síðan fóru þau að klæðast sparifötunum. Þau voru vön að fara í messu á aðfangadagskvöld. Á leið til kirkjunnar heyrðist bjölluhljómur. Kirkjuklukkurnar hringdu í sífellu. í kirkjunni var sungið „í Betlehem er barn oss fætt“. Andrés hlustaði á sönginn. Hann hlustaði síðan á prest- inn. Hann heyrði hann lesa upp jólaguðspjallið, söguna um fæðingu Jesú. Hann heyrði hann tala um jólagleðina, gleðina, sem gerir mennina gjafmilda. Sjálfur hafði Andrés keypt tvær jóla- gjafir, en ekki af því að hann væri glaður og langaði að gleðja pabba og mömmu, heldur bara af því, að þetta var siður. Hann átti víst ekkert af þessari gleði. Gleði, sem gerir menn gjaf- milda. Presturinn hélt áfram að tala um gleðina. Og hvers vegna þessi gleði? Vegna þess, að „yður er í dag frelsari fæddur". Engill Guðs flutti þessi boð fyrst og enn eru þau flutt á hverjum jólum. Fyrsta jólagjöfin var Jesús. Frelsari mannanna fæddist. Andrés hafði oft heyrt þetta áður. Hann fann, að þetta var eitthvað meira en orðin tóm. Jólagleði — vegna fæðingar Jesúbarnsins, vegna jólagjafarinnar til mannanna. Kirkjuklukkurnar hringdu aftur, og þær sögðu greinilega: GLEDIleg jóL — GLEDHeg jóL Síðar um kvöldið tóku pabbi og mamma upp gjafirnar frá Andrési við jólatréð heima. Mamma var himinlifandi yfir hálsmeninu, sem hún fékk, og pabbi fór strax að líta í bókina sína. Og það var eins og Andrés fyndi til örlítillar gleði innra með sér. Hún var að byrja að vaxa. Hjarðpípan Til er gömul saga um fjárhirðana í Betlehem: Er þeir höfðu heyrt boðskap engl- anna, fóru þeir til Betlehem til þess að sjá barnið. Þegar þeir komu inn í fjár- húsið ætluðu þeir að ganga að jötunni og gefa barninu ofurlitla gjöf hver um sig. Sá yngsti í hópnum var 13 ára. Þegar hann kom að jötunni, horfði hann frá sér numinn á barnið, sem englarnir höfðu sagt honum frá, og ætlaði ekki að geta slitið sig frá því. Á meðan hann stóð og horfði á barnið, spurði hann sjálfan sig: „Hvað á ég að gefa?“ Hann hugsaði sem svo: — Hér er næðingssamt og barnið er illa klætt. Ég ætti að fara úr skikkjunni og breiða ha- na yfir jötuna, þá verður barninu ekki kalt. Drengurinn leit á skikkjuna sína. Hún var bæði gömul og slitin. Nei, hann varð að gefa Jesúbarninu eitthvað betra. Það varð að fá það bezta. Átti hann nokkuð betra en smalaskikkjuna? Jú, í vasanum geymdi hann hjarðpíp- una. Þetta var bezta hjarðpípan, sem var til á Betlehemsvöllunum. Þegar hann blés í hana, þögnuðu allar aðrar pípur, því að allir vildu heyra tónana, sem hann náði úr hjarðpípunni sinni. Margir fjárhirðar höfðu viljað kaupa hana af honum og boðið mikið fé fyrir hana. En drengurinn hafði aldrei viljað selja hana, þótt hann væri fátækur. Hjarð- pípan var dýrmætasti fjársjóður hans. Þá datt honum í hug: — Á ég að gefa Jesúbarninu hjarðpípuna mína? Nei, það er of mikið. Honum varð aftur litið á barnið, og þá sagði hann við sjálfan sig: — Jú, Jesúbarnið á að fá hana, það á að fá það bezta, sem ég á. En áður en ég gef hana ætla ég að leika á hana enn einu sinni fallegustu tónana, sem ég get. Því næst fór hjarðsveinninn út í horn í fjárhúsinu og tók til að leika á hjarð- pípuna sína. Hann lagði alla sína ungu sál í tónana. Hinir yndislegu tónar fylltu fjárhúsið. Hinir hirðarnir og Jósef hlustuðu í mikilli hrifningu. María spennti greipar og horfði til himins. Henni fannst englasöngur fylla fjárhúsið. Þegar síðustu tónarnir dóu út, gekk drengurinn að jötunni. Hann lagði hjarðpípuna við hliðina á Jesúbarninu. Þá rétt Jesúbarnið fram litlu hend- urnar sínar til drengsins og brosti sínu fyrsta brosi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.