Morgunblaðið - 31.12.1981, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 31.12.1981, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 31. DESEMBER 1981 Gengisskráning og hið vélgenga verðbólgukerfi Eftir Jóhannes Nordal, seðlahankastjóra í 3. hefti Fjármálatíðinda 1981 birtist forystugrein eftir dr. Jóhannes Nordal, seðla- bankastjóra, sem ber yfir skriftina: llm stefnu og þróun í gengismálum. Grein þessi fer hér á eftir í heild með leyfi höfundar. A þessu ári eru tíu ár liðin, síð- an Nixon Bandaríkjaforseti tók þá örlagaríku ákvörðun að hætta gullinnlausn dollars, en með henni var kippt burt þeirri undirstöðu, sem fastgengiskerfið, sem kennt er við Bretton Woods, hvíldi á. Þótt mörgum væri það ekki ljóst á þeim tíma, markaði þessi atburð- ur í reynd þáttaskil í þróun gjald- eyris; og peningamála í heimin- um. I stað stöðugs gengis helztu gjaldmiðla heimsinsárum ogjafn- vel áratugum saman tók nú við fljótandi gengi, sem haft hefur í för með sér miklar og oft lítt fyrirsjáanlegar sveiflur í verð- mæti einstakra mynta. Hafa þess- ar sveiflur sjaldan verið meiri en á því ári, sem nú er að líða. Enn í dag deiia menn bæði um orsakir og afleiðingar þeirra at- burða fyrir tíu árum, sem leiddu til þess að fastgengiskerfið hrundi í rústir. Sumir kenna það að- haldsleysi í efnahagsstefnu Bandaríkjanna, en stöðugt verð- gildi dollars var í rauninni undir- staða þess fastgengiskerfis, sem komið hafði verið á í Bretton Woods. Aðrir héldu því hins vegar fram, að í heimi frjálsra viðskipta og alþjóðlegs fjármagnsmarkaðar væri fastgengiskerfi of ósveigjan- legt og í stað þess þyrfti því að koma frjáls gengisskráning, sem eingöngu ákvarðast af markaðs- öflum. Slíkt kerfi væri líklegt til að leiða til aukins stöðugleika, þegar til lengdar léti, þar sem markaðsöflin væru betri dómarar en stjórnvöld í þessum efnum. Fyrst í stað átti sú skoðun þó yfirgnæfandi fylgi að fagna, að ekki væri æskilegt að hverfa frá fastgengiskerfinu vegna þeirra miklu kosta, sem það hefði fyrir stöðugleika í efnahagsþróun. Til- raunir voru því gerðar til þess á árunum 1971—1973 að endurreisa það í nýrri og sveigjanlegri mynd, þar sem hinn nýi alþjóðlegi gjald- miðill, hin sérstöku dráttarrétt- indi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kæmi í stað dollars og gulls sem undirstöðueining. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Tilraunir manna til þess að lappa upp á fastgengiskerfið báru lítinn árangur og biðu loks algert skipbrot, þegar olíukreppan 1974 umturnaði öllum gjaldeyrismálum heimsins og hafði í för með sér meira misræmi í greiðslujöfnuði milli landa en áður hafði þekkzt. Eftir þá atburði hefur mönnum orðið Ijóst, að engin skilyrði eru lengur til þess að endurreisa fast- gengiskerfið, a.m.k. i fyrirsjáan- legri framtíð. Allar áætlanir í þá átt hafa því verið lagðar til hliðar, en í stað þess hefur Alþjóðagjaldeyrissjóð- urinn fengið það sem eitt megin- hlutverk sitt að reyna að stuðla að sem mestum stöðugleika innan þessa nýja frjálsgengiskerfis. Því miður virðist árangurinn af þeirri viðleitni hvorki mikill né batn- andi. Sannleikurinn er sá, að frjálsgengiskerfið hefur reynzt óstöðugra og háð meiri sveiflum en nokkurn hafði órað fyrir. Fyrir þessari þróun eru vafalaust marg- ar orsakir, sem ekki er unnt að rekja hér. Eitt skiptir þó vafalaust megin- máli. Eftir því sem efnahagskerfi heimsins þróast og verður fjöl- þættara, hlýtur að verða meiri vandkvæðum bundið að samræma efnahagsstefnu þjóða og skapa þannig skijyrði stöðugleika í geng- ismálum. A meðan fastgengiskerf- ið starfaði sem bezt, gegndu Bandaríkin ótvíræðu forystuhlut- verki í efnahagsmálum í heimin- um. Nú er ekki aðeins Evrópa orð- in jafnoki þeirra, heldur ný efna- hagsleg stórveldi risin í Austur- Asíu og Mið-Austurlöndum. Allar þjóðir heimsins, þar á meðal Sov- étríkin og fylgiríki þeirra, eru orð- in háð hinum alþjóðlegu fjár- magnsmörkuðum og hafa áhrif á starfsemi þeirra. Þannig er orðið til aþjóðlegt gjaldeyris- og fjár- magnskerfi, sem aðeins virðist starfhæft á grundvelli frjálsrar gengisskráningar og fjármagns- flutninga. Engin ástæða er því til að ætla, að framundan sé lygnari sjór í þessum efnum en við höfum siglt síðustu árin. ★ Sú þróun, sem nú hefur verið lýst, hefur haft afdrifarík áhrif á efnahagsmál Islendinga, og kemur þar öðru fremur tvennt til. í fyrsta lagi hefur hið efnahagslega umhverfi þjóðarbúskaparins orðið óstöðugra og áhættusamara að þessu leyti en áður. í stað þess að geta treyst á svo til algeran stöð- ugleika gengis helztu viðskipta- landa okkar má nú búast við sveiflum, er nemi jafnvel 20—30% á fáum mánuðum. Þetta veldur síðan verulegum sveiflum í við- skiptakjörum vegna mismunandi vægis einstakra mynta í inn- og útflutningi. Þannig hefur hækk- andi verð á dollar miðað við Evr- ópumyntir í för með sér batnandi viðskiptakjör, þegar á heildina er litið, vegna þess að við höfum miklar tekjur í dollurum, en út- gjöldin að miklu stærri hluta í Evrópumyntum. Lækkun dollars leiðir svo á sama hátt til rýrnandi viðskiptakjara. Fyrir einstakar greinar útflutningsstarfsemi og samkeppnisiðnaðar geta áhrifin þó orðið enn sterkari, þegar vægi einstakra mynta fyrir samkeppn- isstöðuna er óvenjulega mikið. Þannig hafa útflytjendur til Evr- ópumarkaða orðið fyrir verulegum búsifjum á þessu ári, en seljendur á dollaramarkaði hafa hagnazt að sama skapi. Samskonar áhættu eiga þeir við að búa, sem tekið hafa erlend lán í tilteknum mynt- um, en verða síðar fyrir óvæntum sveiflum á verðgildi þessara skuldbindinga sinna. Þau vandamál, sem miklum gengissveiflum fyfgja fyrir ein- stakar framleiðslugreinar, eru að sjálfsögðu ekki einkennandi fyrir efnahagsstarfsemi hér á landi sér- staklega. Allar þjóðir, sem háðar eru utanríkisviðskiptum, eiga við meiri eða minni erfiðleika að etja af þessum sökum. Sumar þjóðir geta að vísu dregið úr þessum vanda með því að tengja geng- isskráningu sína við einhvern af höfuðgjaldmiðlum heimsins. Þannig hafa mörg smáríki Evrópu tengt gjaldmiðla sína gengiskerfi Efnahagsbandalagsins beint eða óbeint. Lönd í Ameríku hafa á sama hátt tengt gjaldmiðla sína Bandaríkjadollar. Fyrir íslend- inga er hvorug þessi leið auðfarin, þar sem þeir eru staðsettir mitt á milli þessara tveggja markaðs- svæða og geta því hvorugu þeirra tengzt alfarið. Hætt er við, að engin einföld lausn finnist á þeim vanda, sem fylgir gengissveiflum höfuðvið- skiptamynta íslendinga. Hér er fyrst og fremst um að ræða nýja viðskiptalega áhættu, sem at- vinnuvegirnir verða að læra að búa við og taka tillit til í áætlana- gerð sinni. Nokkuð mætti vænt- anlega draga úr þessari áhættu með gjaldeyrisviðskiptum fram í tímann, svokölluðum „forward"- viðskiptum, en sú lausn er hvorki algild né áhættulaus. Einnig þyrfti að íhuga, hvaða gildi aukin starfsemi verðjöfnunarsjóða gæti haft í þessu efni. Meginniður- staðan hlýtur þó að verða sú, að við búum í heimi, sem er orðinn áhættusamari fyrir alla fram- leiðslustarfsemi, þar sem lang- tímaáætlanir eru meiri vand- kvæðum bundnar en áður var. Jóhannes Nordal Mikið veltur þess vegna á því, að atvinnufyrirtæki hafi fjárhagslegt bolmagn og afkomugrundvöll til þess að taka þessa auknu áhættu á sig. En samhliða þessum breyting- um ytri skilyrða, sem fylgt hafa fljótandi gengi í umheiminum, hefur afnám fastgengiskerfisins haft afdrifarík áhrif á notkun gengisins sem hagstjórnartækis. A meðan Bretton Woods-kerfið var við lýði, var fast gengi grund- vallarreglan, og gengisbreytingar voru háðar samþykki Alþjóða- gjaldeyrissjóðsins og því aðeins leyfðar, að um meiri háttar og langvarangi greiðslujafnaðar- vandamál væri að ræða. Mikil áherzla var því á það lögð, að ríki beittu öðrum stjórntækjum, svo sem aðhaldi í fjármálum ríkisins og peningamálum, áður en gripið yrði til þess neyðarúrræðis að breyta gengisskráningunni. Reynt var að koma í veg fyrir, að gripið væri til gengisbreytinga í því skyni að bæta einhliða samkeppn- isaðstöðu á kostnað annarra ríkja, og var þar byggt á dýrkeyptri reynslu áranna fyrir síðustu heimsstyrjöld. Það má því í rauninni segja, að innan fastgengiskerfisins hafi verið bannað að nota gengið sem hagstjórnartæki í því skyni að hafa áhrif á samkeppnisstöðu og atvinnuástand, t.d. með tilliti til innlendra kostnaðarbreytinga eða sveiflna í viðskiptakjörum. Við slíkum vanda átti að bregðast með öðrum tækjum á sviði peninga- mála, fjármála ríkisins og launa- mála. Með fastri gengisskráningu var hins vegar stefnt að því að veita alhliða aðhald gegn umfram- eftirspurn og verðbólgu, jafn- framt því sem með henni var lagð- ur ákjósanlegur grundvöllur auk- inna alþjóðaviðskipta. Fyrir íslendinga, sem átt hafa við þrálát verðbólguvandamál að glíma allt frá styrjaldarárunum og búa auk þess við miklar sveifl- ur í viðskiptakjörum og fram- leiðslu sjávarafurða, hlaut fast- gengiskerfiö að hafa ýmsar skuggahliðar. Reynslan varð sú, að því hlutu að fylgja miklar sveiflur í afkomu atvinnuveganna hér á landi, sem oft leiddu að lok- um til mjög stórra gengisbreyt- inga, sem höfðu truflandi áhrif á alla efnahagsstarfsemi. Út frá þessu sjónarmiði hefur það óneit- anlega verið nokkur léttir fyrir hagstjórn hér á landi undanfarin tíu ár, að unnt hefur verið að beita genginu á sveigjanlegri hátt en áður í því skyni að tryggja sæmi- lega jafna og þolanlega afkomu atvinnuveganna. Þannig hefur gengisstefnan átt mikinn þátt í að tryggja næga atvinnu allt þetta tímabil. A móti þessum ávinningi hafa hins vegar komið hér á landi eins og svo víða annars staðar áhrif minna aðhalds í gengismálum á þróun verðbólgu og innlendrar eftirspurnar. Hversu mikil áhrif afnám fastgengiskerfisins hefur í raun átt í því að magna verðbólgu hér á landi að undanförnu, verður vafalaust seint metið af nokkurri nákvæmni. Hitt fer þó varla á milli mála, að án þess sveigjan- leika, sem unnt hefur verið að beita í gengismálum hér á landi síðustu tíu árin, hefðu Islendingar miklu fyrr þurft að gripa til harð- vítugra ráðstafana til þess að koma verðbólgunni á svipað stig og í nálægum löndum. Og eftir því sem verðbólgan hér á landi hefur orðið rótfastari og vélgengi henn- ar órjúfanlegra, m.a. vegna lög- boðinna víxláhrifa verðlags og framleiðslukostnaðar, hefur ákveðnar sótt í það horf, að reglu- bundnar gengisbreytingar eða gengissig yrðu að órjúfanlegum þætti vísitölukerfisins. Ef koma á í veg fyrir, að svo fari, er nauð- synlegt, að menn geri sér sem gleggsta grein fyrir því, hvaða hagstjórnarhlutverki stefnan í gengismálum getur gegnt hér á landi við núverandi aðstæður í efnahagsmálum. ★ Sé litið til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur á undanförnum ár- um, virðist stefnan í gengismálum hafa miðazt við þrjú meginsjón- armið. í fyrsta lagi hefur verið talið nauðsynlegt að jafna með breyt- ingum á skráðu gengi krónunnar þann mismun, sem átt hefur sér stað í þróun framleiðslukostnaðar hér á landi og í samkeppnislönd- unum. Þannig hefur gengisskrán- ingin í meira eða minna mæli orð- ið að fylgja reglubundnum hækk- unum innlends launakostnaðar, þannig að þær hefðu ekki umtals- verð áhrif á samkeppnisstöðu at- vinnuveganna. Hefur þetta verið gert ýmist með gengissigi eða til- tölulega litlum breytingum á gengisskráningu á nokkurra mán- aða fresti. Að þessu leyti er geng- isskráningin sífellt að nálgast það * að verða þáttur í hinu vélgenga kerfi verðbólgunnar. I öðru lagi hefur við gengis- ákvarðanir verið reynt að taka til- lit til breytinga á ytri skilyrðum þjóðarbúskaparins, einkum breyt- inga á viðskiptakjörum. Þannig hefur gengi íslenzku krónunnar verið haldið hærra en ella, þegar viðskiptakjör hafa farið batnandi. Með þessum hætti hefur verið reynt að tryggja, að batnandi viðskiptakjör yrðu til þess að hægja á verðbólgunni frekar en að láta þau koma fram í innlendri tekjuaukningu og aukinni þenslu. Aftur á móti hefur orðið að lækka krónuna meira en ella, þegar viðskiptakjör hafa farið versn- andi. Enginn vafi er á því að þessi viðleitni hefur orðið til þess að skapa meiri stöðugleika í afkomu atvinnuveganna og viðskiptajöfn- uði undanfarin ár heldur en ella hefði orðið. I þriðja lagi hefur svo einstöku sinnum á undanförnum árum ver- ið reynt að beita genginu með hefðbundnari hætti í því skyni að veita aðhald í efnahagsmálum og draga þannig úr verðbólgu. Akveðnasta tilraunin í þessa átt var gerð í upphafi þessa árs, þegar ákveðið var að halda meðalgengi krónunnar alveg óbreyttu fram til vors, en þá var því breytt tiltölu- lega lítið miðað við hækkun inn- lends framleiðslukostnaðar, og sama gerðist aftur í ágúst. Framan af virtist þessi stefna ætla að bera umtalsverðan árang- ur, og dró verulega úr verðhækk- unum vor- og sumarmánuðina, án þess að alvarleg neikvæð áhrif færu að koma í ljós. Tvennt stuðl- aði að þessum árangri, annars vegar batnandi viðskiptakjör vegna mikillar hækkunar á gengi dollars á erlendum gjaldeyris- mörkuðum, en hins vegar hagstæð verðlagsáhrif skerðingar vísitölu- bóta 1. marz. Þessi hagstæðu skil- yrði hafa hins vegar reynzt tíma- bundin. Síðustu mánuði hefur slegið í bakseglin, m.a. vegna breyttrar gengisþróunar erlendis, sem valdið hefur versnandi við- skiptakjörum. Jafnframt hafa óskertar vísitölubætur aukið launakostnaðinn á ný og leitt til síversnandi afkomu fyrirtækja. Við þessar aðstæður hafa skil- yrðin til áframhaldandi aðhalds í gengismálum gjörbreytzt, nema annað hvort komi til frekari að- gerðir í launamálum eða svo strangt aðhald að rekstrarafkomu fyrirtækja, að til atvinnuleysis gæti komið. Ef enn þrengdi að af- komu atvinnuveganna, gæti svo farið, að Islendingar stæðu brátt í svipuðum sporum og nágranna- þjóðir okkar, t.d. Bretar og Danir, sem búið hafa við gengisskrán- ingu, sem þrengt hefur stórlega hag fyrirtækja og valdið víðtæku atvinnuleysi. Ekkert bendir til þess, að ís- lenzk stjórnvöld hafi hug á að feta í fótspor þessara þjóða á næst- unni. Þótt nýgerðir kjarasamn- ingar séu hóflegir á íslenzkan mælikvarða, fela þeir engu að síð- ur í sér verulega aukningu fram- leiðslukostnaðar, sem atvinnu- reksturinn getur með engu móti staðið undir án breyttra rekstr- arskilyrða. Og þeir rekstrarerfið- leikar, sem mörg fyrirtæki hafa þegar lent í, m.a. vegna þeirrar aðhaldsstefnu, sem fylgt hefur verið í gengismálum, hafa leitt til verulegrar skuldasöfnunar í bönk- um og peningaþenslu, en auk þess kallað á sérstakar björgunarað- gerðir af hálfu ríkisvaldsins. Þannig er með launahækkunum og fjárhagslegri fyrirgreiðslu við fyrirtæki unnið gegn þeim árangri, sem aðhaldi í gengismál- um var ætlað að skila. Þessi reynsla virðist staðfesta það enn einu sinni að aðgerðir gegn verðbólgu, sem ekki ná jafnt til allra þátta efnahagsmála, eru ekki líklegar til þess að skila var- anlegum árangri. Og þótt aðhald í gengismálum sé vissulega mikil- vægur þáttur slíkrar stefnu, getur það aldrei eitt út af fyrir sig nægt til þess að draga verulega úr verð- bólgu nema um skamma hríð.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.