Morgunblaðið - 08.06.1982, Blaðsíða 47

Morgunblaðið - 08.06.1982, Blaðsíða 47
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 8. JÚNÍ1982 27 • Trimmdagsncfnd ÍSÍ er á myndinni hér að ofan, en að neðan má sjá hina glæsilegu verðlaunagripi sem Morgunblaðið gefur. ÍSÍ gengst fyrir trimmdegi 27. júní næstkomandi ÁKVEÐIÐ hefur verið að efna til sérstaks trimmdags fyrir alla lands- menn og fyrir valinu hefur orðið sunnudagurinn 27. júní nk. Með þcssu er ætlunin að vekja athygli alls almennings á íþróttastarfinu og hvetja sem flesta til þátttöku. Yfirstjórn þessa verkefnis verður hjá Trimmnefnd ÍSÍ, en framkvæmd verður í höndum héraðssambanda, íþrótta- og ungmennafélaga innan fsf. Þátttökugreinar: Allir geta orðið þátttakendur í Trimmdeginum og hlotið fyrir eitt stig með þátttöku sinni í einni grein eftirfarandi íþrótta: 200 m sundi 2000 m skokki 5000 m göngu 10000 m hjólreiðum 25 m sundi fatlaðra hjólastólaakstri boccia bogfimi hestamennsku fyrir fatlaða eða þátttöku í hvers konar íþróttaæfingum í 30—40 mínútur, t.d. fimleikum, badminton, blaki, knattspyrnu, handknattleik, körfuknattleik o.s.frv. Keppt verður um þrjá veglega verðlaunagripi, gefna af Morgun- blaðinu, sem veittir verða sigur- vegara er hlýtur: í fyrsta lagi hæstu stigatölu miðað við íbúa- fjölda, í öðru lagi hæstu stigatölu miðað við íbúafjölda í kaupstöð- um, sem hafa 10000 íbúa eða fleiri, og í þriðja lagi hæstu stigatölu miðað við íbúafjölda í kaupstöðum sem hafa 2000—10000 íbúa. Hverjum þátttakanda gefst kostur á að kaupa sér merki Trimmdagsins, sem gildir sem happdrættisnúmer. Vinningar verða 5 vönduð reiðhjól gefin af Reiðhjólaversluninni Erninum. Merki dagsins verða seld á kr. 10,00 og hljóta framkvæmdaaðilar allan ágóða af sölunni. Hlutverk trimmnefndar ÍSÍ er að halda uppi útbreiðslu- og kynn- ingarstarfsemi í því skyni að glæða áhuga almennings á nauð- syn þess að stunda íþróttir og úti- vist — að trimma. Almennur áhugi á líkamsrækt hefur aukist mjög á síðustu árum, og skilningur fólks á nauðsyn lík- amsræktar er ríkjandi meðal alls þorra fólks og margir stunda reglubundna hreyfingu. Megin- tilgangur Trimmdagsins 27. júní nk. er að fá fleiri trimmara, að fá fleiri til að skynja og skilja nauð- syn þess að hreyfing gerir alla hæfari til starfa. Spurt og svarað um líkamsrækt og heilbrigði í tilefni af trimmdeginum, hefur Jóhannes Sæmundsson fræðslu- fulltrúi ÍSÍ tekið saman spurningar og svör varðandi líkamsrækt og heilbrigði. Er það fróðleg lesning og fer hér á eftir með leyfi trimm- dagsnefndar ÍSÍ: Sp: Hvaða áhrif hefur lík- amsþjálfun á heilbrigði? Svar: Heilbrigði felst ekki ein- ungis í því að vera laus við sjúkdóma heldur einnig að menn séu vel á sig komnir líkamlega og andlega. Reglubundin lík- amsrækt bætir og viðheldjir lík- amlegu og andlegu atgervi og er einn af hornsteinum góðs heilsu- fars. — Góð líkamsþjálfun stuðlar að andlegu heilbrigði og auð- veldar fólki að mæta stressi daglegs lífs. — Líkamsþjálfun getur dregið úr of háum blóðþrýstingí, og komið í veg fyrir of háan blóðþrýsting. — Líkamsþjálfun styrkir hjart- að. Við þjálfun eykst dælu- hæfni hjartans. Það sést á því að púls lækkar í hvíld og við áreynslu. — Súrefnisflutningur til hjart- ans eykst vegna þess að þjálf- un hefur áhrif á kransæðar hjartans. — Við líkamsþjálfun dregur úr meltingartruflunum. — Fituforði líkamans minnkar við líkamsþjálfun. — Blóðrás, súrefnisflutningur og efnaskipti batna. Kraftur og þol aukast. — Unnt er að draga úr líkum á því að menn verði bakveikir með því að gera æfingar fyrir kvið- og bakvöðva. — Bein, sinar og liðbrjósk styrkjast við líkamsþjálfun. — Reglubundin líkamsþjálfun ásamt réttu mataræði kemur í veg fyrir offitu. — Reglubundin líkamsþjálfun viðheldur starfsþreki og get- ur komið í veg fyrir óeðlilega snemmbær öldrunarein- kenni. Sp: Þurfa trimmarar að fara í læknisskoðun áður en þeir hefja æfingar? Svar: Þeir sem eru mjög feitir, eða með of háan blóðþrýsting eða hjartatruflanir eiga að leita ráða hjá lækni áður en þeir hefja líkamsæfingar. Sama gildir um þá sem eru í einhverjum vafa um heilsufar sitt. Langflestir geta stundað líkamsþjálfun án þess að fara í læknisskoðun fyrst. í raun mætti aiveg eins snúa spurningunni við og spyrja hvort ekki ætti alveg eins að fara í læknisskoðun og fá leyfi hjá lækni ef fólk ætlar að lifa kyrr- setulífi. Sp: Ég er nokkrum kílóum of þung(ur) og hef ekki lagt í að byrja að trimma vegna þess að mér hef- ur verið sagt að ég þurfi að ganga tugi kílómetra til að brenna 1 kg af líkamsfitu. Er þetta rétt? Svar: Líkamsþyngd er háð þeim fjölda hitaeininga, sem við lát- um í okkur og þeim hitaeining- um, sem við brennum. Ef við brennum færri hitaeiningum en við tökum inn fitnum við. Það er einungis hægt að halda í við sig í mat að vissu marki. Mörgum líð- ur illa á matarkúrum er inni- halda færri en 1200 hitaeiningar. Kyrrseta hefur þau neikvæðu áhrif að hún dregur úr „bruna" á hitaeiningum, sérstaklega á þeim hitaeiningum er við fáum úr líkamsfitunni. í líkamanum eru svokallaðir hvatar er taka þátt í að brjóta fæðuna niður bæði til orkugjafar og líkaman- um til viðhalds. Við langvarandi kyrrsetu dregur úr framleiðslu iíkamans á fitubrennandi hvöt- um, sem veldur því að við brenn- um ekki fitunni heldur kolvetn- um. Kolvetnisforði líkamans endist einungis skamma stund, 1— Vfe klst., og þess vegna þarf stöðugt að vera að endurnýja hann. Fituforðinn endist aftur á móti í marga daga og vikur. Þetta er ástæðan fyrir því að margt kyrrsetufólk, sem er of feitt, verður fljótlega svangt þótt það sé nýbúið að borða. Fit- an og hreyfingarleysið er víta- hringur sem ekki er unnt að brjótast út úr nema með því að minnka við sig mat og auka hreyfingu. Sp: Er öll líkamsþjálfun jafn góö? Svar: Öll skynsamlega stunduð líkamsþjálfun er til bóta. Mikil- vægast er þó að gera æfingar er reyna á blóðrásar- og öndunar- kerfið í nokkurn tíma. Með því er átt við t.d. göngur, skokk og hlaup, sund, skíðagöngu, hjól- reiðar og knattleiki. Sp: Hve oft á viku þarf ég að trimma til að hafa áhrif á blóðrás- ar- og öndunarkerfið? Svar: Til að viðhalda núverandi ástandi þarf að reyna á sig a.m.k. 1 sinni í viku. Til þess að um framfarir verði að ræða, þarf að trimma 2—3 sinnum á viku. Sp: Hve lengi á ég að reyna á mig í einu? Svar: Svarið við því fer eftir því hvernig hver og einn er á sig kominn og einnig eftir aldri. Að- alatriðið er að byrja rólega og ætla sér að sjá framfarir á löng- um tíma. Þeir sem ekki hafa reynt á sig lengi ættu að byrja á því að ganga eða synda í 4—10 mín., til að byrja með. Síðan á að bæta við tímann eftir þvi sem þolið eykst. 12—15 mínútna stöðug áreynsla 3 sinnum í viku er álitin hæfileg til þess að þol- þjálfun hafi áhrif á hjartað, æðakerfið og efnaskipti líkam- ans. Sp: Hve mikið þarf ég að reyna á mig í hvert skipti? Svar: Þeir, sem eru mjög þollitlir geta bætt þol sitt og þá um leið styrkt hjarta sitt með því að ganga hressilega í 10—12 mín., 2—3 sinnum á viku. Þegar þolið eykst má nota hjartsláttinn sem viðmiðun. Almenna reglan er 200 + tvöfaldur aldur, sem er það mesta sem hjartað á að slá. 200 + tvöfaldur aldur eru neðri mörk- in. Ef hjartslátturinn fer niður fyrir eða upp fyrir þessi mörk er þjálfunin ekki jafn áhrifamikil. Dæmi: Efri mörk á hjartslætti þrítugs manns eru samkvæmt formúlunni 170 sl/mín., og neðri mörk 140 sl/mín. Reyni þessi einstaklingur á sig í 12—15 mín. 3 sinnum á viku þannig að hjartsláttur hans fari ekki yfir 170 sl/mín., og ekki undir 140 sl/mín., mun þjálfunin hafa bætandi áhrif á starfsemi hjartans, lungna, æðakerfis og efnaskipti líkamans. Til að ganga úr skugga um þetta á að taka púlsinn í 10 sek. og margfalda með 6. Önnur og einfaldari viðmiðun er að hafa þá reglu að áreynslan verði aldrei meiri en svo að menn geti talað saman meðan þeir þjálfa sig eða að maður geti talað upphátt við sjálfan sig meðan áreynslan varir. Sp: Ég sit við vinnu mína allan daginn. Samt sem áður finnst mér ég vera þreytt allan daginn. Myndi það hjálpa mér ef ég trimmaði? Svar: Það geta verið margar ástæður fyrir langvinnri þreytu, líkamlegar og andlegar, sem þurfa læknismeðhöndlunar við. En þeirri algengu þreytu og sleni sem margir finna fyrir þótt þeir reyni lítið sem ekkert á sig, er hægt að vinna bug á með því að trimma. Þótt það þurfi oft tölu- vert viljaátak til að koma sér af stað muntu fljótt finna að besta leiðin til að vinna gegn venju- legu sleni og þreytu er að fara í góða gönguferð, synda, skokka eða gera eitthvað annað, sem fær mann til að svitna svolitið. Með því að leggja stund á íþrótt eða líkamsæfingar sem henta aðstæðum þínum og aldri, og stunda æfingarnar reglulega, mun þér líða betur. Þú munt líta betur út, vöðvar þínir styrkjast og þér mun finnast þú hafa meiri krafta til allra hluta. Því má bæta við að læknisfræðilegar rannsóknir benda til að þeim sem reyna reglubundið á sig sé síður hætt við hjartaáföllum en kyrrsetufólki. Og ef fólk verður fyrir hjartaáfalli eru meiri líkur á að „trimmarinn" hafi það af. Sp: Ég er að hugsa að byrja æf- ingar til heilsubótar. Hvað er best fyrir mig að gera? Svar: Fólk á margra kosta völ sem betur fer. Menn geta æft sig á eigin spýtur farið í heilsurækt- arstöðvar, sundlaugar, í leik- fimihópa og fl. Eins og áður sagði er mikilvægast að reyna á hjartað þannig að það slái hrað- ar en í hvíld í nokkurn tíma. Því næst skiptir mestu máli að styrkja kvið- og bakvöðva, gera liðkandi æfingar fyrir liðamót og teygja á vöðvum. Sp: Ég er mjög önnum kafin(n) og hef ekki tíma til að stunda likams- rækt. Er til einhver pilla eða lyf sem ég get tekið til að auka hæfni mína í vinnunni og bæta útlitið. Svar: Það eru engin önnur lyf til en trimm, til að bæta vinnuaf- köst sín til langs tíma. Meðan fólk er ungt finnur það e.t.v. ekki sterka þörf til að stunda reglu- bundið trimm, en staðreyndin er að þeir, sem hirða ekki líkama sinn eldast fyrr en ella. Þeim tíma er vel varið sem notaður er til líkamsræktar, því hann mun skila sér í betri líðan og auknum vinnuafköstum. Mannslíkaminn er ólíkur vélurn á þann veg að vélar sem eru mikið notaðar slitna og ganga úr sér, en líkami sem ekki er reynt hæfilega á hrörnar og slitnar fyrr en ef hann fær hæfilega áreynslu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.