Morgunblaðið - 14.08.1982, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 14.08.1982, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 14. ÁGÚST 1982 15 Verðbólga og annarvandi Bókmenntir Solveig á Ekkjufelli — Afmæliskveðja Guðmundur Heiöar Frímannsson Út úr vítahringnum llofundur: Kyjólfur Konráð Jónsson lleimdallur, 1982 Verðbólgan er eins og myrkra- höfðinginn: hún býr í hvers manns húsi rétt eins og Drottinn og djöf- ullinn, gott og illt dvelja í hvers manns hjarta. Því er líka þannig farið með verðbólguna, að allir tala illa um hana, en fæstir gera nokkuð til að losna við hana, eins og öllum er illa við myrkrahöfð- ingjann, en enginn vill í rauninni ganga á milli bols og höfuðs á hon- um. Og efnahagsmál eru orðin guðspjöll samtímans. Samt er það svo, að til eru menn, sem raun- verulega vilja kveða verðbólguna niður, telja sig hafa ráðin, sem duga, og leitast við að sannfæra aðra, að það sé þess virði að ráðast að henni. Eyjólfur Konráð Jóns- son er slíkur maður. Eyjólfur hefur verið einn helzti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum og hefur barizt af miklum ákafa fyrir því, að til ein- dreginna aðgerða yrði gripið gegn verðbólgunni. Hann hefiír skrifað fjölda blaðagreina um vanda efna- hagslífsins, haldið ræður og flutt erindi. Eins og við er að búast, þá fara skoðanir Eyjólfs Konráðs að verulegu leyti saman við skoðanir Sjálfstæðisflokksins, en þó ekki að öllu leyti. Það er því vel til fundið hjá Heimdalli að safna saman í bók ræðum og ritgerðum Eyjólfs Konráðs um efnahagsmál. Það er fróðlegt að fá yfirsýn yfir skoðan- ir og tillögur hans. Árni Sigfússon, formaður Heimdallar, lýsir tilgangi ritsins svo i formála: „Safnað hefur verið saman greinum Eyjólfs, fram til þessa dags, auk þess sem umfjöll- un og rökræður hagfræðinga um tillögur hans eru einnig birtar. Af lestri þessa rits vona ég að ljóst sé, að hugmyndir Eyjólfs eru hug- myndir meginþorra sjálfstæð- ismanna enda er þingflokkur sjálfstæðismanna virkur þátttak- andi í tillögugerð hans. Gjörbreytt stefna hefur verið mótuð í efna- hags- og atvinnumálum og henni ber að fylgja fram til sigurs. Hér er að finna þá uppsprettu hug- mynda og orku, sem breytt getur ófremdarástandi því sem í þjóðfé- lagi okkar ríkir." Það er ástæða til að huga ögn nánar að aðalatriðum þessara hugmynda. Það, sem sætir mestum tíðind- um í þessum tillögum er það, sem í þessari bók nefnist patentlausn- in. Það er hugmynd, sem Eyjólfur setti fram fyrir nokkrum árum um röð aðgerða til að draga úr verðbólgu með skjótum hætti. Hugmyndin er rökrétt niðurstaða af reynslu síðasta áratugar, að samráð við launþegafélög og seinvirkar aðgerðir duga alls ekki gegn verðbólgunni. Aðalatriðin í henni eru þau, að draga úr skatt- heimtu mjög verulega, svo að vöruverð lækki, sem kemur aftur í veg fyrir vísitöluhækkanir. Til að mæta niðurskurði skattheimtu, þarf að lækka ríkisútgjöld. En þangað til sú lækkun kemur til framkvæmda, á að fjármagna halla ríkissjóðs með útgáfu ríkis- skuldabréfa til almennings. Nægi- legt fé ætti að vera almenningi handbært vegna sparnaðar, sem væri afleiðing minni verðbólgu og nýrrar vaxtastefnu. Það blasir við af þessari lýsingu, að vextir hljóta að verða jákvæðir, ef þeir eiga að auka sparnað. En þetta atriði var ekki ljóst af grein- um Eyjólfs. Eins og Árni Sigfús- son getur um, þá eru greinar í þessari bók um tillögur Eyjólfs eftir þrjá hagfræðinga: Jónas H. Haralz, Friðrik Friðriksson og Ólaf ísleifsson. Það kemur fram hjá þeim sá misskilningur, að Eyj- ólfur vilji lækka vexti frá því, sem nú er, án tillits til verðbólgu til að bæta hag fyrirtækjanna. Þetta þýðir einfaldlega útsölu á lánsfé. Það, sem Eyjólfur vildi sagt hafa, eins og kemur í ljós, þegar hann svarar Jónasi, var að vextir skyldu vera jákvæðir og þar með tæki til að vinna gegn verðbólgu. „Krata- vextirnir hins vegar áttu ekki að vera eilítið jákvæðir, heldur var lögfest að vextir skyldu ekki vera jákvæðir um langt skeið. Það gagnrýndi ég.“ (bls. 90.) Það er eitt og annað, sem efast má um í þessum tillögum Eyjólfs. Ólafur ísleifsson nefnir, að þessar aðgerðir hafi varanleg áhrif á verðbólguna. Annað er að þær standist reikningslega. Eyjólfur neitar þessu seinna atriði og vísar þá til áætlunar, sem birt er aftast í bókinni um alhliða atvinnuupp- byggingu og varanlegar aðgerðir til verðhjöðnunar, en hún gerir ráð fyrir, að koma megi verðbólgu niður í 12% á einu ári með þeim aðgerðum, sem stungið er upp á, miðað við aðstæður í upphafi árs 1981. En það er rétt að benda á, að í þessari áætlun er það skýrt tekið fram, að „erfiðleikar séu því sam- fara að spá um áhrif umræddra aðgerða á efnahagslíf". (bls. 164.) Og: „Erfitt er að leggja tölulegt mat á hversu mikla verðhjöðnun frjáls verðmyndun og aukin sam- keppni mundi hafa í för með sér. Gert er ráð fyrir, að kostnaðar- hækkanir valdi óverulegum verð- lagshækkunum vegna skattalækk- ana, aukinnar framleiðslu og hag- kvæmari innkaupa." (bls. 165.) En þetta eru nokkuð stórir óvissu- þættir, og hætt er við að reikn- ingsdæmin verði næstum mark- laus. En hinu verður ekki á móti mælt, að efnahagsaðgerðir í svip- aða veru og Eyjólfur leggur til eru óhjákvæmilegar, ef ætlunin er að bæta fjármálalífið í landinu. Eyjólfur Konráð er stjórnmála- maður fyrst og fremst og bókin ber merki þess. Hann fjallar um viðfangsefni sín frá sjónarhóli þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta þarf ekki að vera galli, en takmarkar nokkuð umfjöllun við- fangsefnanna. Helzta orsök verð- bólgunnar er vinstri ofstjórn og ofsköttun á áttunda áratugnum, upplausnaráratugnum. Hann tal- ar af skilnings- og skeytingarleysi um stjórn peningamagns og óhóf- lega aukningu þess sem helztu orsök verðbólgu. Hún er þó sízt ólíklegri skýring á verðbólgu en sú, sem Eyjólfur setur fram. Eyj- ólfur lýsir vonbrigðum sínum með svartsýni Jónasar H. Haralz á, að unnt verði „á næstunni að kljást með árangri við verðbólgudraug- inn“, þegar hann svarar Jónasi og vísar þá til bókarinnar Velferðar- ríki á villigötum. En hann hefði mátt leiða hugann að skýringu Jónasar á verðbólgu, að hún stafi af því, að ólíkar einingar samfé- lagsins setji sér markmið, sem at- vinnulífið geti ekki staðið undir og stjórnvöld ekki samræmt öðrum markmiðum, og knýi fram vilja sinn með því valdi, sem þær hafa í krafti tiltekinna réttinda. Verð- bólga verður eina leiðin til að samræma markmiðin. í raun jafn- gildir hún óopinberu borgara- stríði. Ef koma á í veg fyrir verð- bólgu, þurfa þessar einingar sam- félagsins, einstaklingar, fyrirtæki, samtök, að sýna sjálfstjórn. í ljósi þessa verður bölsýni Jónasar skiljanleg og raunar eðlileg. Eyj- ólfur Konráð hefði gjarnan mátt gleyma stjórnmálaerjunum um stund og huga að öðrum skýring- um á verðbólgu en sinni. í þessari bók kemur fram ágæt yfirsýn yfir fjármálakerfið í land- inu og skilningur á því, að stofnun á borð við Framkvæmdastofnun ríkisins setur það allt á skjön. Eyjólfur er prýðilega ritfær. Ef hann er borinn saman við for- stjóra SIS, Erlend Einarsson, sem á stuttan kafla í þessari bók, þá er hann afburðamaður. Þó koma fyrir setningar eins og þessi: „Á Sauðárkróki og á Blönduósi eru öflug kaupfélög, sem sinna verzl- unar- og þjónustustörfum fyrir þessi blómlegu landbúnaðarhér- uð.“ (bls. 110—111.) Ég vissi ekki fyrr, að Sauðárkrókur og Blönduós væru landbúnaðarhéruð. í allri bókinni má glöggt finna óþol athafnamannsins, löngun hans til að koma einhverju í verk. Þótt menn vilji ugglaust gera ein- hvern ágreining við Eyjólf Konráð um úrræðin gegn verðbólgunni, þá held ég, að flestir frjálslyndir menn í landinu voni, að hann og aðrir af líku tæi fái tækifæri á næstunni til að svala óþoli sínu, stjórna landinu. Þá er að minnsta kosti ástæða til að standast þá freistingu að trúa bölsýninni. Heimdallur á þakkir skildar fyrir það góða framtak að gefa þessa bók út. Guðmundur Heiðar Frímannsson Vel flestir Héraðsbúar þekkja Solveigu á Ekkjufelli. í rúmlega hálfa öld skipaði hún sess hús- freyjunnar á því fjölmenna og glaðværa heimili og hafði víst oftlega meira en nóg að starfa innan húss sem utan. Ekkjufell hefur löngum verið í þjóðbraut á Héraði og margir átt þangað er- indin, stór eða smá. Gestir voru fjölskyldunni á Ekkjufelli jafnan mikil aufúsa og þeim fagnað af hlýhug og einlægni — gestkom- andi á einum degi á þeim bæ fylltu stundum tuginn, stundum tvo tugi. Allir, sem að garði bar, voru boðnir velkomnir og vel gert til þeirra allra. Börnin sín fimm ólu þau Solveig og Brynjólfur upp af kostgæfni; þau börn nutu í uppvexti og æ síð- an hinnar meðfæddu elskusemi móðurinnar, uppkomin gerðust þau öll nýtir þegnar. Hartnær þrjátíu sumarbörn dvöldust í skjóli húsfreyjunnar á Ekkjufelli um lengri eða skemmri tíma, nutu umhyggju hennar og hlutu hóg: væra tilsögn um rétta lífsháttu. í kringum Solveigu á Ekkjufelli hefur alltaf verið mikið líf og starf, og mest allra vann hún jafn- an sjálf, gjörhugul og sívakandi yfir velferð heimilisins. Hún er hinn gjafmildi veitandi, hógvær og hæglát; óþreytandi eru hend- urnar að starfi við að hlúa að lífi í kring, sá til hins góða í innrætinu, treysta og vernda hið smáa í upp- vexti. Hvergi er að finna óðagot í hennar fari, allt viðmótið ber vott um innri ró, göfgi og óvenjulegan sjálfsaga. Hún hefur innt af hendi Mfsstarf íslenzkrar húsfreyju á stórbýli — það er hljóðlátt, óþrjótandi starf, sem heldur öllu á bænum við lýði, kveikir hamingju fjölskyldunnar og veitir lífsfyll- ingu — skapar virðingu okkar hinna, sem notið höfum ávaxta erfiðisins. Soiveig er fædd á Fossvöllum 14. ágúst 1902. Hún er næst yngst átta barna þeirra hjóna Guðrúnar Björnsdóttur, Sæmundssonar frá Ekkjufelli og Jóns Hnefils Jóns- sonar, sem í báðar ættir var kynj- aður úr Skaftafellssýslum. Al- systkini Solveigar eru Björn, Að- albjörg, Aðalsteinn, Helgi, Guð- mundur, Sigurbjörg og Jóna — af þeim systkinum hennar eru á lífi þau Aðalsteinn á Vaðbrekku og Jóna í Ekkjufellsseli. Hálfbræður Solveigar, samfeðra, voru þeir Jón á Hvanná og Stefán í Purkugerði. Jón Hnefill féll frá aðeins 55 ára að aldri og var það mikið reiðar- slag fyrir þessa barnmörgu fjöl- skyldu. Solveig var þá innan við eins árs aldur, en Jóna enn ófædd. Guðrún á Fossvöllum lét þó ekki hugfallast, hún sýndi mikla hetju- lund á þeim ótrúlega erfiðu tímum og kom upp öllum sínum stóra barnahópi. Stefán, stjúpsonur hennar, reyndist henni stoð og stytta á þeim árum. Guðrún á Fossvöllum var dugmikil kona og úrræðagóð; hún var annáluð fyrir hjartagæzku sína og mikla mannkosti. Ekkert mátti hún aumt sjá og þótti sjálfsagt að miðla öðrum því, sem hún frekast gat. Solveig má ennþá muna, þeg- ar móðir hennar sendi hana stundum eina, smástelpuna, yfir í Blöndugerði með mjólk og annað viðmeti handa bágstaddri fjöl- skyldu með stóran barnahóp. Frá Fossvöllum til Blöndugerðis er yf- ir eitt ógnvænlegasta vatnsfall á öllu íslandi að fara, Jökulsá á Dal. Gljúfrið er hið skuggalegasta, tugi faðma á dýpt, og frumstæð trébrú- in á þeim tímum vart árennileg yfirferðar fyrir lítið stúlkubarn. Börn Guðrúnar og Jóns Hnefils tóku öll í arf þrek og þor eftir foreldra sína, veglyndi og trúmennsku við skyldur sínar í líf- inu. Solveig giftist ung, Brynjólfi Sigbjörnssyni á Ekkjufelli, og þar bjuggu þau hjónin í 54 ár — fyrstu tvo áratugina í félagsbúi við Margréti Sigurðardóttur og Sig- björn Björnsson, tengdaforeldra Solveigar, og um skeið bjuggu þau Kristín Sigbjörnsdóttir og Eiríkur Sigurðsson einnig í félagi við þau á Ekkjufelli. Á búskaparárum þeirra Solveig- ar og Brynjólfs hélt tæknivæðing- in í landbúnaði innreið sína um allt ísland, olli að lokum byltingu í búskaparháttum og breytti þrotlausu striti margra handa á hverjum bæ í öllu hægari starfa. En þrátt fyrir tilkomu allra þess- ara véla, hélt búkonan þó jafnan um sláttinn út á tún til þess að raka m.a. dreifina, bjarga einu ¥ * ærfóðri eða tveimur í hlöðu. Allt fram undir áttrætt hefur hún oftast verið umsvifamest allra með hrífuna, verið flestum verka- drýgri í flekknum sem og annars staðar. Það grær undan hollri hendi: Hennar störfum hefur fylgt bless- un bæði innan heimilis sem utan. Forna bæjarstæðið á Ekkjufelli prýðir nú skjólsæll garður með mörgum vænum trjám, sem Sol- veig húsfreyja hefur plantað. Niðri á Freysnesi er stór og vöxtu- legur trjálundur sem eins er henn- ar verk og hennar nánustu. Eftir lát Brynjólfs í maí 1979, brá Solveig búi og fluttist stutta bæjarleið til Sigrúnar, dóttur sinnar, og Sigurjóns Gíslasonar, tengdasonar síns, í Fellabæ við Lagarfljót — þéttbýlið þar stend- ur á landi, sem frá fornu fari var innan landamerkja Ekkjufells. Solveig gerði ekki ýkja víðreist. Ung að árum fór hún til mennta í Kvennaskólann í Reykjavík hjá fröken Ingibjörgu H. Bjarnason; það var fyrir margt löngu. Þann eiginleika að vera sjálfri sér nóg og hamingju sína flutti hún svo með sér frá Fossvöllum þessa til- tölulega stuttu leið til Ekkjufells og miðlaði síðan öðrum. Sú ham- ingja hefur reynzt henni nota- drjúg og ærið mörgum öðrum. í dag munu fjölmargir ættingj- ar og góðir vinir koma á hennar fund til að samfagna henni á átt- ræðisafmælinu. Kyrir allt gott viA mig og mína megnar víst ekki, þesNÍ lína þér verdskuldaAa þökk ad tjá, því ár og dag og allar stundir okkar þá bera saman fundir trj|gé þín við mig er söm að sjá. (Páll Ólafsson) Lifðu heil, Solveig, Guðs blessun fylgi þér. Halldór Vilhjálmsson Út úr vítahringnum berja verðbólguna niður Eyjólfur Konráð Jónsson vill ráða niðurlögum verðbólgunnar á skömmum tíma.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.