Morgunblaðið - 22.08.1982, Blaðsíða 42

Morgunblaðið - 22.08.1982, Blaðsíða 42
42 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 22. ÁGÚST 1982 Á fjölunum Róbert Arnfinnsson Róbert var úti í garði þegar ég kom að tala við hann. Stórum og fallejíum garði. Hann var að klippa niður trjásprota í rólegheitunum. Það var heitt í veðri og ung dótturdótt- ir hans var að hjálpa honum. Hann klippir sprotana niður í ílát og setur þá í kassa og lætur þá rotna þangað til þeir verða að mold. Það tekur þrjú ár. Róbert er ekkert að flýta sér. Sjáðu til, segir hann. Engar jarðarleifar fara úr garðinum, og bendir á gróðurinn. Állt fer í safnhauginn. Hann nýti ég til fulls. Moldinni sem verður úr þessum sprotum dreifi ég um garðinn. Það er fyrirtaksmold. Kvista og stærri greinar brenni ég og læt síðan öskuna í safnhauginn. Þannig bý ég til örlitla hringrás í garðinum mínum. Og um hann löbbum við og Róbert segir að flestar hans frístundir fari í garð- inn. Eigum við ekki að setjast hér, segir hann svo og bendir á svolitla verönd með borðum og stólum. Ómögulegt að vera inni í svona góðu veðri. Þú lærðir leiklist í Kaupmanna- höfn, var það ekki? Jú, að hluta til. Ég ætlaði ... Mér var í raun ætlað að verða allt annað en leikari. Faðir minn var skólamaður og pólitíkus og hann hafði hugsað sér að ég gengi ein- hverja þá braut, sem hann hafði gengið. I mínum uppvexti var ég svo flæktur í pólitíkinni, og þá þeirri vinstri, því pabbi var gam- all kommúnisti, að ég fékk ógeð á heila draslinu. Og kannski ekki síst fyrrnefndri tegund pólitíkur. Þannig fór allt á annan veg en ætlað var. Ég var lengi bendlaður við músík þegar ég var ungur og var kannski jafnvel að spekúlera í að leggja hana fyrir mig. Það var meira hending sem olli því að ég valdi þetta starf. Að leika. Það munaði engu að ég yrði loftskeyta- maður. Kunningi minn einn og skólabróðir og ég ætluðum í loftskeytaskóla. Hvað hann og gerði en ég lenti í veikindum og missti tækifærið. Og þar sem skóli þessi var ekki starfræktur nema á tveggja, held ég, eða þriggja ára fresti, varð ég að hugsa mig um hvað ég ætti að gera þangað til skólinn innritaði aftur. Og sem ég var að brjóta heilann um þetta allt rölti ég til hans Lár- usar Pálssonar leikara, en hann var með leiklistarskóla á þessum árum. Honum hafði ég kynnst lít- illega áður í sambandi við skemmtuií, sem hann tróð upp á og ég lenti í að spila undir með honum. Ég spurði hann að því hvort hann gæti nú ekki hýst mig til bráðabirgða í skólanum sínum. Það var velkomið. Það má kannski segja að ég sé enn til bráðabirgða. Þannig hefur þú kvnnst Lárusi? Já. Síðar urðum við sam- starfsmenn. Alveg frá því Þjóð- leikhúsið var stofnað 1950. Við unnum mikið saman. Þeir voru skemmtilegir þessir gömlu. Ég segi gömlu, því þeir voru gamlir í okkar augum, sem vorum að byrja á þessum árum, rétt eins og að nú erum við gamlir fyrir þeim sem eru að byrja. En við mátum þessa menn mikils, Lárus, Indriða, Har- ald, Brynjólf og fleiri. Við lærðum mikið af þeim og ég heid líka að við höfum alla tíð sýnt þessum eldri og reyndari mönnum verð- skuldaða virðingu. Valur Gíslason er einn af þeim, sem enn eru starf- andi og hefur leiðbeint og liðsinnt mörgum á þessari braut. Ég veit ekki til þess að hann hafi slegið feilpúst í því nokkurn tíma. Hann átti stóran þátt í að kenna mér að skilja hvað það er að leika og lifa í leikhúsi. Maður fór í þetta án þess að vita nokkurn skapaðan hlut í faginu, en svo kom Valur. Ég held að hann, þrátt fyrir að hann er yfir áttrætt, sé einn af yngri leik- urunum hvað snertir andlegt og líkamlegt atgervi. Hann miðlaði mér og mínum kollegum, sem þá voru að byrja, af þeirri þekkingu og skilningi á þessu starfi, sem maður átti svo oft eftir að sjá hvað var ómetanlegt. Það eru slík- ir menn, sem eru leikhúsunum og leikurunum svo mikils virði. Og sérstaklega þeim, sem kæra sig um að læra af þeim og taka þá sér til fyrirmyndar. En nú eru sumir leikarar farnir að koma svo sprenglærðir af skólabekknum að þeir virðast ekki geta bætt við þekkingu sína. Ekki endilega þar með sagt að það sýni sig í praksís. En það er fullt af ungum leikur- um, sem eru virkilega efnilegir og gaman er að fylgjast með. Margir segja að leikari sé ekki listamaður, heldur túlki hann aðeins það sem höfundurinn er að segja. Ilvað finnst þér? Þetta fer mikið eftir því hvaða merkingu og skilning fólk leggur í orðið listamaður. Ég held að mað- ur, sem á einhvern hátt er bund- inn eða játast undir einhverja listgrein, verði að kallast lista- maður. Síðan er það náttúrulega mat hvers og eins hversu mikill listamaður viðkomandi er. Leik- listin er bæði túlkandi list og skapandi. Ef hún væri ekkert nema túlkandi list hefði hún ekk- ert framyfir það, sem maður les úr bók. Ef leikaranum tekst að gæða þá persónu, sem liggur í bók- menntunum, lífi svo hún verði trú- verðug manneskja af holdi og blóði og þú getur trúað að hún sé raunveruleg, þá ert þú orðinn skapandi um leið. Og það á ekkert skylt við eftirhermur. Kn er fólk ekki alltaf að leika? Hvort menn eru að leika eða hvort menn eru að leika. Sumir vilja halda því fram að þeir, sem eru að gera sig til hvort sem er í daglega lífinu eða hvernig sem er, séu alltaf að leika. En leikarinn segir: að leika, það er að vera. Það mætti allt eins nota orðið verandi eins og leikari. Hann er svo sem ekkert frábrugðinn manneskjunni á götunni. Það er bara ekki ætlast til þess að maður sem gengur á gangstéttinni þurfi að sannfæra þig um að hann sé annað en hann er. Leikari á að geta sannfært þig um að hann sé hvað sem er og ekki síst hann sjálfur. í rauninni hefur leikari ekki möguleika á að seilast í aðra en sjálfan sig til að fram- kalla þá persónu, sem hann er hverju sinni. Það er eins og að Ieika á hörpu, þar sem allir eðlis- þættir sem búa í manninum sjálf- um eru strengirnir sem hann leik- ur á og ef hann er að túlka mann- eskju, sem er með einhver sérstök einkenni, verður hann að sækja það í sjálfan sig því hann hefur ekki í önnur hús að venda. Ef hann sækir það ekki í sjálfan sig er hann kominn út í allt annað, sem er eftirhermur. Ég spurði þig áðan út í Kaup- mannahöfn. Það var erfitt að vera íslending- ur á þeim tíma, sem ég var þar að læra. Ég fór þangað með fyrstu ferðum eftir að stríðinu lauk. Ég fékk inni hjá konunglega leikskól- anum fyrir hreina náð og miskunn og góð orð Lárusar Pálssonar. Það var vegna þess að árið áður höfðu farið fram sambandsslit við Dani og þeir voru ekkert ægilega ánægðir með það í skólanum að hafa mann, sem var frá landi, sem rofið hafði sambandið við kon- ungsríkið Danmörk. Enda sagði skólastjórinn við mig nánast á hverjum morgni: Hvað eru Islend- ingar að gera hér. Geta þeir ekki lært þetta heima hjá sér. Bekkur- inn, sem ég var í, skiptist í tvennt í afstöðu sinni til Islendingsins. Það var ekkert uppörvandi fyrir 20 ára strákling að vera minntur á pólitíska millilandaþrætu dag eft- ir dag, en ég held ég hafi nú samt lært eitthvað í þessum skóla. Ég hef fyrir löngu fyrirgefið skóla- stjóranum, enda er hann nú dauð- ur. Svo var það seinna að þú fórst til Þýskalands og gerðir þar góða lukku. Það hafði lengi verið búið að ýja að því við mig hvort ég vildi ekki fara til Þýskalands að leika. í kringum 1960 fékk ég tilboð um að koma til Rostock í Austur-Þýska- landi. Jón Laxdal leikari var þar á þeim tíma og hann sagði leikhús- stjóra nokkrum af mér, sem skrif- aði hingað heim og bauð mér árs- samning í Rostock. Ég velti þessu boði lengi fyrir mér en af því að það vildi svo andstyggilega til að bærinn var austan við línuna þá ákvað ég að fara hvergi. Enda fannst mér þetta allt saman held- ur ótryggt. Það fór líka svo að Jón Laxdal varð að flýja vestur yfir. Ég hefði ekki nennt að standa í svoleiðis ævintýrum. Svo liðu árin og seinna meir kynntist ég leikstjóra, sem kom hingað upp til íslands að setja upp Faust eftir Goethe í Þjóðleikhús- inu. Um svipað leyti og ég var að leika Mefistofeles í Faust var ég að leika í söngleik, sem heitir Zorba. Karl Vibach leikstjóri var þá með á prjónunum að setja upp Zorba í sínu heimalandi og hann bað mig að koma og leika í upp- færslu sinni. Þannig gerðist það að ég var með annan fótinn í Þýskalandi og hinn á íslandi allt frá 1970 til 1975. Og það var ákaf- lega gaman. Ég vildi ekki flytja mig héðan fyrir fullt og fast og mér þótti það gott að geta verið hálfan ráðningartímann í Þýska- landi og hálfan hér á Islandi. Það þótti leikhússtjórunum í Þýska- landi hins vegar ekki svo gott því þeir þurftu að leggja sín plön langt fram í tímann og vildu fá ákveðin og greinargóð svör í sam- bandi við ráðningu og annað. En ég vildi aldrei flytja þangað út fyrir fullt og allt. Áttu þér eitthvert uppáhalds leik- ritaskáld? Það er nú svo í þessu starfi að maður hrífst oft af því verki, sem maður er að vinna að hverju sinni, og það er ekkert annað sem skygg- ir á það. Nú er það Peter Shaffer, sem skrifaði Amadeus um tón- skáldin Salieri og Mozart, sem á hug minn allan. Shaffer er maður, sem ég hafði í rauninni sáralítið af að segja. Hafði einhverntíma leikið lítið hlutverk í verki eftir hann í leikferð um landið. Svo fóru að koma stórverk úr penna þessa manns, verk einsog Ama- deus, sem ég held að eigi eftir að hasla sér völl um ókomin ár í leikbókmenntum heimsins. Að fást við hlutverk eins og Salieris í Amadeus stendur manni nálægt þá stundina sem það stendur yfir en svo tekur annað við. Hver veit hvað maður segir eftir árið. Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik frá þvi þú færð hlutverkið fyrst upp í hendurnar? Til eru menn sem læra hlutverk sín utanbókar eins og páfagaukar. Hamra á textanum þangað til hann gengur inn í hausinn á þeim. Ég hef hvorki nennu né kunnáttu til að tileinka mér aðferðina. Ég vinn hægt en held ég megi segja örugglega. Það gerist á þann hátt að ég læt merkinguna eða það, sem höfundurinn vill segja með persónu sinni, síast inn í mig. Það er fyrst hugsanagangurinn sem ég tileinka mér. Orðin bíða. Þau koma á æfingum. Fyrst nota ég mín eigin orð til að túlka hugsun persónunnar þar til ég hef náð valdi á henni og ferli því sem hún hefur en þá fer ég að raða orðum höfundarins inn í hlutverkið. Og á meðan leikritið er á fjölunum er ég alltaf með það einhvers staðar í huganum. Það ónáðar mig ekki en ég veit af því. Svo þegar ég veit að verk er útgengið og ég þarf ekki að hugsa um það lengur er ég hreint ótrúlega fljótur að gleyma því. Margir leikarar eru hestamenn í frístundum sínum og utan þeirra nátlúrulega líka, segi ég. Þú hefur aldrei verið hestamaður? Nei, ekki nema þá hjólhesta- maður. Ég hef mikið gaman af að fara í hjólreiðatúra. Það er svona það næsta, sem ég hef komist hestamennskunni. Og svo ræktarðu garðinn þinn. Já. Það er skrítið í sambandi við garðinn. Þú veist að sagt er að blómin vaxi betur tali maður við þau. Jæja, það liggur við að maður sé farinn að tala eins mikið við maðkana. Og þar sem maður er kominn á efri árin er maður far- inn að segja við þá pá gensyn, seg- ir Róbert og hlær mikið. Rétt áður en ég kvaddi hann langaði mig að vita hvort hann myndi sitt fyrsta hlutverk. Ja, sagði hann, eitt af þeim fyrstu hlýtur að hafa verið í Vopnum guðanna eftir Davíð Stefánsson. Þar hljóp ég yfir vegg og sagði eina setningu: Drepum kónginn. — ai.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.