Morgunblaðið - 24.11.1982, Blaðsíða 42

Morgunblaðið - 24.11.1982, Blaðsíða 42
42 MORGUNBLAÐID, MIDVIKUDAGUR 24. NÓVEMBER 1982 Minning: Karl Guðmundsson frá Valshamri Fæddur 19. nóvember 1885 Dáinn 8. nóvember 1982 í dag er til moldar borinn, frá Fíladelfíukirkjunni í Reykjavík, Guðmundur Karl Guðmundsson frá Valshamri í Geiradal. Karl var fæddur árið 1885 í Arnkötludal í Strandasýslu. Foreldrar hans voru þau Guðmundur Sæmundsson, bóndi þar, og eiginkona hans, Guðbjörg Magnúsdóttir. Karl ólst upp í Arnkötludal í stórum systk- inahópi, en alls urðu þau nítjan og er Karl þeirra síðastur að kveðja þennan heim. Fjórtán ára gamall missti Karl móður sína og í kjöl- far þess var heimilið leyst upp. Eftir það var hann í vinnu- mennsku á ýmsum stöðum eins og þá var alsiða. Hann var í tvö ár á Tindum í Geiradal, hjá Magnúsi bónda Sigurðssyni, sem síðar bjó lengi á Kinnastöðum í Reykhóla- sveit. Þá fór Karl til Guðjóns bróður síns, og var hjá honum í vinnumennsku á hinum ýmsu stöðum í tíu ár. Eftir það var hann nokkur ár á Reykhólum hjá Há- koni Magnússyni bónda þar. Þá fór hann sem ráðsmaður að Haga á Barðaströnd til Hákonar alþing- ismanns Kristóferssonar og var þar í sex ár. Síðustu fjögur árin var hann oddviti hreppsins. Þann 28. desember 1925 gekk Karl að eiga Ingibjörgu Sumar- liðadóttur frá Borg í Reykhóla- sveit og bjuggu þau fyrstu ár hjú- skapar síns á Patreksfirði og í Borg. Vorið 1929 hófu þau búskap á Valshamri og bjuggu þar rausn- arbúi í fjörutíu ár. Af ótrúlegri eljusemi og dugnaði byggði Karl öll hús Valshamars og bjó sér og sínum myndarheimili. Karli bún- aðist vel, enda var hann annálaður fyrir þrek, karlmennsku og dugn- að. Gekk hann að hverju verki með ósérhlífni og atorku og á sinni löngu ævi féll honum aldrei verk úr hendi. Þegar litið er til baka sætir undrum hverju hægt er að áorka á einni mannsævi. Á Valshamri var gestkvæmt og til Karls á Valshamri kom enginn bónleiður til búðar, hann var hjartagóður og hrærðist til með- aumkunar með þeim sem bágt áttu og miðlaði þeim oft ein- hverju. Hann var glaðvær og góð- ur husbóndi og fjölskyldufaðir. Á búskaparárum sínum á Valshamri gegndi Karl ýmiskonar félags- málastörfum fyrir sveit sína og byggðarlag — var í hreppsnefnd, var ullarmatsmaður, forðagæslu- maður og endurskoðandi kaupfé- lagsreikninga. Honum var falið að sjá um útrýmingu fjárkláða í A-Barðastrandarsýslu og þurfti hann þá að ferðast um og skipa baðstjóra og líta eftir að lögboðn- ar baðanir á sauðfé væru fram- kvæmdar. Þetta var ábyrgðarmik- ill starfi og að sama skapi óvin- sæll, en Karli fórst þetta vel úr hendi. Karl var hraustmenni svo af bar, en þó átti mannkærleikur- inn stóran hlut í eðli hans og á Valshamri var fjórum gamal- mennum þjónað undir dauðann. Karl var ákveðin sjálfstæðis- maður og fylgdist gjörla með framvindu þjóðmála og hafði fast- mótaðar skoðanir á mönnum og málefnum. Allt fram á síðustu stund fylgdist hann með þjóð- málaumræðu og hafði á hraðbergi tilvitnanir í þingræður og málatil- búning á sviði stjórnmálanna. Eftir miðjan aldur vaknaði Karl til trúar og tók hann á móti Jesú Kristi sem persónulegum frelsara sínum og leiðtoga í lífinu. Aft- urhvarf hans var af einlægni og risti djúpt og hafði mótandi áhrif á allt hans líf og framgöngu. Karl tók staðfasta afstöðu með verki hvítasunnumanna á íslandi og lagði þar gjörva hönd á plóginn. Hann eignaðist marga og trygga vini úr systkinahópi hvítasunnu- hreyfingarinnar. Þar má nefna Guðmund Markússon trúboða, sem hann mat mikils og varð hon- um til mikillar blessunar, og aðra boðbera fagnaðarerindisins sem áttu ætíð griðastað á Valshamri. Á efri árum lagði Karl alla sína trú og traust á frelsara sinn Drottin Jesúm Krist, og ætíð er Guðsorð og bæn var höfð um hönd meyrnaði hjarta hans og andi. Síðustu fimmtán búskaparár Karls og Ingibjargar á Valshamri bjuggu dóttir þeirra, Sigríður, ásamt manni sínum, Rúti Oskars- syni, á móti þeim á hálfri jörðinni. Eftir að þau brugðu búi fluttust þau til Hafnarfjarðar og keyptu húsið að Strandgötu 35b og bjuggu þar í átta ár. Fluttust þau síðan til dóttur sinnar, Sigríðar, og tengda- sonar, Rúts Óskarssonar, á Sval- barð 12, Hafnarfirði. Þar hafa þau búið síðustu æviár Karls og notið einstakrar umhyggju og kærleika þannig að lengra verður vart kom- ist í þeim efnum. Hinn 30. marz 1978 var Karl sæmdur Riddarakrossi hinnar ís- lensku fálkaorðu fyrir félagsmála- störf. Karli og Ingibjörgu varð fimm barna auðið. Þau eru Guðmundur og tvíburabróðir hans, Loftur, sem dó tveggja daga gamall Guðmund- ur er vélstjóri við Laxárvirkjun í Þingeyjarsýslu og er hann kvænt- ur Erlu Sörladóttur og eiga þau fimm dætur; Jóhanna, ekkja Guð- na Guðmundssonar frá Hafnar- firði og eiga þau sjö börn; Guð- bjorg, gift Emil Hallfreðssyni frv. bónda á Stekkjarholti í Geiradal og eiga þau fjögur börn; og Sigríð- ur, gift Rúti Óskarssyni blikk- smíðameistara og eiga þau fimm syni. Persónuleg kynni mín af Karli spanna tíu síðustu æviár hans. Á þessum árum kynntist ég þeim eðlisþáttum hans sem hér að framan eru raktir. Þrek hans og heilsa entust fram á síðustu ár og í fari hans og framgöngu allri leyndi sér ekki að þar fór maður sem var vel af Guði gerður til anda, sálar og líkama. Frásagn- argleði hans var rík og kærleikur hans til náttúru og landsgæða þessa lands var mikill. Oft batt hann frásögn sína við sauðkind- ina, en hann átti ætíð gott fé og fór vel með. Samferðamönnum sínum hin síðustu ár var hann ekki byrði, heldur gleði og það er fjölskyldu hans þakkarefni að hafa fengið að hafa hann á meðal sín svo lengi, en Karl hefði orðið níutíu og sjö ára í vikunni sem hann lést. Nokkru fyrir andlát Karls átti ég með honum bænastund og þar ríkti trúarfullvissa um að hann væri reiðubúinn til sinnar hinstu ferðar. Ég trúi því að hann sé ei- lífum, algóðum Guði falinn og að heimferð hans hafi verið dýrðleg. Gunnar Þorsteinsson í dag verður mannvinurinn Karl frá Valshamri til grafar borinn og kvaddur hinstu kveðju af eigin- konu og afkomendum, skyldum og óskyldum vinum. Karl Guðmundsson var fæddur 19. nóvember 1885 að Armkötludal við Steingrímsfjörð í Stranda- sýslu. Þar ólst hann upp og dvaldi lengst af í þeirri sveit til tuttugu ára aldurs. Fluttist hann þá suður í Barðastrandarsýslu og gegndi þar ýmsum störfum þar til árið 1929, er hann hóf búskap á jörð- inni Valshamri í Geiradalshreppi og var þá þegar og æ síðan við jörð sína kenndur. Vinfengi Karls var engin tilvilj- un. Þar var byggt á þeim grunni er aldrei brást. Að sjálfsögðu eru foreldrar hans og stór hluti sam- ferðafólksins komið á undan hon- um undir ættjarðarsvörðinn og þar með aðdáendur barnsins, unglingsins og tvítugs fullhugans Karls Guðmundssonar. En blóma- skeið hans var langt og aðdáend- urnir endurnýjuðust. Minnist ég þar næst þess fólks sem var heimilisfólk með honum í Haga á Barðaströnd, þegar hann var þar ráðsmaður. Það eru for- eldrar mínir, sem höfðu þá nýlega sett saman bú og bjuggu þar í dyralofti, en faðir minn vinnu- maður hjá Hákoni. Til áréttingar vináttu þeirra við Karl, létu þau einn son sinn heita í höfuðið á honum. Þá eru það þeir Bjarni Ólafsson og Böðvar Guðjónsson, Tungu- múla. Aðrar tvær manneskjur nefni ég, Þorstein Ólafsson, Litlu- hlíð, og Björgu Jónsdóttur, Haga. Allt þetta fólk veit ég að verður með hugann við útför hans. I Haga var fjöldi vinnuhjúa á þessum tíma fyrir utan marga aðra sem þar voru vegna umkomu- leysis. Allt þetta fólk átti Karl að vini. Sá kafli úr ævi hans sem við getum kallað Haga-tímabilið, var stórkostlegur. Jafnframt því að vera öllu þessu fólki sú brjóstvörn sem þeirrar tíðar fólki var nauð- syn, þá bylti hann um jörðinni til túnræktar. Sú saga lifði lengi er hann hafði tólf þaksléttur undir eitt vorið. Þá rak hann ær og sauði til beitar að vetrinum lengri leið en ég hefi annars staðar heyrt get- ið um. Þó Karl hefði með sér vinnu- menn, þá stóð hann ekki álengdar þá er unnið var. Nei, hún væri þá ekki til sagan um það þegar hann sló Hagaveituna á undrastuttum tíma, sem ég man nú ekki lengur hver var. Kjöttökuna hafði hann með höndum, fyrst á blóðvelli heima í Haga, en lét síðar byggja sláturhús við Hagasjóinn og hafði það starf á hendi lengi eftir að hann fór frá Haga. Karl kom ekki reynslulaus að Haga, þar sem hann hafði áður verið á stórbýlinu Reykhólum í Reykhólasveit, hlotið menntun á Núpi í Dýrafirði, auk þess að vera uppalinn við sveita- störf. I Haga var hann í sex ár og undi hag sínum vel. Ekki hafði Karl gleymt blóm- skrúði Reykhólasveitarinnar á þessum tíma. Hann fer þangað af- tur 1925 og kvæntist einni heima- sætunni á Borg í sömu sveit, Ingi- björgu, dóttur hinna mætu hjóna Jóhönnu Loftsdóttur og Sumarliða Guðmundssonar pósts. Karl var kunnugur á Borg áður en hann fór að Haga. Þá var þar að alast upp nafni hans, Karl Arnason, nú bóndi á Kambi, og voru miklir kærleikar með þeim nöfnum. Fyrstu samvistarárin voru þau Ingibjörg og Karl ýmist á Pat- reksfirði eða á Borg hjá foreldrum hennar, þar til 1929 að þau flytjast að Valshamri í Geiradal eins og áður getur. Þar þurfti hann að byrja á því að byggja upp öll hús, sem hann gerði og var til alls vandað sem best mátti vera. Þegar ég kem til hans árið 1935, voru allar byggingar komnar upp og jarðrask sem því hefur fylgt, frá- gengið að fullu. Tún og girðingar bætt að sama skapi. Ærnar voru þá 160, allar af Kleifakyni, en á fjárrækt Stefáns á Kleifum hafði Karl miklar mætur. Þá átti hann góðar kýr og var vel birgur með hesta, sem hann notaði mikið við bústörfin. Mér er minnisstætt atvik frá þessum vetri, sem sýnir hvernig Karl var efnahagslega staddur eftir kreppuárin sex og áður um- getin umsvif á Valshamri. Hann sendi mig niður í Króksfjarðarnes á útlíðandi vetri eftir heimilis- nauðsynjum og lét mig hafa til heimflutninganna jarpan, stóran hest, feiknmikinn dráttarhest, sem Karl hafði mikið dálæti á. Þegar ég kem niður eftir, voru þar fyrir nokkrir menn úr Reykhóla- sveit og á undan mér við búðar- borðið. Fyrir innan borðið var Jón Ólafsson kaupfélagsstjóri og Helgi Helgason yngri frá Gautsdal af- greiðslumaður. Þá tek ég eftir því að Jón er eitthvað að líta í bækur og hefur um það orð að varlega skuli fara vegna lítillar innstæðu. Þegar að mér kom, var ég sjálf- sagt óþarflega orðhvatur og spurði hvort Karl á Valshamri fengi nokkra úttekt. Jón sneri sér snöggt við og sagði með nokkru fumi, að mér myndi óhætt að koma allt árið án þess að nokkuð væri lagt inn. Svona mikill bóndi var Karl á Valshamri. Ekki get ég sagt um hversu góð jörð Valshamar var. Þar var snjó- þungt á vetrum og við ásetning reiknað með tuttugu vikna inni- stöðu. Vont var með vatn, aðeins einn brunnur í brunnhúsi heima við fjós. Þaðan var vatnið flutt til fjárhúsa og fénu brynnt inni, sem ekki var algengt í þá daga. En Karl sagði, að því meira vatn sem ærnar drykkju, þeim mun meira hey gætu þær étið. Hann náði eins miklum árangri í afurðum ánna með heyinú þá eins og best gerist nú til dags með hinni miklu fóð- urbætisgjöf. Þann sið hafði Karl frá því hann sleppti fénu á vorin og fram að slætti að fara snemma á fætur á hverjum sunnudagsmorgni og ganga fram á afrétt. Hvort tveggja var það til að líta eftir fénu og svo var eins og heiðarnar sjálfar seiddu hann til sín. Kannski hefur það verið frá þeim tíma, að hann hafði umsjón með vörðuhleðslu á Tunguheiði. Hann hafði þá líka fyrir mörgum árum verið verkstjóri við vörðuhleðslu á Þorskafjarðarheiði og Þing- mannaheiði. Hann var góður vegg- hleðslumaður og hafði yndi af að fást við grjót og þeim mun rneira sem steinarnir voru stærri. Ég held það hafi verið hliðstætt því sem nú gerist með laxveiði- manninn. Hann var með afbrigð- um duglegur ferðamaður og þoldi vel stórviðri og bylji. Sem dæmi um það er þegar þeir björguðu sér af Þingmannaheiði, hann og Sumarliði póstur. Það hefur líklega verið haustið 1936 að þeir voru að koma vestan af Barðaströnd og eru komnir upp á Þingmannaheiði þegar bylur skellur á, og var almennt talið að karlmennska þeirra tengdafeðga hefði skipt þar sköpum. Frásögn af þessari þrekraun færði Karl í letur og birti. Karl hafði beðið Eyjólf á Bakka að líta til á Valshamri, ef á þyrfti að halda. Það brást heldur ekki, hann var kominn að Valshamri áður en bylurinn skall á. Fénu var bjargað í hús, enda hafði því verið haldið saman undanfarna daga að ráði Eyjólfs. Svo harður var þessi bylur í Geiradal, að fé var vart hamið á húsahlaði. Eyjólfur á Bakka var góður vinur Karls á Valshamri. Hann var forkur dug- legur og með eindæmum harður veðramaður. Hann er nú látinn fyrir ári. Félagsmálaþátturinn í ævi Karls var stór. Þeim kafla í lífs- hlaupinu er ég ekki nógu kunnug- ur til að gera grein fyrir því sem vert væri, enda býst ég við að það muni aðrir gera. En eitt get ég fullyrt, að Karl á Valshamri hefur ekki látið duga að nefna sig til starfa. Auk kjöttökunnar sem áð- ur er nefnd, var hann forðagæslu- maður í 32 ár, í hreppsnefnd í 35 ár, endurskoðandi Sparisjóðs Geiradals milli 30 og 40 ár, endur- skoðandi Kaupfélags Króksfjarð- ar í 10 ár og ullarmatsmaður í 12 ár. I skattanefnd var hann meðan hún starfaði í sveitinni. í fjölmörg ár var Karl í nefnd með tveimur öðrum, sem virða átti allar ný- byggingar í sveitinni til bruna- bóta. Hann var skipaður til að sjá um útrýmingu fjárkláðans í A-Barðastrandarsýslu og var þaí hvorki létt verk né vinsælt, kost- aði ferðalög á hestum og funda- höld. Karl var í fimm ár slátur- hússtjóri í Króksfjarðarnesi og þegar fjárskiptin fóru fram, var honum falið að taka á móti fé, sem flutt var sjóleiðina frá Snæ- fellsnesi til Króksfjarðarness og koma því til Hólmavíkur. Hann var um tíma formaður Búnaðarfé- lags Geiradalshrepps og sat þá þing Búnaðarsambands Vest- fjarða, sem haldið var í Hólmavík. Heimilisbragur á Valshamri var til fyrirmyndar. Stjórnsemi fram- kvæmd með hógværð og stillingu af húsbændanna beggja hálfu. Börnin sérlega skemmtileg og vel upp alin. Þau eru fjögur og öll mikið myndarfólk. En eitt barn misstu þau hjón í frumbernsku. Uppeldið virtist þeim hjónum leikur einn og var slíkt ekki lítils virði í þá daga, þegar heimilið var allt í senn, barnaheimili, öryrkja- og elliheimili. Þessu hlutverki gegndi Valshamarsheimilið lengst af og fórst vel. Nú, þegar Karl á Valshamri er allur, vil ég taka saman tilgang þessara minningabrota. Hann var sómi sinnar stéttar, mannvinur mikill og tilkomumikið karlmenni. Hann var sæmdur fálkaorðunni 1978. Ég átti tal við Karl liðlega ní- ræðan. Þau bjuggu þá enn í eigin húsi í Hafnarfirði. Hann sagðist sætta sig við það sem koma skyldi, en vonaði að heilsan yrði bærileg meðan biðin varði. Þau hjónin fóru þá ekki löngu seinna til dótt- ur sinnar. Karl átti þá eftir að reyna stór áföll hvað heilsuna snerti, en umönnunar konu og dætra naut hann til hinstu stund- ar, og er það besta hlutskipti þeim sem hafa unnið langan ævidag og bætt við löngu kvöldi. Ingibjörg mín. Þér og fólki þínu, sem eigið svo góða minningu um fráfallinn ástvin, óska ég alls hins besta. Blessuð sé minningin um Karl frá Valshamri. Júlíus Þórðarson Aðalfundur Félags viðskipta- og hagfræðinga: Þórður Friðjónsson kosinn formaður Á AÐALFUNDI Félags viðskipta- fræðinga og hagfræðinga sem hald- inn var 17. nóvember sl., var Þórður Friðjónsson hagfræöingur kosinn formaður félagsins. Aðrir i stjórn voru kjórnir: Eggert Á. Sverrisson varaformaður, Guðmundur Arnalds- son ritari, Arndís Steinþórsdóttir gjaldkeri, Kristján Þorsteinsson, formaður kjaranefndar, Kristján S. JúhannsKon, formaður fræðslunefnd- ar, og Krynjólfur Sigurðsson með- stjórnandi. Fráfarandi formanni, Tryggva Pálssyni, voru þökkuð góð störf, en Tryggvi hefur setið í stjórninni í fjögur ár, þar af tvö sem formaður. Þá var gerð úttekt á starfi sl. árs. Kom þar m.a. fram, að unnið er að útgáfu á viðskipta- og hagfræð- ingatali sem koma á út á næsta ári. Gerð hefur verið könnun á launum félagsmanna, en þeir eru nú tæp- lega 800 talsins. Tilgangur félags- ins er að vinna að bættum kjörum féiagsmanna og auka þekkingu þeirra. Á aðalfundinum talaði Þráinn Eggertsson um Nóbelsverðlauna- hafann í hagfræði 1982, George J. Stigler, sem nú er prófessor við há- skólann í Chicago og er hann ellefti Bandaríkjamaðurinn sem hlýtur þessi verðlaun.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.