Morgunblaðið - 30.04.1983, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 30.04.1983, Blaðsíða 36
36 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 30. APRÍL 1983 Minning: Ingvar Jóhannsson á Hvítárbakka Laugardaginn 23. apríl lést í sjúkrahúsinu á Selfossi Ingvar Jó- hannsson, fyrrum bóndi á Hvít- árbakka í Biskupstungum. Andlát hans kom ekki á óvart, smátt og smátt hafÖi lífsmáttur hans dvín- að, sem honum hafði verið svo ríkulega gefinn. Ingvar var fæddur að Laugarási í Biskupstungum 11. marz 1897, sonur hjónanna Jóhanns Bjarna- sonar og Vilborgar Aronsdóttur. Byrjuðu þau búskap sinn hér í sveit í húsmennsku, en árið 1900 fór Jóhann til Kanada sem inn- flytjandi, til að undirbúa þar búskap. Vilborg fór svo til Kanada ári seinna, með ungbarn, en tvö börn þeirra , sem eldri voru, urðu eftir, Ágústa, sem var elst, hjá vinafólki í Reykjavík, en Ingvar fór til sæmdarhjónanna Einars Jónssonar og Guðfinnu Guð- mundsdóttur, sem þá bjuggu að Litla-Fljóti í Biskupstungum. Hjá þeim hjónum ólst Ingvar upp sem þeirra sonur við öll venjuleg sveitastörf. Er Ingvar var um tví- tugt kynntist hann Jónínu Krist- jánsdóttur frá Heysholti á Landi, en hún hafði þá starfað sem rjómabússtýra hér í sveit. Byrjuðu þau búskap á Litla-Fljóti árið 1919 er þau giftu sig og bjuggu þar til ársins 1925 í sambýli við fóstur- foreldra Ingvars. Árið 1925 flytja þau svo að Halakoti í Tunguhverfi og bjuggu þar óslitið til ársins 1974 er Jónína lést. Eftir það bjó Ingvar með sonum sínum Ingvari og Hauk. Ingvar lét af búskap á sl. ári, en átti þó enn nokkrar kindur og hross. f Tunguhverfinu gerðist því næst öll lífssaga þessara hjóna, í samstarfi við nágranna- bændurna, Skúla í Bræðratungu, Jóhannes í Ásakoti, Hermann á Galtalæk og Egil á Krók svo nokkrir séu nefndir, en án góðra samskipta var búskapur í Tungu- hverfi óhugsandi. Allan aðdrátt til búanna og búsafurðir þurfti að flytja á ferju yfir Tungufljót. Var það volksöm vinna og ekki heigl- um hent í rysjóttri tíð. Þar komu kraftar og áræði Ingvars sér vel. í Halakoti var á þessum árum hægt að ná góðum heyskap ef tíð var góð, því slægjur voru nógar í Poll- enginu. Ingvar var mikill sláttu- maður, og kom sér vel að hafa mikið vinnuþrek því fjölskyldan stækkaði ört og einnig búið. Ingv- ar lagði fljótt stund á sauðfjár- rækt, og átti gott sauðfjárbú, hafði og sauðahús langt inni í Tunguhögum. þar sem beit þvarr nær aldrei. I 70 ár reið hann til fjalls vor og haust. í því hlutverki naut hann sín best, í öllu er sneri að samskiptum manna við sauð- kindina, í réttum á haustin, fóð- urskoðun og vigtun fjárins á vetr- um, rúningi og fjallrekstrum. Ingvar var lengi formaður Fjár- ræktarfélags Biskupstungna og féhirðir fjallskilasjóðs. Einnig var hann sveitarstjórnarmaður um árabil og vann að öllum þeim fé- lagsmálum bænda, sem hann mátti. Ingvar ræktaði jörð sína, sem hann keypti af ríkinu og skírði upp og kallaði nú Hvítár- bakka, en bærinn stendur stutt frá ólgustraumum Hvítár. Þau Ingvar og Jónína voru gæfuhjón, eignuð- ust þau 14 börn og eru 13 á lífi, en eitt, tvíburi, lést í frumbernsku. Börn þeirra eru: Ingvar bóndi á Hvítárbakka, ókvæntur; Ingigerð- ur, bjó með Gunnari Sveinbjörns- syni, Hafnarfirði, og áttu þau saman 8 börn og eru 7 á lífi; Einar, kvæntur Sólveigu Sæland, búa þau í Hafnarfirði og eiga 5 börn; Kristinn bóndi í Austurhlíð, kvæntur Sigríði Guðmundsdóttur, þau eignuðust 4 börn og eru 3 á lífi; Jóhanna Vilborg, býr með Karli Guðmundssyni bónda á Þor- geirsstöðum, Lóni. Jóhanna á 3 börn frá fyrri sambúð; Kormákur, kvæntur Erlu Brynjólfsdóttur, búa þau að Sólheimum, Hruna- mannahreppi. og eiga 1 son; Hörð- ur, kvæntur Olöfu Karlsdóttur frá Gýgjarhólskoti, búa þau á Selfossi og eiga 3 börn; Hárlaugur bóndi í Hlíðartúni, Biskupstungum, kvæntur Guðrúnu Guðmundsdótt- ur frá Austurhlíð, eiga þau 4 börn; Ragnhildur, gift Hafsteini Þor- valdssyni, búa þau á Selfossi og eiga 5 börn; Guðrún, gift Guð- mundi Ólafssyni, búa þau á Sel- fossi og eiga 4 börn; Elín, gift Garðari Vigfússyni, Húsatóftum, Skeiðum, eiga þau 4 börn. Eina dóttur átti Elín áður; Sumarliði, giftur Auði Guðmundsdóttur, búa þau í Kanada og eiga 1 son. Af fyrra hjónabandi á Sumarliði 2 börn; Haukur bóndi á Hvítár- bakka, ókvæntur. Barnabörn Ingvars eru nú 43 á lífi, en 2 sonarsynir hafa látist. Mörg barnabarnanna eru nú gift fólk og þriðji liðurinn, sem ekki verður hér upptalinn, vex nú óðum úr grasi. Ingvar á Hvítárbakka var vinur foreldra minna, það voru því gleði- stundir er hann nú hin seinni ár ævi sinnar kom upp að Hlíðum, ýmist í erindum eða leit við sér til skemmtunar. Var þá margt rætt, einkum frá fyrri tíð, en Ingvar var maður stálminnugur og ættfróður, söngmaður góður og hafði einarð- ar skoðanir á hinum ýmsu málum samfélagsins. Á honum stóð aldrei að leggja hönd á plóginn, eða leggja þeim málum lið er til heilla þóttu horfa. Þeim fækkar nú óðum bændum, sem fæddir eru á öldinni sem leið, þeir unnu öðrum fremur að þeirri uppbyggingu og velmeg- un, sem við flest búum nú við, því minnist ég Ingvars á Hvítárbakka með þökk í hug. Megi íslensk bændastétt eignast marga slíka. Björn Sigurðsson Þegar sá sem þessi fátæklegu minningarorð ritar, var að alast upp í Tunguhverfinu, var það til- tölulega einangrað byggðarlag, því að akfær vegur var ekki lagður þangað fyrr en upp úr 1950. Fóru því allir aðdrættir og flutningar fram á ferju yfir Tungufljót hjá Króki, eða þá á is, þegar best lét. Við þessar aðstæður skapaðist sérstök samheldni og samvinna fólksins, sem þarna bjó. Einum af þeim merkisbændum, sem á þessum árum bjuggu í Tunguhverfinu fylgjum við í dag síðasta spölinn. Ingvar Jóhanns- son á Hvítárbakka lést á Sjúkra- húsi Suðurlands eftir erfiða sjúk- dómslegu hinn 23. þ.m. Ingvar fæddist 11. mars í Laugarási i Biskupstungum, annað barn hjón- anna Vilborgar Aronsdóttur og Jóhanns Bjarnasonar. Ágústa, elsta systir Ingvars, fæddist' 16. ágúst 1895, en hún lést í Reykjavík 20. febrúar 1981. Þriggja vikna gömlum var Ingv- ari komið í fóstur að Litla-Fljóti í sömu sveit, til hjónanna Einars Jónssonar og Guðfinnu Guð- mundsdóttur. Þar ólst hann upp við gott atlæti og minntist hann þeirra hjóna alltaf af mikilli hlýju enda gengu þau honum í föður og Minning: Sigurlaug Sigurjóns dóttir frá Steinnesi Fædd 5. aprfl 1896 Dáin 8. aprfl 1983 Þegar árin færast yfir, verður manni oft á, einkum ef tilefni gefst að líta til baka og rifja upp eitt og annað frá yngri árum, þeg- ar sól skein í heiði og margt lék í lyndi. Þannig fór fyrir mér, er ég frétti fyrir nokkru lát Sigurlaugar Sigurjónsdóttur frá Steinnesi. Hvarflaði þá hugurinn norður á bóginn og ég minntist margra góðra stunda með þessari góðu konu og prófastsfólkinu í Stein- nesi. Það hittist svo á, að ég flutti í sveitina sama vorið og ungu prestshjónin, sr. Þorsteinn B. Gíslason, síðar prófastur og frú ólína Benediktsdóttir, kona hans, settust að í Steinnesi, sem þá var prestssetur. Heimili mitt var á kirkjustaðnum Þingeyrum. Þó Akureyri væri ekki stór stað- ur á þeim árum, voru viðbrigðin talsverð að koma þaðan í litla sveit, þar sem allir þekktust, ég öllum ókunn. Margt var þá frá- brugðið því sem nú er, enginn sími var á bæjum, hvað þá útvarp eða sjónvarp. Bíllinn var ekki kominn til sögunnar, fólk fór gangandi milli bæja. Þegar best lét var lagt á þarfasta þjóninn til að komast bæjarleið. Fréttir voru því oft lengi að komast manna á milli. Á Þingeyrum var messað þriðja hvern sunnudag, oftast var margt fólk við kirkju, því fólk var þá kirkjurækið. Eftir messu leit fólk- ið í bæinn og fékk sér kaffisopa. Þá var oft leyst frá skjóðunni, fréttir sagðar og hófust þá kynni mín við sveitungana. Ekki Ieið á löngu þar til góð vinátta tókst með okkur á Þingeyrum og fólkinu f Steinnesi, sem var traustari með ári hverju og hélst meðan líf ent- ist. Eitt vorið, nokkru eftir að ég flutti í sveitina, var ung ókunn stúlka með messufólkinu frá Steinnesi. Óljósar fréttir höfðu áður borist um sveitina, að óvenjuleg myndarstúlka væri komin á prestssetrið, stúlka sem var jafnvíg á alla vinnu, bæði úti og inni. Það var mikils virði að fá slíka manneskju á heimilið. Það fylgdi sögunni að hún væri mjög fjölhæf til verka og allt það er hún snerti á léki í höndum hennar. Gaman var að sjá hana við kirkju. Stúlkan var Sigurlaug Sigurjóns- dóttir, sem kvödd er í dag. Lang- aði mig til að flytja henni kveðju og þakka henni löng og góð kynni. Sigurlaug var fædd að Marðar- núpsseli þ. 5. apríl 1896. Foreldrar hennar voru hjónin Jakobína Jak- obsdóttir, ættuð úr Miðfirði og Sigurjón Hallgrímsson, hálfbróðir Hallgríms Hallgrímssonar, sem lengi bjó stórbúi að Hvammi f Vatnsdal og var kunnur maður á sinni tíð. Hjónin í Marðarnúpsseli eignuðust fjögur börn, tvö dóu á unga aldri, Sigurlaug og Jakob lifðu. Fluttu þau síðar með föður sínum að Meðalheimi á Ásum, eft- ir að móðir þeirra dó frá þeim ungum. Þá má geta þess, að Ragnheiður Jónsdóttir frá Skaga- strönd, nú gift kona í Reykjavík, ólst að miklu leyti upp með þeim börnum hjá Sigurjóni í Meðal- heimi. Var mjög kært með þessu fólki. Jakob var um langt árabil bóndi að Glaumbæ í Langadal. Eftir að hann hætti búskap hefur hann átt heima í Stóra-Dal og ver- ið búinu þar mikil hjálparhella. Hefur Jakob ávallt verið talinn hinn mesti drengskaparmaður. Kornung fór Sigurlaug að vinna fyrir sér, eins og þá var títt. Ef- laust hefur hún haft hug á að læra, því henni var margt til lista lagt, en flest sund voru þá lokuð ungum stúlkum. Venjulega áttu þær aðeins um tvo kosti að velja, giftast einhverjum eða ráðast í vist. Sem unglingur var Sigurlaug hjá höfðingskonunni Önnu Tóm- asdóttur, húsfreyju að Víkum á Skaga. Hafði hún orð á því, hve Anna hefði reynst sér vel, og hversu vel hún hafði lært til verka í Víkum. Kom henni slíkt að góðu haldi síðar í lífinu. Anna í Víkum var líka sérstök í sinni röð. Mikil að vallarsýn og höfðingi í lund, kona sem varð öllum minnisstæð, er kynntust henni. Eftir að Sigurlaug náði fullorð- insaldri var oft til hennar leitað, hún tók að sér ráðskonustörf á bæjum, ef húsmæður fötluðust frá og allir voru sammála um, að hún væri frábær til verka og mikil drengskaparkona. Þegar hún hafði safnað í smá ferðasjóð, lá leiðin til Reykjavíkur. Þar lærði hún karlmannafatasaum hjá Andersen klæðskera. Hún var hagleikskona að eðlis- fari, vandvirk við allt sem hún tók sér fyrir hendur. En síðan lá leiðin að Steinnesi og þangað sótti hún sína hamingju. Systkini frú ólínu, Ármann og Jónína fluttu með ungu prests- hjónunum að Steinnesi og studdu þau við búskapinn. Ármann var mikil stoð og stytta við öll útiverk. Hann var með afbrigðum grand- var maður, og ekki var að tala um dugnaöinn og trúmennskuna. Sjálfur átti hann nokkrum bú- stofn er hann kom að Steinnesi, svo segja má að þar væri frá upp- hafi félagsbú. Húnvetningum var þó, eftir því sem sagnir hermdu, margt betur lagið en búa í sam- býli. í Steinnesi var sambýlið til fyrirmyndar. Ármann vakti yfir öllu búinu eins og hann ætti það, friður og vinátta meðal heima- fólks sat í öndvegi. Tíminn leið, Sigurlaug og Ármann felldu hugi saman, giftu þau sig 12. mai 1929. Var sambúð þeirra öll hin ástúð- legasta og nú urðu búin tvö í Steinnesi, en Ármann hélt áfram að vaka yfir báðum búum. Mikil gestrisni var á báðum heimilunum og sóttu margir þangað heim. Sig- urlaug stundaði sauma að vetrin- um og þótti fólki gott að leita til hennar. Hún var fjölhæf í starfi, saumaði islenska þjóðbúninginn, upphlut og peysuföt, auk karl- mannafata. Börnum sem gengu í barnaskóla sveitarinnar og langt áttu að sækja, var æði oft komið til þeirra hjóna, það var stutt að fara frá Steinnesi í skólahúsið að Sveins- stöðum. Reyndist Sigurlaug þess- um börnum afar vel. Einkum má þó nefna Ragnar Þórarinsson, sem lengi hefur verið bifreiðarstjóri á Blönduósi. Móðir hans, Steinunn Valdemarsdóttir, var mikil vin- kona Sigurlaugar. Átti hún heima með manni sínum, Þórarni Jóns- syni, úti á Beinakeldu og var langt þaðan í skólann. Tók Sigurlaug Ragnar að sér meðan hann gekk í barnaskólann og reyndist honum ætíð síðan sem besta móðir, var hann oft langdvölum í Steinnesi, þar átti hann tryggt athvarf. Kall- aði Ragnar Sigurlaugu fóstru sína og má af því marka, hvern hug hann bar til hennar. Eftir 11 ára farsælt hjónaband missti Sigurlaug mann sinn, var það þungbær sorg. Þau hjón voru barnlaus, svo Sigurlaug stóð ein uppi, einstæðingsskapurinn heltók hana. En þá vann prófastsfrúin í Steinnesi það kærleiksverk að koma með yngri son sinn Gísla, sem nú er þekktur læknir í höfuð- staðnum, en var þá smábarn heima í Steinnesi. Átti Sigurlaug að gæta hans, en litli drengurinn átti að milda sorg hennar. Slík umhyggja prófastsfrúarinnar var ómetanleg. Sigurlaug var ákaflega barngóð, fagnaði hún því að mega hafa litla drenginn hjá sér. Ekkert var yndislegra en þegar mjúkum barnsörmum var vafið um háls hennar á kvöldin, er nóttin skall á og sorgin var þungbærust. Öllum börnunum í Steinnesi reyndist hún afburða vel og vildi hag þeirra sem mestan, en þau eru auk Gísla læknis, Sigurlaug, gjaldkeri í Búnaðarbanka íslands, og sr. Guðmundur, prestur í Ár- bæjarsókn. óhætt er að segja að hjónin í Steinnesi áttu miklu barnaláni að fagna. Eftir að Sigurlaug missti mann sinn, hætti hún búskap og vann á heimili prófastshjónanna, nema að vetrinum, þá var hún sjálfra sinna, einsog sagt var. Er sr. Þorsteinn lét af störfum fyrir ald- urs sakir haustið 1967, flutti öll fjölskyldan til Reykjavíkur. Keypti sr. Þorsteinn íbúð að Bugðulæk 13; þar bjuggu þau hjón sér og sínum vistlegt heimili. Sveitungarnir söknuðu mjög fjölskyldunnar frá Steinnesi, þar var gestum fagnað nætur sem daga. Þangað voru sótt góð ráð í blíðu og stríðu. Og það sem ein- kenndi heimilið var samheldnin, allt fólkið var sem einn maður og vildi gera sitt til að gestum og gangandi liði sem best meðan dvalið var á prestssetrinu. Heimil- ið á Bugðulæk 13 varð með sama blæ, þar var mönnum tekið með sömu alúðinni, svo mönnum fannst engu líkara en komið væri heim í Steinnes. Nú hafa stór skörð verið höggvin í þennan vina- hóp. Fyrir nær þrem árum dó sr. Þorsteinn, mjög snögglega. Tæpt ár er síðan Jónína andaðist, varð einnig mjög fljótt um hana. Og nú er Sigurlaug farin. Fyrir rúmum tveim árum ætlaði Sigurlaug að fá sér miðdegisblund, sem ekki er í frásögur færandi. En þegar hún ætlaði að stíga upp í rúmið sitt, datt hún á gólfinu og mjaðmar- brotnaði. Hún var óðara flutt í Borgarspítalann og þar gert að sárum hennar. Síðan hefur hún ekki haft fótavist. Lengst ævinnar var hún heilsuhraust, en hún bar veikindi sín með hetjulund, var þakklát öllum er glöddu hana og veittu henni lið, þegar hún var orðin ósjálfbjarga. Nokkrum dögum fyrir andlátið var yngri sonur Gísla læknis fermdur. Þráði hún að taka þátt í fermingarfagnaði unga piltsins, og henni varð að ósk sinni. Naut hún þess að geta verið með vina- fólki sínu og hafði orð á því að hún mundi lengi búa að þeirri gleði. Stuttu síðar var hún öll. f dag verður gerð útför Sigur- laugar frá Þingeyrum í Austur- Húnavatnssýslu, gamla kirkju- staðnum hennar. Hlýjar kveðjur og þakkir fylgja henni norður yfir fjöllin. Vonandi er bjart yfir Þing- inu í dag, því hvergi finnst mér fegurra um að litast en af kirkju- hólnum heima, þegar kyrrð hvílir yfir byggðinni og sólin skín. Innilegar samúðarkveðjur til vina Sigurlaugar og vandamanna. Ilulda Á. Stefánsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.