Morgunblaðið - 10.07.1983, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 10.07.1983, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 10. JÚLl 1983 Útgefandi hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson. Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guðmundsson, Björn Jóhannsson. Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson. Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Að- alstræti 6, sími 22480. Afgreiösla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskrift- argjald 230 kr. á mánuöi innanlands. í lausasölu 18 kr. eintakið. Viðskiptin við Sovétríkin Nú í sumar eru 30 ár liðin síðan íslendingar og Sov- étmenn gerðu þann samning sem hefur verið ramminn utan um viðskipti landanna. Umræð- ur um þessi viðskipti hafa verið misjafnlega miklar. Hin síðari ár hefur athyglin einkum beinst að því, hvort ekki sé skynsamlegt að beina olíukaup- um okkar annað. Skoðun Morg- unblaðsins er sú að eðlilegast sé að gefa olíuinnflutninginn frjálsan og fela olíufélögunum að semja um hann án opinberr- ar íhlutunar. Hefur þetta sjón- armið verið sett oftar en einu sinni fram undanfarið og meðal annars verið túlkað sem „æs- ingaskrif" í forystugrein mál- gagns Framsóknarflokksins, Tímanum, og talið spilla fyrir sölu á íslenskri saltsíld til Sov- étríkjanna. Morgunblaðið er þeirrar skoðunar að auðvitað eigi ís- lendingar að selja eins mikið til Sovétríkjanna og frekast er kostur, jafnt af saltsíld sem öðrum varningi, enda fáist við- unandi verð fyrir vöruna. Sú röksemd er ekki haldbær, að því aðeins vilji Sovétmenn kaupa af okkur að við kaupum olíu af þeim. Hafi erindrekar Sovétríkjanna uppi þessar hót- anir á viðskiptasviðinu á auð- vitað að vísa þeim á bug. Olíu- framleiðsla Sovétríkjanna eykst minna nú en undanfarin ár. 1976—80 jókst framleiðslan að meðaltali um 4.6% á ári. 1981 var aukningin 1% og 1982 aðeins 0.7%. Ætli Sovétmenn að ná yfirlýstu framleiðslu- marki, 630 milljón tonnum, á árinu 1985 miðað við 613 millj- ón tonn á síðasta ári, verða þeir að geta aukið vinnsluna til muna í Síberíu þar sem þeir hafa lent í miklum erfiðleikum. Vestrænir sérfræðingar spá því að Sovétmönnum takist ekki að auka olíuframleiðslu sína, þvert á móti muni hún dragast saman og verða ekki nema 530 til 570 milljón tonn 1990. Á ár- unum 1981 og 1982 fluttu Sovét- menn út um 155 milljón tonn af olíu, hvort árið. Talið er að 1985 hafi þeir um 120—130 milljón tonn til útflutnings og 1990 kunni útflutningsmagnið að- eins að nema 30—60 milljón tonnum. Þessar tölur segja sína sögu. En á viðskiptunum við Sovét- ríkin er pólitísk hlið sem ekki verður sniðgengin, hvað svo sem þeir segja sem mesta reynslu hafa af því að semja við Sovétríkin um viðskiptamál. Spurningin sem menn verða að svara er þessi: Hvort er líklegra að Sovétmenn vilji frekar kaupa af íslendingum ef þeir láta undan hótunum þeirra eða segi að ekki verði gengið að skilyrðum um óskyld mál? Morgunblaðið er þeirrar skoðunar, að verslunarviðskipt- in séu eina leið Sovétmanna til að „réttlæta" fjölmennt sendi- ráð í Reykjavík og þau veiti þeim stöðu til að hafa áhrif á gang mála hér á landi, þótt með óbeinum hætti sé. Ein aðferð Sovétmanna er til dæmis sú að reyna að koma í veg fyrir blaðaskrif sem þeir telja sér óþægileg. Undan slíkum þrýst- ingi á auðvitað ekki að láta. Minnki vörukaup Sovétmanna hér á landi tapast aðstaða til áhrifa sem segja ótrúlega víða til sín. Sovétmenn verða sjálfir að meta hvers mikils virði þeir telia þessa aðstöðu. I ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um utan- ríkismál er komist svo að orði: „Hafa ber í huga, að það kann að vera hættulegt að vera um of háður einum aðila um mikilvæg aðföng eins og olíu. Sérstaklega verður þetta varasamt, þegar sá aðili, sem við er skipt, fylgir stefnu, er miðar að því að nota viðskipti, menningartengsl, vísindasamvinnu og hernað- armátt með samræmdum hætti í því skyni að auka áhrif sín og völd um víða veröld. í viðskipt- um við Sovétríkin er nauðsyn- legt að taka mið af þessari staðreynd og því, að einu mikil- vægu tengsl þeirra við ísland er á viðskiptasviðinu. Þessum tengslum mun Sovétstjórnin ekki fórna ótilneydd heldur laga sig að þeim kröfum, sem til hennar eru gerðar, og auð- vitað ganga á lagið ef lslend- ingar láta eins og þeir eigi einskis annars úrkosti en versla við hana.“ Morgunblaðið lýsir stuðningi sínum við þessa stefnu. Hún hlýtur nú að vera leiðarljós þeirra sem fara með opinbera yfirstjórn viðskiptamála ís- lendinga. Mannahald hjá ÍSAL • • Oðru sinni á tiltölulega skömmum tíma hefur ver- ið fallið frá því að segja upp starfsfólki hjá álverinu í Straumsvík. Er ástæða til að fagna því að þetta mál hefur nú verið til lykta leitt með samn- ingum milli aðila. Það hefur jafnan verið einkenni á rekstri þessa mikilvæga stórfyrirtækis að vinnufriður hefur verið með ágætum. Deilurnar undanfarið hafa verið undantekningar frá meginreglu sem ástæðulaust er að víkja frá nema í neyð. Ekki er ólíklegt að það hafi orðið til þess að auka eigendum álversins bjartsýni að horfið hefur verið frá stefnu Alþýðu- bandalagsins og Hjörleifs Gutt- ormssonar, en eins og lesendur Morgunblaðsins muna lýsti Hjörleifur því yfir á alþingi í byrjun desember 1980, að skyn- samlegasti kostur íslendinga í virkjanamálum væri að loka ál- verinu! Síðan hefur Alþýðu- bandalagið reynt að láta sem ekkert hafi verið að marka þessa yfirlýsingu. Hvað um það, þá mátti hvorki Alþýðu- bandalagið né Hjörleifur Gutt- ormsson heyra á það minnst, að álverið yrði stækkað. Var það ein helsta ástæðan fyrir því að upp úr samningaviðræðum Hjörleifs og Alusuisse slitnaði í desember 1982. Aðstæður eru nú aðrar. Þetta hlýtur að auðvelda stjórnend- um ÍSAL almenna stefnumörk- un í rekstri auk þess sem ál- markaður hefur batnað. Von- andi er með nýgerðu samkomu- lagi gengið þannig frá málum að óvissa starfsfólksins vegna uppsagna sé úr sögunni. ♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦ Rey kj a víkurbréf >♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦ Laugardagur 9. júlí ♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦ Lánskjara- vísitalan Fyrir tæpu ári átti höfundur þessa Reykjavíkurbréfs tal við einn af fremstu sérfræðingum þjóðarinnar í efnahags- og fjár- málum um horfur í þjóðarbú- skapnum. Þar kom talinu, að fjár- málasérfræðingurinn hafði á orði, að líklega væri nú jarðvegur fyrir því hjá verkalýðshreyfingunni að taka hið sjálfvirka vísitölukerfi úr sambandi, þar sem því mundi fylgja. að lánskjaravísitalan yrði einnig tekin úr sambandi, eða verðtryggðum lánum banka og sparisjóða breytt á ný í óverð- tryggð lán. Það væri ungum með- limum verkalýðsfélaganna mikið kappsmál, að verðtrygging hús- næðislána yrði afnumin og þess vegna mundi verkalýðsforystan verða tilbúin til að fallast á afnám vísitölutengingu launa, ef verð- trygging lánsskuldbindinga yrði einnig afnumin. í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar- flokks varð niðurstaðan hins veg- ar sú, að taka kaupgjaldsvísitöl- una úr sambandi en ekki láns- kjaravísitöluna. Þess í stað var húsbyggjendum boðið upp á að fresta hluta afborgana og vaxta lána þar til síðar. Síðan hefur það misræmi, sem á skömmum tíma mun skapast vegna tákmarkaðra launahækkana en umtalsverðra hækkana á lánskjaravísitölu, leitt til umræðna um þessa stöðu. Þær umræður og sú gagnrýni mun fara vaxandi, eftir því sem frá líður. í öllum viðskiptum skiptir það höfuðmáli að skapa traust. Þetta á ekki sízt við um nokkra grundvall- arþætti í fjármálalífi þjóðarinnar. Það er mikilvægt, að þeir, sem eiga fjármuni og binda þá til ákveðins tíma í verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs, al- mennum verðtryggðum skulda- bréfum eða á verðtryggðum inn- lánsreikningum bankanna, geti treyst því, að stjórnmálamenn breyti ekki í einu vetfangi þeim forsendum, sem lágu til þess, að þeir voru tilbúnir til að festa fé sitt. Þegar um þetta var fjallað í viðræðum ríkisstjórnarflokkanna mun það hafa verið mat sérfræð- inga, að yrði lánskjaravísitalan tekin úr sambandi eða skert eins og kaupgjaldsvísitalan, gæti það orðið þungt áfall fyrir allt fjár- málakerfi þjóðarinnar, þar sem fjármagnseigendur gætu þá aug- sýnilega engu treyst. Rökin fyrir þessu eru augljós. Á hinn bóginn er ljóst, að hús- byggjendur, sem hin síðari ár hafa tekið á sig verðtryggðar fjár- skuldbindingar, hafa einnig gert það á ákveðnum forsendum og þær forsendur hafa verið, að hækkun kaupgjaldsvísitölu og lánskjaravísitölu yrði mjög áþekk. Sem dæmi um þetta má nefna, að þegar einn lífeyrissjóðanna reið á vaðið með verðtryggð lán til sjóð- félaga til langs tíma, var rök- semdafærsla sjóðsins sú, að jafn- vel þótt höfuðstóll lánsins svo og upphæð árlegra afborgana mundi hækka jafnt og þétt yrði afborg- unin svo til sama hlutfall af laun- um viðkomandi eins og í upphafi. Á þessum forsendum og í þessari trú hafa húsbyggjendur tekið verðtryggð lán á undanförnum ár- um. Á sama hátt og ekki má brjóta niður traust fjármagnseig- enda til fjármálakerfisins er jafn- ljóst, að ekki er til fyrirmyndar að gjörbreyta með einu pennastriki þeim forsendum, sem lántakendur hafa lagt til grundvallar sínum gjörðum. Reynsla manna í fjármálalífinu er sú, að lánskjaravísitalan sé heldur eftir á að mæla hækkanir og kemur það lántakanda til góða en með sama hætti er hún líka heldur eftir á að mæla lækkandi verðbólgustig, sem skapar lántak- endum erfiðleika meðan það tíma- bil gengur yfir. Það er auðvitað alveg ljóst, að sá vandi, sem hér skapast fyrir mikinn fjölda fólks og þá ekki sízt ungt fólk verður ekki leystur með því einu að gefa fólki kost á að fresta greiðslu hluta vaxta og afborgana af lán- um. Vandinn er víðtækari en svo. Spyrja má, hvort unnt sé að leysa þetta mál að einhverju leyti með frekari skattaívilnunum til hús- byggjenda en eins og kunnugt er voru fyrir nokkrum misserum settar ákveðnar takmarkanir á upphæð vaxta, sem draga má frá tekjum áður en til skattlagningar kemur og ennfremur voru settar ákveðnar takmarkanir á það hvaða tegund lána kæmi til greina að þessu leyti. Hins vegar er hætta á því, að skattaívilnanir komi að takmörkuðum notum fyrir þá, sem mest eiga undir högg að sækja einfaldlega vegna þess, að líklegt er að skattgreiðslur þeirra séu ekki miklar fyrir. Með aðgerðum ríkisstjórnarinn- ar í upphafi hefur á engan hátt verið dregið úr trausti og tiltrú fjármagnseigenda til fjármála- kerfisins og það er auðvitað mikil- vægt í sjálfu sér. Hins vegar hefur forsendum fyrir lántöku fjöl- margra húsbyggjenda og atvinnu- fyrirtækja verið gjörbreytt. Ríkis- stjórnin verður að gera sér ljóst, að vandi þessara aðila er óleystur. Athafnamenn færa út kvíarnar Á undanförnum mánuðum hef- ur vakið athygli í fréttum hér heima sá árangur, sem nokkrir ungir menn hafa náð í plötuútgáfu í Bretlandi og Hollandi. þarna eru á ferðinni ungir tónlistarmenn í hljómsveitinni Mezzoforte og ung- ir kaupsýslumenn, sem standa að útgáfufyrirtækinu Steinar hf. Þessum aðilum hefur tekizt að ná ótrúlega góðum árangri í hljóm- plötusölu í þessum löndum og vinna nú að því að fylgja þessum áfanga eftir. Ævintýri Mezzoforte og Steina hf. er eitt dæmi af nokkrum, sem gefa vísbendingu um, að ungt fólk í viðskiptalífinu láti sér ekki nægja heimamarkaðinn einan, heldur vilji það hasla sér völl á stærri markaði úti í hinum stóra heimi. Fyrir nokkrum mánuðum ritaði Ragnar Kjartansson, stjórnarfor- maður Hafskips hf., grein hér í Morgunblaðið, þar sem hann hvatti til þess, að við íslendingar létum meira að okkur kveða í viðskiptum erlendis og létum út- lendingum ekki lengur haldast uppi að græða á okkur með marg- víslegum hætti í skjóli vanþekk- ingar okkar á aðstæðum erlendis og vantrúar á, að við værum þar nokkurs megnugir. Raunar hafa þeir Hafskipsmenn sýnt trú sína á möguleikum okkar erlendis í verki með því að opna allmargar skrifstofur erlendis og telja, að með því spari þeir verulegar fjár- hæðir, sem ella hefðu runnið í vasa erlendra manna um leið og starfsmenn fyrirtækisins hljóta dýrmæta reynslu í viðskiptum á erlendri grund. Enn má nefna þá viðleitni, sem staðið hefur yfir á vegum samtaka iðnaðarins og einstakra iðnfyrir- tækja í nokkur ár til þess að auka útflutning á íslenzkum iðnaðar- vörum. íslenzkar ullarvörur hafa þegar unnið sér á^veðinn sess er- lendis og þar hefur naðst veruleg fótfesta á mörkuðum austan hafs og vestan. Nú er unnið að mark- aðsöflun í Færeyjum fyrir ýmiss konar iðnaðarvörur og ætlunin er að fylgja þeirri starfsemi eftir í öðrum nærliggjandi löndum. Fram á síðustu ár hafa það ein- ungis verið hin stóru útflutnings- samtök, sem hafa verið þess megnug að starfa á erlendri grund. Nú er þetta að breytast. Ungir menn í atvinnurekstri leita nýrra leiða af umtalsverðri djörf- ung, framtakssemi og framsýni og það ásamt mörgu öðru er til marks um það, sem haft var á orði hér á þessum vettvangi fyrir all- mörgum mánuðum, að þarna er vaxtarbroddurinn í okkar samfé- lagi um þessar mundir. Hins vegar ríkir stöðnun og deyfð í embætt- ismannakerfinu og stjórnmálalíf- inu og því miður gera þessir aðilar ekki nægilega mikið til að ýta undir þá nýju tíma, sem bersýni- lega eru að koma til sögunnar meðal athafnamanna landsins. Það skiptir t.d. miklu máli fyrir lítið fyrirtæki, sem er að hefja út- flutning, að því verði ekki tröllrið- ið með skriffinnsku af þeim sök- um. Opinbera kerfið getur auð- veldað viðleitni atvinnulífsins til þess að ná fótfestu erlendis með því að draga úr og einfalda öll af- skipti opinberra aðila af þeirri starfsemi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.