Morgunblaðið - 28.07.1983, Side 27
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 28. JÚLÍ 1983
Afmæliskveðja:
Birgir Thorlacius
ráðuneytisstjóri
Enda þótt Birgir hafi afþakkað
allt stáss og tilstand á sjötugsafmæli
sínu, vona ég að hann amist ekki við
örstuttri afmæliskveðju.
í öndverðum júnímánuði 1972
hringdi þáverandi menntamála-
ráðherra, Magnús Torfi ólafsson,
til mín og fór þess á leit að ég tæki
sæti i síðari grunnskólanefndinni
undir forsæti Birgis Thorlaciusar,
ráðuneytisstjóra.
Ég bað um sólarhrings umþótt-
unartíma og fékk hann. Satt að
segja var mér um og ó að taka
sæti í nefnd undir forsæti þessa
margfræga ráðuneytisstjóra er
sagður var svo drottnunargjarn og
heimaríkur í ráðuneytinu að um
það hafa orðið til þjóðsögur og er
sú sennilega þekktust er hermir,
að kona nokkur hafi komið í
menntamálaráðuneytið í
ráðherratíð Vilhjálms Hjálmars-
sonar og spurt eftir ráðherra.
Starfsstúlka í ráðuneytinu kvað
ráðherra ekki vera viðstaddan en
bætti við: Viltu bara ekki tala við
Birgi sjálfan?
Ég þóttist líka vita að ekki væri
ég hátt skrifaður á þeim bæ,
menntamálaráðuneytinu, enda í
hópi upphlaupsmanna í kennara-
stétt um þær mundir og hafði
staðið fyrir æsingafundum, mót-
mælagöngum og miður blíðum
skrifum gegn menntamálaráð-
herra viðreisnarstjórnarinnar og
öðrum dánumönnum í ráðuneyt-
inu. Ég hikaði því við að fara í
nefndina og bar málið undir
Kristján heitinn Ingólfsson, er þá
hafði tekið sæti í henni, og hvatti
hann mig eindregið til að gera
slíkt hið sama og bætti við að
Birgir væri góður inni við beinið.
En yrði kallinn erfiður stæðum
við bara þétt saman í nefndinni og
létum hann ekki komast upp með
neitt múður. Það varð því úr að ég
kvað já við beiðni ráðherra og sé
ekki eftir því.
Skemmst er frá því að segja, að
ráðuneytisstjóri reyndist hinn
besti samstarfsmaður. Hik mitt
og vangaveltur urðu sér því ræki-
lega til skammar og sannaðist hér
sem oftar að hvorki skyldi trúa
orðrómi né dæma menn að
óreyndu. Birgir hafði góðar for-
sagnir um hvaðeina í nefndar-
störfunum og var einkar laginn
við að samræma sjónarmið manna
og komast að skynsamlegri niður-
stöðu. Reyndin varð því ekki sú, að
við Kristján snérum bökum sam-
an í nefndinni gegn Birgi heldur
kom það í hans hlut að sætta
okkur Kristján eitt sinn er í odda
skarst. Og hann gerði það á þann
frumlega hátt að loka okkur inni í
herbergi einu í ráðuneytinu og
hleypti okkur ekki út fyrr en við
höfðum náð sáttum. Þannig vor-
um við bókstaflega teknir í karp-
húsið. Og aðrir nefndarmenn, þeir
Andri ísaksson, Indriði H. Þor-
láksson og Páll Líndal, höfðu
lúmskt gaman af. Þessi nefndar-
störf voru lærdómsrík fyrir mig.
Þarna voru saman komnir þeir
menn er einna mesta þekkingu
höfðu á menningarmálum hér-
lendis og þar var ráðuneytisstjóri
fremstur í flokki. Grunnskóla-
Birgir Thorlacius ráöuneytisstjóri
nefndin starfaði frá því í júní-
mánuði 1972 og þar til frumvarp-
ið, er nefndin samdi, var afgreitt
sem lög frá Alþingi á frægum
þingfundi 8. maí 1974.
Ýmislegt spaugilegt kom á dag-
inn meðan nefndin sat á rökstól-
um. Frumvarpið var sent fjöl-
mörgum aðilum til umsagnar.
Sumir töldu að nefndarmenn
bæðu um álit annarra af því að
þeir vissu ekkért sjálfir. Frum-
varpið var, að beiðni ráðherra,
kynnt um allt land og önnuðust
nefndarmenn kynninguna. Ýms-
um fannst þetta algjör óþarfi.
Nefndarmenn væru einungis að
þessu af því að þeim leiddist í
Reykjavík.
Sem fyrr segir var ágætt að
vinna með ráðuneytisstjóra í
nefndinni. Ekki reyndist mér verr
að starfa sem skólameistari undir
stjórn ráðuneytisins að uppbygg-
ingu Menntaskólans í Kópavogi.
Birgir hefur leyst margan hnútinn
fyrir skólann, verið honum sann-
kölluð hjálparhella. Fyrir það færi
ég honum nú þakkir, einkum fyrir
hönd hinna fjölmörgu nemenda
skólans.
Lítt mun ég í stuttu spjalli sem
þessu rekja ætt Birgis og uppruna
og þaðan af síður embættisstörf
hans sem eru legíó. Það munu aðr-
ir mér þar um fróðari gera miklu
betur. En augljóst er að vænt
veganesti hefur hann haft úr föð-
urhúsum. Birgir er fæddur og upp-
alinn á Búlandsnesi við Berufjörð
sunnanverðan á þeim slóðum sem
þorpið Djúpivogur stendur við
rætur Búlandstinds. Hann er
kominn af merku fólki i báðar
ættir. Föðurmóðir hans, Kristín
Rannveig Tómasdóttir, var syst-
urdóttir Jónasar Hallgrímssonar
skálds, og móðir hans, Ragnhildur
Pétursdóttir frá Akureyjum á
Breiðafirði, var systir Sigurðar
Eggerz ráðherra. Faðir Birgis,
Ólafur Thorlacius, var afar vin-
sæll og virtur læknir í Berufjarð-
arhéraði um 30 ára skeið. Þau
hjónin, Ragnhildur og ólafur,
bjuggu rausnarbúi á Búlandsnesi
sem var Kristjörð svonefnd og
kostajörð, m.a. var þar æðarvarp
mikið á þeim tíma og hefur Birgir
í barnæsku eflalaust vaðið dúninn
í hné. Æskuheimili Birgis var
rómað fyrir gestrisni, glaðværð,
myndarskap og menningaráhuga
af öllum þeim er til þekktu.
Birgir er heiðursmaður og höfð-
ingi mikill. Hann er víðlesinn,
stálminnugur, sjófróður og segir
ágætlega frá. ósjaldan hefur hann
gert okkur skólastjórum glatt i
geði á strembnum samstarfs-
nefndarfundum og lífgað þá upp
með óborganlegum athugasemd-
um og smellnum gamansögum en
af þeim kann hann ógrynni. Hann
hefur verið röggsamur ráðuneytis-
stjóri, raunsær og glöggskyggn
embættismaður, virtur og vinsæll
af þeim er kynntust honum —
embættismaður er sett hefur svip
á samtíð sína.
Það eru engin ellimörk á afmæl-
isbarninu. Birgir er ágætlega á sig
kominn andlega og líkamlega og
segir sjálfur að sér hafi sjaldan
orðið misdægurt, hann hafi aðeins
legið eina banalegu um ævina.
Margir samstarfsmenn Birgis
munu nú sakna hans, er hann læt-
ur af störfum og hefðu helst kosið
að hann gegndi embættinu áfram
meðan hann er hestfær og ölfær,
eins og sagt var áður fyrr. Af
fundi hans í ráðuneytinu fór mað-
ur jafnan hressari en maður kom.
Eitt sinn hafði ég orð á því við
hann, hversu gaman væri jafnan
að koma í ráðuneytið og hve góður
vinnustaður það væri. Hann svar-
aði og sagði eitthvað á þessa leið:
Já, hér vinnur gott fólk, hér er
gott að vera. Síðan bætti hann við
og kímdi: Ég vorkenni afganginum
af mannkyninu sem ekki vinnur í
ráðuneytinu.
í þessu spjalli var ekki ætlunin
fyrst og fremst að mæra Birgj
sjötugan enda ekki á mínu færi að
gera það svo sem ég hefði viljað og
vert væri. Þessi stutta afmælis-
kveðja er einungis lítill þakklætis-
vottur af minni hálfu fyrir ágætt
samstarf í áratug og ógleymanleg
kynni.
Ég óska Birgi og hans ágætu
konu, Sigríði, alls hins besta á
ókomnum árum.
Ingólfur A. Þorkelsson
ATHYGLI skal vakin á því, að
afmælis- og minningargreinar
verða aö berast blaðinu með góð-
um fyrirvara. Þannig verður
grein, sem birtast á í miðviku-
dagsblaði, að berast í síðasta lagi
fyrir hádegi á mánudag og hlið^
stætt með greinar aðra daga. f
minningargreinum skal hinn
látni ekki ávarpaður. Þess skal
einnig getið, af marggefnu til-
efni, að frumort Ijóð um hinn
látna eru ekki birt á minningar-
orðasíðum Morgunblaðsins.
Handrit þurfa að vera vélrituð og
með góðu línubili.
Sparneytnir bílar þurfa
ekki að vera þröngir
og óþægilegir. Það
sannar MAZDA 323
Mazda 323 hefur meira rými, þægindi og betri búnað
en sambærilegir bílar og umfram allt er hann ótrúlega
sparneytinn. Eftirtalinn búnaður fylgir öllum gerðum:
Stillanleg hæð á framsæti • Litað gler í rúðum • Rúllubelti
• Öryggisljós að aftan • 60 ampera rafgeymir • Quarts
klukka ■ Niðurfellanlegt aftursæti í tvennu lagi ■ 3 hraða
rúðuþurrkur ■ Tauáklæði á sætum • Bensínlok og farangurs-
geymsla opnanleg innan frá • Halogen framljós • Stokkur milli
framsæta - Farangursgeymsla klædd í hólf og gólf • 3 hraða mið-
stöð Útispegill stillanlegur innan frá og fjölmargt fleira. Enn-
fremur er þurrka og sprauta á afturrúðu í Hatchback gerðum.
Nú eftir lækkun innflutningsgjalds, þá er MAZDA 323
á ótrúlega hagstæðu verði:
MAZDA 323 1.3 DX 3 dyra Kr. 245.000
MAZDA 323 1.3 DX 5 dyra Kr. 249.500
MAZDA 323 1.3 DX Saloon Kr. 262.300