Morgunblaðið - 23.10.1983, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 23.10.1983, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 23. OKTÓBER 1983 31 Rætt við Guðmund Emilsson stjórnanda ís- lensku hljómsveitarinnar, en líkur eru taldar á að hljómsveitin hætti starfsemi sinni í byrjun næsta mánaðar „ef fjárhagsforsendur hennar standast ekki“. Fyrir ári stofnaði ungt tónlistarfólk íslensku hljómsveitina, sem hafa skyldi að markmiði, „að skapa starfsvettvang fyrir unga og hæfileikaríka hljómlistarmenn hér á landi“. Hljómsveitin hélt níu hljómleika hérlendis á sínu fyrsta starfsári og fór í hljómleikaferð til Svíþjóðar í sumar. En hljómsveitin átti sér annað markmið en að skapa starfsvett- vang fyrir ungt tónlistarfólk og það var að starfa án nokkurs ríkisstyrks. En það dæmi gekk ekki alveg upp og síðasta vor hlaut hljómsveitin styrk úr ríkissjóði að upphæð krónur 500.000 og núna í upphafi annars starfsárs hefur hún sótt um 800.000 króna styrk frá ríkinu. í þessu viðtali við Morgun- blaðið segir stjórnandi íslensku hljómsveitarinnar, Guð- mundur Emilsson, m.a.: „Auðvitað vissum við ekki í upphafi hvort þetta tækist en okkur fannst lífsnauðsyn að reyna.“ En látum Guðmund hafa orðið. „Þar eð við byggjum okkar tví- sýnu afkomu á áhuga tónlistar- unnenda og þar sem við erum ný af nálinni, höfum við orðið að halda uppi linnulausri kynningu alls staðar, meðal vina og kunn- ingja, á vinnustöðum og í fjölmið- lum. Enn kem ég fram í nafni Is- lensku hljómsveitarinnar, og þótt mér sé það ljúft á vissan hátt er þetta ekkert uppáhaldshlutverk. Umfjöllun um hljómsveitina hefur ætíð verið jákvæð. Frétta- menn og fréttastjórar hafa lagt okkur lið, og fyrir það erum við geysilega þakklát. Þess vegna varð ég undrandi, þegar ég rak augun í forystugrein í Morgunblaðinu, ekki alls fyrir löngu, þar sem ieið- arahöfundur kaus að fjalla um ís- lensku hljómsveitina í alllöngu máli, nefndi hana sem dæmi um kröfuhörku einstaklinga, stofnana og fyrirtækja við ríkisstjórn, sem leitast við að skera niður óarðbær- an rekstur. Málflutningur leiðarahöfundar er í sem stystu máli sá, að ungir ofurhugar hafi lýst yfir því á liðnu hausti, að þeir ætluðu að reka heila hljómsveit án nokkurs opin- bers stuðnings, en að þeir hafi guggnað á þessu undir vorið, sótt um styrk til ríkissjóðs, fengið hann og þar með orðið ómerkir orða sinna. Og nú stæðu þessir sömu menn ráðþrota og févana andspænis öðru starfsári og settu það að „skilyrði" að styrkur kæmi af fjárlögum, ella yrði ekkert um framhald. í fljótu bragði virðist þessi ádrepa leiðarahöfundar Morgun- blaðsins góð og gild, og ég efast ekki um að hlakkað hefur í sum- um. En ég tek það fram, að nokkr- ir ungir sjálfstæðismenn hringdu á skrifstofu íslensku hljómsveit- arinnar og báðust afsökunar á þessari forystugrein, enda margir þeirra styrktarfélagar. Háttsettur þingmaður flokksins gekk þvert yfir götu til að lýsa undrun sinni á þessum málflutningi. Það sem þessir stuðningsmenn okkar hafa augljóslega fram yfir leiðarahöf- und er það, að þeir eru kunnugir innviðum hljómsveitarinnar, yfir- lýsingum stjórnar hennar og rekstri. Mig langar til að koma sjónarmiðum þeirra og okkar á framfæri. I fyrsta lagi var það yfirlýst stefna hljómsveitarinnar, og er enn, að látið yrði reyna á hvort hægt væri að reka hljómsveit hér án ríkisstyrkja. Auðvitað vissum við ekki í upphafi hvort þetta tæk- ist, en við urðum að reyna. Allt gekk eins og í sögu fyrstu þrjá fjórðunga vetrarins, en þá fór að verða augljóst, að endar myndu ekki nást saman, þrátt fyrir ómælt sjálfboðaliðastarf og and- vökunætur. Þeir aðilar, sem mest höfðu hælt okkur fyrir einka- framtakið í upphafi, brugðust gjörsamlega þegar leitað var eftir stuðningi þeirra, en fjárhagsáætl- un hljómsveitarinnar gerði ráð fyrir að um 20 prósent rekstrar- fjár fengist með stuðningi stórfyr- irtækja og einkaaðila. Stórfyrir- tæki, sem velta milljónum, höfðu ekki ráð á að kaupa auglýsingu i tónleikaskrá svo dæmi sé tekið. Einstaka fyrirtæki brást hins veg- ar mjög vel við, oftar en ekki smá- fyrirtæki, og erum við mjög þakk- lát fyrir það. Okkur tókst sem sagt að afla rúmlega 70 prósenta rekstrarfjár hljómsveitarinnar. Þegar fokið var í öll skjól gengum við á fund fjármála- og menntamálaráð- herra, að vísu fremur niðurlút. Okkur fannst eiginlega æran vera í veði. Við lögðum málið í dóm. Sem betur fer, var það álit þessara tveggja ágætu manna, að rúmlega 70 prósent árangur bæri ekki vott um uppgjöf, heldur lofaði góðu. Styrkur var veittur að upphæð 500.000 krónur, sem reyndist rúmlega 20 prósent af heildarveltu starfsársins, og við náðum landi. Var þessi árangur ósigur? Fyrst taldi ég það, var vonsvikinn að þetta skyldi ekki hafa tekist, og fór með veggjum. Svo fór ég að sjá þetta í öðru ljósi. Ef við berum þennan árangur saman við tekjuöflun tveggja sam- bærilegra menningarfyrirtækja, koma ótrúlegustu hlutir í ljós. Tekjuöflun okkar reyndist tvöfalt betri. Og sé okkar rekstur borinn saman við starfsemi til dæmis listasafna reyndist tekjuöflun okkar mörg hundraðföld. í öðru lagi er það fullkominn misskilningur, að við höfum sett einhverjum „skilyrði" fyrir áfram- haldandi starfi íslensku hljóm- sveitarinnar. Við bendum einungis á að vegna geysilegs ríkisframlags til sambærilegra menningarfyr- irtækja, er samkeppnisaðstaða okkar afar erfið. Við bendum á að stjórn hljómsveitarinnar treystir sér ekki til að veðsetja eigur sínar annað árið í röð. Þetta eru ekki skilyrði, heldur staðreyndir. Álíti núverandi valdhafar að þessi starfsemi sé af hinu góða, styrkja þeir hana, en ekki vegna kröfu- hörku okkar. í þriðja lagi, og er nú komið að kjarna málsins, stöndum við and- spænis vandamáli í menningarlífi okkar. Við stöndum eiginlega á tímamótum. Einfaldast er að horfa framhjá þessu vandamáli, en hitt erfiðara, að leysa það. Hið síðara hæfir stjórnmálamönnum. Þeirra er að finna lausn á vand- anum; til þess eru þeir. Vandamálið er þetta: Fyrir nokkrum áratugum réðst fslenska ríkið í það stórvirki að koma á legg tveimur mikilvægum og ómissandi menningarfyrirtækj- um. Ég á hér við Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit íslands. I upp- hafi fullnægði þessi starfsvett- vangur tveimur stéttum, leikurum og tónlistarmönnum. Nú, rúmlega 30 árum síðar, gera þau það ekki. Það er augljóst. Ungir og velmenntaðir lista- menn standa atvinnulausir utan þessara stofnana. í stað þess að Hhjti íslensku hljómsveiUrinnar og stjórnandinn, Guðmundur Emilsson á æfingu í Gamla bíói í janúar sl. sækja um atvinnuleysisstyrki og gerast ölmusumenn í þjóðfélaginu hafa þeir stofnað menningarfyr- irtæki, lítil blóm gróðursett undir vegg og í skugga. En blómin hafa visnað hvert á fætur öðru, og ég spyr: Er þetta það sem við viljum? Eiga ungir listamenn ekki rétt á vinnu eins og aðrir þegnar þessa lands? Hvernig stendur á því, að þjóð, sem ekki rekur her heldur hefur tekjur af erlendum her, ver aðeins 1,2 prósentum af fjárlögum til lista- og menningarmála? Er það í réttu hlutfalli við menning- aráhuga hér á landi? Lesum við bók aðeins hundraðasta hvern dag eða förum við á tónleika aðeins hundraðasta hvern dag eða í leikhús? Það sem alltof fáir stjórnmála- menn gera sér grein fyrir er það, að mjög stór og öflugur hluti þjóð- arinnar er menningarlega sinnað- ur. Þjóðin lifir í krafti menningar sinnar. Þessi þrýstihópur gæti komið mönnum á þing og af, og ætti kannski oftar að láta í sér heyra. Um 2000 manns hafa sýnt samstöðu um að byggja tónlist- arhús af því stjórnmálamenn hafa ekki haft til þess rænu, 1100 árum eftir að landið byggðist. Fleiri tugir þúsunda sækja leiklistar- viðburði á ári hverju svo ekki sé talað um aðrar listgreinar. Um Morgunblaðið/EBB 70.000 manns sóttu Laugardalsvöll á síðasta ári en tæplega eitt hundrað þúsund manns sóttu Kjarvalsstaði eina eftir því sem mér er sagt. Það er klifað á því að knattspyrnan sé að verða þjóðar- íþrótt íslendinga, en það er íþrótt í fleiru en fótbolta. 1 fjórða lagi. Hvort opinberir aðilar styrkja Islensku hljóm- sveitina núna eður ei, er ekki aðal- atriðið. Kjarni málsins er, að lífsbarátta íslensku hljómsveitar- innar er enn eitt prófmálið, og yrði ekki hið fyrsta sem tapaðist. Við höfum áætlað að ná inn 70 prósent rekstrarfjárins á þessu starfsári, eins og hinu fyrsta, með því að leita til fyrirtækja og einkaaðila. En það verður krafta- verk ef það tekst að mínum dómi. Fæst hjón, til að mynda, hafa efni á að kaupa af okkur áskrift fyrir 3.200 krónur. Ef miðaverð eitt ætti að standa undir kostnaði við hljómsveitina, þyrfti það að vera þrefalt hærra en nú, eða um 900 krónur og þá reiknað með húsfylli á alla tónleikana. Hvað þarf list að standa undir sér að miklu leyti til þess að hljóta náð? Ef fjárhagsforsendur næsta starfsárs standast ekki, hættir hljómsveitin störfum í byrjun nóvember. Að lokum bendi ég fagurkerum á að drekka í sig fegurð fjalla- hnúka, sem nú bera húfur mjalla- hvítar, enda kostar sú list ekki baun í bala," sagði Guðmundur Emilsson hljómsveitarstjóri í lok- in. — ai.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.