Morgunblaðið - 10.02.1984, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 10.02.1984, Blaðsíða 16
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 10. FEBRÚAR 1984 Elín Jónsdóttir Richter skrifar frá Vestur-Þýskalandi: Beðið eft- ir „straum- hvörfum“ Þá er hið margnefnda ár 1984 — ár Orwells, eins og margir nefna það — gengið í garð. Við áramót staldra menn gjarnan við og líta yfir farinn veg; gera eins konar uppgjör. Jafnframt er reynt að rýna fram í tímann; geta sér til, hvað nýja árið ber í skauti sér. Þetta hvort tveggja ætla ég nú að reyna að gera líka, þótt stiklað verði á stóru. Hvað kemur fyrst upp í hugann, þegar horft er til baka? Mér dettur tvennt í hug: áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi og deilurnar um staðsetningu bandarisku kjarnorkueldflaug- anna í Mið-Evrópu. Mikilvæg- ur atburður voru einnig kosn- ingarnar til sambandsþingsins, en aftur á móti virðast allir vera búnir að gleyma manntal- inu, sem fresta varð. Atvinnuleysið jókst enn árið 1983. Fyrri hluta ársins var út- litið í þessum efnum svo slæmt, að reiknað var með því að tala atvinnuleysingja mundi jafnvel ná þriggja milljóna markinu fyrir lok ársins. Sem betur fer hafa þessir spádómar ekki rætzt; síðustu tölur herma, að í desember hafi 2,349 milljónir manna verið at- vinnulausir, eða 9,6%. Eftir því, sem fróðir menn telja, mun nú hafa tekizt að stöðva aukningu atvinnuleysis og eygja þeir von um, að takast megi að minnka það teljanlega á næstu árum. Samt sem áður eru menn á einu máli um það, að því verði ekki útrýmt á þessari öld, heldur verði að miða við 2 milljónir atvinnu- leysingja að jafnaði. Það er enginn vafi á því, að allir vilja gera sitt bezta til þess að vinna bug á þessari plágu, en aðferð- in er mjög svo umdeild. Annars vegar eru stéttafélögin, sem krefjast styttri vinnuviku — eða 35 stunda vinnuviku í stað 40 — án skerðingar launa. Samkvæmt útreikningum þeirra, sem mæla með þessari ráðstöfun, myndu nokkur hundruð þúsund stöður bjóðast á þennan hátt. Vinnuveitendur eru hins vegar algerlega á önd- verðum meiði. Þeir sýna fram á, að í litlum og miðlungsstór- um fyrirtækjum vaxi aðeins álagið á þeim starfsmönnum, sem fyrir eru, og að yfirvinna verði meiri án þess að fleiri starfsmenn yrðu ráðnir. Auk þess yrði fjárhagslega hliðin mörgum fyrirtækjum ofviða. Tillaga vinnuveitendsamtak- anná er hins vegar að lækka eftirlaunaaldurinn niður í 58—59 ár. Eins og er fara karlmenn á eftirlaun 63—65 ára, en konur 60 ára. Við það myndu mjög margar stöður losna, sem yrði að ráða nýtt fólk í. Að sjálfsögðu fylgir slíkri lausn einnig aukinn kostnaður, en honum yrði sennilega skipt á milli vinnu- veitenda, ríkisins og vinnuþega í formi hærri tryggingagjalda. Núverandi stjórn landsins hallast helzt að síðarnefnda fyrirkomulaginu. Og hversu mjög sem maður kann að óska sér styttri vinnutíma, þá virð- ist mér stytting starfsaldurs öllu vænlegri til árangurs. Eitt er víst, að þetta verður aðalefni samningaviðræðna stéttarfé- laganna og vinnuveitenda í ár, og er búizt við heiftugum deil- um og jafnvel verkföllum er fram í sækir. Eins og siður er, lofuðu allir stjórnmálaflokkar gulli og grænum skógum í kosninga- baráttunni fyrir ári. Kristi- legum demókrötum (CDU/ CSU) varð einkum tíðrætt um „die Wende“, sem e.t.v. mætti nefna straumhvörf til bjartari framtíðar. Það hefur þó reynzt öllu erfiðara að koma þessum straumhvörfum til leiðar en okkur var talin trú um, enda er eins gott að taka slíkum loforð- um með vissum fyrirvara. Skal þó ekki efazt um góðan vilja kristilegra stjórnenda. f lok ársins 1983 og nú i byrjun nýs árs virðist aukin bjartsýni eiga svolitinn rétt á sér; efnahags- lífið hefur aðeins rétt úr kútn- um, og hafa menn góða von um, að framhald verði á því. Auðvitað fullyrða stjórnar- flokkarnir, að þetta sé aðeins þeim að þakka, en stjórnar- andstaðan segir það af og frá og bendir á svipaða þróun á heimsmarkaðnum. Þingmenn allra flokka — utan Græningjanna — komu þó einu sameiginlegu til leiðar á liðnu ári: þeir bættu rækilega við hlutinn sinn — og það í sama mund og brýnt er fyrir alþjóð að spara, spara, spara. Sam- tímis var skorið af atvinnu- leysisbótum og fjöldamörgum liðum, sem vera áttu illa sett- um þegnum til styrktar, en ég er viss um, að fólkið neitar sér með glöðu geði um saltið í grautinn sinn, svo að þing- mennirnir okkar þurfi ekki að _ svelta. í grein minni, sem birtist í des- ember sl., ræddi ég um frið- arhreyfinguna og staðsetningu bandarísku kjarnorkuvopn- anna hér í landi, svo að ég fer ekki mörgum orðum um það nú. Síðan samþykkt var á sam- bandsþinginu í nóvember sl. að leyfa staðsetningu vígbúnaðar- ins, hefur verið fremur hljótt um friðarhreyfinguna og reyndar um framkvæmdirnar við uppsetninguna líka. Ekki er samt að efast um að hún hefur gengið vel, og að við megum þykjast örugg undir „verndar- væng“ tortímingartækjanna. Við kosningarnar til sambands- þingsins, sem fram fóru þann 6. marz 1983, báru kristilegir demókratar með Helmut Kohl fremst í flokki í samvinnu við frjálsa demókrata sigur úr být- um og hafa þeir þvi stjórnvöl- inn í sínum höndum a.m.k. þetta kjörtímabil. Helmut Kohl er ekki aðsópsmikill mað- ur og á lítt heima í kanzlara- embættinu að mér finnst. Hann notfærir sér stöðu sína — eins og reyndar fleiri — til þess að ferðast vítt um heim- inn, brosir eins og þægur krakki í hvert sinn, sem hann sér myndavél og heldur marg- ar, innihaldslausar ræður. Hann ku ekkert óttast meira en að hinn voldugi formaður systurflokksins í Bayern, CSU, Franz Josef Strauss, brjóti sér leið til Bonn og hremmi einn ráðherrastólinn þar. Reyndar segist Franz Josef Strauss vera harðánægður með núverandi Otto greifi Lambsdorff efna- hagsmálaráðherra. stöðu sína sem forsætisráðh- erra Bayern-fylkis, en slíku skal ætíð trúað mátuiega. Eins og sakir standa, kann Strauss að vera nær þessu takmarki en nokkru sinni áður. Stjóm Kohls hefur þungan bagga að bera, þar sem tveir ráðherrar hennar eru flæktir í mál, sem kunna að kosta þá embættin. Það eru efnahags- málaráðherrann úr flokki frjálsra demókrata, Otto greifi Lambsdorff, og varnarmála- ráðherrann úr CDU, Manfred Wörner. Á Lambsdorff hvílir þungur grunur um mútuþægni. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að skýra nánar frá þessu máli, eins og hefur verið ritað um það í ís- lenzkum blöðum. En sem sé, greifinn — ásamt fleirum úr fíokki hans — er ákærður fyrir að hafa þegið peningagjafir til flokks síns frá Flick-samsteyp- unni fyrir nokkrum árum, er Flick seldi sinn hluta í Da- imler-bifreiðaverksmiðjunum (Mercedes Benz) fyrir 450 milljónir marka. í þakklæt- isskyni fyrir rausnina á Lambsdorff að hafa komið því til leiðar, að Flick-samsteypan var leyst undan skattgreiðslum vegna þessara viðskipta, en þær skattgreiðslur hefðu num- ið mörgum milljónum marka. Forsendur fyrir skattafríðind- unum voru þær, að Flick keypti bandarískt fyrirtæki „Grace" fyrir tekjurnar af sölunni á Daimler. Fyrirhugað var sennilega bara í „þykjustunni") að „Grace" myndi hefja öfluga samvinnu við hin þýzku fyrir- tæki Flick-samsteypunnar, sem myndi koma þýzku efna- hagslífi til góða. Ég man nú ekki alveg, hvaða ár þetta var, en um síðustu ára- mót hefðu allar skattakröfur ríkisins á hendur Flick endan- lega fyrnzt. Það varð því að r'hafa hraðann á, ef einhverju átti að bjarga, er ríkissaksókn- ari þóttist hafa næg gögn til að stefna Lambsdorff og félögum hans. Á milli jóla og nýárs flögraði skattseðill á borð Flick-forstjóranna: þeim er gert að greiða fullan skatt af söluverðinu. Nú var blaðinu snúið við; forsendurnar fyrir skattfríðindunum voru aldrei fyrir hendi; samvinna á milli „Grace“ og þýzkra fyrirtækja var aldrei nein og þar með ber að greiða fullan skatt. Enginn vafi er á því, að Flick mun kæra skattálagninguna, svo að við munum njóta frétta af þessu máli í nokkur ár enn. Þótt málið hafi nú snúizt á þenn- an veg, breytir það engu um, að þung ákæra hvílir á efna- hagsmálaráðherranum. Reyn- ist hún rétt, losnar sæti hans innan skamms, og hver veit nema Strauss sjái sér þar færi. Eftir að ákæran á hendur Lambsdorff var lögð fram opinberlega, hafa margir farið fram á, að hann léti af embætti þegar í stað, en hann lætur slfkar kröfur sem vind um eyru þjóta og situr sem fastast, enda heldur hann fram sak- leysi sínu statt og stöðugt. Aðeins örfáir dagar voru liðnir af þessu ári, er annað mál kom fram í dagsljósið, sem skyggir á allt annað. Þetta nýja mál — ég veit ekki ennþá, hvort það er hneyksli — varðar varnar- málaráðuneytið og ráðherra þess úr flokki kristilegra demókrata, Manfred Wörner. Það byrjaði með því, að næst- æðsti hershöfðingi NATO, hinn þýzki fjögurra stjarna hershöfðingi, Kiessling, var settur á eftirlaun, nokkrum mánuðum fyrir tímann. Lítið var skýrt frá ástæðum, nema að maðurinn væri hættulegur öryggi þjóðarinnar. Blaða- mönnum þótti þetta haldlitlar upplýsingar, sem von var, og nú upphófust alls konar getg- átur og fyrirspurnir. Ekki leið á löngu þar til alþjóð var gert kunnugt, að hershöfðinginn væri kynvilltur og hefði oft sézt á „homma“-börum og þess háttar stöðum. Af þessu leiddi, að hann gæti auðveldlega orðið fórnarlamb fjárkúgara, og þar sem hann hafði aðgang að leyniskjölum NATO, væri hann þar með orðinn hættu- legur örygginu. Mér er sam- hengið ekki alveg ljóst, en það getur svo sem eitthvað verið til í þessu. Kynvilla sem slfk er ekki talin til afbrota (hún var refsiverð til skamms tíma), og þar með ætti sú tilhneiging ekki að leiða til fjárkúgunar. En það er að vísu ekki sama, hvaða hlutverki maður gegnir í þjóðfélaginu; kynvilltur maður úr skemmtanaiðnaðinum er alls ekki á sama báti og kyn- villtur hershöfðingi. Reyndar er hreint ekki víst, að Kiessling sé „hommi", því að engar óyggjandi sannanir eru fyrir hendi. — Stuttu eftir að þessi orðrómur komst á kreik, upp- götvuðu blaðamenn tvífara Kiesslings, sem venur komur sínar á fyrrnefnda „homma“- staði, en hann hvarf mjög skjótt af sjónarsviðinu. Það er eitthvað bogið við þetta allt saman. Þetta mál hefur leitt til þess, að starfshættir leyniþjónustunn- ar MAD (Militárischer Ab- schirmdienst) hafa mjög svo orðið til umræðu, enda bendir allt til þess, að hér hafi verið hroðvirknislega unnið. Það er anzi hart að ónákvæm vinnu- brögð geti eyðilagt mannorð heiðvirðra manna. Því að það gildir einu, hvað kemur í ljós í þessu máli, það mun alltaf loða við manninn, hversu hvítþveg- inn hann kann að verða af öll- um grun. Og það er einmitt þetta, sem getur orðið varn- armálaráðherranum að falli: ónákvæmar rannsóknir og vanhugsaðar ákvarðanir. Stjórnarandstaðan hefur þegar farið fram á afsögn Wörners og að rannsóknarnefnd taki málið fyrir. Hún fékk ekki sínu framgengt hvað hið fyrrnefnda varðar, en rannsóknarnefnd hefur verið sett á laggirnar. Nú er bara að bíða eftir niðurstöð- um eftirgrennslana hennar, sem geta að vísu látið bíða lengi eftir sér.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.