Morgunblaðið - 20.07.1984, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 20.07.1984, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 20. JÚLÍ 1984 Níutíu ára: Þorlákur G. Ottesen í dag á Þorlákur Guðmundsson Ottesen nfutíu ára afmæli. Hann þekkja fjöldamargir Reykvíkingar og aðrir landsmenn fyrir störf að verkstjóramálum og hesta- mennsku. Þorlákur fæddist að Galtarholti í Skilmannahreppi 20. júlí 1894, sonur Guðmundar Jónssonar Ottesen bónda þar og víðar, síðast að Miðfelli i Þingvallasveit, og konu hans, Ásu Þorkelsdóttur. Hann flutti til Reykjavíkur 1917, fór fljótlega að vinna hjá Reykjavíkurhöfn og vann þar óslitið þar til hann fór á eftirlaun 1964 og var þar af 39 ár verkstjóri. Hann haut óskoraðs trausts hafn- arstjóranna Þórarins Kristjáns- sonar og Valgeirs Björnssonar, sem hann vann með f áratugi. Honum var umhugað um hag og aðbúnað verkamanna sinna, og völdust til hans röskir og kjark- miklir starfsmenn er oft unnu langar vaktir, þegar standa þurfti að stórviðgerðum, sem bundnar voru því að vinna á fjöru, hvenær svo sem hún var sólarhringsins. Enda þótt oft þyrfti að afkasta mikiu og menn að leggja sig fram, kunni Þorlákur að segja þannig til verka að allt vannst haganlega, og vel var hann liðinn af þeim sem hjá honum unnu. Þorlákur hefur alltaf verið fé- lagslyndur maður. Hann átti sæti í stjórn Byggingarfélags alþýðu, í stjórn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og í stjórn Verk- stjórafélags Reykjavikur. Var formaður Verkamannafélags Is- lands 1949—1951. Hann sat í stjórn KRON í áratugj og sat fyrir þeirra hönd ársfundi SÍS. Hann var varabæjarfulltrúi um skeið. Fyrir öll þessi störf hefur hann verið margvíslega heiðraður. Þorlákur giftist Þuríði Frið- riksdóttur árið 1918. Hún var dóttir Friðriks Gunnarssonar bónda á Þorgrímsstöðum í V-Húnavatnssýslu. Hún var hug- sjóna- og baráttukona og stóð framarlega í flokki vinstri manna á árunum fyrir og um siðustu heimsstyrjöld. Hún bjó manni sín- um fallegt heimili, lengst af á Bollagötu 6. Þau áttu fjögur bðrn, þrjár dætur og einn son, og dóttur Þuríðar gekk Þorlákur í föðurstað. Konu sína missti Þorlákur um aldur fram árið 1954. Þorlákur ólst upp að Galtarholti og síðan að Ingunnarstöðum í Brynjudal hjá afa sínum, Jóni Bergmann. Hann vann öll störf er þá voru tíðkuð til sveita, þótti gaman að umgangast og hirða skepnur, en snemma urðu honum hestarnir kærir. Þorlákur hefur lýst því að fyrsta ferðalagið á hestbaki hafi hann farið 5 ára þá á leið til afa síns og var það fyrir síðustu aldamót. Hann eignaðist sinn fyrsta hest sex ára gamall og átti hesta þar til hann fór til Reykjavíkur 17 ára. Þá varð hann að láta hestinn sinn. í þá daga höfðu unglingar enga möguleika á því að halda hest í bænum. Þorlákur ætlaði sér ekki að verða hesteigandi á ný, og þáði ekki að koma á hestbak þótt boðið væri af kunningjum, hafði sagt skilið við hestamennskuna. En örlögin koma mönnum stundum á óvart. 25 árum síðar hafði faðir Þorláks, er þá bjó á Miðfelli í Þingvallasveit, loksins keypt brúnan fola, sem honum hvarf síðan. Er hesturinn var loksins handsamaður eftir strokið var hann fluttur til Reykjavíkur til Þorláks, þar sem hann hafði aðstöðu til að hýsa hann á at- hafnasvæði Reykjavíkurhafnar fyrir ofan Múla við Suðurlands- braut. Það dróst að fá hentuga ferð fyrir hestinn austur og fór þá hirðirinn að hreyfa þann brúna og síðan að temja og laga. Reyndist þetta hinn ágætasti reiðhestur og fór svo að Þorlákur eignaðist hest- inn, gleymdi sínu forna heiti og hóf hestamennsku að nýju, og varð það bæði honum og svo öllum hestamönnum á Reykjavíkur- svæðinu til hinnar mestu gæfu. Þorlákur G. Ottesen og Hesta- mannafélagið Fákur eiga langa sameiginlega sögu. Hún hófst árið 1945 er hann gekk í félagið, ný- byrjaður á seinni þætti hesta- mennsku sinnar. Hann var kosinn sem meðstjórnandi í stjórn Fáks árið 1947 og sat til 1949. Árið 1953 var afdrifaríkt fyrir Hestamannafélagið Fák. Nokkur deyfð var yfir starfseminni, félög- um fór fækkandi og ekki var sam- staða í stjórninni um rekstur fé- lagsins. Hesthús voru leigð að Laugalandi fyrir rúmlega 30 hesta og voru þau tæplega nýtt, vegna mikils fóðurkostnaðar. Stjórn- armenn vildu helst allir losna, en höfðu þó áhyggjur af framtíð fé- lagsins. En allt virtist byggja á því, hver treysti sér til að taka við for- mennskunni. Stöðvast var við nafn Þorláks. Var mér ásamt Ing- ólfi Guðmundssyni frá Ferju- bakka falið að hitta hann og leggja að honum að koma til liðs við félagið. Eftir miklar umræður síðla vorkvölds á leið niður með Elliðaánum lét Þorlákur til leiðast eftir að hafa varist lengi. En með því skilyrði þó, að meðan hann gæfi kost á sér, yrðum við Ingólfur að vera reiðubúnir kalli hans til þeirra starfa í stjórn eða utan sem hann kynni til að nefna. Við urð- um að ganga að þessu. Þorlákur tók við formennsku á aðalfundi 1953 og var formaður óslitið á meðan hann gaf kost á sér, þ.e. til aðalfundar 1967. Fljótlega eftir að hin nýja stjórn tók við var hafist handa um að endurbæta aðstöðu hesta- manna í Reykjavík. Lagfæring á gamla skeiðvellinum og viðbótar- bygging hesthúsa að Laugalandi var það fyrsta. Síðan hófust samn- ingar við borgaryfirvöld um nýjar hesthúsbyggingar við Elliðaárnar, sem þá var stærsta átak sem hrundið hafði verið í framkvæmd á vegum hestamanna. Þorlákur stóð fyrir þessum málum af dugn- aði og lipurð, honum var sérstak- lega lagið að fá hina ólíklegustu menn til að vinna saman að fram- gangi mála. Stuttu eftir að þessum áfanga lauk komu fram hugmynd- ir um félagsheimili við Skeiðvöll- inn gamla. Þótti þá mörgum í of stórt ráðist og erfitt yrði um út- vegun fjármagns til framkvæmd- anna. En Þorlákur var ódeigur og tók á sig alla ábyrgð á því málið kæmist í höfn. Hann fór á fund bankastjóra og annarra er stutt gátu málið. Allir báru strax við fyrstu kynni mikið traust til Þorláks og honum tókst að útvega þá fjármuni er til þurfti og félagsheimilið reis á stuttum tíma og hefur orðið Fáki hin mesta lyftistöng. Ekki skal því haldið fram að Þorlákur hafi kom- ið öllum þessum málum í höfn einn og óstuddur. En eins og áður var á minnst, gekk hann ótrauður í broddi fylkingar og stjórnaði liði sínu af festu og lipurð, sameinaði allra krafta þannig að hinn mikli árangur náðist. Margar góðar minningar koma fram i huga þeirra er unnu með Þorláki á þess- um árum og þakklæti fyrir ánægjulegt samstarf og vináttu. Framtíðaruppbygging og efling félagsins hefur alla tíð verið hug- sjón Þorláks Ottesen. Margra annarra þátta í sam- skiptum hestamanna við Þorlák þyrfti að minnast. Hann sat stofnfund Landssambands hesta- mannafélaga árið 1949 og hefur verið fulltrúi Fáks á öllum árs- þingum þess síðan, verið þar virk- ur þátttakandi í tillögugerð og umræðum, verið afdráttarlaus og jákvæður í þeim málum er helst stefndu til framfara. Ferðalög á hestum hafa ef til vill átt hug hans mestan. Hann hefur frá því að hann hóf hesta- mennsku á ný, eins og fyrr var getið, komið því við allt fram und- ir síðustu ár að fara sumarferð á hestum sínum. Og hann er einna viðförlasti maður núlifandi um byggðir og óbyggðir Islands á hestbaki. Norður, suður, austur og vestur hefur hann farið og væri stórkostlegt ef sú saga væri skráð. En alltaf sat í fyrirrúmi umhyggj- an um hestana og að þeim liði eins vel og kostur var, þótt oft væri mikið á þá reynt. En þeir voru vel upp aldir og vel þjálfaðir. „Ef þú eignast fola, þá skaltu teyma hann og reka með fyrstu tvö árin. Eftir það getur þú farið að leggja að honum." Þetta voru heillaráð, sem Þorlákur kenndi mér og fleiri samferðamönnum. Enda minnast menn þess frá fyrstu kynnum, hve hestar Þorláks entust honum vel. Hann átti þá árum saman og suma á þriðja áratug. Við minn- umst gæðinganna Brúns og Golsa, Barkar og Stjörnufáks, Mána og Lats, svo nokkrir séu nefndir. Þorlákur reið í fararbroddi, jafnt f fámennum hópi félaga eða stórum hestaflota Fáksmanna. Þá þýddi lítt að etja kappi við hann. Þorláki var þá lítið gefið um að hleypa manni fram fyrir sig. Foringinn skyldi í fylkingarbrjósti ríða. Einnig voru samskipti við hest- ana í húsi að vetrarlagi Þorláki mikils virði. Síðan við kynntumst fyrst hefur hann hirt hesta sína sjálfur. Oft var það sérstakt ánægjuefni að heimsækja Þorlák í hesthúsinu og sjá umgengni og al- úð hans við að sinna þörfum hinna ferfættu vina sinna. Síðasta áratug hefur Þorlákur búið einn í gömlu húsi í Selási. Þegar hann fluttist þangað var þar strjálbýlt, rúmgóð lóð og bílskúr sem hann breytti f hest- hús. Húsið var eins og sniðið að þörfum Þorláks, þegar hann var hættur störfum, en umgengni við hestana var lífsfylling hans. Von- andi fær hann að vera þarna enn um stund og hafa hestana við eldhúsgluggann. Það er enn ótalmargs að minn- ast, en hér verður staðar numið. Um leið og ég tek mér það leyfi að þakka Þorláki öll þau ómetan- legu störf sem hann hefur unnið Hestamannafélaginu Fáki svo og öllum hestamönnum landsins færi ég honum fyrir hönd okkar allra hugheilar hamingjuóskir á þess- um merku tímamótum í lífi hans. Þorlákur tekur á móti vinum og velunnurum í Félagsheimili Fáks milli kl. 3 og 6 í dag, 20. júlf. Haraldur Sveinsson Spurningin varðar tæknileg atriði r r * — segir Asmundur Stefánsson, forseti ASI, um tilmæli VSI um viðræður um mismun á útreikningum á kaupmætti launa „MÉR fínnst ósköp eðlilegt að VSÍ beini fyrirspurn til okkar þessa efnis. Spurningin sýnist mér varða tæknileg atriði, sem mér finnst eðlilegt að tækni- menn okkar geri grein fyrir og ræði,“ sagði Ásmundur Stef- ánsson, forseti ASÍ, aðspurður um þá málaleitan VSÍ að viðræð- ur verði hafnar um mismun á útreikningum ASÍ og VSÍ á kaupmætti launa og kaupmáttar- þróuninni á árinu. Aðspurður um tillögu Magnús- ar Gunnarssonar, framkvæmda- stjóra VSl, sem fram kom í Mbl. í gær, varðandi skattalækkanir sem mögulega leið til kjarabóta, sagði Asmundur: „Samkvæmt mínum upplýsingum hefur skattbyrðin, þ.e.a.s. það hlutfall tekna á árinu sem fer til þess að greiða skatta til ríkis og sveitar- félaga, hækkað frá fyrra ári. Ár- ið 1983 var þetta hlutfall 12,1%, en í ár má vænta þess að hlut- fallið verði 13,1% af tekjum. Ef ekki hefði komið til þeirra fé- lagslegu aðgerða, sem fylgdu samningum í vetur, hefði skatt- byrðin í ár orðið 13,8%. Það er náttúrulega augljóst að úrbætur í skattamálum skipta máli og hljóta að verða metnar í samn- ingum hverjir svo sem hlut eiga að máli. Þar með er ekki sagt að öll mál verði leyst með skatt- breytingum, og sú staðreynd sem við okkur blasir, er að skattarnir hafa hækkað. Það er alveg ljóst, að hvort sem það kemur til átaka á vinnu- markaði í haust eða ekki, ákvarð- ast það ekki eingöngu af verka- lýðsfélögunum, heldur af við- brögðum vinnuveitenda. Það er því ábyrgð vinnuveitenda, að gera allt til þess að komast hjá átökum," sagði Ásmundur enn- fremur. Ásmundur var einnig spurður út í 5. grein kjarasamningsins frá því 21. febrúar í vetur, en hana gerir Magnús einnig að um- ræðuefni í viðtalinu í Morgun- blaðinu og telur hana vænlega til árangurs, en hún segir að báðir aðilar skuli beita sér fyrir að- gerðum sem miði að aukinni framleiðni og verðmætasköpun á öllum sviðum íslensks atvinnu- lífs. „Ég treysti mér ekki til að leggja dóm á það að svo stöddu. Ég veit ekki hvað það er, sem hann er þarna sérstaklega að hugsa til, en það skýrir hann væntanlega í viðræðum við Verkamannasambandið," sagði Ásmundur. „Það eru mismunandi forsend- ur hjá hinum ýmsu hópum innan okkar raða,“ sagði Ásmundur að- spurður um þá ákvörðun sam- ráðsnefndar ASÍ að ekki verði um samflot að ræða í samning- um að þessu sinni. „Launakerfin eru ólík, félagslegar forsendur mismunandi og aðstaðan til átaka breytileg, eins og segir í ályktun samráðsnefndarinnar. Sumir hópar búa við fast launa- kerfi, aðrir eru með ýmiskonar afkastahvetjandi kerfi. Sumir hópar njóta verulegra yfirborg- ana, meðan aðrir eru einungis á taxtakaupi. Staða hópanna er mismunandi og þau atriði sem mest pressa er á eru engan veg- inn þau sömu yfir alla línuna. Við höfum verið með samflot í þó nokkur ár og á slíkum tímum getur skapast tilhneiging til að ýmis atriði sitji á hakanum, sem varða einstaka hópa og þess vegna er þrýst á um breytingar. Við teljum að við þessar aðstæð- ur sé rétt, að hver hópur leggi áherslu á þau málefni, sem hann skipta mestu og að með því móti verði forsendurnar bestar til að sameina hann. Við hljótum á hverjum tíma að velja þá aðferð sem líklegust er til að skila árangri,“ sagði Ásmundur Stef- ánsson, forseti ASÍ, að lokum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.