Morgunblaðið - 02.03.1985, Blaðsíða 4
4
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 2. MARS 1985
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nemendur Menntaskólans í Reykjavík ræddu málin í anddyri skólans í morgun, á meóan þeir biðu eftir aó sjá hvort kennarar þeirra mættu til vinnu.
Ó fremdarástand í
framhaldsskólum
— víöast féll meirihluti kennslu niður
SKÓLAHALD í framhaldsskólum
landsins var meira og minna lamað
í gær, þar sem meginþorri þeirra
kennara sem sögðu upp störfum 1.
desember sl. kom ekki til starfa í
gær, 1. mars. Þetta kemur fram í
viðtölum þeim sem hér fara á eftir,
við stjórnendur mennta- og fjöl-
brautaskóla um land allt.
„Mjög takmarkað
skólahald í Hamrahlíð,,
Sveinn Ingvarsson, konrektor í
Menntaskólanum við Hamrahlíð,
sagði: „Það hefur verið mjög tak-
markað skólahald hjá okkur í
Hamrahlíð í dag. Við byrjuðum á
venjulegum tíma í morgun, og þá
voru mættir 9 kennarar af þeim
28 sem áttu að mæta. Það var
svipað þessu, hlutfallið, fram
undir hádegi, en eftir hádegi voru
nemendur á Austurvelli á fundi,
þannig að skólahald var nánast
ekkert eftir hádegi." Sveinn sagði
að ekki lægi ljóst fyrir hversu
margir hefðu hætt störfum í gær
af þeim 58 sem sögðu upp, en lík-
legt er talið að flestir þeirra hafi
hætt. Talið er að um 80% kennsl-
unnar sem verið hefur í skólanum
hafi verið í höndum þessara 58
kennara, en kennarar eru rétt
innan við 90 talsins. Sveinn sagði
að ekkert væri hægt að segja til
um hvert framhaldið yrði hjá MH
fyrr en málin skýrðust eitthvað
eftir helgi.
„Enginn þeirra sem sögðu
upp kom til vinnu í dag“
Kristján Bersi Ólafsson, skóla-
meistari í Flensborgarskóla í
Hafnarfirði, sagði: „Það hefur
verið kenndur um það bil þriðj-
ungur þeirrar kennslu sem var á
stundaskrá hér í dag. Hér starfa
44 kennarar á þessari önn og 24
þeirra sögðu upp. Enginn þeirra
kom til vinnu í dag.“
Kristján Bersi sagði að hann
hugsaði ekki lengra fram í tím-
ann en einn dag í senn, þegar
ástandið væri eins og það er
núna, „en þetta er náttúrlega ekki
hægt til lengdar," sagði Kristján
Bersi.
Kéttur helmingur kennara
í Fjölbraut í Breiðholti
sagði upp, en kennir meira
en 50% kennslunnar
Guðmundur Sveinsson, skóla-
meistari Fjölbrautaskólans í
Breiðholti, sagði: „Upphaflega
sagði upp starfi 61 kennari af 115,
en síðan drógu 3 kenarar upp-
sagnir sínar til baka, þannig að
við höldum að 58 kennarar hafi
gengið út í morgun. Það segir
ekki alla söguna, því meira en
50% kennslunnar eru á herðum
þessara kennara sem sagt hafa
upp.“ Guðmundur sagði að skóla-
hald hefði verið óeðlilegt í fyllsta
máta í gærmorgun, en á það bæri
einnig að líta að fyrsta daginn,
þegar svona nokkuð kæmi upp á,
færi allt úr skorðum. Hann sagði
að þeir kennarar, sem ekki hefðu
sagt upp, kenndu sína kennslu, en
ekkert væri farið að huga að því
hvað gert yrði til þess að kennsla
fengist í stað þeirrar kennslu sem
var í höndum þeirra sem gengu út
ígær.
Allir kennarar gengu út
„Allir kennarar skólans, 15 að
tölu, gengu frá störfum sínum í
gær og mættu ekki að nýju í
morgun," sagði Vilhjálmur Ein-
arsson, rektor Menntaskólans á
Egilsstöðum. „Hér er aðeins einn
kennari, sem ekki hafði sagt upp
störfum og það er íþróttakennar-
inn. Auðvitað þýðir þetta að við
getum alls ekki haldið uppi neinu
skólastarfi, en það er þó lán í
óláni hjá okkur, að næsta vika
átti að vera svokölluð „opin vika“,
en þá er engin hefðbundin
kennsla. Ef skólahald leggst ekki
niður í lengri tíma en viku þá
raskast ekki almanakið hjá okkur
varðandi námslyktir í vor.“
Vilhjálmur sagði að í ME væru
um 200 nemendur og helmingur
þeirra byggi í heimavist skólans.
„Nær allir nemendur á heimavist
fara til síns heima um helgina og
aðeins 5 verða eftir," sagði hann.
„Þeir nemendur, sem búsettir eru
hér geta auðvitað notfært sér
bókasafn skólans og aðra að-
stöðu."
Vilhjálmur sagðist að lokum
ekki trúa því að þetta ástand
stæði lengi. „Allir sem hlut eiga
að máli hljóta að reyna að gera
skaða nemenda sem minnstan svo
þeir hljóta að leggjast á eitt að
leysa vandann."
„Hvetjum nemendur
til að mæta“
Hjálmar Árnason, yfirkennari
Fjölbrautaskóla Suðurnesja,
sagði að haldnir hefðu verið fund-
ir með nemendum skólans og þeir
hvattir til að mæta þrátt fyrir
röskun á kennslu, sem fjarvera
kennara ylli.
„Kennarar við skólann eru alls
52, en þeir 21, sem gengu út, báru
uppi um 58% kennslunnar," sagði
Hjálmar. „Að vísu höfðu 24 sagt
störfum sínum lausum, en 3
ákváðu að hlíta framlengingu
uppsagnarfrestsins. Við ætlum að
halda uppi kennslu svo lengi, sem
unnt er, en þeir kennarar sem
eftir eru munu að öllum líkindum
ekki ganga inn í störf þeirra, sem
nú eru fjarverandi. Okkur barst
bréf frá Hinu íslenska kennarafé-
lagi, þar sem bent var á, að engar
breytingar má gera á stundaskrá
þeirra kennara, sem enn starfa,
nema með fullu samþykki þeirra.
Þessir kennarar hafa samþykkt
að ganga ekki inn í störf starfs-
bræðra sinna, svo engra breyt-
inga er þar að vænta."
Hjálmar sagði, að kennsla félli
niöur á öllum námsbrautum skól-
ans jafnt, en í öldungadeild
misstu 11 hópar alla kennsku en
17 enga. Hann kvaðst vonast til
að þetta ástand þyrfti ekki að
vara lengi og sagðist bjartsýnn á
að niðurstöður nefndar, sem vann
að endurmati á störfum kennara,
flýtti fyrir lausn deilunnar.
„Hörmulegt ástand“
„Skólahald hefur verð í molum
í dag og ástandið er hörmulegt,"
sagði Björn Bjarnason, rektor
Menntaskólans við Sund. „Af 68
kennurum skólans sögðu 35 upp
störfum og gengu þeir allir út
nema einn, sem ákvað að hlíta
framlengingu uppsagnarfrests.
Við reynum að kenna samkvæmt
stundatöflu fram yfir helgi, en
síðan veit ég ekki hvað verður.
Það stendur þó ekki til að loka
skólanum alveg."
Björn sagðist engu vilja spá um
það hversu lengi þetta ástand
myndi vara, enda kvað hann
ómögulegt að segja af eða á um
það. Hann kvað ekki líklegt að
hægt yrði að fá forfallakennara,
enda hefði það ekki verið reynt.
Kennarar snúa ekki
aftur nema kjör
þeirra verði bætt
„Við reynum að kenna sam-
kvæmt stundatöflu, en það er
auðvitaö óhjákvæmilegt að
kennsla er ekki samfelld og bend-
um við nemendum á að dveljast á
bókasafni skólans á meðan þeir
bíða næstu kennslustundar,"
sagði Ingólfu A. Þorkelsson,
skólameistari Menntaskólans í
Kópavogi. „Helmingur kennara
hefur lagt niður störf, eða 16
kennarar, en tveir drógu upp-
sagnir sínar til baka fyrir
nokkru. Við reynum að hagræða
kennslunni þannig að skóladag-
urinn verið sem næst samfelldur,
en það getur reynst erfitt. Það er
einnig misjafnt hve mikla
kennslu hver deild missir, t.d.
falla aðeins niður 10 kennslu-
stundir á viku hjá stúdentsefnum
í máladeild, en hjá öðrum fellur
niður allt að helmingur kennslu.
Við teljum hagstætt fyrir nem-
endur að fá alla þá kennslu sem
hægt er að veita, en auðvitað er
þetta ástand samt mjög bagalegt.
Kjarni málsins er sá, að kennarar
snúa aftur til vinnu verði kjör
þeirra bætt. Þetta ástand má ekki
standa lengi því þá er málum
stefnt í mikið óefni,“ sagði skóla-
meistari MK að lokum.
Hörmulegt ástand
„Þetta er hörmulegt ástand hér
í dag,“ sagði Jón Hjartarson,
skólameistari Fjölbrautaskólans
á Sauðárkróki. „Af 24 kennurum
hafa 12 gengið út og um 70%
kennslu í skólanum hafa fallið
niður. Það er misjafnt eftir svið-
um hvernig útkoman er fyrir
nemendur. Þeir sem eru á við-
skiptabraut missa t.d. svo til alla
kennslu, en á öðrum námsbraut-
um er kennslumissirinn ekki eins
mikill."
Jón sagði að mjög erfitt myndi
reynast að halda skólanum gang-
andi við þessar aðstæður og
kvaðst hafa brýnt fyrir kennur-
um það viðhorf menntamálaráðu-
neytisins, að útganga þeirra úr
skólunum teldist lögbrot. „En í
krafti samstöðu stéttarfélagsins
gengust þeir ekki inn á að taka
þau rök gild,“ sagði hann og bætti
því við, að þó að erfitt væri, hygð-
ist hann reyna að halda skólanum
opnum a.m.k. fram á miðvikudag
í næstu viku.
„Ég átti von á því að samtök
kennara myndu sýna biðlund í
viku til tíu daga,“ sagði Jón. „Þar
sem ég tel að samninganefnd rík-
isins hafi ekki getað gengið frá
tilboðum fyrr en að heildarkröfur
lágu fyrir og því hefði verið
ástæða til þess að fresta aðgerð-
um í eina til tvær vikur til viðbót-
ar. Ég harma að það skuli ekki
hafa gerst.“
Fyrirsjáanlegt að 80%
kennslu falli niður
í Kvennaskólanum í Reykjavík
var árshátíðarfrí í gær og reynir
því ekki á það fyrr en eftir helgi,
hvort þeir kennarar, sem hafa
sagt upp störfum, muni mæta til
vinnu. Aðalsteinn Eiríksson,
skólameistari Kvennaskólans,
tjáði blm. að allir fastráðnir
kennarar skólans, sem eru í HÍK,
hefðu sagt upp störfum. „Þar er
um u.þ.b. 15 af 18 fastráðnum
kennurum skólans að ræða, en
alls eru 29 kennarar við skólann,
að meðtöldum stundakennurum,"
sagði Aðalsteinn.
„Þá hafa sumir stundakennar-
arnir sent inn svokallaðar stuðn-
ingsuppsagnir. Ef miðað er við
kennslumagn, þ.e. fjölda kennslu-
stunda, þá falla 80% kennslu
niður ef allir þeir sem sagt hafa
upp standa við það að koma ekki
til kennslu eftir helgina.
Hvort svo fer, veit ég strangt
tekið ekki, en þykist þó fara
nærri um það, að enginn þeirra,
sem sagt hafa upp, muni koma.
Hins vegar hef ég lagt fyrir
nemendur mína að koma í skól-
ann á mánudaginn og sækja þá
kennslu sem verður í boði,“ sagði
Aðalsteinn, „þó að það sé ljóst, að
það er ekkert annað en klór í
bakkann, sem ekkert úthald verð-
ur á. það er því allt í voða hér hjá
okkur.“
Kennsla liggur niðri aö
tveimur þriðju hlutum
„Við erum með u.þ.b. þriðjung
kennslu í gangi í framhaldsskól-
anum, en 22 kennarar af þeim
sem eru í HÍK hættu í morgun,"
sagði Þórir Ólafsson, settur
skólameistari Fjölbrautaskólans
á Akranesi.
Þórir sagði að vegna áfanga-
kerfisins væri erfitt að segja
nákvæmlega til um það hve mikla
kennslu nemendur misstu, en
ljóst væri, að kennsla væri veru-
lega skert. „Ástandið er verst hjá
þeim sem eru komnir á annað ár
og lengra, þeir missa nánast alla
kennslu. Það er helst að verk-
námsnemendur og þeir sem eru
nýbyrjaðir í skólanum hafi
eitthvað við að vera,“ sagði Þórir.
Allir að kenna í Eyjum
„Hér eru allir að vinna, við
kennum allt hvað af tekur,“ sagði
Gísli H. Friðgeirsson, kennari við
Framhaldsskólann í Vestmanna-
eyjum. „Þrír kennarar hér, sem
eru í HÍK, sögðu upp. Einn þeirra
tók strax fram, að hann myndi
hlíta framlengingu uppsagnar-
frests ef til kæmi og hinir tveir
hafa einnig verið að störfum hér í
dag,“ sagði Gísli. „Við bíðum hins
vegar spenntir eftir framvindu
mála og sjálfur ætla ég að leita
mér að annarri vinnu í sumar."
Helmingur kennara
mætti í MK
„Það var kennt í rétt um 50%
af tímum hér í dag,“ sagði Guðni
Guðmundsson, rektor Mennta-
skólans í Reykjavík. „Rúmlega
helmingur kennara er við störf
núna og það skapar að sjálfsögðu
miklar eyður í stundatöfluna hjá
nemendum. þetta kemur afar
misjafnlega niður á bekkjum, en
um tíu þeirra fá bókstaflega enga
kennslu. Til dæmis fær einn
bekkur enga kennslu aðra en
leikfimi kvenna. Svo eru aðrir,
sem fá megnið af sinni kennslu.
Þetta skapar vissulega erfiða
stöðu,“ sagði Guðni. „Það er orð-
inn ósköp lítill tími til stefnu, því
kennslu við skólann átti að ljúka
viku eftir páska. Það er því ekki
um annað að ræða en að nemend-
ur lesi sem mest sjálfir."
Neyðaráætlum fylgt í MA
Tuttugu af 35 fastráðnum
kennurum Menntaskólans á Ak-
ureyri mættu ekki til kennsiu í
gær og hafði það í för með sér, að
um 60% kennslu við skólann féllu
niður. „Við skólameistari vorum
hins vegar búnir að gera drög að
neyðaráætlun, ef svona færi,“
sagði aðstoðarskólameistari, Jó-
hann Sigurjónsson, í samtali við
Mbl.
„í morgun héldu bæði nemend-
ur og þeir kennarar sem voru
mættir fundi þar sem þessi neyð-
aráætlun var samþykkt með öll-
um greiddum atkvæðum kennara
og færri en tíu mótatkvæðum
nemenda. Þessi áætlun er fyrst
og fremst fólgin í því að nemend-
ur stundi sjálfsnám með hjálp og
leiðsögn þeirra kennara, sem eft-
ir eru í skólanum," sagði Jóhann.
„Þess verður að gæta, að við
höfum vissa sérstöðu hér fyrir
norðan, þar sem nærri helmingur
nemenda skólans er aðkomufólk
og það yrði því dýrt að hverfa til
sinna heimahaga nú og þurfa svo
e.t.v. að koma aftur eftir — von-
andi — stuttan tíma.
Því vildum við reyna að koma
til móts við nemendur með þess-
ari áætlun, sem bæði skólameist-
ari og ég höfum lýst yfir að sé
algjör neyðarráðstöfun, enda höf-
um við áður lýst yfir samstöðu
okkar með kennurum," sagði Jó-
' hann Sigurjónsson á Akureyri.