Morgunblaðið - 20.11.1985, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 20.11.1985, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLADID, MIDVIKUDAGUR 20. NOVEMBER1985 „ÞAÐ Á AÐ GEFA BÖRNUM BRAUÐ Leikiist Botli Gústavsson í Laufási Leikfélag Akureyrar: JÓLAÆVINTÝRI byggt á sög- unni „A Christmas Carol“ eftir Charles Dickens. Leikgerð: Leif Petersen og Jesp- er Jensen. Tónlist: Allan Andersen. Þýðing leiktexta: Signý Páls- dóttir. Þýðing söngtexta: Kristján frá Djúpalæk. Hljómsveitarstjóri: Roar Kvam. Lýsing: Ingvar Björnsson. Dansar: Helga Alice Jóhanns. Leikmynd: Hlín Gunnarsdóttir. Búningar: Una Collins. Leikstjóri: María Kristjánsdótt- ir. Ég er sannfærður um það, að hver sá, sem fer í leikhúsið á Akureyri um þessar mundir og sér Jólaævintýri Dickens, leggur ekki eyru við aðfinnslum gagn- rýnenda. Viðfrægur samtíma- maður Dickens, rithöfundurinn William Makepeace Thackeray, sem ranglega hefur verið talinn helsti keppinautur hans á rit- velli, skrifaði um Jólaævintýri („A Christmans Carol") og komst m.a. svo að orði: „Hver getur lagt eyru við gagnrýni á slíka bók? Hún er velgjörð við þjóðina og sannkallaður vinar- greiði við hvern þann, sem les hana.“ Sýning LA á skilið sömu umsögn, því hún kemur nú eins og áhrifarík og hrífandi hug- vekja (hér langar mig til að nota sterkari orð) inn í samfélag þar sem sannar frásagnir af vaxandi fjármunaáfergju og óheiðarlegum gróðabrögðum eru ofarlega á baugi í fréttum fjölmiðla og samræðum fólks á förnum vegi dag hvern. Hún hefur ákveðinn siðaboðskap að flytja og er þó um fram allt skemmtilegur kærleiksóður. Charles Dickens var fágæta næmur á lifandi sálir í kringum sig. Þess vegna tókst honum flestum betur að láta mannúð sína í ljós í vekjandi list. Á síðustu áratugum hafa bók- menntafræðingar og gagnrýn- endur lagt mikla áherslu á það, að kanna og fjalla um þá þætti í verkum Dickens, sem kalla má skuggahliðarnar á skáldsnilld hans, hryllingsfrásagnirnar, forvitnilegt táknmál, viðhorf hans til þess, er falist getur í undirvitund manna. Og afrakst- ur þeirra rannsókna er mikill að vöxtum. En nú hefur að lík- indum vaknað áhugi fyrir því, að hverfa aftur til þess Dickens, sem samtíðarmenn hans þekktu best: Þess glaðbeitta og gaman- sama skálds, er aldrei skorti fjörugt hugmyndaflug, sem á stundum virtist nálgast fárán- leika; skáldsins, sem var hjarta- hlýr skjólstæðingur allra þjáðra og kúgaðra; mannvinarins, sem hellti geislum líkt og vorsól á helkalt hjarn mannfyrirlitning- ar og illgirni, svo ís hjartans bráðnaði. Þessa hlið skáldsins birtir Jólaævintýri. Og dönsku listamennirnir Leif Petersen og Jesper Jensen, sem mótað hafa þessa leikgerð, hafa verið næmir á tilgang Dickens og alls ekki dregið úr þeim þáttum, er gefa verkinu hvað mest gildi. En jafnframt hafa þeir að dönskum hætti lagt áherslu á það létta og ljúfa með góðri aðstoð tón- skáldsins Allan Andersen. Ef til vill hafa þeir verið minnugir þess, að Dickens hafði forðum létt dapurt geð landa þeirra, ævintýraskáldsins ástsæla, H.C. Andersen, svo hann taldi að kærkomin uppörvun frá hinum fræga, enska skáldbróður hefði veitt honum einhverjar mestu sælustundir ævinnar. Signý Pálsdóttir hefur þýtt laust mál leikgerðarinnar og auðheyranlega vandað það verk. Kristján skáld frá Djúpalæk sýnir enn, hversu vel honum er lagið að snúa söngtextum, svo þeir falla vel og eðlilega að léttri tónlist og koma öllu vel til skila á prjállausu og skýru máli. Hann veit hvað Dickens syngur. Leikstjórinn, María Krist- jánsdóttir frá Húsavík, hefur sýnt að hún kann vel til verka og skortir ekki þekkingu. Svo snurðulaus er sýningin og jafn- framt leikandi hröð, að undrun vekur að hægt skuli innan þessa þrönga ramma að tefla fram svo mörgu fólki og þá ekki síst vegna þess að stór hluti þess er börn. Það þarf mikinn persónustyrk og vilja til þess að halda öllu í svo góðu horfi allt til enda. En María nýtur aðstoðar góðra listamanna. Leikmynd Hlínar Gunnarsdóttur er einföld en svipsterk umgerð; öllu er þar haganlega fyrir komið. Og Ingv- ar Björnsson bætir því við, sem þarf, svo aldrei ber út af í markvísri beitingu ljósa. Og þá er hlutur búninga Unu Collins ekki hvað minnstur, enda hæg heimatök fyrir hana að flytja hin réttu áhrif úr heimabyggð þeirra Dickens. Roar Kvam stjórnar lítilli hljómsveit af öryggi og smekkvísi, en tónlistin er ekki rishá, heldur hugljúf og Árni Tryggvason í hlutverki Scrooge. gefur ekki tilefni til langrar umfjöllunar. Vert er að geta þess, að dansatriði undir stjórn Helgu Alice Jóhanns eru vel unnin og benda ótvírætt til þess, að stjórnandinn, sem um nokk- urt skeið hefur starfað með LA er í öruggri framför. Vel hefur tekist til með skipan leikara í hlutverk. Raunar mætti ætla, að hlutverk nirfils- ins, Scrooge, hefði verið skrifað fyrir Árna Tryggvason, en sennilega verður erfitt að koma því heim og saman. En hann fellur jafn vel inn í þetta hlut- verk og Þorsteinn 0. Stephensen forðum í hlutverk pressarans í Dúfnaveislu Laxness, og er þá mikið sagt. Árni fer á kostum frá upphafi til enda. Framan af lýsir hann ískaldri óbilgirni þessa harðlynda maurapúka, átökum hans við menn og anda — og síðan kemur þíðan eins eðlilega og íslenskt vor. Aðstoð- armaður hans, barnakarlinn Cratchit, er í góðum höndum Theodórs Júlíussonar, sem gæt- ir alls hófs í leik sínum og stenst þá hörðu raun með prýði að halda í við Árna. Raunar bregst enginn leikaranna í þessari sýn- ingu, en ekki virðist bein ástæða til þess að fjölyrða um frammi- stöðu hvers og eins af þeim fjölda, er fram kemur. Þó get ég ekki látið hjá líða að minnast á tvo gamalkunna leikara, sem voru um langt skeið máttarstoðir í starfi Leikfélags Akureyrar. Það eru þau Björg Baldvinsdóttir og Jóhann ög- mundsson. Björg leikur þær Bellu Tugby og frú Fezziwig af öryggi og þokka. Hún varðveitir þennan minnilega bjarta radd- hljóm, sem kallar fram í hugann glæsilegar sýningar LA forðum tíð á Bláu kápunni og Meyjar- skemmunni. Og Jóhann ög- mundsson setti sannarlega svip á sviðið. Þar birti hann hrein- ræktaðar Dickens-persónur, enda mun hann seint skorta tilfinningu fyrir því sem við á hverju sinni. En ekki er sanngjarnt að gleyma því að geta þess, að i þessari sýningu koma fram ný- ráðnir leikarar, Barði Guð- mundsson og Erla B. Skúladótt- ir, sem leika allstór hlutverk og gera þeim góð skil. Leikfélag Akureyrar heflar ekki segl sín, heldur stefnir markvíst í þá átt, að vera öflug- ast og frjóast söngleikjahús á íslandi. Þetta er í alvöru mælt og þarf ekki að bæta við setning- unni „miðað við mannfjölda". Það er aðdáunarefni hversu vel hefur til tekist um langt skeið og sannarlega er Jólaævintýrið ekki sísta skrautfjöðrin í hatti leikhússins. Og síðar í vetur mun okkur gefast kostur á að sjá annan ólíkan söngleik á sama leikári, Fóstbræður eftir Willy Russel, svo ekki verður fetuð sama slóð í stíl og efnis- vali. En víst er, að Jólaævintýrið á eftir að ilja mörgum um hjart- arætur, vekja ungum og gömlum fögnuð, búa menn ennþá betur undir komu heilagra jóla og síðast en ekki síst tendra kær- leiksljós, sem leiða til góðra verka. Happdrætti Krabbameinsfélagsins: Mikilvæg tekjulind fyrir samtökin KRABBAMEINSFÉLAGIÐ er nú farið af stað með seinna happdrætti sitt á þessu ári, hausthappdrætti 1985. Dregið verður 24. desember. Vinningar eru 45 og heildarverðmæti þeirra er um 4,5 milljónir króna. Vinningar eru Audi 100 árgerð 1986, tveir Toyota Corolla 1300 árgerð 1986, tvær bifreiðir að eigin vali fyrir 350 þúsund krónur hvor og 40 vöruvinningar, hver að verðmæti 50 þúsund krónur. I júní sl. voru liðin 30 ár fá því að fyrst var efnt til happdrættis á vegum Krabbameinsfélagsins. Síð- ustu tvo áratugina hefur félagið efnt til happdrættis tvisvar á hverju ári. Happdrættið hefur frá upphafi verið ein mikilvægasta tekjulind krabbameinssamtakanna og náð að eflast til samræmis við aukið starf þeirra. Árið 1984 lagði það til þriðj- ■ung af samanlögðu rekstrarfé ..'Érabbameinsfélags (slands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur, svo að dæmi sé nefnt. Nú orðið byggist miðasalan að langmestu leyti á heimsendingu happdrættismiða til tugþúsunda einstaklinga um land allt. Skiljan- legt er að þessi söluaðferð mælist misvel fyrir, einkum eftir að hún er orðin svo algeng sem raun ber vitni. Ljóst er þó að fjölmargir velunnarar krabbameinssamtak- anna hafa fagnað þvi að geta stutt þau reglubundið með svo hand- hægum hætti. Fjárþörf samtak- anna hefur vaxið að undanförnu með nýjum viðfangsefnum. (Frétutilkynninx) ISUZl) Meðal vinninga í síðasta vorhappdrætti krabbameinsfélagsins voru tvær bifreiðar af gerðinni Opel Kadett GL. Komu þær báðar á heimsenda miða. Eigendur annars miðans voru hjónin Kristján Sigurbrandsson og Sólveig Friðjónsdóttir Hafnarfirði, en hinn miðann áttu hjónin Sigurjón Sigurjónsson og Birna Guðný Gunnlaugsdóttir. Mynd þessi var tekin þegar bflarnir voru afhentir vinningshöfunum í húsakynnum Bflvangs sf. Vinstra megin á myndinni er Sólveig ásamt þremur af fjórum dætrum þeirra Kristjáns, en hægra megin er Birna Guðný, Sigurjón og dóttir þeirra. Á miðri myndinni er Þorvarður örnólfsson framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Reykjavíkur og yngsti sonur hans.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.